Hverra hagsmuna gætir Matvælastofnun í reynd?

Sú fáránlega spurning vaknar við lestur frétta um að Matvælastofnun (MAST) hafi ákveðið að leyfa dreifingu skilgreinds iðnaðarsalts til matvælaframleiðslu, þá loks að hún áttaði sig á því hvers kyns var eftir tilvist saltsins á markaði í um 13 ár frá því árið 1998, hverra hagsmuna stofnunin gætir fyrst og fremst í reynd: Kostnaðar- og viðskiptahagsmuna innflutningsaðila umrædds salts og viðskiptavina hans, eða neytenda.

Þar sem við ættum að geta gert ráð fyrir því að virðulegir 80 starfsmenn stofnunarinnar kunni að lesa og ættu jafnframt að geta skilið að umbúðamerkingin "Industrisalt" á dönsku þýðir iðnaðarsalt á íslensku þá kemur eitthvað annað til með leyfisveitingunni.

Að stofnunin skuli, samkvæmt fréttum, hafa vísvitandi leyft áframhaldandi dreifingu iðnaðarsaltsins í mat landsmanna í nóvember s.l. í bága við reglur þar um er stórfurðulegt mál, hliðstætt og á við um málið um of mikið kadmíum í áburði sem upp kom fyrir nokkrum vikum þegar landsmenn voru fyrir löngu búnir að borða viðkomandi matarafurðir með blessun MAST. 

Semur stofnunin eigin vinnureglur við hlið laga og reglugerða sem fara í bága við lögin eða er starfsfólkið búið að vera á frívakt gagnvart þessum málaflokki undanfarin 13 ár og ekki gert eigin athuganir á innflutningnum?

Hægt væri að álykta að annað hvort séu viðmiðunarreglur um flokkun á iðnaðarsalti og matarsalti rangar (að mati stofnunarinnar) og hún því farið eftir að sínu mati á "réttum" viðmiðum, eða að skilningur stjórnenda og starfsmanna stofnunarinnar á hlutverki sínu sé rangur.
Sé hið fyrrnefnda tilfellið þarf að endurskoða viðkomandi lagasetningu um viðmiðunarmörk, en hitt stendur upp úr að samkvæmt fréttum virðist MAST ekki hafa farið eftir settum reglum - og ekki í fyrsta skipti.
Ráðherra, sem stofnunin heyrir undir, hlýtur að átta sig á því að eftirlitsstofnun sem veitir falskt öryggi er verri en engin.


mbl.is Stofnanir deila um salt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruleg og manngerð eyðingaröfl

Sú spurning verðu sífellt áleitnari við fréttir af pólitískri þöggun eins og þeirri sem hér um ræðir,
auk þeirrar sem á sér stað varðandi þverrandi auðlindir jarðar og versnandi lífsskilyrði sökum hitnunar í lífhvolfinu og lífshættulegra afleiðinga hennar, sem og hnattrænnar mengunar,
hvort það sé ekkert nema mengun,  náttúruhamfarir og súrefnisskortur í lífhvolfi jarðar sökum afleiðinga loftslagsbreytinga sem geti þaggað niður í órökstuddum áróðri andstæðinga þeirra vísindamanna sem vara við hættunni.

Ef svo fer getur sérhagsmunagæsla viðkomandi manngerðu eyðingarafla ekkert gert lengur til að bjarga fólkinu þar að baki né öðrum íbúum jarðar. Hversu lengi á blekkingin að líðast?


mbl.is Íhaldsmenn stöðvuðu kafla um loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlegri getu opinberra starfsmanna hrakar - í Bretlandi

Takið eftir því að niðurstaða umræddrar rannsóknar um að andlegri getu fólks hraki eftir fertugt á einungis við um opinbera starfsmenn. 
Fram kemur að rannsóknin hafi einungis tekið til opinberra starfsmanna en ekki annarra, svo sem hugsandi fólks í lífsbaráttu, frumkvöðla, einstaklinga með eiginn rekstur, verktaka og fólk almennt í einkageiranum sem er ennþá meirihluti starfandi fólks í þjóðfélaginu, listamenn og aðra hugvitsmenn sem þurfa að beita hugarafli sínu sér til uppihalds og til að komast af.

Af rannsókninni er ekki hægt að álykta að öðrum en opinberum starfsmönnum hraki andlega með hækkandi aldri  eftir fertugt. Til þess þarf meiri rannsóknir.

Hitt er annað að aðrar rannsóknir hafa leitt líkur að því að eitt af því mikilvægasta sem hægt sé að gera til að seinka "eðlilegri" ellihrörnun (aldraðs) fólks andlega séð sé að halda huga þess sem mest  uppteknum, t.d. með samtölum og upprifjun gamalla minninga með fjölskyldunni og hvers kyns andlegri iðju og fyrirhöfn.

Ef til vill vantar eitthvað á að huga opinberra starfsmanna í Bretlandi sé séð fyrir nægilega mikilli iðju og hugarstarfsemi við þau störf sem þeir eiga að sinna fyrir þjóðfélagið; Að það gæti e.t.v. verið hluti skýringar á báglegu ástandi starfsmannanna.

Eðlileg spurning er þá hvort þessi kvilli fyrirfinnist meðal opinberra starfsmanna í fleiri löndum þar sem þannig kann að hátta til.
Gæti t.d. aðgerðaleysi, sinnuleysi og þögn opinberra starfsmanna varðandi skilgreind hlutverk sín, þar sem slíkt kemur í ljós, verið vísbending um það? 


mbl.is Andlegri getu hrakar eftir fertugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirbyggjandi eftirlit eða eftir-lit þegar skaðinn er skeður?

Það blasir auðvitað við hverjum heilvita manni að svona eftirlit, eins og Matvælastofnun á að hafa með höndum varðandi áburð, þarf að vera fyrirbyggjandi; Enda er kveðið á um það á verkefnalista stofnunarinnar, sbr. neðar.

Það er til lítils að taka sýni af áburði þegar hann er kominn í dreifingu á tún í sveitum eða greina sýni eftir á þegar áburðurinn er kominn á tún og jafnvel búið að slátra og éta búfénað sem át grasið og heyið af viðkomandi túnum og fólk búið að neyta meintra eiturefna í kjötafurðunum.

Sýni þarf að taka og greina áður en áburðurinn fer í dreifingu, alveg eins og háttar til um greiningu og athugun lyfja fyrir menn og dýr hjá Lyfjastofnun áður en lyfin fá markaðsleyfi og fara í sölu hérlendis.

Ekki ætti að vera erfiðara að hafa eftirlit með innflutningi á áburði heldur en kjötvörum, nema síður sé!

Það sem maður spyr sig um er hvort þetta meinta aðgerðaleysi, um að stöðva ekki sölu og notkun hins meinta eitraða áburðar og þagnar um málið í kjölfarið samkvæmt fréttum í dag, sé um að kenna einhverjum mistökum hjá Matvælastofnun, og hverjum þá, eða skorti á laga- og regluramma þar að lútandi. Hefur stofnuninni ekki tekist að uppfylla öll gildi sín af einhverjum ástæðum, t.d. "árvekni", sem er tilgreint þar efst á lista?
Skortir e.t.v. líka eftirlit með eftirlitsstofnuninni?

Á vefsetri MAST segir um hlutverk stofnunarinnar:

"Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla."

Um verkefni MAST segir þar ennfremur:

"MAST vinnur að matvælalöggjöf í samvinnu við ráðuneytið og á þetta við um löggjöf í allri fæðukeðjunni, þ.e. frá heilbrigði og velferð dýra, þ.m.t. sjávarafurða, plöntuheilbrigði, fóðri, vinnslu og dreifingu og þar til matur er borinn á borð neytenda. Stofnunin fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum og kjötvinnslum sem þeim tengjast, eftirlit með sjávarafurðum og allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með störfum dýralækna sem veita almenna dýralæknaþjónustu. Einnig fer stofnunin með fóðureftirlit og önnur verkefni eins og sjá má á eftirfarandi lista yfir helstu verkefni MAST".


mbl.is Hagsmunir bænda og neytenda í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er tilgangurinn með eftirliti Matvælastofnunar?

Þau atriði sem koma fram í fréttinni sem rök Matvælastofnunar fyrir því að stöðva ekki dreifingu áburðar sem talinn er skaðlegur heilsu manna og jafnvel krabbameinsvaldandi eru þvílík steypa að furðu sætir.

Rökleysan í útskýringum MAST fyrir því að stöðva ekki dreifingu áburðarins er yfirþyrmandi:
Svona mengun í áburði "hefði ekki gerst áður" hjá viðkomandi innflytjanda, og að í kjölfar gossins í Grímsvötnum "hefði ekki þótt ábætandi að valda frekari erfiðleikum og hugsanlegum áburðarskorti"!

Felst eftirlit MAST í einhverju öðru en að verja heilsu og hagsmuni neytenda, eða á sjónvarpsfrétt RÚV í kvöld 3.1.2012 um krabbameinsvaldandi efni í áburðinum ekki við rök að styðjast?


mbl.is MAST upplýsti ekki um mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir tónlist Bítlanna

Gleðilegt ár. Það er við hæfi að hefja blogg á nýju ári með athugasemdum um gleðiefni.

Ég vil benda fólki á að hljómsveitin The Beatles átti hvorki meira né minna en 27 lög númer eitt, efst, á helstu vinsældalistum tónlistar í Bretlandi (Reord Retailer) og Bandaríkjunum (Billboard), sbr. plötuhulstur á geisladisknum The Beatles 1, útg. 2000. Geri aðrir betur!!!
Hvað segir það um gæði laganna, útsetningar og flutning, en fyrst og fremst að öllu samantöldu skemmtigildi að mati almennra hlustenda í þessum löndum og þótt víðar væri leitað um heim allan?
Þessi lög og flest önnur með Bítlunum hafa þannig fallið gjörsamlega að tónlistarsmekk meirihluta hlustenda er þau voru gefin út og þar í framhaldi.

Hverjir komast ekki í gott skap og hverjum líður ekki betur á einhvern hátt við að hlusta á t.d. þessi vinsælustu lög Bítlanna? 

Mér sýnist að þeir tónlistarsérvitringar sem hafa tónlistarsmekk í algjörri andstöðu við almenna hlustendur og ofangreinda vinsældalista og tjá sig í þá veru (sbr. nokkrar athugasemdir á bloggi Ómars Ragnarssonar um þessa frétt) megi telja í hópi með hinum mistæka tónlistarspekúlanti Decca sem kom ekki auga á það sem fólst í Bítlunum. Þetta er þeirra persónulega álit og smekkur og sitja þeir uppi með það.

Sem betur fer hafði snillingurinn George Martin upptökustjóri Parlophone og Brian Epstein umboðsmaður, sem "uppgötvuðu" Bítlana eftir að þeir komu bónleiðir en bjartsýnir frá Decca, annan tónlistarsmekk og sem var/er í meira samræmi við vinsældalíkur tónlistar og flytjenda meðal almennings.

Aðdáendur Bítlanna og ómetanlegrar og óviðjafnanlegrar tónlistar þeirra um framtíð alla eru þeim vægast sagt afar þakklátir.


mbl.is „Maðurinn sem hafnaði Bítlunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulegt einelti á sviði túlkandi vísinda?

Frásögn í Morgunblaðinu 4.12.2011, s. 18-21, af málsatvikum í sambandi við ákærur og framkomu meðlima félagsskaparins Vantrúar gagnvart Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara við guðfræði- og trúarbragðafræðadeildar HÍ er með ólíkindum. Frásögn af orðbragði sem Vantrúarmenn eru sagðir hafa viðhaft vekur viðbjóð og forundran. Að þetta skuli að hluta til vera háskólamenntaðir menn og kennarar við HÍ í þokkabót gerir mál þetta enn hneykslanlegra. Svo virðist sem eitt af yfirlýstum markmiðum Vantrúarmanna hafi verið að leggja Bjarna "í einelti" með skipulegum hætti; Jafnvel hafi komið til tals að gera það gagnvart öðrum áberandi einstaklingi (s. 20), ungum og nýútskrifuðum guðfræðingi, sem er þó þessu máli óviðkomandi. Í frásögn Mbl. er þarna vitnað í umræður á innri vef Vantrúar. Hvað er eiginlega hér á seyði?

Siðanefnd HÍ virðist hafa tekið stórfurðulega á málinu og ekki verið hlutlaus, að því er virðist vegna persónulegra skoðana einhvers eða einhverra nefndarmeðlima. Formaður nefndarinnar hafi þannig m.a. "lekið" upplýsingum í Vantrúarmenn "um framgang málsins og um afstöðu hinna nefndarmanna" (s. 20). Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem Bjarni fékk sér til varnar í málinu, komst svo að orði um meðferð nefndarinnar á málinu að hann hefði "aldrei séð svona illa haldið á málum eins og í þessu tilviki".
Í kjölfar sakfellandi sáttatillögu siðanefndar til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (á tíðum virðist óljóst hvort sakborningurinn sé deildin eða Bjarni), þegar hún spurðist út innan háskólans, tjáði hópur kennara og doktorsnema við HÍ sig um meðhöndlun siðanefndar og skrifuðu undir ályktun "þar sem vinnubrögð siðanefndarinnar eru gagnrýnd" og áréttuðu "... mikilvægi þess að Háskóli Íslands standi vörð um rannsóknarfrelsi kennara ...". Þá sagði formaður siðanefndarinnar af sér (s. 19). Eftir formannsskipti og stækkun nefndarinnar um tvo er hún samt enn neikvæð í garð Bjarna, en er sögð hafa átt erfitt með að átta sig á fyrir hvað Bjarni er kærður.

Á seinni stigum málsins tjáir forseti hugvísindasviðs, Ástráður Eysteinsson, sig um málið og bendir m.a. á að háð niðurstöðu siðanefndar geti málið snúist upp í að varða "okkur öll sem sinnum kennslu í túlkunarvísindum á háskólastigi" (s. 20).

 Rannsóknarnefnd, sem loks var skipuð af hálfu Háskólaráðs, komst síðan að þeirri niðurstöðu að "siðanefnd HÍ hafi sniðgengið eigin starfsreglur sem tilgreindar eru í siðareglum háskólans" og bendir á ýmsa ágalla í málsmeðferð hennar (s. 20).

Það sætir engri furðu að rektor HÍ skuli segja aðspurð um málið að það sé "flókið", en hitt þarf meiri útskýringa við er rektor telur að nefndin hafi starfað "í góðri trú og viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað" (sbr. Morgunblaðið 6.12.2011, s. 9). 

Frásögn Morgunblaðsins um kærumálið og eineltið gegn Bjarna sem viðgengist hefur m.a. af kennurum innan HÍ, að því er virðist m.a. vegna persónulegrar lífsskoðunar þeirra sjálfra, lýsir öðrum þræði skoðanakúgun og -ofbeldi innan HÍ og brotalöm í umsýslukerfi háskólans við að taka á slíkum málum af hlutleysi og réttsýni. Þetta mál er með "endemis endemum". Maður spyr sig hvernig svona lagað getur eiginlega gerst og hvort það geti gerst aftur. Þótt rektor HÍ, sem er raunvísindamaður, tilgreini ekki neitt athugunarvert við þetta mál annað en að það hafi "kennt okkur að málsmeðferðarreglur verða að vera skýrar og ferli mála gagnsætt", þá er vonandi að Bjarni fái réttlátar úrbætur vegna þess sem hann hefur mátt þola og kosta til við að verja mannorð sitt og starfsheiður. Einnig að komið verði í veg fyrir að svona mál endurtaki sig. 

Uppkoma þessa máls beinir kastljósinu einnig að forsendum kennslu á sviði túlkandi vísinda í háskólum, eins og forseti hugvísindasviðs HÍ benti á. Mun það viðgangast að beita þöggun á einhvern hátt og að vegið sé að rannsóknarfrelsi? Þar er ekki aðeins um að ræða trúarbragðafræði heldur allar greinar hugvísinda.
 Hvað til dæmis um kenningar um að landnám á Íslandi sé mun eldra en gamla Íslandssagan kennir? Hvað um hinar goðum líku persónur Gunnar og Njál? Er aðild að Evrópusambandinu slæmur kostur? Eru sumar hagfræðikenningar í ætt við trúarbrögð? Voru sumar hugmyndir Freuds bull? Verður bókvitið í askana látið? Eða, eru askar ef til vill búnir til með hugviti og þekkingu, sem og maturinn sem í askana er látinn? Og svo framvegis!

Það er ekki furða, sem greint er frá í Mbl. (s. 9), að Höskuldur Þórhallsson Alþingismaður skuli sjá ástæðu til þess, eftir að hann las frásögnina í Mbl., að taka málið upp á Alþingi og að kannað verði "hvað hafi gerst innan Háskólans".


mbl.is Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markviss merkantilismi?

Frakklandsforseti talar hér í gátum. Orð sem hann notar hér í ræðu sinni um efnahagsstefnu landsins og landa Evrópusambandsins eru afar athyglisverð fyrir þær sakir að þau virðast benda til þess að hverfa eigi aftur til markvissari merkantilisma, þ.e. einhvers konar sjálfsþurftarstefnu sem muni leiða til þess að þjóðin/þjóðirnar fari að beina neyslu sinni í innlendar vörur og þjónustu á kostnað innflutnings;
Eða, hvernig ætla þær annars að auka atvinnu heima fyrir jafnhliða því að rétta viðskiptahalla sinn af, sbr. ummæli forsetans "að losna undan skuldum, sem mun koma jafnvægi á hagkerfi eins og þörf krefur, í átt að vinnu og framleiðslu".
Ein spurning sem vaknar er hvort Evrópusambandið sé að spá í að loka sig meira af gagnvart utanaðkomandi samkeppni á neysluvörumarkaði og nýta þannig eiginleika sinn sem tollabandalag. Það þýðir m.a. að reynt yrði að loka sem mest fyrir flóð ódýrs varnings frá Asíu sem ódýrt vinnuafl þar framleiðir og framleiða í staðinn tilsvarandi vörur heima fyrir með vinnuafli sem hingað til hefur gengið atvinnu- og iðjulaust. Það er reyndar viss viska í því. Ummæli forsetans um að „ný efnahagstíð er hafin" gætu bent til þessa og vissulega yrði hún "ólík þeirri fyrri".
Það yrði athyglisvert innlegg í rökræður um frjálsa samkeppni og blandað (frekar en segja miðstýrt) hagkerfi. Er það ekki einmitt þetta sem hann á við er hann segir upp muni renna tíð "sem er eitthvað sem þróuð ríki eiga til með að fórna um of“, þ.e. lítt heft milliríkjaviðskipti leiða til þess að þau lönd sem hafa farið halloka í samkeppni við innflutning sitja uppi með gömlu framleiðslugreinarnar sínar í rúst, atvinnulaust vinnuafl og stórfelldan halla á viðskiptajöfnuði sínum. Blasir þá ekki við að skella í lás gegn innflutningi og hefja framleiðsluna í staðinn heima fyrir?

Það verður spennandi að fylgjast með hvað Frakklandsforseti er að leggja hér drög að! 


mbl.is Sarkozy: Óttinn lamar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Verði ljós!"

"Og það varð ljós."
mbl.is Bjuggu til ljós úr engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með skemmtigarðinn

Aðstandendur nýja skemmtigarðsins í Smáralind eiga heiður skilið fyrir framtak sitt til að lyfta íslenskum almenningi upp úr grámósku hversdagsins á léttara plan, eins og þau hafa leitast við að gera með úti-skemmtigarðinum í Grafarvogi. Þessi upplyfting þeirra er Grettistak í þessum efnum þar sem hugsýn, frumleiki, frumkvæði, áræðni og athafnasemi  fara vel saman.

Til hamingju með skemmtigarðinn! 


mbl.is Skemmtigarðurinn opnaður á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband