27.10.2011 | 11:38
Af sameiginlegri sturlun í fjármálakerfi og skynsemi í Fagnaðarári
Willem Buiter aðalhagfræðingur Citigroup bendir réttilega á að á Íslandi hafi á árunum fyrir hrun ríkt "sameiginleg sturlun" í fjármálakerfi þjóðarinnar. Segist hann ekkert skilja í því hvernig hin litla þjóð hafi "látið" banka sína skuldsetja sig meira en nam tífaldri þjóðarframleiðslu landsins. (Var það ekki nær tólf-faldri upphæð? Hvaðan fær Willem upplýsingar sínar?)
Enn óskiljanlegra finnst mér þó að viðkomandi virðulegu erlendu bankar með allt sitt fjármálavit skuli hafa lánað íslensku einkabönkunum alla þessa fjármuni, þar sem þeir gátu alveg eins og "hin litla þjóð" séð skýjaflug skuldsetninga þeirra. Samt héldu þeir áfram að lána íslensku bönkunum! Hvor var heimskari?
Willem ræðir ekki um þá hlið mála. Athyglisvert!
Willem aðalhagfræðingur minnist hér einnig á afar athyglisvert atriði sem fyrirfinnst í hinum fornu Móselögum Gyðinga, en það var svokallað "Fagnaðarár" ("Jubeleums"-ár) sem haldið var hátíðlegt á 50 ára fresti. Þá voru skuldir afskrifaðar og gefið upp á nýtt í efnahagslífinu (man einhver eftir New Deal Bandaríkjamanna um miðja 20. öldina?). Þar að auki voru akrar hvíldir sjöunda hvert ár til að koma í veg fyrir að of nærri þeim væri gengið.
Þeir voru ekki al-vitlausir, Gyðingarnir, enda hafa þeir verið öfundaðir og hataðir fyrir peningavit sitt og visku í þeim efnum.
Ég sé ekki betur en að Willem sé af fullri alvöru og skynsemi að benda stjórnvöldum okkar í þessa átt og að huga að þessum ævagömlu hyggindum og speki.
Sameiginleg sturlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.10.2011 | 10:59
Eyðileggjandi hávaxtastefna
Hér stígur fram hagfræðingur, að vísu íslenskur, hjá virtri fræðastofnun erlendis með sannleikann að vopni að hætti andæfandi spámanna til forna og bendir á og færir skynsemisrök fyrir því að hávaxtastefna sú, sem rekin hefur verið hérlendis af konungum þessa lands með þrjóskufullu handafli eftir bankahrunið og eftir að AGS kom með sitt verkfærabox til bjargar íslensku efnahagskerfi, hafi verið andstæða þess sem hefði átt að gera.
Færir hann eðlileg og hárrétt rök fyrir því að hin rökum firrta hávaxtastefna sem rekin hefur verið af Seðlabanka Íslands standist ekki skoðun, hafi markmiðið verið að koma skuldum sliguðu efnahagslífi til hjálpar.
Þessi rök sem hagfræðingurinn bendir á ættu allir skynsamir og hugsandi menn, ekki síst hag-fræðimenn, að skilja. Á grunni þeirra hefði þvert á móti átt að reka hér lágvaxtastefnu meðan verið er að rétt af efnahagslífið og koma "hjólunum af stað" aftur.
Nei, þvert á eðlileg viðbrögð voru vextir keyrðir í hástert, 18%, þegar allt var að koðna niður ásamt móralnum í samfélaginu við eldana á Austurvellli og í nærliggjandi húsum; Þrátt fyrir að gjaldeyrishöftum var komið á og landið þar með víggirt fyrir útflæði gjaldeyris!
Þessi stefna er enn rekin, þótt í vægara mæli sé nú en þegar verst lét, en véfréttin í Seðlabankanum hefur hótað að hefja "hækkunarferli" fyrr en seinna. Það er eins og þar hafi enginn lærdómur verið dreginn af því hvernig umrædd hávaxtastefna hefur leikið horfin og eftirlifandi heimili og fyrirtæki, enda fer hvoru tveggja fækkandi. Eftir situr vaxandi vandi við hliðina á feitum og hraðvaxandi innvaxtapúkanum sem á sama tíma hefur tútnað út á fjósbitanum í vímueimyrju véfréttarinnar sem ræður ríkjum í Seðlabankanum; Og allir skuldarar landsins eru með illu (háu vaxtastigi) látnir fóðra hann dag og nótt, alla daga. Hinir verst settu í þjóðfélaginu (skuldarar o.fl.) fóðra þá best settu (fjármagnseigendur). - Menn geta svo deilt um réttlætið og þjóðarhagsýnina í þessu framferði, en það er annað mál.
Ég hef margoft vogað mér að að leggja orð í þennan villta vaxtabelg undanfarin misseri, en ég er farinn að halda að prestar véfréttarinnar í Seðlabankanum hafi ekki tekið eftir eða skilið þau góðu og heillavænlegu ráð sem þar eru viðruð til að rétta hlut þjakaðra skuldara og lífga efnahagslíf landsins við; Þrátt fyrir að ég hef ekki sent þeim reikning fyrir heillaráðin með skilanefndataxta. Eða, ætli ólæsi sé farið að herja þar eins og í lestrarkennslusveltum grunnskólum landsins?
Nú hefur sem sé Mr. Jón Daníelsson hagfræðingur, enn einu sinni, bent á hið sama með samskonar rökum, eins og margir aðrir málsmetandi menn og konur hafa reyndar einnig gert.
Ég spyr því hvort vaxtavíman í Seðlabankanum sé búin að svæla út allt vit og vilja embættismanna og stjórnvalda til að vinna fyrir aðra þegna samfélagsins en innistæðueigendur.
Tilvísanir í nokkra fyrri pistla:
Rökum firrtar vaxtahækkanir - enn
Augljósar ástæður (Fjárfestar fældir frá með háum vöxtum)
Lærdómur seðlabankamanna Íslands
Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar
Vaxtatal Darling til fyrirmyndar
Eiga háir stýrivextir við í dag?
Hinir illa stæðu styrkja hina vel stæðu í hruninu
Haldlaus hávaxtarök
Hundalógík hávaxtastefnunnar
Lítill árangur AGS hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2011 | 17:07
Kamelljón kemur í ljós
Bankasýslan var sett á laggirnar til að annast mikilvæg málefni í fjármálum ríkisins þar sem ekki þótti við hæfi að ráðherra færi með þau á pólitískum forsendum hverju sinni. Bankasýslan skyldi réttilega vera skipuð fagfólki og taka ákvarðanir í umsýslu sinni um eignarhluti ríkisins á faglegum forsendum og með þjóðhagslega hagvæmni og heildarhagsmuni að leiðarljósi.
Nú er komið í ljós að bæði starfandi fjármálaráðherra, sem þó skipaði sjálfur í stjórn Bankasýslunnar, og fjöldi þingmanna bæði í liði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, gagnrýnir að hennar mati faglega ákvörðun stjórnar Bankasýslunnar um ráðningu forstjóra hennar, þrátt fyrir faglegan rökstuðning stjórnarinnar. Sú gagnrýni byggist því greinilega á pólitískum skoðunum viðkomandi aðila og mati þeirra á forstjórakandidatinum á þeim forsendum.
Það virðist því nokkuð ljóst að rekstrarforsendur Bankasýslunnar að því er stjórn hennar og ráðstafanir varðar hafa verið yfirskinið eitt; Alltaf hafi átt að ráða ráðum út frá pólitískum sjónarmiðum stjórnvalda fremur en faglegum. Þess háttar skollaleikur átti að heita liðin tíð eftir bankahrunið. Stjórn Bankasýslunnar hefur samkvæmt þessu misskilið hlutverk sitt frá upphafi, en í góðri trú á grunni formlegrar starfslýsingar, og fyrst nú gert sér það ljóst. Þá sagði hún náttúrulega umsvifalaust af sér, eðli málsins samkvæmt.
Við hljótum að kalla eftir því að stjórnvöld og komi fram eins og þau eru klædd, en ekki eins og kamelljón með tilheyrandi sóun fjármuna. Hið sama á við um Alþingismenn almennt.
Eða, hanga einhver fleiri atriði á spýtunni sem almenningur veit ekki og má ekki vita um að mati stjórnvalda en skipta sköpum í þessu máli til betri vegar fyrir almenning, t.d. þjóðhagslega séð?
Páll tekur ekki starfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2011 | 13:51
Hvor er hæfari?
Hvor er hæfari til að velja hæfasta forstjóraefnið fyrir Bankasýslu ríkisins: Fagfólk í stjórn Bankasýslunnar eða utanaðkomandi stjórnmálamenn?
Eða, felst dómgreindarleysi í stjórn Bankasýslunnar við að hafa farið eftir faglegum sjónarmiðum að eigin mati og eins og henni er uppálagt?
Þingmenn vilja ekki Pál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.10.2011 | 14:30
Hæfni og vanhæfni Alþingismanna og spurningin um flokksræði
Þetta eru nöturlegar staðreyndir sem dregnar eru fram í tilvitnaðri grein í Morgunblaðinu í dag um menntun og starfsreynslu Alþingismanna, löggjafans á Íslandi.
Í ljósi þess að stjórn landsins gegnum landslögin sjálf snertir að stórum hluta forsendur og stjórn efnahagslífsins í landinu, rekstrarumhverfi fyrirtækja, fjármála- og lánakerfi, fjármálastofnanir, samkeppnishæfni landsins gagnvart útlöndum og margt fleira í þeim dúr, þá skýtur skökku við að af 63 Alþingismönnum hafa:
1) aðeins 16 þingmenn "verulega reynslu af fyirtækjarekstri og viðskiptum, en 39 hafa "enga teljandi reynslu af rekstri á frjálsum markaði"
2) aðeins 23 þingmenn menntun á sviði "lögfræði, viðskipta, hagfræði, stærðfræði og stjórnmálafræði", en 13 hafa aðeins stúdentspróf og 4 aðeins grunnskólamenntun.
Hvaða forsendur hefur meirihluti þingmanna eiginlega til að fjalla um flókin málefni af viti og þekkingu og ekki síst skilningi á sviði efnahagsmála í víðum skilningi?
Hvernig á reynslulaust fólk á viðskiptasviði, sem hefur ekki einu sinni rekið lítið fjölskyldufyrirtæki, að gera sér grein fyrir þeim þáttum sem máli skipta fyrir rekstur fyrirtækja, smárra sem stórra?
Gerir slíkt fólk sér til dæmis grein fyrir því hvað "sakleysisleg" breyting tryggingagjalds um "örfá" prósentustig skipta miklu máli fyrir rekstur litlu fyrirtækjanna og einyrkjanna?
Dæmið um menntunarstig Alþingismanna lítur enn verr út ef aðeins þingmenn núverandi stjórnarflokka eru skoðaðir með þessum hætti. Þar eru hlutfallslega fæstir með menntun á sviði "lögfræði, viðskipta, hagfræði, stærðfræði og stjórnmálafræði" og hlutfallslega flestir með minnstu menntunina eða helst menntaðir á sviði "sagnfræði, heimspeki, mannfræði, bókmennta, málvísinda og kennslu".
Hvað gera menn þá þegar þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð um brennandi viðfangsefni á sviði efnahagsmála, fjármála, bankamála og því um líks? Þeir leita þá væntanlega ráða eins og þeir hafa vit og sinnu til. Að því er fólk í gamalgrónum flokkum varðar er þá nærtækast að fara eftir flokkslínum um viðkomandi málefni og treysta því að þar sé réttu svörin og leiðirnar að finna. Við þannig aðstæður er slagkraftur flokksræðis þeim mun áhrifaríkari en ella. Þegar málum er þannig komið má spyrja hverjir stjórni landinu í reynd.
Ein spurning blasir þá við í þessu samhengi:
Er menntunarskortur Alþingismanna á sviði "lögfræði, viðskipta, hagfræði, stærðfræði og stjórnmálafræði" og skortur þeirra á starfsreynslu í atvinnulífinu ein af grundvallarforsendum, og þar með orsökum, fyrir flokksræðinu og þrásetu fjórflokksins svokallaða á Alþingi Íslands? Eða, skiptir kannske menntun og starfsreynsla þingmanna yfirleitt litlu eða engu máli í reynd fyrir velfarnað efnahagslífsins á Íslandi?
Gæti Alþingi stýrt fyrirtæki? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2011 | 10:51
Byggt á sandi
Hið ólánlega lágreista mannvirki ætti fremur að kalla sandgildru heldur en höfn, eins og Ómar Ragnarsson bendir á.
Þetta mannvirki er svo sannarlega "byggt á sandi"! Hér virðist hafa verið farið fram af meira kappi en forsjá, svo undrum sætir. Að sönnu dregur það dám af blindum ruðningskrafti fljótsins sem sér um sandáfyllinguna í höfninni.
Landeyjahöfn á röngum stað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2011 | 13:31
Samfélagsmeðvitaðar stjörnur
Þetta er eitt af því frábæra við Bítlana, fyrir utan tónlist þeirra. Á miðjum ferlinum (kringum 1965) eru þeir orðnir sér vel meðvitaðir um áhrifamátt sinn. Þeir ná til fólks á heimsvísu með verkfærum sínum, hrífandi tónlistinni og mannbætandi og -frelsandi viðhorfum í hnyttnum textum.
Í stað texta um "hvolpaást", eins og Bítlafræðarinn Ingólfur Margeirsson kallaði texta fyrstu ára Bítlanna í frábærum útvarpsþáttum á RÚV, fóru að koma textar með mikilvægum fullyrðingum um samfélagið (sbr. Bítlarnir: Sagan ótrúlega. Mark Hertsgaard, Iðunn 1995, s. 135).
Hér hafa þeir greinilega beint kastljósi sínu að aðskilnaðarstefnu kynþátta sem enn var útbreidd í Bandaríkjunum og víða um heim á þessum árum og með því móti vakið athygli á henni svo eftir var tekið og í henni pælt.
Þetta er um þremur árum áður en King heldur hina eftirminnilegu ræðu sína um draum sinn um lausn fólks úr álögum samborgara sinna.
Bítlasamningur á 2,6 milljónir króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2011 | 17:55
Mikilvægi íslensks landbúnaðar
Á sama tíma og það blasir við að mannkyn skortir mat á tímum þverrandi auðlinda þá tala sumir fræðimenn og aðrir gegn hagsmunum íslensks landbúnaðar með því að tala hástöfum fyrir óheftum innflutningi landbúnaðarmatvæla; Uppátæki er myndi rústa íslenskum landbúnaði til skamms tíma litið.
Í ljósi heilbrigðrar skynsemi og sterkra vísbendinga eins og þeirra er fram koma í meðfylgjandi frétt hlýtur slík þröngsýni talsmanna óhefts innflutnings landbúnaðarafurða að teljast furðu sæta.
Það er eins og þeir gefi sér þá forsendu að ætíð yrði hægt að fá nægjanlegar og jafn góðar matvörur eftir hendinni erlendis frá. Það er af og frá!
Það verður þvert á móti "barist" um góðar matvörur í náinni framtíð. Hvers lags orðræða er það þá hjá fólki sem gefur sér fráleitar forsendur til rökstuðnings væntingum sínum um skammtímaávinning í formi lægra verðs á matvörum erlendis frá? Hvaða ástæður og hagsmunir liggja þar að baki?
Í ljósi mikilla verðhækkana á matvælum á heimsmarkaði og yfirgnæfandi líkum á vaxandi eftirspurn eftir góðum ómenguðum mat við vistvænar aðstæður ætti Þvert á móti að leggja áherslu á að efla íslenskan landbúnað sem mest og best með bættri landnýtingu til matvælaframleiðslu og renna þar með styrkum stoðum undir framleiðslu innanlands til eflingar á þjóðarhag.
Hagstæðara væri að bretta upp ermar við það og tilsvarandi verkefni sem liggja fyrir fótum okkar heldur en að láta fækkandi vinnandi hendur og hausa vinna fyrir afurðasnauðum og niðurdrepandi atvinnuleysisbótum.
Mannkynið sprengir skuldaþak náttúrunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2011 | 16:23
Rökum firrtar vaxtahækkanir - enn
Það er eins og að bera í bakkafullan bæjarlækinn að hafa uppi enn einu sinni mótbárur við þeirri þráhyggju Seðlabankamanna að vilja hækka vexti sökum hræðslu þeirra við ofþenslu í hagkerfinu sem þeir telja líkur á nú í ördeyðunni.
Þessi fræðilega stefna þeirra, sem jaðrar við ímyndunarveiki og bókstafstrú, er þeim mun öfugmælakenndari við núverandi stöðu efnahagsmála hérlendis þar sem enn ríkir slaki í atvinnulífinu með atvinnuleysi í sögulegum hæðum, hækkuðum neyslusköttum, tekjuskatti og launaskatti (tryggingagjaldi launagreiðenda og einyrkja sem fer til greiðslu atvinnuleysisbóta) og miklum afturkipp í einkaneyslu og, ekki síst, stóraukinnu greiðslubyrði heimila og fyrirtækja vegna fjármagnskostnaðar. Hækkun vaxta við þessar aðstæður eykur fyrst og fremst kostnað heimila og fyrirtækja og dregur enn meira úr þegar stórminnkaðri neyslu- og fjárfestingagetu þeirra.
Seðlabankamenn vilja að því er virðist alls ekki viðurkenna raunveruleikann í þessum staðreyndum heldur halda rígfast í fræðilegar kenningar um "venjuleg" viðbrögð seðlabanka við yfirvofandi hættu á (of)þenslu í efnahagslífinu. Með hefðbundnum klisjukenndum "rökum" sínum fyrir vaxtahækkun í núverandi stöðu mála afhjúpa þeir veruleikafirringu sína um að það þurfi enn að þyngja róðurinn hjá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsins til að koma í veg fyrir hina meintu ofþenslu í hagkerfinu. Þeir virðast byggja fremur á hæpnum væntingum sínum og getgátum um framtíðarþróun hagkerfisins á tilteknum forsendum en staðreyndum sem við blasa hér og nú.
Samtímis tala margir, ef ekki allir, pólitíkusar og skynsamir menn fyrir því að létta þurfi byrðarnar á hinum sömu til að "koma hjólum atvinnulífsins af stað" og til að forða stórum hluta almennings og fyrirtækja frá sárri neyð. Enda vita allir heilvita menn að hækkun vaxta nú myndi gera þunga lífsbaráttuna enn þyngri hjá öllum skuldurum, en lífið samsvarandi þeim mun léttara hjá þeim sem eiga sjóði í ávöxtun hjá bankakerfinu.
Þeir sem verst eru settir að þessu leyti borga þannig fyrir tilsvarandi vaxtatekjuauka fjármagnseigenda við þessar ömurlegu aðstæður.
Þetta er vægast sagt þverstæðukennt, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin segist reka jafnaðarstefnu í efnahagslegu og félagslegu tilliti.
Því má spyrja hvort Seðlabankinn sé orðinn slíkt ríki í ríkinu við mörkun efnahagsstefnu sem lætur sig fyrst og fremst hag fjármagnseigenda varða, eins og vaxtastefnan undanfarin tæplega þrjú ár vitnar um. Er þetta þá samkvæmt vilja löggjafans í landinu?
Þó má segja að Seðlabankamenn hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti um vaxandi neyslu og kaupgetu innan samfélagsins, en það takmarkast við þá sem tilheyra best settu tekjuhópum og eignafólki landsins. Löggjafinn hefur hins vegar í hendi sér að leggja snörur sínar fyrir eitthvað af fé þeirra "til að sporna við ofþenslu" með öðrum hætti en almennum vaxtahækkunum, svo sem gegnum skattkerfið; Ef löggjafanum býður svo við að horfa.
Vaxtahækkanir auka (vaxta)tekjur þessa hóps og skerðir ekki kaupgetu fjármagnseigenda, og ýtir þannig undir kaupgetu þeirra og "ofþenslu" í hagkerfinu af þeirra völdum, þvert á yfirlýst markmið Seðlabankamanna með vaxtahækkuninni!
Auk margra annarra hefur bloggari margoft bent á rökleysuna fyrir háum vöxtum og vaxtahækkuninni eftir bankahrunið 2008 í ljósi gjaldeyrishaftanna sem þá var komið á, svo sem í pistlunum Lærdómur Seðlabankamanna og Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar?
Fátt réttlætir vaxtahækkanir Seðlabankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.9.2011 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2011 | 00:10
Viðvörun Einars Þveræings
Þessi fréttaskýring Financial Times minnir vel á röksemdafærslu Einars Þveræings forðum er hann varaði Íslendinga við að selja nafna Grímsstaða á Fjöllum, Grímsey á hafi úti, til erlends konungsríkis. Benti hann m.a. á að þar gæti erlendur her komið sér fyrir í tengslum við undirbúning á innrás í landið án þess að Íslendingar gætu fengið við það ráðið.
Það er opin spurning hvort svo er í pottinn búið nú og virðist sem svo að við stöndum nú í sömu sporum og landar Þveræingsins varðandi hvað gera skuli. Var þetta rætin þjóðernishyggja hjá Einari sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum eða raunveruleg ógn?
Ekki skal ég segja um hvort "landtaka" vaki fyrir Kínverjum, þ.e. kínverska ríkinu, sem efalítið tengjast einkaframtaki Nubo meira en minna. Hitt er annað að mjög líklega yrði hér um að ræða "innrás" kínversks vinnuafls í tengslum við uppbyggingu aðstöðu þeirrar sem Nubo segist muni ráðast í fái hann landið til eignar. Það yrði bara að koma í ljós hve stór hluti það yrði af heildarmannafla á svæðinu til skemmri og lengri tíma.
Hér er væntanlega ekki einungis um að ræða uppbyggingu ferðamannaaðstöðu á Grímsstöðum til skamms tíma litið heldur hlýtur Nubo og þeir sem að baki honum standa að horfa til þess að skipaleið um Norður-Íshaf opinist í náinni framtíð með umskipunarhöfnum og tilheyrandi uppbyggingu í tengslum við það á Norð-Austurlandi í kjölfarið. Einnig gæti það tengst auðlindanýtingu á austurströnd Grænlands er þá kæmi til. Þá kemur sér vel að hafa land til umráða í grennd þar sem hægt er að byggja upp heilan kaupstað, heilan "her" íbúa. Spurning er hvort íbúar þeirrar byggðar yrðu (kínverskir) ferðamenn eða starfsmenn.
Þá er einnig óljóst ennþá hvernig háttar til með nýtingu auðlinda á svæðinu, svo sem vatns.
Það er rétt hjá innanríkisráðherranum að hér þarf að skoða mál frá öllum hliðum, bæði kosti og galla til bæði skamms og langs tíma og taka síðan yfirvegaða ákvörðun á þeim grunni. Þar koma sjálfsagt einnig tilfinningaleg rök til álita ásamt þeim pólitísku.
Hitt er annað að ekki ber að slá spennandi möguleika út af borðinu fyrirfram að óathuguðu máli vegna pólitískra fordóma. Menn skulu ekki gleyma því að ef á annað borð er óskað eftir almennum erlendum fjárfestingum hérlendis þá verður ekki bæði haldið og sleppt.
Ef kemur á daginn við athugun að þetta snúist einfaldlega um uppbyggingu einstakrar ferðamannaparadísar á fjöllum eins og Nubo talar um sem laðar að gull er verður að grænum skógum, en ekki aðstöðu fyrir "innrásarher" a la Einar Þveræing eða auðlindatöku án fyrirfram gerðra nýtingarsamninga við íslenska ríkið, þá virðist þetta spennandi kostur.
Nú þarf að leggjast undir feld - en samt ekki lengur en í "þrjá daga". M.a. þarf að huga að lögum og hugsanlegri viðbótar lagasetningu er varða nýtingu erlendra aðila á auðlindum og aðstöðu hérlendis, svo að hagsmunir Íslendinga verði ekki (óvart) fyrir borð bornir.
Gæti aukið áhrif Kínverja í N-Atlantshafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)