Um Gerendur í íslenska bankahruninu

Mér finnst það yfirmáta skrýtið hvað lítið er talað um raunverulega gerendur í Icesave-málinu og hruni íslensku einkabankanna s.l. haust. Sannast þar hin gamalkunna speki að oft er bakari hengdur fyrir smið, sárasaklaus.

Gerendur í Icesave-málinu og skuldsetningum hinna þriggja íslensku einkabanka sem urðu gjaldþrota s.l. haust eru ekki íslenskur almenningur, Alþingi, torráðinn íslenskur lagabókstafur né aðgerðalitlir opinberir starfsmenn á áhorfendabekk, heldur yfirstjórn bankanna þriggja, þ.e. bankaráð þeirra og sérstaklega bankaráðsformennirnir. (Aðrir bankastarfsmenn hafa væntanlega farið eftir markaðri stefnu og skipun þeirrar yfirstjórnar í þeim efnum).  Bankaráðin ákváðu að skuldsetja bankana og tóku lán erlendis til að sinna viðskiptum sínum. Án þessara gjörninga hefði skuldsetning bankanna augljóslega ekki orðið að veruleika (né bjartsýn skuldsetning íslenskra fyrirtækja og heimila).

Hins vegar er það jafnljóst að íslensku bankaráðsmennirnir hefðu ekki getað skuldsett íslensku bankana sína ef þeir hefðu ekki fengið "ómælda" fyrirgreiðslu og lán í erlendum bönkum. Þeir eru hinn annar hópur gerenda í skuldsetningu íslenska bankakerfisins. Þeir veittu lánin á viðskiptalegum grundvelli. Þar komu aðrir íslenskir þegnar hvergi nærri. Almenningur tók þau lán sem honum buðust í góðri trú á banka og íslenska stjórnsýslu. Þegar dæmið gekk loks ekki upp hjá íslensku einkabönkunum s.l. haust sátu vissulega erlendu lánveitendurnir eftir með sárt ennið. Nema hvað?! Þeir verða og að taka afleiðingum þess á þeim sama viðskiptalega grundvelli sem þeir veittu lánin upphaflega. Þeir höfðu eins og aðrir aðgang að opinberum tölum um stórhættulega skuldsetningu íslenska bankakerfisins sem endaði í tíu til tólf-faldri upphæð landsframleiðslunnar íslensku. Samt veittu þeir íslensku bönkunum lán! Þeir geta sjálfum sér og glæfralegri fjárfestingastefnu sinni um kennt! Það virðist því ekki hægt að segja að þeir hafi verið blekktir. Þeir áttu og máttu vita betur. 
Erlendu kröfuhafarnir skulu snúa sér að þrotabúum íslensku einkabankanna þriggja og sækja yfirstjórnir þeirra, bankaráðin og bankaráðsformennina sem störfuðu í tíð einkabankanna, til saka og til greiðslu á réttmætum kröfum (hverjar sem þær teljast nú með rétti vera), ef þeim sýnist svo, en ekki íslenskan almenning og skattgreiðendur sem ekki komu nærri viðskiptasamningum föllnu bankanna þriggja og lánveitendum þeirra.

Gerendur í íslenska bankahruninu eru því fyrst og fremst tveir hópar: Bankaráð íslensku einkabankanna og erlendir lánaveitendur þeirra.

Það er ekki fallega gert af stóru ESB-þjóðunum að reyna að kúga íslenskan almenning (alþingismenn), að því er virðist, með hótunum og gylliboðum til hlýðni, sem þeir virðast vera að gera til að redda sjálfum sér fyrir horn með hriplekt ESB-reglukerfi sitt sem lét þessa lána-óráðssíu íslensku einkabankanna óáreitta þar til allt fór í strand. Þeir vita sjálfsagt að bankakerfi ESB í heild er í húfi og gæti hrunið eins og spilaborg ef almenningur innan ESB fengiveður af því að innistæður þeirra í virðulegum bönkum innan ESB gætu verið ótrygg(ð)ar eða vantryggðar, þ.e. ef upp kæmi íslenskt fordæmi um það að ríkið sé ekki ábyrgt fyrir skuldum (einka)bankanna. Þá munu innistæðueigendur innan ESB flykkjast í banka sína og reyna að taka út sparifé sitt – sem þeir munu ekki geta nema í takmörkuðu mæli. Fyrr fer bankakerfið innan ESB ”á hliðina”, eins og sagt er nú orðið.

Með öðrum orðum: Alþingi Íslands á nú úr vöndu að ráða sem aldrei fyrr, varðandi ESB-umsókn og afgreiðslu á Icesave-málinu - og klukkan bráðum að verða tólf! Ég segi nú eins og Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og rasandi frammi fyrir orðnum hlut: "Guð hjálpi íslensku þjóðinni!", en vil jafnframt bæta við: ... og hjálpaðu alþingismönnunum okkar að taka réttar ákvarðanir! - sem fyrst, og alltaf (eða a.m.k. sem oftast)!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Gerendur í íslenska bankahruninu eru því fyrst og fremst tveir hópar: Bankaráð íslensku einkabankanna og erlendir lánaveitendur þeirra.

Alveg rétt. EU lögin eru alveg í samræmi. Íslendinga eiga að láta EU borga fyrir að fall frá málsókn. Allur auðmagnsheimurinn mun veita EU dómurum gott aðhald í málaferlum. 

Samkvæmt Seðlabanka vor umsvifin 10% innanlands. 80% skuldum heimilanna krepputryggð með vitlaust tengdu fasteigna veðandlagi sem ætti að bera undir alþjóðadómstóla. 

Júlíus Björnsson, 17.7.2009 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband