Höggvið í sama knérunn

Viðtal Gísla Marteins Baldurssonar spyrils við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í þættinum Sunnudagsmorgni á RÚV þ. 16.2.2014 var með endemum.
Í stað þess að hlusta meðan viðmælandinn svarar þá óð spyrillinn flaumósa áfram með uppglennt augu og sperrtar brýr og talaði hvað eftir annað ofan í og yfir viðmælandann með aðdróttunum og eigin túlkunum sem hann tíðum ranghermdi upp á viðmælandann þannig að viðmælandinn komst varla almennilega að með skýr svör sín ótruflað fyrir en að hluta til undir lok þáttarins.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tekið er á móti Sigmundi Davíð á RÚV með þessum hætti. Gekk yfirgangurinn jafnvel svo langt að þveröfugt við það sem við átti þá kvartaði spyrillinn í miðju kafi yfir því við Sigmund að hann hefði iðulega kvartað undan óviðurkvæmilegum viðræðuaðferðum spyrla gagnvart sér í viðtölum!
Maður spyr sig hvort spyrillinn í þessu viðtali hafi ekki gerst sekur um einmitt það.

Gísli Marteinn (GM) vakti máls á hugmyndum sem fram hafa komið um að fjölga seðlabankastjórum í þrjá og dróttar því að forsætisráðherra (SDG) að hann hafi talið eitthvað rangt við val fyrrverandi ríkisstjórnar á núverandi seðlabankastjóra. Síðar segir GM að viðtalið snúist ekki um sig, eftir að vera nýbúinn að gera forsætisráðherra upp skoðanir í því sem hann var að orða sjálfur sem skoðanir ráðherrans. GM fullyrðir að tveir viðbótar seðlabankastjórar komi þar inn til að fylgja stefnu SDG! - Þetta er nátttúrulega hreinn spuni og vangaveltur GM sjálfs. -
Síðan fullyrðir GM að forsætisráðherra ætli sér að setja inn tvo seðlabankastjóra, „líka“, af því að fyrri ríkisstjórn gerði það er núverandi seðlabankastjóri var ráðinn! Í kjölfarið talar GM sem endranær ofan í viðmælandann þegar SDG reynir að leiðrétta rangtúlkanir og aðdróttanir spyrilsins. GM fullyrðir jafnframt að forsætisráðherra „komi“ þannig sínum mönnum inn, „ykkar mönnum“. - GM ætti þó að vita að ekki er búið að ákveða að fjölga seðlabankastjórum og þaðan af síður að þar séu „menn“ SDG komnir í þær stöður.
Þegar SDG reynir að leiðrétta GM með því að benda honum á að GM sé að leggja honum orð í munn og gera honum upp skoðanir og segja að SDG hafi sagt eitthvað sem hann hefur ekki sagt, þá veður GM yfir hann með dólgslegum og ókurteisum hætti og framígripum og ber SDG það á brýn að hann „komi“ og „skammist yfir fólk sem hefur sagt eitthvað“.
 Svör SDG við spurningum GM um hvað hann meinti með tilteknm orðum sínum í ræðu á nýafstöðnu viðskipaþingi túlkar GM síðan umsvifalaust sjálfur og botnar svör SDG með ályktun sinni um að SDG hafi þá verið að halda því fram að þingið hafi „viljað heyra að atvinnulífið væri að standa sig rosalega vel“. SDG benti þá GM vinsamlegast á að þetta hafi hann alls ekki sagt þannig og benti spyrlinum jafnframt á að lesa þurfi ræðuna í samhengi en ekki slá fram einstökum setningum eða setningarbútum úr samhengi sínu.
GM þráast áfram við nokkru síðar er hann segir að hann sé ekki að túlka sjálfur svör SDG, þegar SDG bendir honum aftur á að það sé hann einmitt að gera, eftir fullyrðingar og framígrip GM! GM þrjóskaðist samt við áfram með „rökunum“ sem smákrakkar grípa gjarnan til í þrætubókarlist sinni, þ.e. „Jú, víst!“

GM spyr síðan hvað SDG hafi átt við með ummælum sínum um að „sumir á viðskiptaþingi skipuðu sér með krossförum háskólasamfélagsins“. Þegar SDG bendir t.d. á að prófessorar hafi ítrekað komið fram á vettvangi blaða og RÚV til að gagnrýna íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu jafnvel með röngum fullyrðingum, þá segir GM að hann eigi væntanlega við tiltekinn prófessor sem hann nafngreinir. SDG bendir spyrlinum þá á að hann hafi þar með sjálfur nefnt dæmi um slíkan „krossfara“ og viti þá hvað hann hafi átt við. Þá bregst GM við með skætingi og ásakar viðmælandann um að vera með útúrsnúninga!

Það er leitun að annarri eins ókuteisi og yfirgangshætti hjá spyrli gagnvart viðmælanda í sjónvarpi, í þessu tilfelli sjálfum forsætisráðherra Íslands, nema ef væri það í mikilvægum viðræðuþætti á RÚV fyrir alþingiskosningarnar s.l. vor þar sem rætt var við Sigmund Davíð sem formann Framsóknarflokksins um stefnumál flokksins. Gagnstætt vinsamlegri viðtalsaðferð, jafnvel áfallahjálp, sem flestir aðrir flokksformenn urðu þar aðnjótandi í sömu þáttaröð í aðdraganda kosninga þá reyndi þáttastjórnandinn í viðtalinu við Sigmund Davíð ítrekað og af öllum mætti að hakka svör og útskýringar Sigmundar í spað með framígripum og eigin rangtúlkunum og hneykslunarkennda viðmóti og dómum um stefnumál flokksins. Sigmundur stóð þó það fárviðri af sér með sóma og festu og mælti þar af yfirvegun og rökfestu fyrir mikilvægum þjóðþrifamálum, þegar friður gafst inn á milli fyrir hamagangi spyrilsins.
Hið sama gerðist í þessu sunnudagsmorgunviðtali á RÚV við Sigmund Davíð, en nú sem forsætisráðherra. Þar var af hálfu RÚV höggvið í sama knérunn.
Þegar spyrillinn svokallaði fór loksins, undir lok viðtalsins, að þegja nokkurn veginn meðan viðmælandinn svaraði með eigin orðum þá fengu rökföst svör forsætisráðherra loks að njóta sín ómenguð eins og vera ber. Við því átti kjaftstopp spyrill með signar brýr og stirðnað bros ekki nein „mótrök“ nema þögn og „takk“, enda af honum dregið.

Yfir nýliðna helgi hafa margir hér á rafmiðlunum lýst yfir vanþóknun sinni og fordæmingu, svo vægt sé tekið til orða, á réttmætum og eðlilegum viðbrögðum forsætisráðherra við því sem kalla mætti atlögum spyrilsins Gísla Marteins að honum í viðtalinu og vænt hann m.a. um hroka og yfirgang. Hvernig getur fólk haft þvílík endaskipti á staðreyndum þegar það var þvert á móti spyrillinn sem reyndi ítrekað að valta yfir viðmælandann? – Sem spyrlinum í þessu tilfelli mistókst reyndar herfilega þegar upp var staðið!


mbl.is „Vá. Þetta var furðulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband