Kerfi til atkvæðaráns

Núverandi kosningakerfi með 5%-þröskuld útilokar að framboð sem fá minna en 5% fylgi kjósenda fái menn á þing í samræmi við atkvæðamagn þeirra. Til að kóróna óréttlætið er "dauðum" atkvæðum þeirra endurúthlutað á bróðurlegan hátt í formi uppbótarþingmanna til þeirra framboða/flokka sem komast yfir þröskuldinn eftir ákveðnum reglum.
Þetta minnir óhugnanlega mikið á kvikmyndir úr Villta Vestrinu þar sem ræningjar skipta ránsfeng sínum á milli sín að ráni afloknu. 

# Þetta eru fáránlegar reglur og ekkert annað en rán á atkvæðum.
# Þetta er ígildi þess að kjörseðlum sé breytt þegar þeir hafa verið afhentir í kjörkassa.
# Þetta er afbökun á lýðræði og, að því er þessi "dauðu" atkvæði undir 5%-mörkunum varðar, í ætt við valdarán; Rán á lýðræðislegum rétti þeirra sem kusu framboðin sem náðu ekki 5%-mörkunum til að hafa áhrif á Alþingi.
# Þetta er mismunun milli þegna lýðveldisins sem ekki fær staðist.
# Þetta er ekkert annað en ein tegund harðstjórnar undir yfirskini lýðræðis.

Brennandi spurning: Kom þjóðin þessari 5%-reglu á?
Svar: Nei. Það voru ríkjandi stjórnmálaflokkar í krafti þingræðis.
Viðbótarspurning: Er það fullkomið lýðræði? Svar: Nei, augljóslega ekki. Það er flokksræði og samkvæmt vilja og markmiðum þeirra hagsmunaafla sem þar eru að baki. Er augljóst að hagsmunir almennings séu þar í fyrirrúmi?

Hvað er til ráða?
Svar: Eðlileg viðmiðunarregla væri að jafnt kjörfylgi allra frambjóðenda þyrfti til að koma manni á þing.
Viðbótarspurning: Hvað er "jafnt kjörfylgi"?
Svar: Miðað við að fjöldi þingmanna á Alþingi er 63 væri jafnt kjörfylgi bókstaflega 1/63, eða um 1,6%. Það er öllu lægra en núverandi 5%-viðmið.

Brennandi spurning: Hvernig stendur á þessari hrópandi mismunun? 
Svar: Mismununin er til komin vegna ofríkis gamalla og ríkjandi stjórnmálaflokka í krafti þingræðis.
Viðbótarspurning: Hvernig hafa gömlu flokkarnir farið að því? 
Svar: Með falsrökum þeirrar mýtu/goðsagnar að "of litlir" flokkar yllu "sundrungu" á Alþingi!
Það eru augljóslega "rök" sem halda ekki vatni vegna þess að þingræði á grunni fulltrúalýðræðis byggir einmitt á því að sjónarmið allra kjósenda eigi sér raddir á þingi. Slíkar raddir eru öll lögformleg framboð meðal kjósenda lýðveldisins og ekki er hægt að segja að lýðræði ríki ef þau hafa ekki jafnan rétt í reynd til að koma frambjóðendum á þing. Reglur sem kveða á um þröskuld hærri en 1/63 (1,6%), eins og núverandi 5%-regla, eru brot á þeirri jafnræðisreglu.

Stóra spurningin: Vill íslenskur almenningur, kjósendur, að ójafnræði 5%-reglunnar verði við haldið áfram?

Ja, maður spyr sig! 

PS: Ein tegund misréttis og ójafnræðis milli kjósenda felst einnig í mismunandi vægi atkvæða eftir kjördæmum þar sem fyrirfram er ákveðið hver þingmannafjöldi kjördæmis er sem ekki er í hlutfalli við íbúafjölda. 


mbl.is Stjórnarflokkarnir bæta örlítið við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband