Sannleikann þarf að orða frammi fyrir heiminum

Helst er von til þess að sannleikurinn komi fram að um hann sé rætt.

Þöggunin í þjóðfélaginu bæði inn á við og út á við, studd af undirlægjuhætti og þrælsótta við meint yfirvöld af hvers kyns tagi, er til þess fallin að dylja sannleikann.

Hér sem á mörgum öðrum sviðum er helst til ráða að benda á og orða sannleikann í votta viðurvist frammi fyrir þeim sem sannleikann þarf að heyra og viðurkenna þurfa hann opinberlega, rétt eins og lýst er svo vel í sögunni um  nýju fötin keisarans.
Það er lýsandi dæmi um hvernig blekkingar, kúgun, þöggun og meðvirkni eru hagnýtt með óprúttnum hætti af sérhagsmunaseggjum til þess að níðast á almenningi, þjóðinni, og gera hann að féþúfu og kúguðum lýð sem er gert að blæða blóði, svita og tárum við að borga fyrir velferð annarra.

Slíkan sannleika er forseti Íslands að orða frammi fyrir nágrannaþjóðum okkar, frændþjóðum á Norðurlöndum sem og öðrum Evrópuþjóðum og heiminum öllum.
Eins og hann nefnir sjálfur í athugasemdum sínum er óþægilegt að koma fram með slíkar ábendingar, enda óþægilegt fyrir þá sem skyldu taka þær til sín.

Á meðan situr ríkisstjórn landsins í brothættri skel sinni og hæðist að þjóðinni með því að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu hennar markleysu og lætur hjá líða enn einu sinni að nýta það tækifæri sem gafst til að ná eyrum alþjóðlegra fjölmiðla. Það er hneisa og til skammar fyrir hana og erfitt fyrir almenning að útskýra slíkt aðgerðar- og ráðaleysi eigin ríkisstjórnar frammi fyrir furðu lostnum erlendum fréttaspyrlum.

Þessa ríkisstjórn batt meirihluti þjóðarinnar vonir sínar við fyrir síðustu kosningar og gaf henni dýrmæt atkvæði sín. Ekki er að furða að fylgi við ríkisstjórnina fer minnkandi ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Það er hörmulegt ef ríkisstjórnin ætlar ekki að standa undir væntingum og réttmætum kröfum kjósenda sinna og þjóðarinnar allrar.

Niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010 sýnir svo ekki verður um villst, nema fyrir veruleikafirrta einstaklinga, að meira en níu af hverjum tíu kjósenda eru ósammála þeirri lausn sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á í Icesave-málinu og neytt upp á almenning gegnum naumt samþykki Alþingis í tvígang. Slíkum málalyktum hafnar þjóðin í því máli með skýrum og skiljanlegum hætti.


mbl.is Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband