Færsluflokkur: Evrópumál

Bara tveir valkostir?

Haft er eftir blaðamanninum að bara séu tveir kostir fyrir Íslendinga í stöðunni: Leiðin til "skjóls" í Evrópusambandinu eða að hafna henni og einangrast þar með á frostbitinni ísauðninni í Atlantshafi til fjalla með Bjarti í Sumarhúsum, áður Veturhúsum.

Annað hvort er þessi fréttamaður fremur hlutdrægur í fréttaumfjöllun sinni eða að hann gerir sér ekki grein fyrir því að heimurinn er stærri en stóra bretland á Englandseyju og Ermasundsgöngin yfir í "skjólið í Evrópu". Hann gleymir að nefna nokkrar fleiri heimsálfur til sögunnar sem ásamt þeim sjálfum renna hýru auga til aðstöðunnar hér á Íslandi, sem verður sífellt mikilvægari.

Það er bæði dapurlegt og ergilegt að allt of margir stjórnmálamenn, ekki síst alþingismenn, skuli ekki hafa hugmyndir, hug eða nennu til að rannsaka aðrar leiðir ofan í kjölinn og kynna þær til umræðunnar á þessum viðsjárverðu tímum sem nú eru.
Þó eru á því undantekningar, eins og blaðagreinin "Metum kostina - reiknum dæmið" eftir Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing og fyrrv. alþingismann í Morgunblaðinu þ. 1. október s.l., s. 23. Þar er hann inni á hliðstæðum pælingum og hér eru viðraðar, þ.e. að greina afleiðingar af mismunandi valkostum aðgerða.
Greiningin sem forsætisráðherra fékk hjá Seðlabankanum í dag gekk ekki út á að greina slíka valkosti heldur að því er virðist fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, að meta afleiðingar þess að fara ekki ESB- og AGS-leið sem er í deiglunni og aðhafast ekkert að ella. Það er of mikil einföldun svo vægt sé til orða tekið. Það er slæmt að við skulum vera komin í þá tímapressu sem raunin er á núna, en dýrmætur tími búinn að fara forgörðum í sumar sem hægt hefði verið að nýta til að greina aðra valkosti.

Ef verstu spár andstæðinga þess að fylgja stefnu AGS ganga eftir, í ljósi fyrri reynslu landa af sjóðnum þar sem hann hefur verið kallaður til inngripa og þar sem þjóðir hafa fyrir rest tapað auðlindum sínum fyrir undirverð til erlendra aðila, þá hlýtur nánast hvaða vitræna leið önnur en sú stefna að vera betri þegar til lengdar lætur og upp er staðið.
Slíkar leiðir hafa því miður ekki verið kortlagðar með sanngjörnum hætti í umræðunni hér undanfarið eftir hrunið 2008. Þarf maður sjálfur, kjósandinn úti í bæ, að taka sig til við það á eiginn kostnað? Það er spurning hvort ekki sé einmitt komið að því og þó fyrr hefði verið, úr því að ekkert bólar á svona greiningu í umræðunni.

Það væri slæmt ef stjórnmálamenn láta hræða sig til einhverrar niðurstöðu í ákvörðunartöku sinni ef það kemur svo í ljós síðar að önnur lausn hefði verið ákjósanlegri eða skárri - og raunhæfur valkostur ef hann hefði bara verið skoðaður áður en stefnumarkandi ákvörðun var tekin.


mbl.is Telja íslensk stjórnvöld draga lappirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttasemjara í málið

Þarna blasir við að "hlutlaus" sáttasemjari, sem vinveittur er báðum aðilum eða a.m.k. ekki úr ranni annars þeirra, getur borið klæði á vopn til að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem báðir aðilar geta sætt sig við.

Þetta sýnir ennfremur að stórveldi eins og Bandaríkin gætu verið að taka við sér og skoða málið í stærra samhengi þótt þeir hafi "hlaupið" fyrir stuttu frá landinu. Þeir gera sér e.t.v. grein fyrir því að úr því sem komið er er ekki hægt að láta það enda í vitleysu vegna hugsanlegra örþrifaráða Íslands sem hefði ögrandi áhrif fyrir jafnvægið á norðurhveli.
Hvers vegna halda menn að Rússar hafi verið að vekja athygli á velvild sinni í garð Íslands í dag?  Stjórnmálamaður í Noregi einnig! Þar að auki bárust fréttir af því fyrr á þessu ári að Kínverjar hefður verið að kanna hafnaraðstæður á Norð-Austurlandi með hugsanlegar siglingaleiðir um Norður-Íshaf í huga.

Fáum vinveitt land sem sáttasemjara í Icesave-málið til að gangast fyrir skynsamlegum efnistökum í því og samræðum milli aðila augliti til auglitis!


mbl.is Skynsamlegt að semja að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta satt?

Sæl Vigdís.

Hefur einhver, t.d. á Alþingi, mótmælt þessari túlkun þinni á þeim ummælum sem þú hefur eftir aðstoðarmanni fjármálaráðherra að um "allsherjarveð í eignum íslenska ríkisins" sé að ræða?
Ef ekki, þá má þvert á móti furðu sæta að forseti þingsins skuli láta óátalinn málflutning þingmanna sem neita þeirri túlkun og gera lítið úr málshefjendum eins og þér sem benda á ósómann.
Fáðu þetta endilega á hreint og fáðu stjórnarliða til að svara með öðru en útúrsnúningi eða rökleysu. Hið sanna verður að vera ljóst í málinu.
Þetta er ekkert smáatriði í sambandi við Icesave-nauðungarsamninginn sem stjórnin óskar eftir að þið samþykkið á þingi til að knésetja íslenskt efnahagslíf í núverandi mynd. Spyrja má með réttu hverra hagsmuna sá Íslendingur er að gæta sem samþykkir slíkt.


mbl.is Allsherjarveð í eigum Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andi Marshall-aðstoðar svífur yfir orkuríkum vötnunum

Einmitt. Hér er enn eitt dæmið um að skynsamir aðilar erlendis hjá viðskiptaþjóðum okkar séu að vakna af Þyrnirósarsvefni sínum og gera sér grein fyrir því að efnahagskerfi þjóðanna er gagnvirkt og hægt er að hafa af því betri hag að halda aðilum þess vel gangandi heldur en haltrandi eða lömuðum til lengdar.
Umræðan í breska viðskiptablaðinu Financial Times er inni á svipuðum nótum um sanngirni gagnvart Íslendingum, greinir mbl frá í dag.

Bæði þessi innlegt bera með sé þann anda sem lá að baki Marshall-aðstoðinni svokölluðu sem Bandaríkin veittu stríðshrjáðum Evrópuþjóðum eftir seinni heimsstyrjöldina (reyndar fékk Ísland líka sinn skerf af henni þá, þótt það geti varla hafa kallast "stríðshrjáð" eftir viðskipti sín við Breta hérlendis þá). Marshall-aðstoðin skipti sköpum fyrir viðkomandi lönd sem og Bandaríkin sjálf.


mbl.is Vill að Norðmenn láni Íslandi meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Marshall-aðstoð" vegna Icesave - Ábendingar Evu Joly að virka

Það er fagnaðarefni að sjá þessi viðbrögð hins virðulega breska viðskiptablaðs. Ekki er annað að sjá en að þarna komi fram ýmislegt af þeim rökstuðningi sem Eva Joly bar fram til varnar Íslandi og íslenskum almenningi. Þökk sé henni!

Þetta sýnir að samræður í ýmsu formi eru fremur fallnar til þess að ná árangri í svona málum heldur en þögn. Þögn virðist einmitt hafa verið helsta baráttutækið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur beitt til varnar landi og þjóð í þessu máli. Sú "herkænska" hefur ekki virkað. Með þeirri þögn átti að knýja Alþingi til að samþykkja óskiljanlega háan skuldabagga án þess að fyrir liggi lagalega hver greiðsluskylda Íslands er í þessu máli og í stað þess að gera Bretum og Hollendingum og öðrum hagsmunaaðilum málsins grein fyrir hvernig raunveruleg staða Íslands yrði undir þeim klyfjum; og þar með gagnvirk áhrif fyrir þá sjálfa.
Hvað raunverulega skýrir þessa þögn stjórnvalda verður fróðlegt að heyra um, en það er önnur saga.

Það er athyglivert að í umræddri grein FT örlar á rökstuðningi og skilningi sem lá að baki hinni svokölluðu Marshall-aðstoð sem Bandaríkjamenn veittu stríðshrjáðum Evrópuþjóðum eftir seinni heimsstyrjöldina til uppbyggingar á innviðum og efnahag landanna. Þeir gerðu sér grein fyrir því að viðskiptalega séð var það góð "fjárfesting" sem gagnaðist einnig þeim sjálfum betur til lengri tíma litið en að hafa Evrópulöndin rjúkandi rústir og óviðiunandi ósjálfbjarga um langan aldur.

Efnahagskerfi þjóðanna er samtvinnuð heild og brestur í mikilvægum hlekk eins og Íslandi hefur víðtæk áhrif að mörgu leyti, bæði efnahagsleg, stjórnmálaleg og fleiri áhrif. Í því sambandi minni ég á pistil minn þar sem mikilvægi auðlinda Íslands er sett í samhengi við umheiminn.


mbl.is FT segir að jafna eigi Icesave-byrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver GRÆÐIR á Ranglátu VaxtaOKRI á Fjölskyldum og Fyrirtækjum?

Undanfarið hafa almenningur og fyrirtæki með yfirdráttarlán ásamt öðrum lánum verið að sligast undan vaxtaokrinu sem hér er við lýði, en það eru einmitt þeir aðilar sem létta þarf hvað mest á til að auka líkur á að þeir komist af!
Samtímis njóta innistæðueigendur og aðrir fjármagnseigendur hárra inneignarvaxta sem aldrei fyrr, þ.e. þeir einstaklingar og lögaðilar sem væntanlega þola hið slæma efnahagsástand skást!

Hér virðist því að verið sé að láta almenna skuldara, þar á meðal atvinnulausa og allt atvinnulíf landsins, blæða á óréttlátum forsendum.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, sem eru lítt öfundsverð milli steins og sleggju, benda á að verið sé að fara eftir ráðleggingum og tilmælum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Rök AGS á sínum tíma voru þau að hinir háu stýrivextir væru til þess að styðja við gengi krónunnar.
Núverandi gjaldeyrishöft sjá þó til þess með afgerandi hætti og þess vegna þarf ekki líka að halda vöxtunum háum til þess arna.
Hvað veldur því að það er samt gert undir núverandi kringumstæðum?

Jöklabréfunum svokölluðu er haldið föstum hérlendis með gjaldeyrishöftum. Þau fara því ekki úr landi þótt vextir væru lækkaðir hressilega og gengið veikist ekki þess vegna á meðan.
Vaxtabyrði landsins vegna þeirra myndi hins vegar augljóslega léttast tilsvarandi hressilega um leið, eins og bent hefur verið á í umræðunni.
Einnig myndi vaxtaklafi hart leikinna yfirdráttarlánaskuldara léttast með væntri tilsvarandi lækkun yfirdráttarvaxta, bæði almennings og fyrirtækja.
Þrýstingur á hækkanir vöruverðs vegna fjármagnskostnaðar myndi þar af leiðandi minnka.
- Þetta er augljóst!

Hvers vegna heldur vaxtaokrið samt áfram?

 


Íslenskar lífslindir og lífsstíll

Umheiminn skortir lífsnauðsynjar sem Ísland á ofgnótt af. Þurfum við samt að biðla til umheimsins um björgun? Hvernig viljum við lifa?

Heiminn skortir lífsnauðsynjar
Hvarvetna í heiminum í dag er vaxandi eftirspurn eftir eftirfarandi gæðum, sem eru megingrundvöllur mannlífs: Mat, ferskvatni, orku og ræktunarlandi. Á mörgum stöðum er nú þegar skortur á þessum lífsnauðsynjum. Lönd, þar sem þéttbýli er mikið og skortur er á þessum þáttum auk landrýmis, hafa m.a. tekið upp á því að leigja ræktanleg landsvæði í öðrum löndum til að framleiða matvörur fyrir eigin heimamarkað til að anna þörfinni þar. Dæmi um það er Suður-Kórea sem leigt hefur stór landsvæði á Madagaskar til langs tíma til ræktunar. 

 Ísland á ofgnótt lífsnauðsynja
Ísland er aftur á móti afar vel sett að þessu leyti og í mörgu öðru tilliti. Þar er til ofgnótt ferskvatns, raforku og ónýttra möguleika til raforkuöflunar. Þar er fyrirliggjandi þekking og afkastageta fyrir framleiðslu á miklu meira magni af matvörum en þjóðin getur torgað, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Ræktanlegt land og landrými er ríkulegt og pláss er fyrir miklu fleiri íbúa en núverandi fjölda. Þar að auki hefur stjórnarfarið almennt verið stöðugt, séð í alþjóðlegu samhengi, og öryggi þegnanna hefur sömuleiðis verið gott félagslega séð og með því besta í heimi. Þá eru ótalin ýmis önnur gæði landsins, eins og t.d. tiltölulega hreint loft, ýmsir einstæðir kostir fyrir ferðaþjónustu, lega landsins gagnvart nýjum siglingaleiðum í norðri og margt fleira. 

 Ísland þarf ekki að biðla til umheimsins
Þegar öll þessi grundvallaratriði eru skoðuð í heild og í samanburði við aðstæður annarra landa, bæði í Evrópu og Ameríku, að ekki sé talað um Afríku og Asíu, blasir eftirfarandi staða við: Ísland á yfir að ráða ofgnótt náttúruauðlinda á þeim sviðum sem lífsnauðsynleg eru íbúum jarðar til daglegs lífs, þ.e. drykkjarvatn, matvörur og orku, auk möguleika á að auka framleiðslu á þessum vörum margfalt frá því sem nú er til útflutnings.

 Umheimurinn mun biðla til Íslands
Til lengri tíma litið getur heimsmarkaðsverð á þessum afurðum aðeins farið hækkandi vegna vaxandi eftirspurnar erlendis, til bóta fyrir viðskiptakjör landsins og þar með hagsbóta fyrir þjóðina. Það er því ekki furða, eins og nú er ástatt, að lönd í t.d. Evrópu fýsi að fá Ísland í félag við sig til að komast í nánara samband við lífslindir þess. 

 Heimanmundur og undirlægjuháttur
Þegar staða landsins er að styrkjast stórkostlega hvað þessi atriði varðar má spyrja sig hvort einmitt þá sé viturlegast að kasta þessum auði eins og heimanmundi og í undirlægjuhætti upp í gráðugt ginið á soltnum og þyrstum og óprúttnum viðskiptablokkum sem á móti bjóða eitthvað allt annað en ómengaðar lífslindir; Allt vegna misskilnings Íslendinga á aðstæðum og samningsstöðu sinni! 
 
 Íslendingar þurfa ekki að óttast framtíðina
Íslendingar þurfa ekki, til lengri tíma litið, að óttast skort á innflutningsvörum, eins og olíu fyrir fiskiskip sín og landbúnaðartæki né aðra tengda hluti til að halda framleiðslukerfi sínu og samgönguneti gangandi. Útflutningsverðmæti landsins mun fyllilega standa undir slíkum grundvallarvörum og þjónustu erlendis frá. Útlönd verða háðari Íslandi en Ísland þeim og samningsstaða landsins því sterk og batnandi. Þá eru ótaldar hugsanlegar olíuauðlindir við landið og vinnsla þeirra í náinni framtíð, sem væru bara bónus við það sem framar er talið.

 Spurning um lifnaðarhætti og lífsstíl
Háð því hvernig mál þróast og hvaða stefna verður tekin af Íslendingum á þessum sviðum þá munu lifnaðarhættir og lífsstíll landsmanna í framtíðinni vissulega mótast af því. Ætlum við að láta það ráðast af umhverfinu og hagsmunum annarra þjóða, eða ætlum við að ráða vegferð okkar og framtíðarhag sjálf, t.d. með meiri áherslu á sjálfbærni við nýtingu landsins gæða en hingað til?
Áður en við hugsanlega óskum eftir inngöngu í viðskiptablokkir skulum við að minnsta kosti gera okkur grein fyrir raunverulegu verðmæti auðlinda og möguleika okkar í framtíðinni og vega og meta mismunandi valkosti varðandi lifnaðarhætti og lífsstíl og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna í því ljósi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband