Umræddur léttist en dó ekki, skv. fréttinni

Í fyrirsögn mbl.is í viðtengdri frétt er bagaleg stafsetningarvilla og þar af leiðandi merkingarvilla. Villan felst í rangri stafsetningu/beygingu á sögninni að "léttast" í lýsingarhætti þátíðar. Eins og hún er rituð ranglega er merkingin að viðkomandi hafi látist, þ.e. eins og sögnin væri rituð í þátíð, sbr. "hann lést" (brottfall á t), en það er ekki um það að ræða í fréttinni - sem betur fer.

Í fyrirsögninni ætti að standa "Elton John hefur létst" en ekki "...lést". Stofn sagnarinnar er "að léttast". Í lh.þt verður einnig brottfall þannig að annað t-ið fellur út og við bætist endingin st. Fyrir lagasetningu um að hætta að nota z í íslensku ritmáli (var það ekki árið 1974 eða þar um bil?) hefði stafsetningin verið "létzt", sem sýnir glögglega hvar brottfallið á t er og að í stað þess og -st kemur z. Seinna t-ið og s-ið í st er þar einfaldað í stafnum z. - Og hana nú! - Eða, er formlega búið að breyta rithætti svona "..tt.."-sagna?

Fréttaritari mbl.is athugar þetta ef til vill og leiðréttir ef hann sér ástæðu til?

 

 


mbl.is Elton John hefur lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið var!

Mikið var að innstu koppar í búri ESB sjái og viðurkenni hið augljósa, að óheft ferðafrelsi innan Schengen-landa og slælegt eftirlit með einstaklingum inn á svæðið og innan þess hefur slæmar afleiðingar í för með sér eins og dæmin sanna varðandi auðvelt flakk hryðjuverkamanna og anarra glæpamanna inn á og um svæðið. - Það gagnast ekkert að berja höfðinu við stein. Áhugavert væri að fá úttekt á því hver ávinningur Íslendinga hafi verið af þátttöku í Schengen á heildina litið.


mbl.is Macron vill endurskoða Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið í sóknunum er kirkjan

Hárrétt athugað hjá Óskari Magnússyni bónda. Söfnðurinn er kirkjan, en gríska orðið fyrir "kirkju" merkir einmitt söfnuður, eða samsafn fólks.
Bóndinn hefur tekið eftir hinu augljósa, að mannskepnan er félagsvera, og að þannig söfnuður fyrirfinnst fyrst og fremst í nærsamfélaginu, í grasrótinni - enda bóndi kunnugur öllu er lýtur að grasi. 

Þetta er ennfremur sá grundvöllur sem guðfræðingurinn og heimspekingurinn Friedrich Schleiermacher (1768-1834), oft nefndur "faðir þjóðkirkjuhugtaksins", sá einna helst til að sporna við hinu hverfandi kirkjustarfi á sínum tíma í kjölfar Upplýsingastefnunnar. Hann benti m.a. á það að maðurinn er félagsvera og leiti eftir samfélagi við aðra til að deila með hugsunum og tilfinningum sínum. Hin sanna kirkja sé hvar sem trúaðir koma saman.

Meðal annarra hefur Dr. Gunnar Kristjánsson, fv. sóknarprestur, fjallað um hvernig rætur þjóðkirkjuhugtaksins liggi í kirkjuskilningi Schleiermacher. Við viðreisn kirkjunnar í Þýskalandi í byrjun 19. aldar hafi hann álitið að kirkjan þyrfti að verða kirkja fólksins að nýju. Einnig að kirkjan þurfi að ná fótfestu meðal fólksins fyrir boðskap sinn og hann verði því að eiga erindi við einstaklinginn og þar með þjóðina. Kirkjan, söfnuðurinn, þurfi að losna undan kirkjuvaldinu sjálfu (eins og það var þá þar í landi tengt ríkjandi konunglegu einveldi; innskot pistilhöfundar). Það gæti aðeins gerst með því að fólkið axlaði sjálft ábyrgð með nýju skipulagi, svo sem með sóknarnefndum og almennri virkni hins almenna safnaðarmeðlims. Þetta þýddi fráhvarf frá forræðishyggju þess tíma. - Þarna benti Schleiermacher á grunninn að hugmynd að þeirri þjóðkirkju sem síðar náði útbreiðslu, m.a. hérlendis. (Sbr. Gunnar Kristjánsson, 2002 : Rætur þjóðkirkjunnar- Um guðfræði Schleiermachers, Kirkjuritið 2002, 69 (2), s. 7-10.)

- Nú er spurning hvort hluti af því höggi sem íslenska þjóðkirkjan á nú undir að sækja felist í forræðishyggju er birtist í þeirri meintu miðstýringu gegnum Biskupsstofu sem grasrótarbóndinn gerir að umtalsefni.


mbl.is Sóknirnar eru kirkjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur landbúnaður hornreka, segir Guðni

Hér rekur Guðni Ágústsson, fyrrv. landbúnaðarráðherra, í opnu bréfi til formanna ríkisstjórnarflokkanna 17 rök fyrir því að íslenskur landbúnaður sé hornreka í stjórnsýslunni og aðeins "skúffuráðuneyti", skúffa í ráðuneyti atvinnumála.

Þetta er ömurlegt, ef rétt er, fyrir bændastéttina og neytendur sem unna gæðamiklum íslenskum landbúnaðar- og garðræktarafurðum.


mbl.is Landbúnaðurinn sé í skúffuráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt er að birta mynd af Blönduósi með fréttinni, ekki annan stað..

Birtið mynd af Blönduósi með fréttinni, ekki annan stað..


mbl.is Ákvörðunin ekki hjá Isavia heldur ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðurkenningar í lifanda lífi

Það eru ótal styttur af heimsþekktum og löngu liðnum tónskáldum og fleira afreksfólki í heimaborgum þeirra í Evrópu og víðar, enda "lifa" þau áfram í sígildum verkum sínum og afrekum.

Það er sómi af og skáldlegt réttlæti í því að tónskáld og aðrir listamenn njóti verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir viðurkennd afrek sín í lifanda lífi og þjóð þeirra og samborgarar þar með.

Hið góða sem í afrekunum felst er góð fyrirmynd fyrir aðra núlifandi, sem og kynslóðir framtíðar. 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt er að kjósa - Það skiptir vissulega máli

Já, ég ætla að kjósa og nýta atkvæðisrétt minn.

Ef fólk sem hefur hugleitt að sleppa því að kjósa að þessu sinni fer nú samt á kjörstað og kýs þá verður það hluti bylgju sem hefur sannarlega áhrif þegar talningarniðurstöður liggja fyrir.

Allir sem kjósa hafa áhrif. Það er óhjákvæmilegt í þessu lýðræðislega samfélagi okkar Íslendinga og takk fyrir það. Ég ætla að kjósa!


mbl.is Framsókn stærri en Miðflokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég ætla að kjósa"

Vitið þið hvað? Ég ætla að kjósa í alþingiskosningunum 28. október 2017 og nýta þar með lýðræðislegan rétt minn!
Nú, jæja, en hvers vegna? Með aðeins eitt atkvæði í öllu hafi mögulegra kjósenda!?!
Og hvaða gagn hef ég nú af því? Eða þú fyrir þitt leyti ef þú kýst?

Ja, það eru margir sem hugsa á svipuðum nótum og við, hver út af fyrir sig, og ef við drífum okkur á kjörstað þá erum við orðin að hóp sem um munar. Þar með hefur vilji okkar og viðhorf í þeim hópi öðlast tilsvarandi vægi.
Það hefur sín áhrif, og þeim mun meiri eftir því sem fleiri nýta kosningarétt sinn.
Við þurfum bara sem flest að taka þátt og kjósa í samræmi við hug okkar og hjarta, í einlægni. Það góða við það er að enginn sér hvað við kjósum í kjörklefanum. Og við þurfum ekki að segja öðrum frá því hvað við kusum.

Alveg er þetta magnað að búa í lýðræðisþjóðfélagi eins og okkar á Íslandi og geta þess vegna lagt lóð á vogarskálar um val á fólki og stefnu við stjórn landsins; í samræmi við okkar skoðun hvers um sig.
vera þá með í því að velja þingmenn og þjónustulið til þjónustu við okkur almenning í dreifbýli sem þéttbýli og til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir á heilsusamlegan hátt. Og svo getum við ávallt haft samband við þingmenn „okkar“ til að halda þeim við efnið að kosningum loknum. Frábært!


mbl.is Kafað ofan í kannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforð virkjunarfjárfesta og lifandi menning

Fari svo að verði virkjað þarna skulu heimamenn gera það að skilyrði að fyrst verði staðið við lofaða uppbyggingu á svæðinu áður en virkjunarframkvæmdir hefjast eða a.m.k. jafnhliða þeim. Dæmi eru um að stórfyrirtæki standa ekki við fögur loforð um uppbyggingu á starfsemi eða öðru úti á landi við uppkaup þeirra eða yfirtöku á rekstri á landsbyggðinni. Talandi um fyrirtæki í sjávarútvegi og vinnslu.

En, hins vegar: Í Árneshreppi og þar um slóðir er Lifandi menning á hverfanda hveli. Hvað vill þjóðin gera í þeim efnum?


mbl.is „Engin glóra“ í Hvalárvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi menning á hverfanda hveli

Lifandi menning í Árnesi á Ströndum hefur átt undir högg að sækja sökum fækkunar ábúenda jarða og íbúa þar í sveit.

Vonandi taka t.d. ráðamenn ferðamála við sér um möguleika á uppbyggingu ferðaþjónustu í þessu héraði og styrki a.m.k. með þeim hætti byggð og byggðarþróun í þessari mögnuðu sveit. Möguleikarnir eru margir í því sambandi, bæði til lands og sjávar og annarrar náttúru, eins og 1200 ára byggð ætti að sanna.

Maður spyr sig hvort Byggðastofnun, meðal annarra aðila, sé ekkert að pæla í viðhaldi byggðar og menningar á þessu svæði. Eða þingmenn kjördæmisins, reyndar alls landsins, þar sem þetta mál snertir þjóðina alla.

Þetta snýst öðrum þræði um það sem ég kalla lifandi menningu, að halda henni lifandi áfram og samfelldri eins og undanfarnar tólf aldir. Eða, eiga erlendir aðilar, m.a. kanadískur auðjöfur gegnum HS Orku og einhver "ítalskur barón", að hafa í hendi sér að virkja með tilheyrandi jarð- og menningarraski þarna á svæðinu? Vegna einkahagsmuna þeirra?

Þetta er mál sem varðar rammíslenska menningu og menningararfleifð og þekkingu á margvíslegri lífsbjörg á svæðinu, menningu sem enn er lifandi, að hún leggist ekki af og glatist.

Ein nauðsynleg og augljós forsenda fyrir varðveislu byggðar og byggðaþróunar í héraðinu er lagfæring á samgöngukerfinu. Að sjálfsögðu verður að tryggja opnar samgöngur um allt árið. Það gefur augaleið, þó ekki sé nema vegna þess að enginn læknir er þar. Þannig er það fjárveitingavaldi landsins og ráðamönnum til skammar að ekki skuli hafa verið rutt undanfarin ár þegar ófærð hamlar för um landveg norður í Árnes. Kostnaður sem er agnarlítill í samhengi fjárlaga. Betur má ef duga skal og þó löngu fyrr hefði verið. Einnig verður að vera þar til staðar lágmarks verslunarþjónusta og grunnskóli, svo fátt eitt sé nefnt.

Þótt fjárveitingar til fornleifarannsókna, uppgraftar og fleira, hafi að dómi viðkomandi starfstétta ef til vill ekki verið nægilegar gegnum tíðina þá hafa þó verið talsverðar fjárveitingar í þann málaflokk. Maður spyr sig í því sambandi hvort horfin menning sé þá mikilvægari heldur en sú sem enn er lifandi hér á landi. Verður þá fyrst áhugi á menningarsvæði því sem hér um ræðir þegar sú lifandi menning væri horfin og langt um liðið?


mbl.is Eins og óargadýr inn í samfélag í sárum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband