Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?

Marta B. Helgadóttir ritaði athygliverðan pistil í bloggi sínu þ. 21.7.2009, sem hún kallaði "Nýr ríkiskassi - lífeyrissjóðirnir". Fjallar hún þar m.a. um hvort iðgjöld til lífeyrissjóða séu í raun skattlagning hins opinbera fremur en sparnaður launþeganna sjálfra, þar eð iðgjöldin þeirra eru í reynd ekki þeirra séreign.

Þar sem ég hef líka velt þessum málum fyrir mér hripaði ég niður nokkrar athugasemdir við pistilinn og fara þær hér á eftir:

Það er margt sem rökstyður það að iðgjöld launafólks lífeyrissjóði sé í reynd "dulbúin" skattlagning. Helstu rökin sem tína má til um það eru m.a. eftirfarandi:

- Launþegarnir, þeir sem vinna hörðum höndum fyrir laununum, verðmætaskapendurnir, hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt á peningunum eftir að þeir eru inntir af hendi til lífeyrissjóðanna. Flestir sparendurnir deyja áður en þeir hafa fengið allt fé sitt til baka aftur.

- Launþegar geta ekki tekið út þennan sparnað sinn þegar þeim hentar sjálfum. Það er háð lögum sem gilda um lífeyrissjóði. Þeim er reyndar hægt að breyta eins og gerðist í vor varðandi séreignasparnaðinn.

- Launþegarnir hafa í reynd afar takmarkað vald yfir ráðstöfun sparnaðarins meðan hann er (stóran hluta ævi hvers launþega) í vörslu lífeyrissjóðanna. Þeir hafa ekki hver fyrir sig bein áhrif á hvernig sjóðirnir eru ávaxtaðir og hvernig þeir eru reknir. Hins vegar hafa atvinnurekendur og samtök þeirra (!) mikil ítök í stjórn lífeyrissjóðanna; Takið eftir: í sjóðum launþega!

- Dæmið sem upp kom varðandi fulltrúa lífeyrissjóðs VR í gamla Kaupþingi s.l. vetur sýnir að fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja (sem lífeyrsjóðirnir hafa fjárfest í) verja atkvæði umbjóðanda síns með hætti sem markast af fleiru en algjörum hagsmunum eigenda fjárins í sjóðunum. Hvernig stendur á því?

- Lífeyrissjóðirnir eru að miklu leyti nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkisins og atvinnulífsins, en að nafninu til í eigu launþega. Þeir eru líka á ábyrgð launþega, þótt þeir hafi takmörkuð óbein áhrif á stjórn þeirra, þar sem launþegar tapa ef sjóðirnir ávaxta fé þeirra illa. Slíkt tap birtist í skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga, eins og dæmin sanna.
Það er til lítils að kallast eigandi að einhverju sem maður ræður ekki yfir! Sá sem ræður yfir því og stjórnar á það í raun og veru til lengri tíma litið. Í þessu tilviki ríkið og atvinnurekendur.

Það er í raun og veru fráleitt að launþegar þurfi að una því að geta ekki lagt allan sinn sparnað í séreignasjóði sem þeir eigi að fullu sjálfir hver fyrir sig.

Þeir sem höfðu lagt til hliðar í viðbótarsparnað umfram skyldusparnað sinn áttu svo sannarlega varasjóð sem þeir gátu grípið til við áfall eins og dunið hefur yfir okkur frá því s.l. haust. Opinberi viðbótarsparnaðurinn er hins vegar fastur nema að hluta til. Eins og er getur fólk sem hefur safnað upp slíkum sjóði aðeins tekið út upp undir eina milljón kr. Slíkt þak ætti ekki að líðast. En, ástæðan er einfaldlega sú að féð er tiltölulega fast í langtímafjárfestingum sjóðanna og ekki handbært nema að takmörkuðu leyti. Það þarf einhvern tíma til að losa um það.

Það er fráleitt að þeir sem eiga slíkan viðbótarsparnað erlendis skuli ekki geta tekið hann allan út núna og yfirfært han heim til gjaldeyrissoltins Íslands einmitt nú!
Ég legg eindregið til að fólk fái heimild til að losa hann allan út núna!

Í raun og veru er hinn erlendi sparnaður ígildi útflutnings, en útflytjendurnir, þeir sem spöruðu í erlendum sjóðum, fá bara ekki að flytja útflutningstekjur sínar heim!
Útflutningsfyrirtæki geta hins vegar yfirfært útflutningstekjur sínar strax heim, eins og vera ber! (Á sama tíma eru opinberir aðilar, og fleiri, að hneykslast á því að útflutningsfyrirtæki flytji ekki allan gjaldeyri sinn strax heim, enda er sárt fyrir almenning að þola slíkt brask fyrirtækja).
Þetta er ekki jafnræði milli einstaklinga og fyrirtækja, þ.e. milli einstaklinga sem eru launþegar og einstaklinga sem eiga útflutningsfyrirtækin. Er það réttlátt?

Á ofangreindan rakalista hjá mér um að lífeyrissjóðsiðgjöld eru í reynd ekki að fullu eign launþeganna, heldur skattheimta ríkisins, má einnig bæta eftirfarandi atriðum:

Á meira en 20 undanförnum árum hefur svokallað mótframlag atvinnurekenda hækkað úr 6% í 8% af launum launþega, og munar um minna, þannig að að viðbættu iðgjaldi launþega, 4%, eru mánaðarleg lífeyrissjóðsiðgjöld nú alls 12% af launum.
Einnig er athyglivert að áður hét mótframlagið launaskattur!

Í kjarasamningum launþega og atvinnurekenda hefur hækkun mótframlags atvinnurekenda gjarnan verið liður í launahækkunum þannig að vegna hækkunar á mótframlaginu virðast launþegasamtök hafa fallist á að bein laun hækkuðu þá minna en ella.
Þetta er sýndar-launahækkun, sem skilar sér seint og illa, ef nokkurn tímann, til launþeganna sjálfra. Þegar þannig er í pottinn búið eru lífeyrisjóðsgjöld í formi mótframlags atvinnurekenda fyrst og fremst hækkun ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða, sem þar með hafa úr meiru að spila til fjárfestinga. Fyrir hverja? Að vísu að hluta til lána til sjóðsfélaga, en að öðrum hluta til fjárfestinga í atvinnulífinu (sem að vísu gagnast launþegum í formi meiri atvinnu og/eða hærri launa eða launaskriðs). Hvað verður síðan um lán sjóðanna til sjóðsfélaga? Þeir fjárfesta væntanlega að mestu í íbúðarhúsnæði, sem jú byggt er af atvinnurekundum og efnisaðföng til húsbygginga eru seld af atvinnurekendum. (Og allt í lagi með það út af fyrir sig).

Til viðbótar við mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð bætast við allt að um 2,18% af launum í formi ýmissa svokallaðra launatengdra gjalda eða atvinnurekendagjalda.
Heiti þeirra gjaldaliða bera með sér að eiga að vera í þágu launþega, þ.e. Sjúkrasjóður, Orlofsheimilasjóður, Starfsmenntasjóður, Endurhæfingarsjóður, Kjaramálagjald og Félagsheimilasjóður. Hver launþegi getur svo spurt sig að því að hve miklu leyti þessi gjöld, sem stofnað er til til að gagnast honum, skili sér í reynd til hans.

Alls geta því sparnaðar- og gjaldaliðir sem tengjast launum launþega, lífeyrisjóðsiðgjöld og launatengd gjöld, nú numið allt að a.m.k. 14,18%  (það er reyndar mismunandi eftir eðli rekstrar og lífeyrissjóðum hvaða launatengdu gjöld eiga við og geta þau verið lægri en umrædd 2,18% alls í samræmi við það).
Þetta er ekki svo lítill stofn fyrir "fjárfestingasjóð ríkisins og atvinnulífsins", sem ég nefndi svo hér ofar; 14,18% af launum landsmanna!

Ég endurtek síðan tillögu mína til ríkisstjórnarinnar, sem ég hef sett fram hér i öðrum bloggfærslum:

Veitið því fólki sem lagði viðbótar-lífeyrissparnað inn á erlenda ávöxtunarsjóði heimild til að taka hann allan út og flytja til landsins hið fyrsta. Það styrkir íslensku krónuna jafnframt því að gefa fólkinu kost á því að njóta hins háa kaupgengis við sölu gjaldeyris. Það léttir einnig lóði af vogarskál verðbóta og gengistaps lántakenda.
Er hið síðast nefnda ekki einmitt eitt af yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar til hjálpar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband