Færsluflokkur: Lífstíll

Andlegri getu opinberra starfsmanna hrakar - í Bretlandi

Takið eftir því að niðurstaða umræddrar rannsóknar um að andlegri getu fólks hraki eftir fertugt á einungis við um opinbera starfsmenn. 
Fram kemur að rannsóknin hafi einungis tekið til opinberra starfsmanna en ekki annarra, svo sem hugsandi fólks í lífsbaráttu, frumkvöðla, einstaklinga með eiginn rekstur, verktaka og fólk almennt í einkageiranum sem er ennþá meirihluti starfandi fólks í þjóðfélaginu, listamenn og aðra hugvitsmenn sem þurfa að beita hugarafli sínu sér til uppihalds og til að komast af.

Af rannsókninni er ekki hægt að álykta að öðrum en opinberum starfsmönnum hraki andlega með hækkandi aldri  eftir fertugt. Til þess þarf meiri rannsóknir.

Hitt er annað að aðrar rannsóknir hafa leitt líkur að því að eitt af því mikilvægasta sem hægt sé að gera til að seinka "eðlilegri" ellihrörnun (aldraðs) fólks andlega séð sé að halda huga þess sem mest  uppteknum, t.d. með samtölum og upprifjun gamalla minninga með fjölskyldunni og hvers kyns andlegri iðju og fyrirhöfn.

Ef til vill vantar eitthvað á að huga opinberra starfsmanna í Bretlandi sé séð fyrir nægilega mikilli iðju og hugarstarfsemi við þau störf sem þeir eiga að sinna fyrir þjóðfélagið; Að það gæti e.t.v. verið hluti skýringar á báglegu ástandi starfsmannanna.

Eðlileg spurning er þá hvort þessi kvilli fyrirfinnist meðal opinberra starfsmanna í fleiri löndum þar sem þannig kann að hátta til.
Gæti t.d. aðgerðaleysi, sinnuleysi og þögn opinberra starfsmanna varðandi skilgreind hlutverk sín, þar sem slíkt kemur í ljós, verið vísbending um það? 


mbl.is Andlegri getu hrakar eftir fertugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með skemmtigarðinn

Aðstandendur nýja skemmtigarðsins í Smáralind eiga heiður skilið fyrir framtak sitt til að lyfta íslenskum almenningi upp úr grámósku hversdagsins á léttara plan, eins og þau hafa leitast við að gera með úti-skemmtigarðinum í Grafarvogi. Þessi upplyfting þeirra er Grettistak í þessum efnum þar sem hugsýn, frumleiki, frumkvæði, áræðni og athafnasemi  fara vel saman.

Til hamingju með skemmtigarðinn! 


mbl.is Skemmtigarðurinn opnaður á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýtur að vera skáldskapur

Meðfylgjandi myndir sem sagðar eru teknar í nánasta umhverfi Hafnarfjarðar gætu (ó)hreinlega verið uppspuni Hafnfirðingum til hnjóðs; Svo ömurlegan vitnisburð sýna þær um umgengni íbúa staðarins (og e.t.v. annarra) við sitt nánasta umhverfi í náttúrunni. Er þetta ekki aprílgabb?

Ef þetta er raunverulegur sannleikur og sóðaskapur en ekki skáldskapur vantar einhvern jákvæðan þátt í umgengnisvenjur þeirra sem þarna sóða til og menga og ekki síður eftirlitsþátt í fegrunardeild bæjarins.

Hafnarfjörður er fagur staður frá náttúrunnar hendi, en allir mengandi staðir og umgengniskæruleysi breiða yfir og fela þá fegurð og svína út sómakæra íbúa, sem eru ómeðvitaðir um slíkt athæfi eða andæfa því, með ómaklegum hætti.

Nú þegar hljóta stjórnendur bæjarins að vera búnir að senda mannskap til að þrífa til og uppfræða íbúana um til hvers sorphirðudeilir bæjarins eru.


mbl.is Yfirgengilegur sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með samhygð eflumst

Hjartanlegar samúðarkveðjur til aðstandenda fórnarlamba hryðjuverkanna í Noregi, frændþjóðar okkar Norðmanna og annarra sem eiga um sárt að binda.

"... góðmennskan og samhugurinn efla dáð." (úr Hugarstríð á Lífsins gangur (KSJ03 CD), 2008).

Mínar hugheilu kveðjur með Hughreystingu í Talandi tónum (sbr. instrumental lag mitt hér á spilaranum mínum).


mbl.is „Fátt hefur komið verr við mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænt Prentmet

Til hamingju Prentmet og starfsfólk með merkið til staðfestingar á umhverfisvænum viðhorfum ykkar.

Það var í stíl við leiftursnögg viðbrögð ykkar við að þjónusta viðskiptavini með hagstæðum og góðum árangri að einhenda ykkur í að öðlast Svansmerkið. Þessu ber að fagna.


mbl.is Prentmet fær Svansvottun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhersluþrenning fyrir árangursríkt nám

Mín reynsla er sú að þegar þrenns konar áherslur fara saman í góðu og viðeigandi jafnvægi við nám þá er árangurinn vís í samræmi við það. Þessi þarfa "þrenning" er eftirfarandi:

Agi og viðvarandi gott skipulag við námsvinnuna, góð og skemmtileg hreyfing og útivist þar sem reynt er á líkamann og honum jafnframt við haldið með hollu mataræði, og þátttaka í góðu og skemmtilegu félagslífi af einhverju tagi í nánu og samstiga nærsamfélagi. Þegar öllum þessum þáttum er sinnt í góðu og "heiðarlegu" jafnvægi, daglega og vikulega, verða þeir allir skemmtilegir og tilhlökkun að koma að næsta þætti hverju sinni til skiptis. Þá verður námið ekki leiðinlegt og þreytandi.

Forsendur fyrir þessari áhersluþrenningu til árangursríks náms og innihaldsríks lífs meðan á námi stendur eru ríkulega til staðar að Bifröst í Borgarfirði. Öfundsvert er að stunda nám þar.


mbl.is Margir vilja nema á Bifröst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin díakóníska kirkja

Sr. Sigríður Guðmarsdóttir á heiður skilið fyrir það fordæmi og hugrekki sem hún sýnir með því að tjá hug sinn opinberlega um biskupa- og kirkjumálin sem nú eru efst á baugi og búin að vera að velkjast þar allt of lengi.

Ég held að kirkjunnar þjónum sé meðal annars hollt að minnast þeirra grundvallandi orða sem lögð voru í munn Jesú í Matteusarguðspjalli og sem kærleiksþjónusta kirkjunnar, hin díakóníska þjónusta, er grundvölluð á:

"Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín." (Mt 25.35-36).

Andspænis ofangreindum og meintum trúnaðarbresti innan kirkjunnar sem hér um ræðir þurfa prestar og aðrir að svara meðal annars eftirfarandi spurningu:

Hvernig verður trúverðugleiki kirkjunnar þjóna og kirkjunnar sjálfrar á til dæmis vettvangi kærleiksþjónustu best tryggður og varðveittur gagnvart skjólstæðingum kirkjunnar þannig að þeim hugnist að koma til hennar í trúnaði í leit að hjálp og huggun í framtíðinni?


mbl.is „Biskup þarf að segja af sér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju

Yfirskrift þessa pistils er undirtitill lokaritgerðar minnar í Cand.theol. námi, á sviði nýjatestamentisfræða, við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands (maí 2011), en yfirtitill hennar er:

"Túlkun á valentínsku upprunamýtunni og sálarlegum þáttum hennar í ljósi árangursfræða".

Eftirfarandi er ágrip af innihaldi ritgerðarinnar, sem er 70 bls. að lengd:

Ritgerðin er annars vegar greinargerð um tiltekið sjónarhorn á valentínsku upprunamýtuna þar sem aðaláherslan hvílir á sköpunarþætti hennar og útgeislunum guðdómsins í því sambandi, svokölluðum Fullnustufræðum (e. Pleromatology), sem og sálarlegum þáttum. Einnig er byggt á hugmyndum gnóstíkea um sjálfsþekkingu eða þekkingu, gnósis, sem var keppikefli þeirra að öðlast, en þeir héldu því einnig fram að þekking á guðdóminum væri leið manna til að öðlast endurlausn hér og nú.
Hins vegar er gerð grein fyrir grundvallaratriðum í svokölluðum árangursfræðum, sem áberandi eru í nútímanum, er snerta sjálf, meðvitund og undirmeðvitund mannsins og huglægan sköpunarmátt og sálfræðileg atriði í tengslum við það.
Í því sambandi eru hliðstæður greindar með valentínsku upprunamýtunni og kenningum í nútímanum um sjálf manna, þar sem meðal annars er komið inn á aðferðir árangursfræða. Sérstaklega eru túlkanir þeirra og forsendur um huglægan sköpunarmátt og „beitingu“ hans við sköpun bornar saman.
Ekki er reynt að færa rök fyrir sanngildi túlkananna, eðli málsins samkvæmt, heldur að draga fram rök fyrir því að varðandi túlkun á sjálfum sköpunarmættinum sé um sambærilegt fyrirbæri að ræða sem byggi á hliðstæðum grunni, enda hafa viðkomandi höfundar litið á hann sem guðlegan sköpunarkraft og andlegt lögmál.
Varðandi árangursfræði er fjallað um hvernig umræddur huglægi sköpunarmáttur tengist og felist í sjálfsþekkingu manna og beitingu þeirrar þekkingar til að ná bættum alhliða árangri í lífi sínu út frá persónulegum markmiðum. Fjallað er um hvernig sú vegferð tengist viðleitni manna til að öðlast sjálfsstjórn og tileinka sér betri lífsstíl, líkt og stóíkear og fleiri skólar kenndu til forna, en fræðimenn hafa sýnt fram á hvernig mýtan hefur verið notuð sem tæki í þeim tilgangi.
Hliðstæður varðandi sálarlega þætti í þessu sambandi eru greindar milli hinnar fornu mýtu og árangursfræða nútímans í ljósi þeirra kenninga sem í þeim felast um guðlegan og huglægan sköpunarmátt.

(Höfundur útskrifaðist með lærdómstitilinn Cand.theol. til embættisprófs, þ. 11. júní 2011).


Við ætlum að vinna

Eitt sinn hugleiddi ég það í sambandi við þátttöku íslenska handboltaliðsins í fjölþjóðlegri keppni í Evrópu að ekki væri nóg að ætla að "gera sitt besta", eins og tönnlast er á í vinsælu lagi.
Slík yfirlýsing felur nefnilega einnig í sér afsökun fyrir tapi ef illa fer.

Það sem þarf til að höndla réttan og markvissan vinningsanda og -vilja er einbeittur ásetningur um að vinna sigra. Menn þurfa því að gera það upp við sig og setja sér það mark að ætla að vinna, en ekki "bara" að "gera sitt besta". Slíkt viðhorf á náttúrulega við um hvaða fyrirtæki, uppátæki eða áætlun sem er. Hér er hins vegar ekki verið að viðra hroka.
Þessar pælingar urðu mér að yrkisefni og gerði ég texta við eigið lag um baráttuanda liðsheildar eins og íslenska handboltaliðsins í keppni eins og HM.

"Einka"-útgáfu af laginu er að finna hér á tónlistarspilaranum mínum.
Nafn þess er að sjálfsögðu "Við ætlum að vinna", en það er einnig að finna í sömu útsetningu á rafrænni útgáfu af "plötu" minni Lífsins gangur, sem ég setti á gogoyoko-tónlistarvefinn 2009.

Slóðin á lagasafn mitt á gogoyoko er hér:

http://www.gogoyoko.com/#/artist/KrisJons

Við landslið okkar í handbolta segi ég: Til hamingju með sigrana og baráttuandann. Sú kveðja nær einnig til fjölskyldna þeirra og vina sem að baki búa!


mbl.is Ekkert annað en sigur gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallræða sr. Gunnars

Frábært uppátæki hjá sr. Gunnari Kristjánssyni að brydda upp á þessari nýjung í Esjuhlíðum.

Ég er illa svikinn ef hann hefur ekki komið inn á upplífgandi sæluboð Fjallræðunnar í ræðu sinni þar. Oft var þörf en nú er nauðsyn, á þessum dögum þar sem margir telja sig sjá lítið annað í lífi sínu en pínu og píslir, reyk og eimyrju. Fólk þarf því að leggja rækt við að lifa fremur en að líða.
Ekki var þó "dökka díla" að sjá í náttúruferskri Mývatnssveitinni í dag, eftir fréttum að dæma, þar sem fólk á "píslargöngu" og væntanlega í minningu frelsara síns baðaði sig í kyrrðinni og rónni í Guðs hvítri snjóupplýstri náttúrunni.

Veðurbarinn hópurinn fáliðaði sem hlýddi á fjallræðu sr. Gunnars í dag hefur greinilega haft meiri áhuga á því sem þar kom úr því efra og frá Reynivöllum heldur en því sem kemur úr því neðra í suðurhálsum!


mbl.is Messaði við Esju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband