Færsluflokkur: Lífstíll

Engin píslarganga

Þetta er vonandi engin píslarganga hjá fólkinu á þessum yndislega stað, að ganga úti í Guðs hvítri náttúrunni í kyrrð og ró; Hver með sjálfum sér og því sem býr hið innra og í góðu samfélagi hið ytra.
Og, hvergi sér á "dökkan díl"! Píslir og pína eru sem betur fer foknar út í veður og vind - og koma ekki aftur nema opnað sé fyrir þeim í huganum eða annars staðar.
Það er eins og vera ber.

Betra er að tileinka sér það viðhorf á lífsins gangi að lifa fremur en að líða, sbr. pistil minn um það fyrr í dag.


mbl.is Píslarganga við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifa fremur en líða

sr. Friðrik J. Bergmann (1858-1918) flutti brott af Íslandi 1875 til Bandaríkjanna þá 17 ára og lagði þar stund á guðfræði og einnig, eftir tveggja ára hlé, í "Kristjaníu" (Osló) Noregi 1883-85. Vann hann í millitíðinni fyrir farar- og dvalareyri sínum sjálfur eins og dugmikilla Íslendinga var enn siður einni öld síðar að því er sumarvinnu varðar.
Aðhylltist hann svokallaða frjálslynda guðfræði sem þá var víða að ryðja sér til rúms og koma í stað 17. aldar rétttrúnaðar sem þá var enn ríkjandi víða og byggði á gamalli guðfræði. Friðrik var sílesandi eftir því sem honum vannst tími til og lagði áherslu á að afla sér sem mestrar þekkingar á trú, trúmálum og guðfræði. Varð hann prestur og kennari meðal Vestur-Íslendinga í Bandaríkjunum en síðan í Winnipeg í Kanada. Hann átti þar viðburðaríkan starfsferil og lenti m.a. í trúfræðideilum við suma samlanda sína sem fyrir voru og aðhylltust rígfasta bókstafstrú. Greinir hann frá þessum og fleiri málum í bók sinni Trú og þekking (Reykjavík, 1916).

Friðrik kom í heimsókn til Íslands 1899 og fór víða til að fræðast um hagi landsmanna, m.a. í trúmálum, og skoðaði land og lýð með augum guðfræðingsins. Hann gerir um það athugasemd í bók sinni Ísland um aldamótin (Reykjavík, 1901) að kristindómurinn á Íslandi hafi lagt áherslu á þjáninguna, að líða fremur en að lifa. Þótti honum það mjög miður. Bendir hann á að liður í að viðhalda þeirri áherslu hafi einmitt verið Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar. Þar hafi sálmaskáldið góða hins vegar einbeitt sér að "einni viku í lífi frelsarans", þ.e. píslarsögunni samkvæmt guðspjöllum Nýja testamentisins, en ekki að öllu lífi hans og starfi!

Þetta finnst mér afar athygliverð athugasemd hjá Friðriki og vert að íhuga vandlega í dag. Við erum hér til að lifa lífinu hér og nú og í framtíðinni eins og okkur endist aldur til, sjálfum okkur og öðrum til uppbyggingar og blessunar. Það er gott ef við megnum að skilja eftir okkur spor sem eftirlifendur okkar og afkomendur geta glaðst yfir og þakkað okkur fyrir, ánægðir með samfylgdina. Þá höfum við lifað vel hvað það varðar. Þess vegna er það mikilvægt að beina augum sínum að lífinu og hvernig við getum lifað því sem best í því ljósi. Lifa í anda þess hvað beri að gera.

Í því sambandi eru jákvæðar leiðbeiningar um hvernig lifa ber lífinu í þeim tilgangi uppbyggilegri en neikvæðar hugrenningar um eilífar þjáningar, syndir og skammir sem henta til að brjóta niður sálarþrek þess sem á hlustar og hneppa í sektarfjötra.

Hvar er þá jákvæða leiðsögn að finna í kristindóminum um hvernig lifa á lífinu?, kann einhver að spyrja.
Þar má benda til dæmis á hina einföldu Gullnu reglu sem inniheldur öll þau sannindi sem eru lykillinn að friðsömu og kærleiksríku samfélagi ef eftir henni væri farið í reynd. Þessi sama regla er ennfremur megininntak annarra stórra heimstrúarbragða.

Og, í stað þrumandi þjáningarorða um synd, pínu og fórnardauða væri líklega meira upplífgandi og leiðbeinandi að hlusta á sæluboð hins lifandi frelsara og fræðara, sem honum eru lögð í munn og sagt er frá í svokallaðri Fjallræðu. Þessi boð má t.d. túlka á eftirfarandi hátt:

Sælir eru hógværir, hjartahreinir, friðflytjendur og miskunnsamir,  þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því þeirra laun eru mikil blessun sem sérstaklega þeir sjálfir finna fyrir við sína góðu breytni og fylgir þeim eilíflega.
Þá þurfa heldur ekki þeir að örvænta sem eru "fátækir í anda", þeir sem syrgja, þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, né þeir sem eru smánaðir og ofsóttir eða bornir upplognum sökum vegna sannfæringar sinnar eða annars, því þeim veitist andleg upplyfting og friður í hjarta við skilning á ríki Guðs hið innra, og styrkur og hughreysting frá kærleiksríku samferðafólki á lífsins gangi sem þannig hlýðir guðlegu kalli hið innra og eru samverkamenn Guðs á jörðu við að hugsa um náunga sinn eins og sjálfa sig.


mbl.is Passíusálmar lesnir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skima frekar eftir reykingum

Ég er ekki frá því að fyrr ætti að ráðast með harkalegum hætti gegn reykingum fólks heldur en eyða fjármunum í svona skimun sem vísbendingar eru um að ekki gagnast sem skyldi, nema þeim sem selja slíka þjónustu.

Bæði er þörf á sterkum áróðri og upplýsingamiðlun gegn reykingum og öflugu forvarnarstarfi gegn því að börn, unglingar og aðrir hefji reykingar. Fremur bæri því að skima eftir því hvar reykingar eru stundaðar og bregðast við með viðeigandi hætti.

Reykingar eru almennasti sjúkdómsvaldur sem um getur, enda ekki nema von þar sem í tóbaki finnast á fjórða þúsund eða um 4000 eiturefni. Um 4000!

Ef fólk hugsar sig vandlega um þá ætti það að svara eftirfarandi spurningu, hver fyrir sig:

"Vil ég anda að mér banvænum og hægdrepandi eiturefnum af fúsum og frjálsum vilja, oft á dag?" Eiturefnum, sem eru einn helsti sjúkdómsvaki af hvers kyns tagi, svo sem lungnasjúkdóma, blóð- og æðasjúkdóma, taugasjúkdóma, geðröskunarsjúkdóma, krabbameins og margra fleiri sjúkdóma. - Hvað getur þú nefnt til viðbótar? - Að ekki sé minnst á kostnaðinn og lífshættulega mengunina fyrir aðra en bara sjálfan reykjandann.

Einn óbeinn "kostur" við reykingar eru þó sá að hann styrkir framleiðendur og seljendur tóbaks fjárhagslega. Væri samt þeirri fjárhagsaðstoð ekki betur varið til góðgerðarsamtaka, eða bara fjölskyldunnar sjálfrar. Ekki veitir henni og "náunganum" í samfélaginu af stuðningi. Tóbaksframleiðendur eiga nú þegar digra sjóði eftir dyggan stuðning fórnarlamba sinna, reykingaþrælanna og -fiktaranna, lífs og liðinna gegnum árin.

Því hefur verið haldið fram að helsta og öflugasta og almennasta atriðið til þess að skera niður kostnað í heilbrigðiskerfi lands til lengri tíma litið sé að stemma stigu við reykingum fólks og stuðla að minnkun þeirra. Í kjölfarið minnkar afleiddur kostnaður vegna hvers kyns krankleika fólks af völdum reykinga.
Þeim fjármunum sem þannig sparast væri betur varið til annarra hluta, t.d. lækninga og meðferðar á "óumbeðnum" sjúkdómum og öðrum aðkallandi heilsufars- og þjónustumálum.


mbl.is Skimun fyrir blöðruhálskrabba sætir gagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunarhringur Ólafs Ragnars Grímssonar forseta

Ólafi Ragnari Grímssyni hefur verið réttur björgunarhringur sem honum veitist til að rétta hlut sinn frammi fyrir hneykslaðri þjóðinni, vonsviknum aðdáendum og kjósendum, og glaðhlakkalegum fjandmönnum og úrtöluliði.

Sá björgunarhringur felst í hlutverki hans sem forseta með því að neita að skrifa undir Icesave-lögin sem flestir úr stjórnarflokkunum samþykktu þ. 30.12.2009, þeim örlagaþrungna degi. Með því uppfyllir hann óskir og vilja meirihluta þjóðarinnar, ef marka má niðurstöður skoðanakannana nýverið, um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá meirihluti Þjóðarinnar óskar eftir því að fá að segja álit sitt á málinu með þeim hætti. Það þykir liður í viðleitni til eflingar á lýðræði landsins og minnkun á óþolandi þöggun í þjóðfélaginu.

Í ljósi forsögunnar á ferli Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti mun þessi björgunarhringur vera líklegur til þess að brúa gjána sem myndaðist milli hans og þjóðarinnar við afhjúpun á innistæðulausum "sigrum" banka- og fjármálaforkólfa sem við fjárglæfraiðju sína höfðu sólundað reiðufé innistæðueigenda, sem treystu þeim fyrir fé sínu, í skjóli svokallaðs eftirlitsnets embættis- og ráðamanna sem reyndist harla götótt.

Ef Ólafur Ragnar Grímsson nýtir sér ekki þennan björgunarhring sem í því felst að neita að undirrita Icesave-lögin er augljóst að hann yrði ekki lengur glæsilegur forseti meiri hluta þjóðarinnar eins og áður var, þess meirihluta í ofangreindum skoðanakönnunum sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þá yrði væntanlega fokið í flest skjól og ekki landsýn.


mbl.is Forseti tekur sér frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímyndaðu þér!

Friðarsúlan sem Yoko Ono ásamt öðrum gekkst fyrir að reist yrði í Viðey til minningar um friðarbaráttu-skáldið og -aðgerðasinnann John Lennon, sem var í hljómsveit allra tíma, The Beatles, er stórkostlegt uppátæki.
Nú þegar dimma tekur að hausti er það tilhlökkunarefni að kveikt er á henni. Þá má sjá bjarma af henni þar sem bláhvítir ljósgeislarnir teygja sig upp til himins eins og í hljóðri beinskeyttri bæn. Ekki skiptir máli hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu, hún sést alls staðar að. Það er snilldin við gerð hennar, samanborið við hefðbundnar steinstyttur á stalli sem enginn sér nema fara á staðinn. Enginn kemst hins vegar hjá því að taka eftir friðarsúlunni.

Allir borgarbúar og aðrir í margra kílómetra radíus sjá hana oft á dag og kveldi þegar kveikt er á henni. Hvað skyldi þeim þá detta í hug? Eitthvað um Lennon? Einhver hending úr lögum hans? “Imagine”? Eitthvað um friðarboðskap hans?
“Já, þarna er friðarsúlan hans Lennons!”
Í hvert sinn, mörg hundruð þúsund sinnum alls á dag eða oftar, kviknar þá væntanlega jákvæð hugsun um frið eða gleðjandi laglínu sem hefur þann magnaða kraft að koma manni í betra skap og til að bæta heiminn. Gleyma stund og stað, skammdeginu, nokkur augnablik. Ímyndaðu þér!

Á undraverðan hátt skapar ljóssúlan borginni okkar einhvern veginn fyllingu og rými, festu og festingu sem maður greindi ekki fyrr. Tengingu við himinn og heim, sem tengir okkur um leið og fyllir friðsæld. Með öflugum sprota sínum rýfur hún einangrunina hér norður í Atlantshafi og kveikir bjartar og hlýjar tilfinningar með von um friðsamlegri og betri heim, fjær og nær, og bendir á að við erum ekki ein. Ímyndaðu þér! – Takk fyrir friðarsúluna!

Ég bið konur og ég bið menn
og allar þjóðir skilja,
að klikkuð stríð má kæfa enn
með kærleika og vilja.

Hin nærtæka, en að því er virðist erfiða, aðferð við það gæti verið eftirfarandi:

Gefið grið
og græðið kalið hjarta.
Við viljum frið
og von um framtíð bjarta
.

         (Höf: Kristinn Snævar Jónsson.
         Úr textanum "Við viljum frið" á plötunni "Lífsins gangur", á gogoyoko.com)
 

Pistill þessi birtist í Morgunblaðinu 12. október 2008, s. 36, en hér með nokkrum einkunnarorðum til viðbótar um hugvekjandann John Lennon.


mbl.is Leyfi frá almættinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn veit

...hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Höldum því friðinn!

Öfund né við illskuþrætu
okkar gjörðir miðum.
Stríð þá aldrei staðið gætu
stór né smá í sniðum.
. . .
Ég bið konur og ég bið menn
og allar þjóðir skilja:
Klikkuð stríð má kæfa enn
með kærleika og vilja.
          (Kristinn Snævar Jónsson; úr textum á plötunni "Lífsins gangur" (C) )

Lifi fagnaðarerindi John Lennon við áheyrendur sína um kærleika og frið: "All you need is love"; .."living life in peace".


mbl.is Yoko Ono blæs til tónleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofsvert framtak

Þetta lýsir framsýnni uppbyggingarstefnu í framkvæmd. Þökk sé aðstandendunum.

Svona aðgerðir eru vel til þess fallnar að byggja upp vistvæn gildi hjá upprennandi kynslóðum landsins og vekja hjá þeim tilfinningar fyrir verðmæti þess sem slíku, þar á meðal ósnortinni náttúru, og nauðsyn á þess háttar umgengni um það sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Ekki veitir af því.
Það er þó ekki síður gott sjálfra þeirra vegna persónulega, að þau öðlist slíka reynslu og þekkingu við eigin skynjun fremur en bara af afspurn.

- Eða, eins og ég orti í texta við lagið "Landið sem lengi var" á plötunni minni Kveikjur (sbr. afrit í tónspilaranum á bloggsíðunni minni):

"Þá börnunum okkar við bjóðum stað,
þar sem bergmálar aldanna kyrrð.
Þeim ómetanlegt er að upplifa það,
sem ósnortið kom úr ára firð."

Lifið heil!


mbl.is Vaxandi vinsældir náttúrulegra leiksvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútímalíf eftir dauðann

Það er nú ekki nýtt að menn lifi eftir dauða sinn, reyndar með ýmsum hætti, og ætti fólki að detta í hug nærtæk dæmi. Orð og gjörðir genginna manna geta lengi lifað með eftirlifandi fólki og þeim sem á eftir koma. Hitt er sjaldgæfara að hinir dánu líkamnist fyrir augum lifandi manna;

Vonandi og væntanlega verður snjöllum fréttariturum nútímans ekki skotaskuld úr því að komast að hinu sanna í málinu um poppgoðið Jackson og draga upp mynd af því sem trúa má, svo að áhugasamir fái vísbendingar um hvort þeir geti haldið áfram að hneykslast á lifandi goði eða tigna horfið goð.


mbl.is Jackson lifandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stemning í Skrúði og Dýrafirði

Skrúður er dásamlegur garður í mögnuðu umhverfi. Ég mæli eindregið með að ferðafólk geri lykkju á leið sína um Dýrafjörð og keyri út að Núpi, þar sem garðurinn er. Þarna eru ótrúlega margar plöntur, tré, runnar og blóm í öllum regnbogans litum. Þarna hefur verið vel hirt og nostrað við hlutina. Ekkert er sambærilegt við það að setjast niður í svona umhverfi og láta hugann reika á glöðum sumardegi innan um gróðurinn og ilminn. Þarna öðlast maður kærkomna hvíld frá glímunni við þjóðveginn, þótt ekki sé dokað lengi við.

Þá er stutt í yndislega mýrina neðan við gamla skólastjórabústaðinn að Núpi. Þar er hægt að ganga um vegarslóða, talsverðan spotta, niður í fjöru og inn að ós litlu árinnar sem þar rennur í sjóinn. (Umferð er að vísu takmörkuð yfir varptímann). Á þeirri gönguferð skiptir litlu máli hvernig veðrið er ef maður er viðeigandi klæddur. Gróðurilmurinn allsstaðar, villt blómin bærast fyrir golunni innan um puntstráin og hápunkturinn er þegar spói vellir sjóðbullandi í fjarska úti í mýrinni.

Ef farið er enn utar með ströndinni, og ekki skeytt um slæma færð, er komið í Arnarnes. Þar er nánast dulmagnað svæði, skáhallt á móti Haukadal sem er hinum megin við fjörðinn, þar sem meginvettvangur Gísla sögu Súrssonar er. Fjaran við Arnarnes er fjölskrúðug og römm. Þögult umhverfið og fallin mannvirki vitna um fyrri tíma. Ofan við rísa ógnvekjandi, þverhníptir hamrarnir.

Ef komið er við á Þingeyri er upplagt að skreppa út með ströndinni í Haukadal og ganga þar um og dálítið upp í dalinn um kindatroðninga. Það er einkar áhrifaríkt að virða fyrir sér staðháttu, hafa bókina um Gísla sögu Súrssonar meðferðis og lesa yfir kafla þar sem staðháttum er lýst og þannig nánast upplifa söguna með sögusviðið ljóslifandi fyrir augum sér. Mannlýsingar sögunnar eru krydd á dvölina þarna og fá dalinn til að lifna við. Þarna sést hóllinn þar sem bærinn stóð forðum, samkvæmt sögunni, hlíðarnar sem kotin stóðu á og seftjörnin ofan við fjöruna sem einnig er minnst á. Magnað! Þótt deila megi um sannleiksgildi sögunnar eru staðháttalýsingarnar í henni í samræmi við raunveruleikann. - Þarna er líka stutt í skemmtilegan golfvöll! Góða ferð!


mbl.is Garðurinn Skrúður í Dýrafirði 100 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband