Færsluflokkur: Lífstíll

Landið sem lengi var

Ómar Ragnarsson bendir á það á bloggsíðu sinni í sambandi við óvarkárt bruðl á náttúruauðlindum að við skulum ekki gleyma því að við höfum aðeins eina jörð.

Hegðun þjóða heims í þeim efnum gæti þó fremur bent til að litið væri á auðlindirnar sem óþrjótandi.

Það er hins vegar sannarlega svo að við höfum aðeins þessa einu undursamlegu Jörð til að lifa á og af.  Þó hefur hún bókstaflega verið fótum troðin og aldrei eins og nú, af um fjórtán milljörðum fótum manna sem fer enn ört fjölgandi. Þá eru ótaldir fætur dýranna og landnýtingarvélar og farartæki mannanna og síétandi munnar milljarða manna og dýra. Þetta getur ekki gengið til langframa með sama hætti og hingað til.

Vandamálin sem blasa við eru þverrandi auðlindir sem nauðsynlegar eru mannkyni (og dýrum) til lífsviðurværis, landeyðing og mengun lífrýmisins á landi, í lofti og höfum. Þessu veldur, eðli málsins samkvæmt, sívaxandi mannfjöldi og nánast stjórnlaus mannfjölgun og ósjálfbærir lifnaðarhættir og rányrkja.
Skýrsla Rómarklúbbsins svonefnda frá 1972, sem fram kemur í bókinni The Limits to Growth (Meadows o.fl.; Hjá Gyldendal 1974 Grænser for vækst) olli ýmsum “léttu” sjokki á sínum tíma, þar á meðal mér sem ásamt fleiru hefur haft varanleg áhrif á mig í þessum efnum.
Það var ekki síst vegna þess að í kjölfar hennar skall á svokölluð “olíukreppa” í Evrópu 1973 vegna tímabundinnar minnkunar á framboði á olíu meðal OPEC-ríkjanna sem vildu fá meira fyrir sinn snúð. Þá varð t.d. í Danmörku að grípa til skömmtunar á olíu og bensíni og takmörkunar á raforkunotkun. Á Íslandi varð fólk að vísu ekki mikið vart við þetta ástand vegna þess að olía rann þangað óhindrað annars staðar frá (Rússlandi) eftir sem áður.
Ég var þá við nám í Kaupmannahöfn á þessum tíma og þar var olía til húshitunar skömmtuð veturinn 1973-‘74 og sömuleiðis eldsneyti á bíla. Íbúðir voru því án miðstöðvarhitunar meirihluta vikunnar og einungis kalt vatn úr krönum og sturtum samhliða því og rafmagn þurfti að spara eins og mögulegt var.
Þetta ástand sýndi “svart á hvítu”, beint í æð, hvers gæti verið að vænta er auðlindir eins og olía væru raunverulega orðnar af skornum skammti.

Árið 1998 gaf ég út plötuna Kveikjur (CD) með eigin efni flutt af “landsliði” tónlistarmanna, sem inniheldur m.a. nokkur lög með textum með náttúrulegum hugvekjum, en þá stóðu deilur um fyrirhugaða Eyjabakkavirkjun sem hæst og vildi ég með þessum hætti leggja lóð á vogarskálar. Þar á meðal er lagið “Landið sem lengi var”, þar sem varpað er fram nokkrum “sviðsmyndum” um þessi efni. Hægt er að hlusta á það hér í spilaranum mínum.

Textinn við lagið er eftirfarandi:

 

Landið sem lengi var

Kveikjur 1998. © Höf. Kristinn Snævar Jónsson)

 

Hve yndisleg sýnir sig okkar Jörð,

þar sem ósnortin náttúran rís.

Um árþúsundir hafa erjað svörð:

Eldur, vatn, vindur og ís.

 

Og fallega hefur svo flóran klætt

fjöll og merkur í snilldarlegt skrúð.

En öllu þessu er orðið mjög hætt,

ef ekki er betur að hlúð.

 

(Viðlag):

 

Því landið, sem svo lengi var;

laust við mannanna umrót og þrengingar.

Það er svo viðkvæmt og auðveld bráð;

öllu umturnað verður ef ekki - að er gáð.

 

Grandað er lífi, af gróðri sneitt,

og geigvænleg mengun er leyfð.

Rist er í jörð og regnskógum eytt,

við rányrkju spornað með deyfð.

 

(Viðlag)

 

Þá börnunum okkar við bjóðum stað,

þar sem bergmálar aldanna kyrrð.

Þeim ómetanlegt er að upplifa það,

sem ósnortið kom úr ára firð.


mbl.is Galið að eyða helíum í partíblöðrur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænar prédikanir

Það er hið besta mál hjá sr. Pálma Matthíassyni að lesa prédikanir sínar beint af spjaldtölvu í stað þess að prenta þær út á pappír til aflestrar. Það eru umhverfisvænar prédikanir að formi til. Það er til fyrirmyndar og eftirbreytni almennt.

Ekki síður skiptir það þó máli hvað um er rætt í prédikunum og hvað söfnuðinum er boðað. Vonandi er það allt umhverfisvænt og heilsusamlegt fyrir áheyrendur, bæði andlega og efnislega velferð þeirra, þeim til hjálpar, fyrirmyndar og eftirbreytni. Ekki fara sögur af prédikunarefni í viðhangandi frétt, en ekki er ástæða til að ætla annað en að það sé í uppbyggilegum anda og víðsýni.


mbl.is iPadinn gagnlegur í guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlátara greiðsluþátttökukerfi fyrir lyfjakostnað sjúkratryggðra

Þetta er löngu tímabær lagabreyting til hins betra varðandi greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði sjúkratryggðra, sem hér er fjallað um í örstuttri viðhangandi frétt.

Hið nýja fyrirkomulag, sem taka á gildi í maí n.k., leiðir til réttlátara niðurgreiðslukerfis fyrir lyf. Dregur það dám af t.d. greiðsluþátttökukerfinu í Danmörku, en reynslan af því er löng og góð.

Í gamla kerfinu var sjúklingum mismunað eftir sjúkdómum sem er fyrir neðan allar hellur.

Sjá má hvernig nýja kerfið virkar að því er varðar skiptingu lyfjakostnaðar milli sjúkratryggðra einstaklinga og Sjúkratrygginga Íslands á t.d. vefsíðu Lyfjavers (sbr. almennar upplýsingar á http://www.lyfjaver.is/greiðsluþátttökukerfi og reiknivél fyrir útreikning dæma um framvindu lyfjakostnaðar yfir árið á http://www.lyfjaver.is/reiknivel/greidsluthatttaka/reiknivel ).

Einnig má sjá dæmi um skiptingu lyfjakostnaðar milli aðila í nýja kerfinu á vef Sjúkratrygginga Íslands, sbr. http://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/lyf/nytt-greidsluthatttokukerfi-vegna-lyfja-i-vaentanlegt/

 


mbl.is Greiðsluþátttöku lyfja breytt í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef svæði 101 væri rafmagnslaust?

Hver yrðu viðbrögð ráðamanna ef rafmagnslaust yrði eða slitrótt rafmagns- og símasamband væri í gamla miðbænum í Reykjavík og uppeftir Hverfisgötu þar sem megnið af stjórnarráðinu, þar með talið Alþingi, og lögreglustöðin eru? Og stutt í svæði miðstöðvar  almannavarna! Og í marga daga!

Þeir skyldu hugleiða það eins og þeir hafa getu til.

Fólk sem heldur landinu í byggð utan Reykjavíkur er jafn mikið fyrsta flokks eins og Reykvíkingar, ekki minna!

Landsbyggðarfólk, sem eru Íslendingar eins og Reykvíkingar og með sama stjórnarskrárvarða rétt eins og þeir,  eiga ekki skilið það öryggisleysi og óþægindi sem umrædd óáran í viðhangandi frétt felur í sér. 


mbl.is Bregðast verður við strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Forðum þú mig fóstraðir byggðin mín"

Þessi mynd af Húnavökuhátíð á Aðalgötunni á Blönduósi er líklega tekin af tröppum Sæmundsen-hússins þar sem bókabúð Þuríðar Sæmundsen var, þeirrar alúðlegu merkiskonu. Ég man enn lyktina þegar komið var inn í búðina fyrir jólin og allt angaði spennandi af nýjum bókum, dálítið öðru vísi en í bókabúðinni hjá Jóni Baldurs fyrir utan á. Kannske var það vegna vefnaðarvörunnar sem Þuríður verslaði einnig með í búðinni.
Handan götunnar gegnt Þuríðarbúð var svo gamla Samkomuhúsið, eins og það var kallað. Þar voru skemmtanir á Húnavöku haldnar forðum snemma að vori, leikrit, kórakvöld, kvenfélagsskemmtunin, bíó og böll, áður en Félagsheimilið komst í gagnið (um 1964). Í hléum hópaðist fólk út á götuna þarna á horninu til að fá frískt loft og spjalla saman, þar sem nú er grillað að sumri á Húnavöku í dag.
Það fer vel á því að sótt sé á gamlar slóðir í tengslum við þessa mikilvægu menningarhátíð Blönduósinga og nágrennis. Til hamingju með hátíðina Blönduósingar og nærsveitir.
(Yfirskrift pistilsins er tilvitnun í texta lagsins "Ég sé það nú" á plötunni Kveikjur eftir pistilhöfundinn, en það er óður til átthaganna). 

mbl.is Húnavakan er hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Paradís á Jörðu"

Ekki er að undra ásókn í námsdvöl að Bifröst. Þar er auðvelt að stilla saman þá þrjá þætti sem ég tel stuðla hvað mest að góðum námsárangri:

1) Námsaga með tilhlýðilegri örvun og hvatningu
2) líkamlega hreyfingu (ekki síst utanhúss) og
3) mannleg samskipti svo sem í félagslífi og samstarfi í nærsamfélaginu.

Þegar þetta þrennt fer saman í þeirri gleði, ánægju og sjálfseflingu sem kemur til við þetta að Bifröst kemur undursamlegur árangur í ljós þannig að nemandinn verður sem ný manneskja.
Komist hann á þetta stig mun hann  minnast námsdvalar sinnar að Bifröst sem upplifunar á nokkurs konar "paradís á Jörð". Ef ekki vegna þessa og annars, þá vegna umhverfisins.

Svo mælist hollvini.


mbl.is Mikil gróska í starfi Bifrastar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða ungs fólks til fyrirmyndar

Hér tekur ungt, hugsandi, þjóðhollt, ábyrgt og jákvætt fólk höndum saman um að efla samstöðu sína og meðal þjóðarinnar allrar um uppbyggilegar úrlausnir á þeim vandamálum sem við blasa og landsstjórnir undanfarinna ára hafa komið okkur í.

Þetta unga samstöðufólk hefur greinilega vaknað til meðvitundar um að þörf er á að taka til höndum í stjórnmálum á Íslandi á forsendum almennings og þjóðarhags með það fyrir augum að finna og greina lausnir sem eru til þess fallnar að rétta við hag almennings og þjóðarinnar allrar til lengri tíma litið, en ekki einvörðungu að grípa til skammtímalausna sem hygla tilteknum hópi á kostnað heildarinnar eða viðhalda óréttlátum sérréttindum til langframa.

Þetta unga fólk finnur, eins og aðrir sem fylkt hafa sér saman undir merkjum samstöðu, að óráð og miskunnarlaus sérhagsmunagæsla hinna gömlu stjórnmálaflokka og þeirra afla sem búa þeim að baki eins og púki á fjósbita og toga  þar í strengi, deilandi og drottnandi, hafa leitt þjóðina í miklar ógöngur.

Allir, sem vaknað hafa upp við þann vonda draum sem við stöndum nú frammi fyrir og upplifum í reynd enn sem hina verstu martröð, gera sér grein fyrir því að nú verður að taka upp nýja hugsun og grípa til nýrra úrræða með það að markmiði að efla kjör og hag allra og þar með þjóðarhag til lengri tíma litið.
Albert Einstein mælti af mikilli speki þegar hann benti á að það væri vitfirring að búast við breyttri útkomu ef áfram væru notaðar sömu gömlu aðferðirnar. 

Í þessu sambandi má benda á vandamál við afnám gjaldeyrishafta, en núverandi hefðbundin stefna í þeim málum felur í sér að almenningur greiði allan kostnað og byrðar vegna afleiðinga af henni.

Vonandi hefur almenningur á Íslandi ennþá lifandi hugsun og dómgreind til að gera sér grein fyrir þessu þannig að hann leggi af blinda trú á gömlu innantómu og innistæðulausu slagorðin hjá gömlu flokkunum.

Vonandi fer fólk almennt, eins og þetta unga samstöðufólk gerir, að taka sér tíma til að íhuga alvarlega hvað hefur raunverulega verið á seyði og í hvað stefnir að óbreyttu.


mbl.is Ungliðar mynda samtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinubruni hjá bændum í Borgarfirði

Nú brennur sina í Borgarfirði og leggur þykkan dauðmengandi reykjamökk upp eftir Norðurárdal í hægum andvara af suð-suðvestan.

Dimmir verulega í lofti og sést varla til sólar, sem skein glatt á heiðskírum himni áður en ófögnuðurinn gaus upp.

Ekki kemur fram í lélegri fréttinni hvort bændur hafi sjálfir kveikt ósómann eða hvort eldur hafi kviknað fyrir slysni.

Hafi þetta verið vísvitandi gert af bændum eru viðkomandi  varla með fullu viti og búnir að gleyma stórbrunanum í gróðri á Borgarfjarðarmýrum fyrir nokkrum árum. Einnig kæra þeir sig þá kollótta og sauðflekkótta um það að einmitt um helgar eru hinir fjölmörgu sumarbústaðir í hinum fagra Borgarfirði sneisafullir af fólki sem komið er langt að til að njóta paradísarinnar þar í sveit og súrefni; Hefði þá verið viti nær að brenna sinu ekki um helgar af tillitssemi við gestina.

Spurningin er: Kveiktu bændur umhverfismengandi og lífeyðandi ófriðarbálið af ásetningi?


mbl.is Sinueldur í Borgarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni kallar eftir samstöðu um þjóðarhagsmuni

Guðna Ágústssyni er mikið niðri fyrir og hann talar hátt og tæpitungulaust, sem "fyrrv. alþm. og ráðherra", í hugvekjandi pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, 16.2.2012 s. 19.
Með hárri raustu spámannsins þrumar Guðni, stórhneykslaður og af skiljanlegum ástæðum, yfir stjórnmálamönnum Íslands og almenningi öllum að lufsast til að "taka hendur úr vösum" og hætta að ala leti og ómennsku upp í unga fólkinu sem eftir er í landinu en hefjast frekar handa við raunhæfar aðgerðir.

Hann ryður brothættum stólum, borðum og skurðgoðum um koll og það gustar um sali. Að minnsta kosti sumir lesendur skilja vafalaust hvað hann er að hrópa um í eyðimörkinni. Það eru þeir sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra og eitthvað þar á milli og réttvísandi kompás sem vísar í segulnorðurátt en ekki upp á sker við Evrópu eða stjórnmálagrænar staðleysur utan mannheima.

Guðni sparkar m.a. í hornsúlur verðtryggingarkerfisins, er sé að hluta til við haldið af verkalýðshreyfingu í matadorleik, og skekur fílabeinsturna rangeygra prófessora er séu "gallaðir pólitískir doktorar" sem sjái ekkert nema ESB. Þá hneykslast Guðni á skattlagningaróðri ríkisstjórn er ætli sér að kippa samkeppnis-forsendum undan sjávarútveginum með þjóðnýtingu á honum.
Síðast en ekki síst fer hann ófögrum orðum um afhendingu ríkisstjórnar fólksins á tveimur af nýreistum stórbönkum landsins til erlendra vogunarsjóða, "braskara og áhættufjárfesta". Fjármagnið sem þessir aðilar sitji fastir með á Íslandi í bili sökum óásetjanlegra gjaldeyrishafta megi ekki fara óskert úr landi og megi reyndar alls ekki fara úr landi. Þarna telur Guðni að ofurskattlagning eigi betur við en á íslenskum sjávarútvegi, fólki og fyrirtækjum.

Guðni nefnir það ekki í þessari andrá að þarna er hann í reynd að tala um upptöku svokallaðs Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa, þar undir fjármagnsútflæði úr landi. Markmið slíks skatts er jafnframt að verja gjaldmiðil landsins fyrir áhlaupum spákaupmanna. Þá leið hefur Lilja Mósesdóttir í Samstöðu bent á til að bregða böndum á snjóhengju jöklabréfa og aflandskróna og sporna við því að hinir óprúttnu erlendu braskarar er Guðni kallar svo og aðrir fjármagnseigendur er þar eiga hlut að máli komist upp með að rústa íslenskum efnahag með því að tæma gjaldeyrisvarasjóð Íslands og kalla ofurskuldsetningu gagnvart útlöndum yfir þjóðina (sbr. grein hennar í Fréttablaðinu 13.4.2012 um Afnám hafta án lífskjaraskerðingar). Reyndar tækist þeim það ekki nema með dyggum stuðningi íslenskrar ríkisstjórnar er færi feigðarleið gjaldeyrishafta alla leið þar sem viðkomandi fjármagnseigendum væri smám saman og um síðir afhentur gjaldeyrisforði þjóðarinnar ásamt ofurvöxtum í kaupbæti. Það væri í samræmi við þá vegferð sem nú þegar virðist vera hafin af núverandi ríkisstjórn í samstarfi við Seðlabanka Íslands.

 


mbl.is Guðni Ágústsson: „Hendur úr vösum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taktu af skarið!

Við þessu á ég eitt svar í texta sem ég samdi við eitt laga minna. Það svar felst í nafni lagsins:

"Taktu af skarið",

með því að hefjast handa t.d. við undirbúning!

(sbr. vefsetur mitt á gogoyoko.com þar sem hægt er að hlýða á þá hvatningu á plötunni Kveikjurhttp://www.gogoyoko.com/artist/KrisJons )


mbl.is Hættum að fresta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband