Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vísir í Undralandi

Nú hafa stýrivextir enn einu sinni verið hækkaðir af Seðlabanka Íslands á óviðeigandi forsendum til þess m.a. að "sporna við verðbólgu og vegna minnkandi slaka í efnahagslífinu", eins og það í grófum dráttum er útskýrt af óslökum Seðlabankastjóra!
Hin liðaða Peningastefnunefnd skipuð að því sagt er vísu fólki, Hin vísa nefnd, virðist hrærast í einhverjum allt öðrum veruleika en þeim sem efnahagslíf Íslands býr við; Einhverju Undralandi þar sem allt aðrar forsendur og kenningar eiga við heldur en í íslenskum raunveruleika nú.
Hinum vísu í þessu Undralandi virðist fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni. Vaxtahækkunin er einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar, sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum o.s.frv.
Þannig hefur virkni þessara þátta verið hjá Íslendingum sem búa við neysluvöruverðstengda verðtryggingu
Þetta er hringavitlaus vítahringur sem samt er endurtekinn sí og æ með sömu hringlandi óviðeigandi rökunum.
Með þessu framferði sínu gera Hin vísu í Undralandi þungbæra skuldabyrði enn þyngri, enda kunna öll skuldug heimili og fyrirtæki landsins þeim litlar þakkir fyrir og er þá vægt til orða tekið.
Samtímis auka hins vegar vaxtahækkanir tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda. Þeir fagna væntanlega vaxtahækkunum dagsins kampakátir í kampavíni og tilheyrandi, þannig að til einhvers er barist af Hinum vísu.
Þessar öfugsnúnu hækkanir á stýrivöxtum nú þegar almennur slaki er enn viðvarandi í efnahagslífinu gefa því miður vísbendingar um að hin vísa Peningastefnunefnd og/eða stjórn Seðlabankans með seðlabankastjóra í broddi félegrar fylkingar hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar bankahrunsins 2008. 
Þessir aðilar skella þvert á móti skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur á Íslandi. Að minnsta kosti fara þeir hvorki eftir heilbrigðu innsæi né grundvallar- hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu (kostnaðardrifinni eins og hér um ræðir en síður eftirspurnardrifinni), eins og t.d. hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (sbr. frétt á mbl.is 12.7.2011). 
Það ætti að vera augljóst hverjum skynsömum manni, jafnvel fávísum, að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, gerir erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og leggur fleiri að velli. Ef það er stefna Peningastefnunefndar er þessi vaxtahækkun náttúrulega skiljanleg, en hún er ekki í þágu almennings sem nú mótmælir réttilega hástöfum.


mbl.is Stýrivextir hækka um 0,25 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hefði hvinið í Dönum

Ég sé fyrir mér vandlætingarsama vinnufélagana í Danmörku taka bakföll af hneykslan og heilagri reiði ef þeir samfara fréttum um hækkun verðvísitölu hefðu þurft að kyngja því að skuldir þeirra hefðu hækkað samsvarandi af þeim sökum. Skiptir þá engu máli þótt ársverðbólgan mælist "aðeins" 2,3%, hvað þá heldur upp í tveggja stafa tölu.

Hérlendis var fólk orðið all-dofið gagnvart þeim íslenska veruleika og áþján að neytendalán eru tengd neysluverðsvísitölu þegar verðbólgan tók stökk upp á við snemma árs 2008 og með vaxandi hraða við bankahrunið um haustið og gerði leiftursnögga árás - eins og þungvopnuð herþota í stungu sinni að árásarmarkinu - beint á skuldum hlaðið fólkið og fyrirtæki, almenning, varnarlauan á jörðu niðri. 

SKEMMST er frá því að segja að verðbólguþotan hitti gjörsamlega eins og ávallt með beinskeyttum og sértækum og skuldarasæknum verðbólguskotum sínum beint í verðtryggð mörk sín, verðtryggð lán, og tókst að tvístra fórnarlömbunum í allar áttir og skilja mörg heimili og fyrirtæki eftir í rústum. Afleiðingarnar koma æ betur í ljós eftir því sem árásarreykurinn stígur upp frá rústunum. Eldar loga þó enn og, það sem verra er, fara vaxandi en ekki minnkandi.

Því miður reynist skaðinn mun víðtækari en bjartsýnustu ríkisstjórnarmenn óraði fyrir, enda virðast röng greiningargleraugu hafa villt þeim sýn.
Ekki var gripið til ráðstafana sem blöstu við í síðasta lagi á fyrsta bankahrunsdeginum, þ.e. að frysta verðtryggingarvísitölur sökum forsendubrestsins.
Þess í stað voru þær látnar óáreittar og leyft að leika lausum hala í höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við gengishrun og stýrivaxtahækkanir og aðrar kostnaðarhækkanir og álögur innanlands.

Með þessu glórulausa aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og plástursaðgerðum hennar, sem aðeins lengja í hengingaról illa staddra skuldara, hefur eyðingarbál verðtryggingar lána rústað fjárhag tugþúsunda skuldara, heimila og fyrirtækja. Og áfram er haldið á þeirri feigðarbraut meðan siðapostular verðtryggingar hrópa af fjárhaugum sínum að siðlaust væri að afnema verðtryggingu lána þar sem þá myndi sparifé brenna upp á verðbólgubálinu. Engu er líkara en að þeim sé sama þótt verðtryggingin sé á hinn bóginn að ræna viðkomandi lántakendur með hliðstæðum hætti öllum eignum þeirra, og meira en það, þar sem þeir sitja þess utan uppi með himinháar skuldir reiknaðra verðbóta þegar eiginfé þeirra er upp urið með engar eignir á móti nema von um framtíðarvinnutekjur.

Ljóst ætti að vera að hér þarf að fara bil beggja þannig að sæmileg sátt náist um þessi mál í landinu. Báðir aðilar, bæði lánveitendur og lántakar, verða að bera sameiginlega áhættuna af verðþróun á lánstíma lána. Það verður enginn friður annars.
Undanfarnir áratugir allt frá tíma óverðtryggðra lána og langvarandi verðbólgu upp á tugi prósenta á ári samhliða verðtryggðum lánum og óverðtryggðum launum hafa opinberað hina tvo eyðandi öfga tengt verðbólgu: Bruna sparifjár sparifjáreigenda fyrir tíma verðtryggingar lána annars vegar og eignabruna skuldara eftir tilkomu verðtryggðra lána hins vegar.

Löngu tímabært er að þessu stríði lánveitenda og lántakenda linni með sátt og nauðsynlegri leiðréttingu nú þegar nægilega langt aftur í tímann. Núverandi ríkisstjórn gerir sér ekki grein fyrir þessum vanda, eða aðhefst a.m.k. ekki með viðhlýtandi hætti.
Samstaða með báðum aðilum þarf að koma til.
Yfirvofandi endurnýjuð hrunstjórn S-S (Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) er ekki líkleg til að leysa málið farsællega með ásættanlegri lausn fyrir báða aðila. Hvorugur þessara flokka gerði það í þeim ríkisstjórnum sem starfað hafa í kjölfar bankahrunsins.
Eða, er ástæða til að ætla að þeir muni hafa breytt um grundvallaráherslur í þessum málum næsta vor og taki þá sniðgenginn hluta kjósenda, skuldum þjakaðan almenning, einnig í hóp skjólstæðinga sinna?


mbl.is Dregur úr verðbólgu í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar órökstuddar yfirlýsingar duga

Það þarf vart að taka það fram og ítreka hversu mikilvægt það er að Lilja Mósesdóttir fái skýr og greið svör við spurningum sínum í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um skuldamál ríkisins frá Seðlabanka Íslands, þ.e. staðfestar tölulegar upplýsingar um umfang snjóhengjuvandans samkvæmt mati Seðlabankans og forsendur í því sambandi.

Málflutningur seðlabankastjórans í Silfri Egils í dag þarf skýringa við í ljósi umræðu um þessi mál undanfarið um upphæð snjóhengjunnar.
Engin undanbrögð um það mega viðgangast, útúrsúningar, hálfsannleikur né lopalegt tal. Ekki dugir að fela sig bak við tal um bankaleynd né upplýsingaleynd vegna þjóðaröryggis.
Hér er um að tefla hluti sem varða beinlínis þjóðaröryggi og sem ræðst af því hvernig nú er brugðist við. Seðlabankasóló á því ekki við hér eins og um "einkamál" Seðlabankans eða tæknilegt úrlausnarefni á hans vegum væri að ræða.
Þetta er hápólitískt mál þar sem efnahagsleg framtíð þjóðarinnar er í húfi.


mbl.is Vill að Már útskýri ummæli sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningshetjan mætt

Eva Joly á heiður skilið. Bók hennar "Hversdags hetjur", sem kom út hér fyrir jólin 2009 er afar athyglisverð. Hún gefur innsýn í ótrúlegt fjármálaplott einstaklinga og fyrirtækja t.d. í hergagnaiðnaði i Bretlandi, mútugreiðslur og hlutdeild hins opinbera í að ná sölusamningum í arabalöndum, undanskot fjármagns í skattaskjólum og fleira. Það er reyndar lýginni líkast og eins og í skáldsögu. Ætli nýja skáldsagan hennar Evu Joly geti tekið þessum raunlýsingum fram? Eva er sannkölluð almenningshetja fyrir baráttu sína gegn féflettum.
mbl.is „Viðskiptahættir hafa lítið breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmuni hverra vilja stjórnmálaflokkar verja?

Það ber að aðskilja starfsemi venjulegra viðskiptabanka og fjárfestingabanka, er niðurstaða forstjóra Straums fjárfestingabanka.

Í ljósi bankahrunsins hérlendis og afleiðinga þess ætti nauðsyn á slíkum aðskilnaði að vera augljós. Þar var þessum mismunandi tegundum starfsemi blandað saman í að því er virðist einn "pott" og fé innleggjenda í sumum tilvikum notað í vægast sagt áhættusamar fjárfestingar. Bankarnir urðu jú  gjaldþrota.

Venjulegum viðskiptabönkum eins og hér tíðkast ætti ekki að leyfast að stunda áhættusama fjárfestingastarfsemi sem jafnvel getur snúist upp í áhættusækna fjárglæfrastarfsemi þar sem nánast "spilað" er með sparifé innleggjenda, jafnvel undir formerkjum ríkisábyrgðar. Þeir sparifjáreigendur sem hins vegar vilja taka slíka áhættu með fé sitt myndu þá gera það í sérhæfðum fjárfestingabönkum eða ástunda slík ávöxtunarviðskipti sjálfir.

Sú grundvallarspurning blasir því við Alþingismönnum hverra hagsmuni  þeir vilja verja:
a) Innleggjenda smárra og stórra, eða
b) fjárvörsluaðilanna, bankanna, þeirra sem ráðstafa sparifénu til ávöxtunar- eða fjárfestingaverkefna, eða
c) hagsmuni beggja aðila.

Það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa tekið undir hugmyndir um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka (sé rétt haft eftir í fréttinni) vekur því upp spurninguna um hvort hann vilji fremur gæta hagsmuna fjárvörsluaðilanna heldur en hagsmuna innleggjenda.

Vilji stjórnmálamenn verja hagsmuni  beggja aðila, eða sérstaklega innleggjenda, hlýtur aðskilnaður á starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka að vera svarið.


mbl.is „Á ekki heima saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksformaðurinn leggur spilin á borðið

Í síðasta lagi í væntanlegri kosningabaráttu hlýtur Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður annars stjórnarflokkanna að leggja spilin á borðið og útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna vextir voru hækkaðir hér í hástert, 18%, fljótlega eftir hrunið 2008 og eftir að þeir höfðu þó fyrst verið lækkaðir. Augljóslega var engin ástæða til þess, eins og margoft hefur verið ítrekað og rökstutt á þessu bloggi; Ekki þurfti að leitast við að hækka vexti til að halda erlendu fjármagni í landinu þar sem gjaldeyrishöft höfðu verið sett til að koma í veg fyrir útstreymi gjaldeyris (því sem eftir var þá). Hækkun vaxta gagnaðist því fyrst og fremst þeim sem sátu fastir með fé sitt í landinu, eins og góðar "sárabætur". Innlendir fjármagnseigendur nutu einnig góðs af, meðan þeir sem síst skyldi, allir skuldarar, heimili og fyrirtæki, borguðu brúsann tilneyddir, síst aflögufærir í ástandinu.

Engar viðurkenningar á þessari staðreynd um hávaxtastefnuna bárust úr þöglu húsi Seðlabankans en þar var aftur á móti sífellt klifað á hættu á eftirspurnar-verðbólgu á ósannfærandi hátt, sem stemma þyrfti stigu við með hressilegri hækkun vaxta.
Hver hugsandi maður gat séð og ætti að sjá að ekki þurfti að hækka vexti til þess að sporna við því sem ekki var fyrir hendi, þar sem mikill slaki myndaðist strax í efnahagslífinu í kjölfar hrunsins; Eða hafa ekki allir heyrt talað um t.d. mikið atvinnuleysi og minnkandi kaupmátt almennings sem þá blasti við?
Einnig er ljóst að sérfræðingar Seðlabankans og ráðamenn þar með óbrenglaða almenna skynsemi hafa vitað betur en álíta að nauðsynlegt væri að halda vöxtum háum til að forða ofhitnun í efnahagslífinu; þar var allt hraðkólnandi og bæði heimili og eftirlifandi fyrirtæki að sligast undan vaxtaokri. Hávaxtastefnan hefur því líklega verið ákveðin og keyrð áfram af aðilum á hærri stöðum efnahagsstjórnar landsins.

Fróðlegt verður því að heyra loksins um hina raunverulegu ástæðu og gangráða hávaxta-helstefnunnar þegar fjármálaráðherrann fyrrverandi mun útskýra þá helstefnu gegn almenningi á síðustu dögum stjórnar sinnar sem brátt fara í hönd. Hann mun óhjákvæmilega koma með útskýringar á því í viðleitni sinni til að komast hjá vanþóknun og höfnun kjósenda. Spurningin er hverjir muni sitja uppi með þann Svarta-Pétur og hvort þeir muni kallast sökudólgar eða fórnarlömb.


mbl.is Gjaldið betur lagt á fyrr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hjátrú", "aðaltrú" og sálfræði við efnahagsáföllum

Í viðtengdri frétt segir að  "hjátrú" hafi aukist eftir hrun, samkvæmt viðtali við Fjólu Dögg Helgadóttur sálfræðing um samanburðarrannsóknir hennar á "hjátrú" milli landa.

Því miður kemur ekki fram nákvæm útskýring á skilgreiningu sálfræðingsins á þessu hugtaki "hjátrú", utan nokkurra dæma, og hvernig hann aðgreinir hana frá því sem þá hlýtur að vera miðað við, þ.e. "aðaltrú". Þegar talað er um "hjátrú" hvað er þá "aðaltrú" eða "rétttrúnaður"? Hvaða munur er á aðaltrú og hjátrú í þeim skilningi? 
Hvernig hefur þróunin verið á fjölda fólks sem aðhyllist "aðaltrú" samanborið við "hjátrú" á umræddu tímabili? Er ekki samhengi þar á milli? Hvað með heildarfjölda þeirra sem aðhyllist einhvers konar átrúnað? Trúa þeir sem aðhyllast "hjátrú" jafnframt á tilvist guðs? Ef ekki, hvers vegna?
Er sams konar skilningur á hugtökunum "hjátrú" og "aðaltrú" eða átrúnaði almennt í samanburðarlöndunum? Ef ekki, hver er munurinn? Að hvaða leyti skýrir þá sá munur mun á stigi "hjátrúar" milli landanna?

Í greininni er bent á gagnrýna hugsun sem andstæðu við "hjátrúna", en hvar staðsetur sálfræðingurinn "aðaltrúna" í því samhengi? Hvar telur hann mörkin vera milli sálfræði og trúar í víðum skilningi að því er varðar til dæmis atferlisgreiningu og hugræna atferlismeðferð?

Í þessu ljósi eru umræddar rannsóknarniðurstöður afar ónákvæmar, a.m.k. fréttagreinin um þær, og erfitt að sjá hverju þær svara í reynd. Mér virðst það til dæmis afar mikil einföldun að ætla sér að byggja einhverjar vísindalegar kenningar um ráð og/eða aðferðir við persónulegum áföllum einstaklinga, eins og bankahruninu hérlendis, einungis með því að greina stig "hjátrúar" hjá fólki.
Hins vegar væri fróðlegt að sjá hvort og í hve miklu mæli einhvers konar trú, átrúnaður eða "huglægt haldreipi" gagnist einstaklingnum til að kljást við persónuleg áföll sín tengt efnahagskreppu þótt það í sjálfu sér leysi e.t.v. ekki fjárhagsleg atriði út af fyrir sig. 
Hvernig svo sem tekst til með þá hlið mála skiptir meginmáli fyrir einstaklinginn í því samhengi og þar með þjóðina í heild hvernig honum tekst að komast í gegnum slíka erfiðleika. Varast skyldi að gera grín að "hjátrú" fólks, sérstaklega ef hún (í víðum skilningi) gagnast sem tæki til þess meðal annarra aðferða.
Í þessu samhengi greini ég á milli þess sem kalla mætti "trúarlega trú" eða átrúnað/trúarsetningar og "árangursmiðaða trú" eða viðhorf (sbr. sjálfstraust og því að hafa trú á markmiði eða niðurstöðu o.þ.h).

Gott væri að sálfræðingar kæmu upp með eitthvað virkilega bitastætt og skilvirkt í því sambandi sem leggja mætti vísindalega blessun yfir ef önnur blessun þykir ekki duga formlega séð.

Á meðan stjórnvöldum tekst ekki að leysa efnahagsvandamál einstaklinga og þjóðar með sjálfbærum hætti í bráð og lengd þarf fólkið sem er í vandræðum á öllum jákvæðum ráðum að halda til að komast af með einhverju móti sem manneskjur; Og náttúrulega til framtíðar líka.


mbl.is Aukin hjátrú eftir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samviskubit og friðþæging með þjóðarauði

Fréttir herma að meðlimur kúveisku konungsfjölskyldunnar ætli að “gefa” dágóða upphæð til landa sinna sem uppfylla tiltekin skilyrði. Það er gott mál út af fyrir sig og mættu allir slíkir gera slíkt hið sama.
En, að kalla þetta “gjafmildi” er fullyrðing sem tekur út yfir allan þjófabálk þegar haft er í huga hvaðan féð er komið sem konungsmeðlimurinn ætlar að “gefa”. Uppspretta auðæfa hans eru olíulindir landsins sem konungsættin og hirð hennar hefur sölsað undir sig og ráðtafað eins og um einkaeign væri að ræða en ekki eign allrar þjóðarinnar eins og náttúruauðlindir eru eðli málsins samkvæmt.
Ja, öllu má nú nafn gefa!
Því má segja að hér sé ekki um að ræða raunverulega gjafmildi konungsmeðlimsins heldur síðbúna friðþægingu hans með þessum hætti á ævikvöldi þar sem hann seint um síðir iðrast óréttlátrar sjálftöku sinnar af þjóðarauðnum með því að skila örlitlu broti af honum til baka; En, vel að merkja einungis til skilgreinds hluta þjóðarinnar samkvæmt duttlungum hans sjálfs. Jafnræðisreglan er nú ekki meiri en svo.
Spurning er hvort almenningur í Kúveit geri sér grein fyrir hvernig raunverulega er í pottinn búið varðandi arðrán konungsveldisins á náttúruauðlindum landsins.
Við Íslendingar ættum einnig að líta okkur nær um hvernig náttúruauðlindum okkar er ráðstafað!
Hefur verið stundað arðrán á grunni náttúruauðlinda hér? Má ekki greina vissa hliðstæðu í þeim efnum við ástandið í Kúveit? Hvað gerum við í því?
Mun einhver fá samviskubit í því sambandi og vilja friðþægja af eigin dáðum?


mbl.is Gjafmildi í Kúveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagsmálavæðing kvótahafa

Í tengslum við viðhangandi sparlega yfirlit mbl.is um grein Gústafs Aolfs Skúlasonar, fv. ritara Smáfyrirtækjabandalags Evrópu, um það sem hann kallar "árásir ríkisstjórnarinnar á best rekna sjávarútveg í heimi" vakna nokkrar spurningar:

1) Hvað á Gústaf Adolf við með "best rekna sjávarútvegi í heimi"? Er viðmið hans frá sjónarhóli kvótahafandi útgerðarmanna eða þjóðarhags og almennings? 

2) Er Gústaf Adolf virkilega að halda því fram að fiskveiðar verði stórminnkaðar við Ísland þannig að "sjómenn missi vinnuna" við það eitt að veiðigjald verði hækað og hluti auðlindarentunnar svokölluðu færður frá kvótahöfum til almennings? Hver á að trúa svona málatilbúnaði? Fiskveiðar verða ávallt stundaðar við Ísland meðan fiskur fyrirfinnst.

3) Hvernig í ósköpunum tengist það útfærslu fiskveiðistjórnunarkerfis og upphæð veiðileyfagjalds að "ríkisstjórnin sé svo blinduð af ESB" að mati Gústafs Adolfs? Hann virðist hér gagnrýna ESB-áráttu ríkisstjórnarinnar, en það er nú allt annað mál og mætti hann furða sig sem mest á því og reifa það út af fyrir sig í annan stað.

4) Gústaf Adolf telur að í yfirstandandi aðgerðum LÍÚ felist "ný von fyrir Íslendinga að vernda atvinnu sína". Hvaða Íslendingar aðrir en kvótahafar og sérstaklega gjafakvótahafar, núverandi hirðar auðlindarentunnar, gætu talið það "von" fyrir sig?

5) Það væri í dúr við þá furðulegu áráttu margra íslenskra kjósenda að láta blekkjast til að kjósa gegn eigin hagsmunum ef þeir færu "að taka höndum saman og standa þétt að baki ... útgerðarmönnum ..." við skiptingu arðsins af fiskveiðunum milli kvótahafa og almennings/ríkissjóðs! Er það það sem Gústaf Adolf finnst sjálfsagt að þeir geri?

Af málflutningi Gústafs Adolfs mætti ráða að hann mæli fyrir áframhaldi á því sem kalla mætti "félagsmálavæðingu kvótahafa", svo notað sé hans eigið orð, og að þeir einir fái áfram auðlindarentu þjóðarinnar eins og hún leggur sig fyrir þá smáaura sem þeir hafa verið að greiða í nokkur ár í veiðigjald við mikla kveinstafi; Samhliða því að hluthafar útgerðarfyrirtækja hafa fengið greiddar út fúlgur í arð.
Auðlindarenta sú er drjúgur "félagsmálastyrkur" frá þjóðinni til kvótahafa. Svo virðist sem Gústaf Adolf telji það "skemmdarverk" ef loksins ætti að hrófla við því fyrirkomulagi.


mbl.is Gústaf Adolf Skúlason: Félagsmálavæðing ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarstefna eða helferðarstefna

Sífellt fleiri taka undir þessar leiðir sem Lilja ásamt Samstöðu hefur bent á til að losna við þann yfirvofandi skaðvald sem 1000 milljarða "snjóhengja" af innlyksa fé hérlendis er, ef viðkomandi fjármagnseigendur sjá ekki sóma sinni í því að fjárfesta þá hér viljugir til langs tíma.

Þennan púka þarf að losna við sem fyrst vegna þess að meðan ekkert er aðhafst heldur hann áfram að mala sér gull í formi inneignarvaxta með hávaxtamaskínu peningastefnunefndar Seðlabankans. 

Til að halda þessari gífurlegu fjárupphæð "sjálfviljugri" hérlendis þarf reyndar markvisst að bjóða upp á fjárfestingarkosti á móti. 
Þar duga ekki sýndaráform eins og nýlega voru kynnt af ríkisstjórninni sem á að hrinda í framkvæmd einhvern tímann eftir fyrirsjáanlega lífdaga hennar, enda gerast "bjargráðin" varla hallærislegri.

Ekkert annað en ömurleg helferð fyrir íslenskan almenning fylgir þeirri hugmynd og áformum Samfylkingar að einhvers konar (ennþá óljós) fyrirgreiðsla ESB muni leysa vandann, v.þ.a. þar er reiknað með að greiða niður alla þessa fjárhæð á einhverjum ótilteknum tíma með vöxtum.
Hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um snögga afléttingu gjaldeyrishafta þar sem fjárhæðin yrði leyst út með lánsfé gjaldeyrisforða Seðlabankans er heldur ekkert annað en snögg kollsteypuhelferð. Gjaldeyrisforði landsins yrði þá upp urinn og hátt í jafnháar vaxtaberandi skuldir sætu eftir hliðstætt og á við um afleiðingar hörmungarstefnu Samfylkinngar.

Það sem blasir við að þurfi að gera ef komast á hjá efnahagslegri helferð Íslendinga er einmitt þetta sem Lilja með Samstöðu að bakhjarli bendir á.
Fari snjóhenguféð ekki með góðu í langtíma raunfjárfestingar hérlendis getur það heldur aldrei farið óskert úr landi.

 


mbl.is Vill hóta eigendum snjóhengjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband