Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
10.1.2014 | 16:01
Verðtrygging neytendalána hamlar launahækkunum
Ein helstu rökin nú, eins og áður, fyrir "hóflegum" launahækkunum er yfirvofandi ógnin um hækkun verðtryggðra lána vegna afleiddrar aukningar á verðbólgu í kjölfarið. - Að sjálfsögðu hefur verðbólga af öðrum almennum ástæðum eins og verðhækkun vöru og þjónustu þar sitt að segja til viðbótar.
Meðal annars í auglýsingum undanfarið hefur verið hamrað á því að launahækkanir muni meðal annarra verðbólguvalda leiða til hækkunar á verðtryggðum skuldum launþega og þess vegna verði launþegar að stilla kröfum sínum um launahækkanir í hóf, sjálfum sér til hagsbóta.
Þessi rök hafa ávallt verið uppi á samningaborðinu við gerð almennra kjarasamninga undanfarna áratugi.
Þetta sýnir enn og aftur að launþegar (og almenningur) þurfa að komast út úr vítahring verðtryggðra lána svo að lánamál og skuldastaða þeirra standi ekki í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa í formi launahækkana.
Framsóknarflokkurinn hafði þetta sem eitt af stefnumálum sínum fyrir síðustu kosningar, að stemma stigu við verðtryggingu neytendalána, enda er það réttlætismál að lántakendur beri ekki einir sér 100% áhættu af verðþróun eins og verið hefur og greiði fullar verðbætur samkvæmt henni auk vaxta.
Nú er starfandi nefnd sérfræðinga á vegum forsætisráðherra um hvernig hægt verði að koma því við. Á nefndin að skila niðurstöðum sínum og tillögum á næstunni. Allir hlutaðeigandi bíða spenntir; Lántakendur fullir eftirvæntingar, en lánveitendur ef til vill ekki eins hressir.
Rjúfa verður vítahring verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2013 | 17:04
Dæmisaga um stýrivexti og kaðal
Líkt er með stýrivöxtum og kaðli.
Kaðall er hentugur til að draga eitthvað saman en gagnast lítið til að ýta einhverju með.
Sömuleiðis gagnast stýrivextir vel við að draga úr þenslu í efnahagslífi með því að hækka þá, en þeir gagnast ekki eins vel við að ýta við efnahagslífinu með því að lækka þá. Þar þarf fleira að koma til.
Stýrivextir Evrópska seðlabankans í 0,25% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2013 | 12:04
Eru eftirlitsstofnanir eins og fuglaskoðarar?
Afar athyglisverð og alvarleg eru þau atriði sem Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins bendir hér á um andvaraleysi löggjafans og framkvæmdarvaldsins varðandi eftirlit með fjármálageiranum á Íslandi, sem uppnefndur hefur verið "eftirlitsiðnaðurinn" af sumum.
Eru það kannske þeir aðilar sem vilja sem minnst efirlit, sem þannig tala og Páll gagnrýnir hér?
Þetta þurfa þingmenn vorir að gaumgæfa nánar og ekki láta leiðast út í sama andvaraleysið eins og fyrir hrun þegar vinnandi almenningur var í þeirri góðu trú að allt væri undir góðri stjórn og vökulum augum þingmanna, ríkisstjórnar og embættismanna ríkisins og ekki síst eftirlitsstofnana.
Ekki dugir að stofna til eftirlitsstofnana og skaffa fé og mannafla til þeirra af einskærum formlegheitum eða eins og um atvinnubótavinnu væri að ræða.
Jafnframt þarf að sjá þeim fyrir þeim lagalegu tækjum sem duga til að grípa inn í með refsandi og fyrirbyggjandi hætti þegar og þar sem eitthvað kemur í ljós sem getur ógnað efnahagslífi og samfélagi þjóðarinnar og títtnefndum fjármálastöðugleika.
Ekki dugir að eftirlitsstofnanir séu eins og fuglaskoðarar sem láta sér nægja að skoða fugla úr fjarlægð með kíki fyrir augum sér til ánægju, heldur verða þær jafnframt að geta brugðist hratt og vel við því sem þær sjá með viðeigandi hætti og slagkrafti sem eftir verður tekið.
Það væri virkt eftirlit í þágu almennings, umbjóðenda þingmanna og embættismanna ríkisins.
Til þess ætlast almenningur í góðri trú um heilbrigt eftirlitskerfi, án þess þó að það feli í sér alræðislegt eftirlit.
Átta milljarðar í stjórnvaldssektir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.5.2016 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2013 | 18:12
Verðteygni og virðisaukaskattur í ferðaþjónustunni
Það mætti halda að fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé ekki meðvitaður um það hagfræðilega fyrirbæri sem kallast teygni eftirspurnar og verðteygni ef dæma má af ummælum hans í viðhangandi fréttaviðtali um áhrifin af lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónusu á Íslandi; Enda er það e.t.v. ekki til umfjöllunar í námi jarðfræðinga. - Eða þá að hann og þeir sem eru sama sinnis telji að eftirspurnin eftir ferðaþjónustu á Íslandi sé almennt "óteygin" (lægri en 1, sbr. neðar).
Varðandi umræðu um áform um lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu á Íslandi er vert að benda stuttlega á eftirfarandi almennu atriði um teygni eftirspurnar:
Hugmyndin að baki verðlækkunar snýst um það að með því náist hærri velta vegna meiri magnsölu en ella.
Sé verðteygni vöru meiri en 1 myndi sölumagn vöru aukast hlutfallslega meira en sem nemur tiltekinni verðlækkun og veltan myndi þá aukast. Það á t.d. við um samkeppnisvörur og þar sem ríkir "fullkomin samkeppni".
Sé verðteygni vöru minni en 1 myndi sölumagn aukast hlutfallslega minna en tiltekin verðlækkun á vörunni og veltan því minnka, en aftur á móti myndi sölumagn þá ekki minnka hlutfallslega jafn mikið og tiltekin verðhækkun. Þetta á t.d. við um vörur sem fólk vill ógjarnan vera án á tilteknu verðbili og tímabili, svo sem tóbak og áfengi. Verðhækkun ríkisins á tóbaki og áfengi byggir m.a. á þeirri forsendu að velta muni þrátt fyrir það aukast, þ.e. að magnsalan minnki hlutfallslega minna en verðhækkuninni nemur (eftirspurnin óteygin).
Ferðaþjónustan á Íslandi býður almennt séð upp á þjónustu sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni við hliðstæða þjónustu í öðrum löndum sem bjóða upp á valkosti fyrir ferðafólk.
Skynsemin í og rök að baki almennrar verðlækkunar á ferðaþjónustu, eins og tilfellið er með lækkun virðisaukaskatts innan þeirrar greinar, byggir því á þeirri forsendu að eftirspurnin eftir henni sé teygin, þ.e. verðteygnin hærri en 1, og að veltan og afraksturinn innan hennar (þar með talið tekjur hins opinbera í formi vsk) muni því ekki minnka við vsk-lækkunina heldur þvert á móti aukast.
PS. Formúlan fyrir útreikning á teygni eftirspurnar (e) er:
e = Hlutfallsleg breyting í magni eftirspurnar
Hlutfallsleg breyting á verði
Skuldarar fá leiðréttingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2013 | 15:03
Frábær árangur
Rík ástæða er til að óska starfsmönnum og eigendum hugbúnaðarfyrirtækisins Annata til hamingju með frábæran árangur við þróun og markaðssetningu viðskiptahugbúnaðar.
Stofnendur og starfsmenn Annata í upphafi voru þá þegar afar færir við allt sem lýtur að árangursríkri hönnun, forritun og gangsetningu hugbúnaðarkerfa og verkefnastjórn þar að lútandi og hafa síðan á þeim sterka grunni markað sér farsæla stefnu við þróun lausna og landvinninga, eins og sjá má.
Til hamingju! Hugvitið verður í askana (og gjaldeyrissjóð) látið!
Annata fær verðlaun frá Microsoft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2013 | 13:11
Öll verðtryggð lán heimila leiðrétt?
Í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í skuldamálum heimilanna eru all-skýr ákvæði sem og í meðfylgjandi greinargerð og tekið er fram með skýrum hætti hver á að sjá um vinnu í sambandi við hvern hinna tíu liða og hvaða ráðherra ber þar ábyrgð, sem er mikilvægt.
Ein spurning vaknar þó varðandi lið 1 um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána:
Í sjálfri þingsályktunar-tillögunni kemur m.a. fram að um sé að ræða aðgerðir varðandi "höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána"; Sem sé "húsnæðislána".
Í greinargerðinni kemur hins vegar m.a. fram varðandi lið 1 að þetta verði "Almennar aðgerðir sem gagnast öllum heimilum sem urðu fyrir forsendubresti" og að "Um sé að ræða leiðréttingu á forsendubresti".
Spurningin er hvort leiðréttingin nái til allra verðtryggðra veðlána heimila/einstaklinga, sem fyrirliggjandi voru á tímabilinu 2007-2010, þar sem viðkomandi hús- eða íbúðareign hefur verið lögð að veði óháð því hvort lánið var tekið við kaup á húsnæðinu eða síðar og óháð "tilgangi" einstaklinga með lántökunni.
Til dæmis hafa margir brugðið á það ráð við atvinnumissi að taka lán til að framfleyta fjölskyldunni.
Aðgerðir með áherslu á jafnræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2013 | 19:48
Eygló slær í staða klárana
Enn er fordæmisgildi gengislánadóms Hæstaréttar áréttað almenningi í hag. Nema hvað!
Drífa ber í því að klára þessa útreikninga umyrðalaust og skila lántakendum ofteknu fé tafarlaust. Ekkert múður meir af hálfu fjármálafyrirtækja sem dregið hafa lappirnar í að bregðast við fyrri dómum Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána!
Engin furða að nýr félags- og húsnæðismálaráðherra úr Framsóknarflokknum, Eygló Harðardóttir, skuli slá í staða klárana, enda er það aðgerð í þágu almennings.
Skýrt fordæmi gengislánadóms | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2013 | 15:07
Landbúnaður til landvinninga
Tilefni er til að óska nýjum formanni Bændasamtaka Íslands, Sindra Sigurgeirssyni bónda í Bakkakoti Borgarfirði, velfarnaðar í því mikilvæga embætti.
Við tekur það verkefni að sýna fram á að íslenskar landbúnaðarvörur standist íslenskar og alþjóðlegar kröfur um gæði og uppruna og hafi sérstaka sérstöðu á alþjóðlegum markaði að teknu tilliti til gæða og verðs þannig að þær séu því samkeppnisfærar á verði sem færir íslenskum bændum og efnahagslífi arð og blóm í haga - og Íslendingum og útlendingum góðan mat á disk.
Sindri formaður Bændasamtakanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2013 | 13:13
Um lýðskrum og lánaleiðréttingar
Margir andstæðingar afnáms verðtryggingar og leiðréttingar stökkbreyttra verðtryggðra lána hafa uppi svipaðan málflutning og kemur fram í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur skrifar undir yfirskriftinni Lýðskrum í Morgunblaðinu í dag, 5.3.2013 s. 19.
Í greininni er talað gegn hugmyndum um niðurfellingu eða lækkun skulda. Hvergi er verðtrygging lána nefnd beint á nafn, heldur það að eðlilegt sé að lánveitendur vilji fá jafnvirði lánsins endurgreitt sem og einhverja vexti. Hér virðist þó greinarhöfundur beina spjótum sínum m.a. gegn hugmyndum um leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána sem sumir stjórnmálaflokkar hafa sett á stefnuskrá sína meðal annarra mála.
Í fyrsta lagi forðast lögfræðingurinn að ræða ástæður krafna þeirra lántakenda sem sitja nú uppi með stökkbreyttar upphæðir verðtryggðra lána.
Við hrunið og aðdraganda þess árið 2008 varð alvarlegur forsendubrestur varðandi verðtryggð lán við það að vísitala sú sem verðtryggð lán hafa miðað við snögghækkaði og langtum meira en lántakendur óraði fyrir er þeir tóku lánin, enda vissi almenningur ekki að bankahrun væri í aðsigi með tilheyrandi gengisfalli íslensku krónunnar og verðbólgu. Þrátt fyrir þennan forsendurbrest við hrunið og við gjaldþrot bankanna í október 2008 var verðtryggingarvísitalan ekki tekin úr sambandi heldur leyft að hækka höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við stökkbreytingu vísitölunnar eins og ekkert hefði í skorist. Fyrir þá vanrækslu verður ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að svara, en það er önnur saga.
Málið snýst um að leiðrétta þessa oftöku lánveitenda í formi hinna reiknuðu verðbóta sem bætt var við höfuðstól lána, peningaupphæðir sem lántakendur höfðu aldrei fengið úr höndum lánveitenda; Upphæðir sem ekki voru tilteknar í lánasamningum. Maria Elvira Méndez Pinedo, doktor í Evrópurétti, hefur haldið því fram að þetta standist ekki lög og er að skilja á fréttum að það sé til formlegrar athugunar.
Auk forsendubrests fyrir verðtryggingu lánanna við hrunið kemur einnig til siðferðisbrestur ef ofteknar verðbætur verða ekki leiðréttar, en það er enn önnur saga.
Kjarninn í ábendingum lögfræðingsins er að standa skuli við gerða samninga, en í ljósi ofangreinds er spurning um hvað raunverulega var samið. Var það vitund og vilji lántakenda að taka á sig afleiðingar náttúruhamfara eða ígildi þeirra í formi stökkbreyttra verðbóta sökum hruns bankakerfis landsins?
Í öðru lagi gefur lögfræðingurinn sér forsendu sem á ekki við að öllu leyti. Hann heldur því fram að þeir sem vilji að hið opinbera hlutist til um niðurfellingu eða lækkun skulda hjá lántakendum sem vilja losna undan skuld sinni eða fá lækkun á henni séu í raun að biðja um að einhverjir aðrir, sem áttu engan þátt í lántökunni og nutu einskis af lánsfénu, borgi skuld hans eða hluta hennar.
Þarna hleypur lögfræðingurinn eins og aðrir sem þannig tala yfir einn afgerandi aðila í umræddum lánamálum, þ.e. lánveitendur. Við hrunið og eftir stökkbreytta hækkun verðtryggingarvísitölunnar í kjölfar þess héldu lánveitendur áfram að reikna verðbætur samkvæmt henni og hækka lánaskuld lántakenda tilsvarandi í bókhaldi sínu og á greiðsluseðlum greiðenda. Þá voru verðbæturnar færðar lánveitendum til tekna í bókhaldi þeirra og lántakendum til skuldar.
Málið snýst um að bakfæra þessar ofreiknuðu tekjur af tekjureikningum lánveitenda og samtímis lækka skuldastöðu lántakenda þar tilsvarandi á móti.
Þeir sem borga þannig fyrir leiðréttingu hinna stökkbreyttu verðtryggðu lána eru því þeir sömu sem upphaflega fengu tekjurnar af hinni ofreiknuðu verðtryggingu. Þeir væru að skila ofreiknuðu fé.
Það er því verið að róta upp moldviðri með því að halda því fram að lántakendur vilji að einhverjir aðrir en lánveitendur borgi umræddar verðbótaleiðréttingar.
Þá sem taka undir réttmætar leiðréttingakröfur skuldara verðtryggðra lána ætti því fremur að flokka með hópi hinna réttsýnu, mönnum samfélagssátta, heldur en lýðskrumurum.
Jón Steinar: Lýðskrum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2013 | 14:27
Frábært framtak á Blönduósi
Þetta eru ánægjulegar fréttir sem berast úr hvamminum fagra. Þarna er fyrrum kostnaði breytt í tekjulind. Ég er handviss um að fleiri slík tækifæri leynast ef vel er að gáð og hugsað út fyrir kassann og út fyrir gamla farið.
Gamli bærinn er alltaf flottur með gömlu kirkjuna og Helgafell í forgrunni.
PS. Ég vona að ekki sé búið að eyðileggja og farga innviðum kirkjuhússins, súlunum og milligólfinu og kórnum - né heldur prédikunarstólnum.
Fitan auðlind en ekki vandamál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |