Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
8.12.2014 | 16:38
Af mjólkurkúm
Hvaða tekjum hafa greiðslumiðlunarfyrirtækin verið að skila Landsbankanum og þar með eigendum hans?
Gefur söluandvirði eignarhlutans í t.d. Borgun meira af sér með því að verja því á annan hátt en að halda þeirri eign kyrri í eignarhlutanum?
Bankastjórinn hefur fyrst og fremst nefnt í rökstuðningi sínum fyrir sölu Landsbankans á hlut í umræddum fyrirtækjum að hann hafi engin áhrif á stefnu fyrirtækjanna í gegnum minnihlutaeign sína í þeim, en hversu mikið vega slík rök í samanburði við stöðugan og væntanlega vaxandi straum tekna af mjólkurkúm eins og greiðslumiðlunarfyrirtækjum?
Farið fram af nokkru yfirlæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2014 | 11:40
Samvinnurekstur í nærsamfélaginu
Samvinnurekstur er gott dæmi um félagslegan rekstur til hagsbóta fyrir almenning.
Þegar vel er að verki staðið er árangurinn arður og gleði fyrir nærsamfélagið.
Vaxtalaust lán frá kaupfélaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.10.2014 | 11:44
Um samband vaxta og fjárfestinga
Gömul og innsæislega sönn viðmiðunarregla innan hagfræði mælir svo um að lækkandi og lágir vextir séu til þess fallnir að örva fjárfestingar í hagkerfinu þar sem fjármagnseigendur og fjárfestar hafi þá meiri tilhneigingu en ella og að öðru óbreyttu til að fjárfesta í atvinnustarfsemi í von um meiri ávöxtun þar á fjármagni sínu.
Á hliðstæðan hátt dragi hækkandi og háir vextir úr fjárfestingum í atvinnurekstri þar sem þá fer að fást hlutfallslega meiri ávöxtun en ella með því að leggja fé í banka og örugga ríkispappíra.
Hvers vegna skyldi ekki hafa verið unnið meira eftir þessari reglu við stjórn efnahagsmála hérlendis en raunin er?
Hérna hefur verið rekin hávaxtastefna með hörmulegum afleiðingum eins og t.d. bankahrunið 2008 ber ömurlegt vitni um. Síðasta ríkisstjórn staglaðist á því, réttilega, að innlendar fjárfestingar í efnahagskerfi landsins væru allt of lágar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en samtímis var vöxtum samt haldið í himinhæðum þrátt fyrir viðurkenningu á því að einmitt hávaxtastefna undanfarinna ára hefði átt drjúgan þátt í hruninu.
Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa stýrivextir ekki farið lægra en þeir eru nú, 6 % sem er of hátt, enda er enn kvartað yfir of lágum fjárfestingum í landinu. (Að ekki sé minnst á þungbæran vaxtaklafa skuldugra fyrirtækja og heimila af þeim sökum sem þau sligast undan).
Í ofangreindu ljósi má spyrja: Er við öðru að búast?
Væri ekki ráð fyrir ríkisstjórnina að íhuga betur umrædda reglu vaxta- og fjárfestingastjórnunar og hvað í henni felst og hvort hér sé verið að vinna eftir viðeigandi viðmiðum við stjórn peningamála?
Eða, hvers vegna skyldu Bandaríkin og lönd í Evrópu vera með lágvaxtastefnu, jafnvel eins og þá sem hér berast fréttir af um 0% vexti í Svíþjóð?
Stýrivextir 0 prósent í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.7.2014 | 14:15
Enn við sama vaxta-heygarðshornið
Hvort haldið þið að ÁFORM Peningastefnunefndar Seðlabankans um vaxtahækkanir og undirtakandi athugasemdir glaðhlakkalegs seðlabankastjóra í því sambandi auki eða minnki verðbólguVÆNTINGAR fjárfesta og fjármálakerfisfólks?
Hvort haldið þið að þær væntingar leiði til vaxandi eða minnkandi verðbólgu?
Hvernig haldið þið að þessu fólki Seðlabankans gangi að hamla gegn verðbólgu með þessu móti, eins og það segist hafa að markmiði, þ.e. með aðvörunum og hótunum um hækkun stýrivaxta?!!!
Hér bendir seðlabankastjóri m.a. á aukningu í einkaneyslu sem rök fyrir vaxtahækkun en lætur hjá líða að greina hvaðan þessu aukning er komin. Hversu stóran þátt ætli erlendir ferðamenn eigi í einkaneyslunni á Íslandi um þessar mundir og undanfarið? Það gefur augaleið að hækkun stýrivaxta hefur ekki bein eftirspurnarhamlandi áhrif á þann hóp. Vaxtahækkanir leiða hins vegar fyrst og fremst og umsvifalaust til hækkunar á eftirstöðvum verðtryggðra lána landsmanna og er þó ekki á það bætandi.
Seðlabankastjóri lætur að því liggja að það sé vaxtastefnu Seðlabankans að þakka hve verðbólgan hefur hjaðnað undanfarið. Það er hárrétt að því leyti að bankinn hefur ekki hækkað stýrivexti sína og þar með vaxtastigið í landinu undanfarið. Verðbólgan mun fara hækkandi aftur um leið og bankinn hækkar stýrivextina. Þeir eru orsakavaldur.
Hins vegar er önnur hlið á þessu máli sem er gengisskráningin á krónunni. Hún er mikill áhrifavaldur um verðbólgustigið í landinu, eðli málsins samkvæmt. Er einhver sem heldur að gengi hennar sé "rétt", í ljósi allt annars og lægra gengis hennar á öðrum mörkuðum en í bankakerfinu hérlendis?
Segir peningastefnuna skila árangri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.4.2014 | 08:41
Eru Fjármálamarkaðir "Tortímandi" trúarbrögð nútímans?
Dr. Mark C. Taylor, forseti trúarbragðafræðideildar Columbia háskóla í New York, hélt athyglisverðan fyrirlestur á málþingi með yfirskriftinni "Fjármálamarkaður: Trúarbrögð nútímans?" þ. 16. maí 2013 í boði Guðfræðistofnunar HÍ og Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.
Hann tengist mjög því efni sem væntanlega verður til umfjöllunar hjá Jim McTague, fréttastjóra hjá bandaríska fjármálablaðinu Barron's á fyrirlestri hans í dag, en hann bendir á að um helmingur viðskipta í kauphöllum í Bandaríkjunum fari fram í gegnum tölvukerfi og forrit sem taka "sjálfstæðar ákvarðanir" á augabragði. - Það er að sjálfsögðu samkvæmt þeim reiknireglum sem forritaðar eru af fjármálafyrirtækjum verðbréfakaupmanna.
Dr. Mark C. Taylor hefur líkt þessu ástandi við þær vélrænu aðstæður sem leiddu ófremdarástand yfir mannkyn í sögu kvikmyndarinnar The Terminator og sem þar eru gagnrýndar.
Taylor heldur því fram að ávallt séu tengsl á milli trúarbragða og efnahagsmála, eða hagrænna atriða. Með siðbreytingu Lúthers hafi trúarbrögðin verið einkavædd, eða færð til einstaklingsins. Taylor benti á þá söguskoðun að auðsöfnun hafi komið til í kalvínisma, þar sem trúuðum var uppálagt að vinna og spara. Þarna séu rætur hins fjármálalega kapitalisma eða fjármálamarkaða sem komið hafa í ljós undanfarna áratugi.
Nú séu tæknin og hraðinn orðinn slík að viðskipti með hlutabréf fyrirtækja og verðpappíra eru framkvæmd á örskotshraða með reiknikerfum í tölvum; Það minni á kvikmyndina um Tortímandann (The Terminator). Þetta hafi átt sinn þátt í hruni fjármálamarkaða 2008.
Á grunni greiningar Taylors spyr maður sig hvort og þá hvað trúarbrögð geti gert við þessu ófremdarástandi í samtímanum, í ljósi þess að visst upphaf þess megi rekja til þeirra sjálfra, nánar tiltekið siðbreytingarinnar (Lúthers og Kalvíns) á 16. öld!
Nánar tiltekið komu eftirfarandi skoðanir Taylors fram í fyrirlestrinum, en inntaki hans var lýst þannig í tilkynningu frá aðstandendum fyrir málþingið:
In the past several decades a new form of capitalism has emerged: finance capitalism. This has been the result of a combination of factors ranging from technological innovation to changes in regulatory policies. The critical variable is speed. Today's high-speed, high-frequency ttrading has created a system that has already brought devastation and now threatens to collapse.
While apparently hyper-modern, financial capitalism has its roots in modernity. Speed is, in fact, a modern invention. But modernity, in turn, was initiated by Luther. From Wittenberg to Reykjavik - an unlikely but timely trajectory.
Forrit ákveða um helming viðskipta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2014 | 13:35
Gjaldmiðill eða vaxtaokur
Hver er hinn raunverulegi skaðvaldur í íslensku efnahagslífi: Gjaldmiðillinn eða hreint og klárt vaxtaokur? Þarf ekki að huga að samfélagslegum stöðugleika í heild fremur en "fjármálalegum stöðugleika" fyrir fjármálafyrrtæki og lánveitendur?
Samtök atvinnulífsins segja að raunvaxtamunurinn á Íslandi samanborið við viðskiptalönd okkar upp á þrjú prósentustig (3%) sé vegna gjaldmiðilsins. Það svari til um 150 milljarða króna á ársgrundvelli. Það sé sú byrði sem íslensk fyrirtæki og heimili verði að bera af íslensku krónunni.
Hvernig væri að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sem þessu nemur og bankakerfið lækkaði vaxtamun sinn tilsvarandi til að ná fram hliðstæðum áhrifum?! Í kjölfarið myndi fylgja að fjárfestingar innanlands tækju þá kröftuglega við sér, en hátt vaxtastig hér hefur vegið þungt við að halda fjárfestingum niðri undanfarin ár.
Hvers vegna er ekki búið að drífa í þessu fyrir áralöngu síðan?
Þarf virkilega nýjan seðlabankastjóra og nýja peningastefnunefnd (eins og haft er í flimtingum í fréttum) til að bregðast við þessu vaxtaokri með viðeigandi hætti?
Bera 150 milljarða aukakostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.3.2014 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2014 | 13:55
Veiðigjald og sóknarstýring
Í yfirskrift viðtengdrar fréttar er fullyrt að veiðigjald dragi úr veiðum, en fréttin sjálf fjallar síðan um aðra hluti og því miður ekkert um rök fyrir þessari fullyrðingu. Hefði verið fróðlegt að fá þau rök fram hér.
Í þessu sambandi er vert að benda á að hérlendis var mikið fjallað í ræðum og ritum um leiðir til að takmarka sókn í ofnýtta fiskistofna fyrir um 30 áru síðan í ljósi minnkandi fiskistofna hér við land þá, þ.e. áður en núverandi kvótakerfi var tekið upp. Sú umræða fór m.a. fram í ljósi fræðilegs rökstuðnings ýmissa fræðimanna á sviði fiskihagfræði, m.a. samkvæmt ritum Nóbelsverðlaunahafans Vernon L. Smith frá 1968-'69 um þjóðhagslega hagkvæmni miðlægrar sóknarstýringar af hálfu hins opinbera samanborið við óhefta sókn sem felur í sér óþarflega mikinn tilkostnað við veiðarnar í heild.
Sem tæki til að draga úr of mikilli sókn var m.a. bent á kvótasetningu á heildarafla fisktegunda, e.t.v. með sölu veiðileyfa eða beinni skattlagningu á veiðar útgerða; Vel að merkja til draga úr sókn og leiða þar með til minnkunar á alltof stórum fiskveiðiflota landsmanna.
Hugmyndin að baki er sú að með því að tilkostnaður við veiðar verði nægilega mikið hærri en ella með tilkomu veiðileyfagjalds eða skatts á veiðar í einhverju formi þá myndu einungis þær tegundir útgerða sem hagkvæmastar eru (fiskiskipaflokkar og veiðarfærategundir) halda áfram veiðum er til lengdar léti og þá hver upp að sínum hagkvæmnismörkum. Niðurstaðan yrði hagkvæmari fiskveiðar þjóðhagslega séð.
Eins og alkunna er varð kvótakerfið ofan á og aflaheimildum úthlutað í upphafi á níunda áratugnum án þess að gjald væri tekið fyrir.
(Sbr. sala stórra frystitogara úr landi undanfarið, en þar verður reyndar að hafa í huga að margir samverkandi þættir spila þar inn í auk veiðigjalds, svo sem launakostnaður, olíukostnaður og afurðaverð og eftirspurn á mörkuðum).
Veiðigjaldið dregur úr veiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2014 | 22:39
Um fréttir af veiðigjöldum
Hálfsannleikur í villandi samhengi er settur fram í meðfylgjandi fréttatilkynningu um þróun veiðigjalda á fréttasíðu sem heitir T24.
Þar er upphæð veiðigjalda deilt niður á hvern íbúa á viðkomandi útgerðarstöðum. Samkvæmt fréttinni mætti ætla að veiðigjöld séu heldur betur viðbótarálögur beint á íbúana. Fjarri fer því! Það er auðvitað fjarri lagi að stilla þessu upp svona.
Það eru auðvitað útgerðirnar sem greiða veiðigjöldin en ekki íbúarnir á staðnum.
Sömuleiðis eru það útgerðirnar sem fá tekjurnar af veiðunum en ekki íbúarnir.
Það hefði mátt sýna í greinargerðinni hverjar tekjurnar voru á umræddu tímabili, en þær deilast ekki niður á hvern íbúa á staðnum þeim til úthlutunar við aflasölu frekar en veiðigjöldin.
Sömuleiðis hefði mátt birta upphæðir annarra helstu kostnaðarliða, svo sem fyrir launakostnað og olíukostnað.
Enn hefði mátt sýna hvernig fiskverð hefur þróast á sama tímabili. Þá hefði e.t.v. sést að það er ekki einungis vegna hækkunar veiðigjalda sem sumar tegundir fiskiskipa eru ekki lengur eins hagkvæmar og áður (sbr. skipasölur úr landi undanfarið), heldur er það einnig vegna olíukostnaðar og tekjulækkunar vegna lækkandi fiskverðs á erlendum mörkuðum.
Líta ber á veiðileyfagjald sem einn af útgangspunktum rekstrarkostnðar við útgerð sem gengið er út frá sem vísum fyrirfram við reksturinn en ekki sem afgangsstærð sem dregst síðast frá hagnaði eftir á.
Alveg þar fyrir utan má svo endalaust deila um hve hátt veiðileyfagjaldið á að vera, en það ætti að vera einfalt krónutölugjald pr. aflakíló, sem gæti verið mishátt eftir fisktegundum og fiskiskipategundum og jafnvel háð fleiri atriðum.
Alls ekki ætti að reikna veiðileyfagjaldið eftir á og tengja það reiknaðri rekstrarafkomu síðasta árs hverju sinni eins og fyrrverandi ríkisstjórn ætlaði að haga málum, en það er afar óskynsöm, ónákvæm og óskilvirk aðferð (og óframkvæmanleg með þeim ónákvæma hætti eins og hugmyndin var samkvæmt þeim lögum sem felld voru úr gildi).
Veiðigjöldin nífölduðust á fjórum árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2014 | 09:53
Óverðtryggð lán, vextir og virkur húsaleigumarkaður
Þetta er "ódýr" umræða sem fram kemur í viðhangandi frétt á mbl.is um samanburð á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Þar er sagt að verðtryggð lán séu "dýrari" en óverðtryggð lán þegar átt er við að greiðslubyrðin sé þyngri af óverðtryggðum lánum á fyrri hluta lánstímans að gefnum forsendum um nægilega háa nafnvexti á hinum síðar nefndu.
Þegar búið er að bæta öllum verðbótum við höfuðstólinn á verðtryggðu láni og öllum vöxtum til viðbótar og bera það saman við vaxtabyrði af óverðtryggðu láni á öllum greiðslutímanum kemur annað í ljós. Þetta sést betur í frétt í Morgunblaðinu í dag, 14.2.2014 bls. 12, þar sem borin eru nokkur dæmi um verðtryggð og óverðtryggð lán. Þar kemur fram að heildargreiðsla ("Samtals greitt") fyrir verðtryggð lán á lánstímanum er umtalsvert hærri en fyrir óverðtryggð lán.
Hérlendis þurfa stjórnvöld að vinda sér í það, og þó mörgum árum fyrr hefði verið, að stuðla að virkum leigumarkaði fyrir húsnæði. Hagstæður húsnæðisleigumarkaður er gott svar sem uppbyggilegur valkostur í stað kaupa á "eigin" húsnæði vegna vaxtabyrði og kostnaðar af lánum. Jafnframt þarf að leggja af verðbólguhvetjandi hávaxtastefnu Seðlabankans sem enn er við haldið þrátt fyrir kirfilegt skipbrot hennar við hrunið og afleiðingar hennar hingað til. Þar á bæ er nú hótað vaxtahækkunum á nýjan leik; Og hvað gerist? Verðbólguvæntingar aukast samstundis og vaxtakostnaður í kjölfarið og útkoman verður meiri verðbólga! Samfara aflagningu verðtryggingu neytendalána þyrfti að breyta um stefnu í Seðlabankanum þannig að meginmarkmið hans verði að viðhalda efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika með viðunandi atvinnustigi í stað verðbólgumarkmiða.
Þeir sem hallmæla óverðtryggðum lánum og mæra verðtryggð lán gefa sér gjarnan þá forsendu að vextir á óverðtryggðum lánum myndu rjúka upp í hæstu hæðir til frambúðar og vaxtakostnaður óverðtryggra lána því verða miklum mun hærri en samanlögð áhrif af verðbólgu og vöxtum á verðtryggðu lánum.
Þetta er ekki raunsæ forsenda ef allt er með felldu. Eins og fylgjendur verðtryggðra lána (bankar og lánveitendur og taglhnýtingar þeirra) hampa nú í fréttum horfist fólk í leit að húsnæði í augu við tiltölulega þunga greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum með háum nafnvöxtum og sér því strax hvort það geti staðið undir henni eða ekki og tekur þar af leiðandi (og vonandi) rétta ákvörðun í samræmi við það, hver í sínum aðstæðum. Verði verðtryggðir fjármögnunarkostir af lagðir við kaup á húsnæði og sala á húsnæði drægist saman vegna óviðráðanlegra vaxta, þá yrði eðlilegt svar lánveitenda lækkun vaxta (sem stuðlar jafnframt að lækkandi verðbólgu); Fái lögmál framboðs og eftirspurnar að njóta sín óbjagað. Virkur og hagstæður húsaleigumarkaður flýtir fyrir því ferli.
Greiðslubyrðin er of þung | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2014 | 14:10
Lífeyrissjóðakerfi og fjárfestingar
Í pistli sínum í dag, 8.2.2014, heldur Páll Vilhjálmsson því fram að lífeyrissjóðir séu í gíslingu forstjóra stórfyrirtækja og færir fyrir því sterk rök með nærtækum dæmum. Vitnar Páll í því sambandi í merkilega og umhugsunarverða grein Einars Sveinbjörnssonar stjórnarmanns í Söfnunarsjóði lífeyristrygginga í Morgunblaðinu í dag (Lífeyrissjóðirnir og N1, bls. 34) sem varar þar við myndun elítulífeyriskerfis fyrir hálaunaða stjórnendur eins og dæmi er um hjá olíufélaginu N1 (sem áður seldi vörur sínar undir merkjum Esso).
Jafnframt ábendingum um hættu á þvílíkri og annars háttar spillingu innan núverandi lífeyrissjóðakerfis bendir Páll á að breytinga á því sé knýjandi þörf með tilheyrandi lagabreytingum. Ég er sammála ábendinum Páls í þessa veru.
Núverandi lífeyrissjóðakerfi með söfnunarsjóðum er komið út í algjörar ógöngur eftir áföll við hrunið 2008 og nú orðið innan gjaldeyrishaftanna þar sem fjárfestingarmöguleikar sjóðanna takmarkast við atvinnulíf og valkosti á Íslandi. Gífurlegt tap varð hjá lífeyrissjóðum við hrunið upp á mörg hunduð milljarða króna og í kjölfarið kom núverandi ástand með stórlega skertum ávöxtunarmöguleikum og óásættalegri fjárfestingaráhættu undir gjaldeyrishöftunum með fyrirsjáanlega hörmulegum afleiðingum fyrir lífeyrissjóðina/spariféð og efnahagslífið í heild. Og, áfram er stórfé (12% eða meira af öllum launum) dælt mánaðarlega í stútfulla lífeyrissjóðina! Þetta ætti að vekja hugsandi fólk til umhugsunar. Spurningin er hvort nægilega margir þingmenn átti sig á þessu.
Augljósasta leiðin til skoðunar út úr þessum ógöngum er að taka upp gegnumstreymiskerfi eins fljótt og verða má, eins og tíðkast í flestum löndum Evrópu/erlendis. Þar með ætti jafnframt að sparast óhemju rekstrarkostnaður sem nú fer í rekstur lífeyrissjóðanna og ævintýralega há laun stjórnenda þeirra í stað þess að gagnast launafólki beint; Að ekki sé talað um að fjarlægja þar með möguleika á spillingu eins og þeirri sem Páll og Einar benda á.
Að öðrum kosti til bráðabirgða hreinlega að stöðva iðgjaldagreiðslur launafólks í lífeyrissjóðakerfið að umtalsverðu leyti meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði, með lögum. Það yrði jafnframt gott innlegg á launareikning og séreignarsparnaðarreikninga fólks núna.
Í pistli frá 2009 á þessari blogsíðu varpa ég fram spurningum um hvort lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks ásamt mótframlagi launagreiðenda séu skattlagning í reynd og færi rök fyrir því að svo sé, ekki síst þar sem launþegar hafa sjálfir afar lítið um það að segja hvernig fénu er varið og fá það ekki allt til baka aftur á ævi sinni. Síðar bæti ég svo við athugasemdum um að lífeyrissjóðirnir séu í reynd nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs (Fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs kemur í ljós).
Þetta vekur spurninguna um að hve miklu leyti sparnaður launþega í formi iðgjalda til lífeyrissjóða ásamt mótframlagi atvinnurekenda, alls 12% eða meira, sé í reynd eign launþega eftir greiðslu þeirra gjalda sem frádráttar frá launaútborgun hverju sinni.
Þetta atriði er einn sterkur liður raka fyrir upptöku gegnumstreymiskerfis í stað núverandi uppsöfnunarkerfis í umsjá sérstakra lífeyrissjóða. Sbr pistillinn Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?
Kaupa Höfðatorg af Íslandsbanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)