Um samband vaxta og fjárfestinga

Gömul og innsæislega sönn viðmiðunarregla innan hagfræði mælir svo um að lækkandi og lágir vextir séu til þess fallnir að örva fjárfestingar í hagkerfinu þar sem fjármagnseigendur og fjárfestar hafi þá meiri tilhneigingu en ella og að öðru óbreyttu til að fjárfesta í atvinnustarfsemi í von um meiri ávöxtun þar á fjármagni sínu.
Á hliðstæðan hátt dragi hækkandi og háir vextir úr fjárfestingum í atvinnurekstri þar sem þá fer að fást hlutfallslega meiri ávöxtun en ella með því að leggja fé í banka og örugga ríkispappíra.

Hvers vegna skyldi ekki hafa verið unnið meira eftir þessari reglu við stjórn efnahagsmála hérlendis en raunin er?
Hérna hefur verið rekin hávaxtastefna með hörmulegum afleiðingum eins og t.d. bankahrunið 2008 ber ömurlegt vitni um. Síðasta ríkisstjórn staglaðist á því, réttilega, að innlendar fjárfestingar í efnahagskerfi landsins væru allt of lágar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en samtímis var vöxtum samt haldið í himinhæðum þrátt fyrir viðurkenningu á því að einmitt hávaxtastefna undanfarinna ára hefði átt drjúgan þátt í hruninu.
Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa stýrivextir ekki farið lægra en þeir eru nú, 6 % sem er of hátt, enda er enn kvartað yfir of lágum fjárfestingum í landinu. (Að ekki sé minnst á þungbæran vaxtaklafa skuldugra fyrirtækja og heimila af þeim sökum sem þau sligast undan).
Í ofangreindu ljósi má spyrja: Er við öðru að búast?

Væri ekki ráð fyrir ríkisstjórnina að íhuga betur umrædda reglu vaxta- og fjárfestingastjórnunar og hvað í henni felst og hvort hér sé verið að vinna eftir viðeigandi viðmiðum við stjórn peningamála?

Eða, hvers vegna skyldu Bandaríkin og lönd í Evrópu vera með lágvaxtastefnu, jafnvel eins og þá sem hér berast fréttir af um 0% vexti í Svíþjóð?


mbl.is Stýrivextir 0 prósent í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvers vegna skyldi ekki hafa verið unnið meira eftir þessari reglu við stjórn efnahagsmála hérlendis en raunin er?

Svar: Vegna þess að hér á landi vill seðlabankinn geta stundað spákaupmennsku.

Væri ekki ráð fyrir ríkisstjórnina að íhuga betur umrædda reglu vaxta- og fjárfestingastjórnunar og hvað í henni felst og hvort hér sé verið að vinna eftir viðeigandi viðmiðum við stjórn peningamála?

Spurning á móti: Hver eru "viðeigandi viðmið við stjórn peningamála" fyrir Ísland?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.10.2014 kl. 17:54

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Seðlabankinn hefur unnið eftir svokölluðu "verðbólgumarkmiði" í staðinn fyrir önnur meginmarkmið eins og t.d. tiltekið atvinnustig jafnframt. Í reynd hefur það stutt við og ýtt undir verðbólgu fremur en að stemma stigu við henni og verið þannig sannkallað verðbólgumarkmið.

Hávaxtastefnan hefur í samræmi við umrædda reglu um áhrif vexta á fjárfestingar dregið úr hvata til fjárfestinga í atvinnulífinu og þar með virkað letjandi á eftirspurn eftir vinnuafli og þar með viðhaldið atvinnuleysi samsvarandi. 
Seðlabankamenn hafa heldur ekki hlustað á rök fyrir því að vaxtahækkanir og hátt vaxtastig auki út af fyrir sig verðbólgu af kostnaðartoga, þvert á tilgang þeirra með vaxtahækkununum.

Annar þáttur hefur jafnframt leikið lausum hala við að kynda undir verðbólgu án þess að Seðlabankinn hafi fengið rönd við reist né hafi þar beina stjórn á, en það er lítt heft peningaútgáfa viðskiptabankanna þar sem þeir búa til peninga "úr engu" með skuldsetningu lántakenda í krafti brotaforða-peningakerfisins.
Þess í stað ætti Seðlabankinn einn að hafa peningaprentunarréttinn, en með því móti hefði hann stjórn á peningamagni í umferð og þar með áhrifum þess á verðbólgu. Það gæfi Seðlabankanum/ríkinu ennfremur tugi milljarða í tekjur árlega; Mál sem Frosti Sigurjónsson alm. hefur verið að brydda upp á og kemst vonandi á frumvarpsstig í vetur.

Kristinn Snævar Jónsson, 29.10.2014 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband