Um lýðskrum og lánaleiðréttingar

Margir andstæðingar afnáms verðtryggingar og leiðréttingar stökkbreyttra verðtryggðra lána hafa uppi svipaðan málflutning og kemur fram í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur skrifar undir yfirskriftinni „Lýðskrum“ í Morgunblaðinu í dag, 5.3.2013 s. 19.

Í greininni er talað gegn hugmyndum um „niðurfellingu eða lækkun“ skulda. Hvergi er verðtrygging lána nefnd beint á nafn, heldur það að eðlilegt sé að lánveitendur vilji „fá jafnvirði lánsins endurgreitt sem og einhverja vexti“. Hér virðist þó greinarhöfundur beina spjótum sínum m.a. gegn hugmyndum um leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána sem sumir stjórnmálaflokkar hafa sett á stefnuskrá sína meðal annarra mála.

Í fyrsta lagi forðast lögfræðingurinn að ræða ástæður krafna þeirra lántakenda sem sitja nú uppi með stökkbreyttar upphæðir verðtryggðra lána.

Við hrunið og aðdraganda þess árið 2008 varð alvarlegur forsendubrestur varðandi verðtryggð lán við það að vísitala sú sem verðtryggð lán hafa miðað við snögghækkaði og langtum meira en lántakendur óraði fyrir er þeir tóku lánin, enda vissi almenningur ekki að bankahrun væri í aðsigi með tilheyrandi gengisfalli íslensku krónunnar og verðbólgu. Þrátt fyrir þennan forsendurbrest við hrunið og við gjaldþrot bankanna í október 2008 var verðtryggingarvísitalan ekki tekin úr sambandi heldur leyft að hækka höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við stökkbreytingu vísitölunnar eins og ekkert hefði í skorist. Fyrir þá vanrækslu verður ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að svara, en það er önnur saga.

Málið snýst um að leiðrétta þessa oftöku lánveitenda í formi hinna reiknuðu verðbóta sem bætt var við höfuðstól lána, peningaupphæðir sem lántakendur höfðu aldrei fengið úr höndum lánveitenda; Upphæðir sem ekki voru tilteknar í lánasamningum. Maria Elvira Méndez Pinedo, doktor í Evrópurétti, hefur haldið því fram að þetta standist ekki lög og er að skilja á fréttum að það sé til formlegrar athugunar.
Auk forsendubrests fyrir verðtryggingu lánanna við hrunið kemur einnig til siðferðisbrestur ef ofteknar verðbætur verða ekki leiðréttar, en það er enn önnur saga.

Kjarninn í ábendingum lögfræðingsins er að standa skuli við gerða samninga, en í ljósi ofangreinds er spurning um hvað raunverulega var samið. Var það vitund og vilji lántakenda að taka á sig afleiðingar náttúruhamfara eða ígildi þeirra í formi stökkbreyttra verðbóta sökum hruns bankakerfis landsins?

Í öðru lagi gefur lögfræðingurinn sér forsendu sem á ekki við að öllu leyti. Hann heldur því fram að þeir sem vilji að hið opinbera hlutist til um „niðurfellingu eða lækkun“ skulda hjá lántakendum sem „vilja losna undan skuld sinni eða fá lækkun á henni“ séu í raun „að biðja um að einhverjir aðrir, sem áttu engan þátt í lántökunni og nutu einskis af lánsfénu, borgi skuld hans eða hluta hennar“.

Þarna hleypur lögfræðingurinn eins og aðrir sem þannig tala yfir einn afgerandi aðila í umræddum lánamálum, þ.e. lánveitendur. Við hrunið og eftir stökkbreytta hækkun verðtryggingarvísitölunnar í kjölfar þess héldu lánveitendur áfram að reikna verðbætur samkvæmt henni og hækka lánaskuld lántakenda tilsvarandi í bókhaldi sínu og á greiðsluseðlum greiðenda. Þá voru verðbæturnar færðar lánveitendum til tekna í bókhaldi þeirra og lántakendum til skuldar.

Málið snýst um að bakfæra þessar ofreiknuðu tekjur af tekjureikningum lánveitenda og samtímis lækka skuldastöðu lántakenda þar tilsvarandi á móti.
Þeir sem „borga“ þannig fyrir leiðréttingu hinna stökkbreyttu verðtryggðu lána eru því þeir sömu sem upphaflega fengu tekjurnar af hinni ofreiknuðu verðtryggingu. Þeir væru að skila ofreiknuðu fé.

Það er því verið að róta upp moldviðri með því að halda því fram að lántakendur vilji að „einhverjir aðrir“ en lánveitendur borgi umræddar verðbótaleiðréttingar.

Þá sem taka undir réttmætar leiðréttingakröfur skuldara verðtryggðra lána ætti því fremur að flokka með hópi hinna réttsýnu, mönnum samfélagssátta, heldur en lýðskrumurum.


mbl.is Jón Steinar: Lýðskrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Verðtryggð lán geta aldrei verið lögleg nema það sé sett þakk á hversu mikil hækkun getur átt sér stað yfir lánstíman.

Af hverju?

Af því að það er skilda lángefanda að setja tölu á upphæðin sem greidd verður af lántakanda á öllu lánstímabilinu.

Sem sagt það er ólöglegt að hafa víxil sem lángefandi getur fyllt in upphæðina seina eftir sínum geðþótta.

Sem dæmi: Ég tók lán í BNA og þegar ég skrifaði undir $130,000 lán þá var í samningnum $360,000 sem var upphæðin sem ég þurfti að greiða á lánininu yfir 30 ár.

Upphæðin var sem sagt með vöxtum innifalið. Augsýnilega hefði ég greitt $230,000 í vexti og auðvitað höfuðstólinn $130,000 samtals $360,000.

Þessu var jafnað í 360 greiðslur sem voru þær sömu allt lánið.

Ef að heildarupphæð greiðslunar $360,000 er ekki í samningnum þá mundi hvaða réttur sem er dæma lánið ómerkt og ólölegt.

Mér hefur verið tjáð að þessi lög/reglur eru í lánalögum og reglum á Íslandi, ef það er rangt þá er kominn tími til að setja þau í lög og reglur.

Ef verðtryggðu lánin færu fyrir Evrópurétt ef íslendingar hafa aðgang að honum, eða Mannréttindarétt, þá er ég viss um að lántakendur mundu vinna það mál og lánin gerð ómerk og ólögleg.

Þess vegna verða lánveitendur viljugir að semja um sanngjarnar greiðslu án verðtryggingar, þegar Alþingi hefur sett bann á verðtryggð húsnæðislán.

Ef að allir aðilar eru samþykkir að breyta samning þá er ekki verið að brjóta neinn lög.

Kveðja frá Houston.

Jóhann Kristinsson, 5.3.2013 kl. 15:16

2 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Þú, Kristinn Snævar Jónsson, ert dæmi um það hvernig lýðskrum hefur áhrif á samfélagið.

Hver var þessi forsendubrestur?? Að lánin skulu hafa hækkað?

Ólafur Guðmundsson, 5.3.2013 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband