Færsluflokkur: Evrópumál

Sibert segir ekki allan sannleikann

Erlendar skuldir eru greiddar með gjaldeyri sem aflað er með útflutningi landsmanna. Þess vegna skiptir hlutfall skulda af útflutningstekjum meira máli en hlutfall af upphæð landsframleiðslu.

Útflutningstekjur Íslendinga eru miklu lægri en upphæð landsframleiðslu, eðli málsins samkvæmt. Þess vegna er hlutfall tiltekinnar upphæðar "Icesave-skuldar" af útflutningstekjum miklu hærra en þessi 14% sem fram kemur í fréttinni. Sá klafi er óárennilegur að standa undir ásamt öðru sem nýta þarf útflutningstekjur landsins til. Það yrði harla lítið eftir til nauðsynlegra aðfanga á vörum og þjónustu til landsins ef taka þarf drjúgan hluta teknanna til greiðslu á "Icesave-skuld" sem í þokkabót er ekki réttmætt að lendi á Íslandi að greiða. (Hroðvirknisleg fréttamennska mbl afhjúpar sig við það að ekki er getið upphæðar "Icesave-skuldar" sem Anne Sibert miðar við í sínu dæmi þar sem hún fær út 14% sem hlutfall af landsframleiðslu. Sú tala kemur reyndar ekki beint fram í greininni á VoxEU, sem er greinarhöfundi ekki fagur vitnisburður, en fréttamaður hefði þá átt að grennslast nánar fyrir um það hjá höfundinum).

Ég fagna upplýstri umræðu, en Sibert ver framtak sitt með þeim rökum. Hins vegar er ekki heppilegt að koma fram með yfirlýsingar sem setja mikilvæga þætti máls ekki í sanngjarnt samhengi. Slíkt er ekki allur sannleikurinn og getur villt um fyrir þeim sem grípa slíkt á lofti hrátt. Í þessu tilfelli getur slík yfirsjón skaðað málstað Íslendinga í hugum erlendra aðila og almennings þar. 
Sibert tekur ekki fram í grein sinni í VoxEU hvert hlutfall "Icesave-skuldar" yrði af útflutningstekjum og er það til þess fallið að gefa ranga mynd af hversu íþyngjandi fyrir íslenskan efnahag sú byrði yrði, sbr. greinin öll sem útdráttur er birtur af nánast á forsíðu vefritsins).
Í dæmi sínu í greininni sundurliðar Sibert útreikninga sína ekki nægilega vel. Hún gefur sér þá forsendu að 75%-90% endurheimtist af eignum gamla Landsbankans sem gengju til greiðslu á "Icesave-skuldinni" þannig að "aðeins" um 630þús kr (3.600 evrur) með 5,55% vöxtum að núvirði lendi á hverjum íbúa Íslands, þ.e. rúmlega 200 milljarðar kr alls samkvæmt því. Ef Sibert hefði gefið sér lægra endurheimtuhlutfall á Landsbankaeignunum hefði hún fengið út tilsvarandi þyngri byrði á hvern íbúa. Hún færir ekki rök fyrir því hvort og þá hvers vegna 75%-90% endurheimtuhlutfall geti talist líkleg niðurstaða. Í því sambandi vísar hún aðeins í "recent estimates"! Hvaða mat? Erlendir lesendur virðast einfaldlega eiga að taka þessar tölur góðar og gildar umyrðalaust!

Sibert rekur hins vegar, reyndar afar stuttlega, að ágreiningur ríki meðal ESB-landa um regluverkið kringum tilskipun 94/19/EC og hverjum beri að borga innistæðueigendum í tilfelli bankakerfishruns eins og þess er varð á Íslandi. Hún dregur síðan fram þá staðhæfingu að "Iceland has expressed a willingness to repay if the terms are reasonable" og bendir í því sambandi á orð forsætisráðherrans þar um. Hún sleppir hér að minnast á óvilja þjóðarinnar til þess arna og að 60.000 Íslendingar hafi í undirskriftasöfnun hvatt forsetann til að hafna lögum sem þingið samþykkti naumlega um ríkisábyrgð á "Icesave-skuldinni".

Það, að Sibert skuli undrast hörð viðbrögð við grein sinni, sýnir að hún gerir sér ekki grein fyrir þessari hlið málsins í þeirri stöðu sem það stendur í núna. Eða, að hún riti og birti greinar erlendis um þessi málefni Íslands þrátt fyrir það. Þá er ekki von á góðu, þ.e. fyrir Ísland. (Anne Sibert er prófessor við háskóla í London, en situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem fulltrúi Samfylkingarinnar).


mbl.is Sibert undrast hörð viðbrögð Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirsást mikilvægasta atriðið? Lausafjárstaðan!

Þetta virðist hafa verið einhvers konar bankavírus sem hefur grasserað, og sem lýsti sér í blindu gagnvart mikilvægasta atriði í rekstri banka, lausafjárstöðu þeirra;
Ekki bara í fjármálaeftirlitinu á Íslandi, heldur líka því hollenska og þá líka því breska, þó breski prófessorinn Robert Wade nefni það ekki af tillitssemi við landa sína. Það skín þó í gegnum kurteislegt rósamál hans og lætur hann öðrum um að draga þá ályktun.
mbl.is Vanræksla hollenska seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðingar á hálu svelli Icesave

Hverjir eru grundvallarhagsmunir Íslands?
Hverjar eru afleiðingar samþykktar eða synjunar á Icesave-lögunum?

Tómas Ingi Olrich fyrrv. sendiherra og ráðherra skrifar athygliverða grein í Morgunblaðinu í dag 3.2.2010 undir yfirskriftinni “Hagfræðingur á hálu svelli”.
Þar er hann að svara grein Friðriks Más Baldurssonar hagfræðiprófessors við Háskólann í Reykjvík frá 2.2.2010 í Morgunblaðinu er ber yfirskriftina “Icesave: Mat á afleiðingum samþykktar og synjunar”.

Tómas bendir á það sem hann kallar veikleikana í úttekt Friðriks um mat á afleiðingum samþykktar eða synjunar á Icesave-lögunum. Þeir felist í óvissunni um þær forsendur sem Friðrik byggi útreikninga sína og mat sitt á. Í niðurstöðu sinni segir Tómas m.a.:
“Svo virðist sem prófessor Friðrik Már geri ráð fyrir að ef Íslendingar hafni lögunum um Icesave, setjist þeir með hendur í skauti sér og bíði. Það verði sem sagt ekkert aðhafst og menn bíði þess sem dæmdir að lenda í vandræðum.”

Þetta er lóðið! Auðvitað verður það ekki svo að þjóðin hætti að vinna að verðmætasköpun, vegna þess að ríkisstjórn landsins, hver sen hún verður, mun ekki lýðast til áframhaldandi lengdar að vinna ekki að uppbyggingu á efnahagslífi Íslands í sátt við þegna landsins.

Annað atriði vil ég ennfremur benda á, sem ekki kemur fram í ofangreindum greinum.
Friðrik Már bendir réttilega á ýmis atriði sem huga þarf að varðandi hugsanlegar afleiðingar af mismunandi ákvörðunum um málið.
Hins vegar snýst megin vandinn um að meta haldbærni forsendnanna sem reiknað er út frá.
Friðrik virðist ganga út frá því sem gefnu að trúverðugleiki Íslands og efnahagslífs þess muni standast og batna í augum erlendra lánardrottna verði Icesave-lögin samþykkt og að  hið gagnstæða muni gerast ella.
Þetta er afar hæpin forsenda í sjálfu sér sem hvílir að miklu leyti á tilfinningalegum rökum.

Erlendir lánardrottnar og hugsanlegir erlendir fjárfestar á Íslandi munu ekki taka ákvarðanir út frá samúð með Íslendingum eða á grundvelli tilfinningalegra atriða, heldur út frá köldu mati og áliti sínu á innviðum íslenska efnahagskerfisins, framleiðslukerfinu og tengdum þáttum og möguleikum þess og getu til að skapa verðmæti, þar með talið arð af viðkomandi fjárfestingum.

Grundvallarforsenda fyrir umsnúningi á högum Íslands hvílir því á framleiðslukerfi landsins og forsendum þess og væntri framtíð. Það verður undir öllum kringumstæðum að styrkja með ráðum og dáð, hvað svo sem verður ákveðið í Icesave-málinu.
Ef framleiðslukerfið koðnar niður, þá er voðinn vís með meiri líkum en ef Icesave-lögunum yrði hafnað.

Stjórnvöld ættu því að beina mestum kröftum sínum að uppbyggingu framleiðslukerfis landsins og innviðum efnahagslífsins og vinna í samræmi við heilbrigðan þjóðarvilja í stað þess að slást við þjóðina og halda til streitu rökum í Icesave-málinu sem hugnast bresku og hollensku ríkisstjórnunum og svokölluðu “alþjóðasamfélagi”, að því er virðist af hræðslu einni saman eða dómgreindarleysi og aðgerðarleysi varðandi það að koma málinu í annan umræðufarveg á forsendum Íslands.
Fleiri öflugar þjóðir tilheyra alþjóðasamfélaginu fyrir utan ESB-þjóðirnar, sem farsælt má telja að yrði fyrir Ísland að efla viðskipti sín við frá því sem nú er, á mörgum sviðum og á forsendum Íslands.


mbl.is Gegn hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voldugan sáttasemjara eins og Kanada í málið

Ég fagna þessari frétt, enda ritaði ég pistil um að fá sáttasemjara í málið í ágúst s.l. þegar Icesave-málið var enn að klúðrast í þinginu og menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð og ríkisstjórnin virtist veigra sér við að ræða við Breta og Hollendinga ein sér - og virðist það reyndar enn þar sem lítið hefur verið um frumkvæði að halda málastöðu Íslands á lofti á þeim bæ!
Þetta ítrekaði ég í viðbótarpistli 10.jan. s.l.

Utanaðkomandi sáttasemjari er orðinn nauðsynlegur nú í ljósi þess að Evrópulöndin eru smám saman að viðurkenna það opinberlega að þetta snertir þau öll.
Fleiri lönd eru þar samsek, ekki síst Bretland og Holland.
Líka þau lönd (t.d. Þýskaland) þar sem bankar gátu að því er virðist óáreittir lánað einkabönkum í landi eins og Íslandi upphæðir á við margfalda landsframleiðslu landsins.
Þessir erlendu bankar máttu vita að íslensku bankarnir gátu aldrei endurgreitt þessi lán snögglega ef skyndilega lokaðist fyrir lánalínur þeirra eins og gerðist.
Spyrja má ennfremur í því sambandi hvort túlka megi þessi botnlausu lán þeirra sem atlögu að efnahagskerfi Íslands og hvort þeir (ásamt bankaráðum og stjórnendum íslensku einkabankanna) séu hreinlega skaðabótaskyldir gagnvart íslenska ríkinu sem situr uppi með skaðann af glæfralegum fjármálagjörningum þeirra!
Í öðrum pistli 28.1.2010 set ég spurningamerki við heiðarleika matsfyrirtækja eins og S&P þegar þau birta dóma sína um greiðsluhæfi landa.
Undir þessi sjónarmið tekur fréttaskýrandinn Max Keiser í viðtali í Silfri Egils í dag.

Ég tel að heppilegt sé og líklegra til hlutleysis en ella að fá annan aðila en Evrópuríki til að miðla málum, t.d. einmitt Kanada.

Ríkisstjórnin sér ekki á spil sín fyrir ESB-menguðu andrúmsloftinu og blekkingareyk breskra og hollenskra stjórnvalda ásamt snarvitlausum bresk-hollenskum gleraugum sem ríkisstjórnin hefur tekið við möglunarlaust af Bretlandi og Hollandi og meðvirkandi löndum. Með þeim gleraugum hefur ríkisstjórnin lesið allt öfugt í þessu máli eins og af misvísandi kompás. Nú þarf hún að fleygja þessum gleraugum og tileinka sér réttvísandi baráttuanda fyrir hagsmunum Íslendinga og segja nei við kúgun sem leiðir efnahag almennings til glötunar.


mbl.is Kanadískur sáttasemjari?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SamkeppnisÓhæfni falin með sameiginlegri mynt

Þeir sem mælt hafa með Evrunni hér og nú hafa yfirleitt, margir hverjir, aðeins litið á aðra hliðina á málinu, þ.e. kostina. Einnig hverjir kostirnir HEFÐU verið fyrir Ísland EF það hefði þegar verið komið með hana fyrir hrun.

Þegar lönd taka upp sameiginlega mynt eru þau öðrum þræði að viðurkenna leti sína og hræðslu við að standa sig ekki í samkeppninni við nágrannaþjóðir sínar í alþjóðaviðskiptum.
Ástæðan er sú að eitt fljótvirkasta tækið til að hafa áhrif á samkeppni lands er að breyta genginu á einkamynt landsins í samræmi við stöðu efnahagsmála í landinu og samkeppnisstöðu á erlendum mörkuðum.

Það er t.d. hægt að fella gengið fyrirvaralaust, en um leið eru vörur og þjónusta landsins orðin þeim mun ódýrari samanborið við vörur annarra landa sem keppa á sömu mörkuðum.
Ein forsendan fyrir því að slík aðgerð gagnist landinu þjóðhagslega séð er að framleiðslukerfi landsins geti afkastað meiru og afgreitt meira magn af vörum en fyrir gengisfellingu.
Önnur forsenda er sú að útflytjendur hækki ekki vörur sínar samsvarandi í innlendri mynt og haldi verðinu á erlendu mörkuðunum óbreyttu og hirði þannig ágóðann af gengisfellingunni sjálfir í innlendri mynt í stað þess að lækka erlenda verðið eitthvað í reynd vegna svigrúmsins sem skapast eins og til er ætlast af stjórnvöldum.

Lönd sem taka upp sameiginlega mynt, eins og evru-löndin, eru þar með að komast hjá því að löndin í hópnum geti beitt þessu tæki innbyrðis. Þetta er því samkeppnishamlandi og jafnframt gert til að halda hærra verði á afurðum landsins bæði á heimamörkuðum og viðkomandi erlendu mörkuðum. Þeir sem borga eru neytendur. Þeir sem taka við þeirri borgun eru framleiðendur og atvinnurekendur í landinu og svæðinu öllu, en reyndar launafólk og skattayfirvöld að einhverju (en yfirleitt minna) leyti.
Löndin sem taka þátt í mynthópnum gera það ekki síst vegna þess að þau telja sig myndu fara halloka í samkeppninni ef hvert land væri með sína (gömlu) mynt; Að minnsta kosti bera þá rýrari hlut úr býtum,
Jafnframt taka aðgerðir sem lúta að stjórnun á hinni sameiginlegu mynt eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst mið af hagsmunum stærstu eða efnahagslega sterkustu landanna í hópnum hverju sinni þannig að þau lönd sem minni eru og veikari borga fyrir þann hag þeirra.

Þær þjóðir sem sækjast eftir aðild að hópi landa með sameiginlega mynt halda að þær geti þar með tryggt sér skemmri leið að velsæld en ella. Þær fá hins vegar ekki aðgang að hópnum nema það sé þeim löndum í hag sem fyrir eru. Það er engin góðgerðarstarfsemi sem ræður þar að  baki.

Einn stærsti ókosturinn fyrir fámennar þjóðir í evru-hópnum (eða þeirra sem sækja um inngöngu) í samanburði við stærstu þjóðirnar er að þá missa þær þann sveigjanleika til viðbragða sem eigin mynt býr yfir þegar þörf er á t.d. hraðri aðlögun að ríkjandi efnahagslegum aðstæðum og alþjóðlegri samkeppnisstöðu.
Þessu atriði hafa Írar, Spánverjar og fleiri þjóðir kvartað sárlega undan eins og sést hefur í fréttum undanfarin misseri eftir að fjármagnskreppan gerði vart við sig. Helsta ráðið sem þær geta þá gripið til er að lækka laun landsmanna og skera niður m.a. í opinberum kostnaði eins og heilbrigðiskerfinu til að lækka tilkostnað og þar með verðið á framleiðsluvöru sinni á erlendum mörkuðum til að bæta samkeppnisstöðu sína. Slíkar aðgerðir eru lítt fallnar til vinsælda meðal almennings í þeim löndum.

Það er þetta atriði sem veldur ótta framkvæmdastjórn ESB, sem rætt er um í viðhengdri frétt. Myntsambandið rofnar af sjálfu sér þegar ástandið er orðið nógu alvarlegt í löndunum sem farið hafa halloka í mynthópnum og sem eru ekki nógu efnahagslega sterk til að standa af sér þá kreppu sem hefur verið að gera sérstaklega þeim lífið leitt undanfarið vegna ósveigjanlegrar sameiginlegrar myntar, evrunnar. Þær munu eins fljótt og þær megna tæknilega séð draga sig úr hópnum og taka upp eigin mynt á nýjum grunni. Það mun verða gert á grundvelli þjóðarsáttar í viðkomandi landi um gengi á hinni nýju mynt gagnvart evrunni.

Rauði þráðurinn í dæminu öllu og lykillinn að velfarnaði undir öllum kringumstæðum í hverju landi fyrir sig er að nauðsynlegt er að efla framleiðslukerfi landsins og leitast við að gera framleiðsluna ódýrari á erlendum mörkuðum en vörur samkeppnislandanna. Þeim löndum sem tekst það þurfa ekki að fela neina leti né ótta við að fara halloka í samkeppninni með því að hugsa um að taka upp erlenda mynt í samkeppnishamlandi tilgangi.
Sterkur efnahagur sem er í jafnvægi og haldið er í jafnvægi af stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum landsins, en ekki leyft að splundrast eins og gerðist með árás einkabankanna hérlendis á efnahag Íslands fram að bankahruninu hér, hann er grundvöllur að heilbrigðri samkeppnisstöðu og samkeppnishæfni landsins gagnvart erlendum mörkuðum. Það er grunnurinn að sterkri eigin mynt landsins. Þar sem þrýstingur til útflutnings er meiri en til innflutnings er gjaldmiðillinn sterkur.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott! Eftir efnahagshrunið hérlendis hafa augu landsmanna opnast umtalsvert fyrir nauðsyn þess að efla innlenda framleiðslu til að keppa við innfluttar vörur og til að selja vörur og þjónustu erlendis eða til útlendinga til að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Það er algjör umsnúningur í viðhorfum fólks og er það vel.

Þar erum við að taka t.d. frændur okkar og vini Dani til fyrirmyndar. Þetta hafa þeir lagt ofuráherslu á í sínu efnahagslífi. Þeir hafa neyðst til þess ekki síst vegna þess að þeir eiga nánast engar náttúruauðlindir heima fyrir, varla möl í steypu! Þeir hafa gert sér mat úr aðföngum erlendis frá og selt það til baka aftur með góðum virðisauka í álag.
Við erum margfalt betur sett en Danir að því leyti að við eigum óhemjumiklar náttúruauðlindir - enn! Við höfum bara ekki nýtt þær sem skyldi. Við höfum látið orku frá okkur á undirverði í stað þess að gera okkur meiri mat úr henni sem grunn innlendrar framleiðslu hér heima fyrir og á vistvænan hátt.

Þennan styrk megum við ekki drepa í dróma fyrir erlend arðránsríki sem reyna leynt og ljóst að gera okkur að öðru Haíti í efnahagslegri vesæld, sbr. umfjöllun um þau mál í Morgunblaðinu í dag og undanfarna daga. Þarf frekari vitna við um það auk þess sem réttsýnir og sannleikselskandi menn og konur hafa tjáð sig um þann samanburð í fjölmiðlum og bloggi?


mbl.is Óttast að evran hrynji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berjið ekki höfði við stein!

Forsætisráðherra og stuðningslið hennar er enn við sama heygarðshornið og eru greinilega öllsömul búin að berja höfði sínu við þann stein sér til óbóta.

Það örlar ekkert á baráttu fyrir hagsmunum Íslands og því að færa umræðuna upp úr þessu spólfari sem forsætisráðherrann klifar sífellt sömu bresk-hollensku tugguna í. Alltaf sama undanlátssemin á röngum forsendum. Á þessu verður að verða breyting áður en það verður um seinan.

Þau virðast ekki skilja eða vilja ekki skilja, nema hvort tveggja sé, að koma þarf umræðunni í þann réttsýna farveg að öll löndin sem hlut eiga að máli bera ábyrgð. Ekki bara Ísland, eins og forsætisráðherrann og skilningsvana eða forhert lið hennar klifar á í takt við kröfur Breta og Hollendinga og annarra landa sem vita sökina upp á sig.

Ríkisstjórnin skal átta sig á því að sá mikli meðbyr sem hún hafði í upphafi valdatíðar sinnar varir ekki heilt kjörtímabil við þennan andbyr hennar og aðgerðaleysi í að taka upp baráttu fyrir hagsmunum Íslendinga á erlendum vettvangi. Það er miður fyrir þann mikla hluta almennings og kjósenda sem bundu vonir um betri og breytta tíð við hana. Það voru miklar vonir og væntingar. Þær eru við að gufa upp.
Það stefnir í háan reikning sem þjóðin mun gera fráfarandi ríkisstjórn og liðsmönnum hennar við næstu kosningar ef fram fer sem horfir.

Hættið að berja höfði við stein og gjörið svo vel að bretta upp ermarnar og takið slaginn við erlendu þjóðirnar gegn ranglætinu sem þær hafa verið að bræla yfir okkur!


mbl.is Icesave skaði ekki alþjóðleg tengsl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnefann í borðið!

Þarna örlar á réttum málatilbúnaði hjá forsætisráðherranum, um að götóttu regluverki ESB sé um að kenna um Icesave-ófarirnar.

Ganga þarf alla leið: Hnefann í borðið og yfirlýsingu um að ESB-löndin BERI ábyrgð ekki síður en Ísland og miklu meiri.

Ísland hefur staðið og mun standa við sínar skuldbindingar.
Þær skuldbindingar innifela ekki að Íslandi einu beri að greiða alla upphæðina sem um er deilt í Icesave-málinu.

Það kann að vera að Jóhanna skilji reiði almennings í Hollandi og Bretlandi, en hún virðist ekki skilja reiði almennings á Íslandi.


mbl.is Jóhanna skilur reiði almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamast með röng vopn

Einn af bloggurum um þessa frétt ritar meðal annars:

"..og íslensk stjórnvöld vita ekki hvað þau eiga að gera til að þoka málinu af stað á ný.."

Það er málið! Það er morgunljóst hvað ríkisstjórninni ber að gera en hún þverskallast við að gera það, skilur það ekki, eða vill ekki skilja það. Hún berst ekki á réttum vígvelli og í stað rökréttra vopna sem bíta notar hún uppgjafarsöng og afsakandi bros þá sjaldan að hún opnar munninn við útlendinga.

Í þessari frétt er sagt frá því að utanríkis- og fjármálaráðherrar Íslands hafi verið að ræða við starfsbræður sína erlendis. Stóra spurningin er um hvað þeir eru að ræða, hvort það sé sami undirlægju- og uppgjafarsöngurinn eða hvort þeir séu að útskýra forsendur Íslands um að Íslendingar séu ekki hinir einu sem greiða eiga Icesave-kröfur, heldur ber götótt regluverk ESB þar sök.
Margar ábendingar hafa komið um það sem ríkisstjórn Íslands ber að gera til að reynast starfi sínu og ábyrgð vaxin og bendi ég á eina grundvallarnálgun í pistli mínum Win-Win-Win fyrir Ísland, Holland og Bretland.
Þetta þarf ríkisstjórnin að vinda sér í að gera og hætta útburðarvæli sínu Bretlandi og Hollandi til dýrðar "yfir kaffibolla" heima fyrir, eins og það heitir í hádegisfréttunum af henni í dag 14. jan. 2010.


mbl.is Stopp í Icesave-málinu þessa dagana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinber starfsmaður tjáir sig sem sérfræðingur um Icesave

Magnús Ingi Erlingsson héraðsdómslögmaður og starfsmaður hjá Seðlabankanum  ritaði grein í Morgunblaðið þ. 29.12.2009 undir yfirskriftinni "Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum". Fjallar hann þar um óréttmæti þess að íslenska ríkið veiti ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Færir hann rök fyrir því að ekki liggi fyrir því skýr lagaheimild, hvorki hérlendis né í Evrópulöggjöfinni. Lesið endilega greinina, sem er gott innlegg í umræðuna um þessi örlagaríku mál.

Ég rita nánar um rétt opinberra starfsmanna og embættismanna til að tjá sig sem sérfræðingar um tiltekin málefni á opinberum vettvangi í bloggpistli 30.8.2009, Grímulaus skerðing tjáingarfrelsis og tjáningarleiða. Hvað segja Forman og Kant? Þar kemur m.a. eftirfarandi hvatning fram í tilvitnun í rit Immanuel Kants um hvað upplýsing er:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!"

Nú hefur a.m.k. Magnús Ingi brugðist við þessu. Megi það vera gott fordæmi og öðrum til hvatningar.


mbl.is Undirskriftir gegn Icesave vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinberir starfsmenn tjá sig sem sérfræðingar

Hinn 30.8.2009 skrifaði ég bloggfærslu um m.a. um tjáningarfrelsi og tjáningarleiðir í tengslum við stefnu Seðlabanka Íslands í vaxtamálum og efnahagsmálin á Íslandi. Meðal annars auglýsti ég þar eftir því að fleiri opinberir starfsmenn og embættismenn tjáðu sig opinberlega sem sérfræðingar um þau málefni sem brenna á þjóðinni. Því miður hefur verið harla lítið eða nánast ekkert um það.

Á þessu var aðdáunarverð undantekning er Magnús Ingi Erlingsson héraðsdómslögmaður og starfsmaður hjá Seðlabankanum  ritaði grein í Morgunblaðið þ. 29.12.2009 undir yfirskriftinni "Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum". Fjallar hann þar um óréttmæti þess að íslenska ríkið veiti ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Færir hann rök fyrir því að ekki liggi fyrir því skýr lagaheimild, hvorki hérlendis né í Evrópulöggjöfinni. Lesið endilega greinina, sem er gott innlegg í umræðuna um þessi örlagaríku mál.

Í ofangreindum pistli mínum, Grímulaus skerðing tjáingarfrelsis og tjáningarleiða. Hvað segja Forman og Kant?, kemur m.a. eftirfarandi hvatning fram:

.. Ég bendi þessu ágæta og menntaða fólki og öðrum á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar; Það er ritið "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), samið í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinarinnar:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!"

Nú hefur a.m.k. Magnús Ingi brugðist við þessu. Megi það vera gott fordæmi og öðrum til hvatningar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband