Færsluflokkur: Evrópumál
7.7.2011 | 10:59
Lýðræði eða fasismi
Það er með endemum að umræða um samningsmarkmið Íslands skuli ekki vera eðlileg og með lýðræðislegum hætti þar sem sjónarmið atvinnuvega landsins eru viðruð í bak og fyrir á opinberum vettvangi og í tæka tíð.
Ætlar hinn ESB-innrætti (en sjálfsagt vel meinandi) utanríkisráðherra og samflokksmenn hans og valdasækið ríkisstjórnarfólk að einoka umræðuna og þagga niður í nauðsynlegri umræðu? Ótrúlegur skortur á sjálfsagðri og nauðsynlegri umfjöllun um landbúnaðarmál virðast gefa vísbendingar um að þau viðhorf ríki enn sem komið er.
Þeir sem þykjast einir geta haft vit fyrir þjóð sinni og öðrum með valdboði hafa verið kallaðir fasistar. Versta mynd hans birtist við valdatöku einræðisharðstjóra í krafti hers. Einnig í málatilbúnaði hugmyndafræðinga sem reyna að telja þjóð sinni trú um einræðisleg stefnumál þegar upplausnarástand ríkir í atvinnumálum og þjóðmálum landsins. Um það eru mörg hrikalega slæm dæmi á 20. öld og þarf ekki að fjölyrða um það.
Til fyrirmyndar er að samtök íslenska landbúnaðarins skuli vera búin að láta taka saman samanburð á regluverki Íslands og ESB og kostum og göllum við hugsanlega inngöngu í sambandið.
Spurning er hins vegar hvað tefur aðra atvinnuvegi Íslands eins og sjávarútveg, orkugeirann, iðnað, ferðamál, vinnumál, félagsmál, heilbrigðismál og menntamál.
Hvar eru ámóta skýrslur um stöðu mála hjá þeim?
Vilja ræða samningsmarkmið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2011 | 22:54
Slegnar dularfullri blindu
Við lestur þessarar klásúlu um eðlilegan málatilbúnað varðandi Icesave-málið, sem furðu lostinn lagaprófessor Maria Elvira Mendez Pinedo bendir á í spurn af skiljanlegri ástæðu, virðist erfitt að skilja ráð þeirra óteljandi ráðsala sem þrjár ráðþrota ríkisstjórnir Íslands hafa keypt ráð af í örvæntingarfullri trú sinni á að auðmjúk játning með óttablandinni undanlátssemi við óbilgjarnar kröfur stórþjóða í Evrópu væri hin eina rétta leið "siðaðra og friðelskandi" þjóða eins og þeirra sem hér um ræðir.
Varla er hægt að skýra þá þráhyggju ríkisstjórnanna þriggja, hrunstjórnarinnar 2008, bráðabirgða-búsáhaldastjórnarinnar 2009 og vonarstjórnarinnar sem nú situr, að taka ítrekað upp samningaumleitanir við lagalega órökstuddar kröfur ríkisstjórna Breta og Hollendinga á þeirra forsendum, nema vegna þess að þær hafa allar verið slegnar einhverri dularfullri blindu á hið augljósa sem blasti allan tímann við: Að fara þá leið sem rammskyggnir íslenskir kjósendur hafa tvívegis og ókeypis í krafti þjóðaratkvæðagreiðslu bent þeim á og sem stjórnin verður nú tilneydd og undanbragðalaust að feta af heilindum. Það verður henni vissulega ögrun, en vonandi hefur hún og allir ráðgjafarnir vaknað til fullrar meðvitundar af óværum Undralands-svefni sínum og skafið úr eyrunum til að hlusta vel á heillaráð góðra velvitandi og velvakandi ráðgjafa sem enn eru tiltækir.
Ráðgáta að Ísland skyldi ekki vísa í 111. grein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2011 | 16:36
Talsmenn ríkisins um Icesave í læri til forsetans
Í frábærum málflutningi sínum í og varðandi yfirlýsingu sína um stöðu Icesave-málsins varðandi kröfur bresku og hollensku ríkisstjórnarinnar lýsti forseti Íslands helstu rökum frá sjónarhóli Íslendinga í málinu í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það er til fyrirmyndar.
Jafnframt greindi hann frá því að hann væri nú þegar búinn að senda yfirlýsinguna til ýmissa ríkisstjórna í Evrópu og mikilvægra fjölmiðla erlendis, þeim til útskýringar og glöggvunar á málavöxtum. Hann eins og sumir aðrir hefðu tekið eftir því að svo virtist sem einhvers misskilnings gætti í viðbrögðum aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands varðandi "greiðslur frá Íslandi"; að menn ytra gerðu sér ekki grein fyrir því að Bretar og Hollendingar fengju risa-upphæðir og lungann af upphæð krafna sinna úr sjálfu þrotabúi hins fallna gamla Landsbanka! Það hlytu að renna tvær grímur á hlutaðeigendur ytra um að höfða mál gegn Íslandi í því lósi og vegna samanburðar við stöðu hliðstæðra mála í þeirra eigin löndum.
Ekki hefur enn heyrst af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar af hliðstæðum toga eins og innihaldsrík og rökstudd yfirlýsing forsetans er, fyrir utan örstutta tilkynningu fjármálaráðherra í morgun.
Ríkisstjórnin og talsmenn hennar gætu ýmislegt lært af forsetanum í röggsemi, viðbragðsflýti, ákveðni, rökfestu og málafylgju við að útskýra og verja málstað íslensku þjóðarinnar. Það er vonum seinna að allt það lið geri það og taki til máls fyrir hönd þjóðarinnar allrar út á við af sömu einurð.
Niðurstaðan má ekki sundra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2011 | 15:18
Kostnaðurinn við "þægilegt" já-Icesave
Í grein Þórs Saari í Morgunblaðinu, í dag 8.4.2011 s. 21, kemur fram hverjar afleiðingar af samþykki á Icesave-lögunum myndu hafa fyrir ríkissjóð:
"Peningar fyrir greiðslunum á Icesave eru ekki til í ríkissjóði og fást eingöngu með því að hækka skatta eða skera frekar niður og hvor sú leið eða sambland beggja myndi við núverandi aðstæður vera atlaga að grunnstoðum samfélagsins og sennilega ganga endanlega frá öllum möguleikum um hagvöxt."
Þetta ættu "latir" kjósendur að hafa í huga sem ætla sér að samþykkja lögin með já í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun, af því að þeir "nenna ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur" eða af því að þeir eru "orðnir hundleiðir á þessu Icesave". - Hvílík rökleysa og dapurlegt viðhorf! Þeir ættu að leggja það á sig að fórna nokkrum mínútum í að hugleiða það sem kemur fram í eftirfarandi, en það ætti að vekja þá til betri vitundar.
Í kosningaumræðuþættinum í Sjónvarpinu um Icesave í gærkveldi, 7.4.2011, kom fram afar mikilvægt atriði í þessu samhengi.
Í panelumræðunum í síðasta hlutanum kom fram í skýru og trúverðugu máli Jóns Helga Egilssonar verkfræðings að ef neyðarlögin yrðu felld úr gildi (mál um það er fyrir dómstólum) myndi reikningurinn til Íslands hækka samdægurs um 351 milljarð kr, en það er tíföld sú upphæð sem "Áfram-fólkið" ásamt fjármálaráðherra telur líklegt að samþykki á lögunum muni kosta. Við þetta myndu erlendar skuldir ríkisins tvöfaldast! - Þetta er hrikalega afgerandi atriði.
Sjá umræðuþáttinn á rúv: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4575504/2011/04/07/
Umræða Jóns Helga um þetta atriði hefst á staðnum (klst:mín) 01:21:00
Einnig koma fram í máli Jóns G. Haukssonar ritstjóra mikilvæg atriði um hræðsluáróðurinn um lánshæfismat Íslands verði skuldabagginn ekki settur á ríkið, staður 01:15:30. Um það atriði hef ég fjallað í pistli nýverið og undir það sjónarmið tekur hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Þór Saari: Yfirskuldsett hagkerfi þarf ekki erlend lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 9.4.2011 kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2011 | 12:51
Ekki lokað á fjármagnsflæði til Íslands
Eins og fram kemur í innsæislega trúverðugri grein Jóns Gunnars Jónssonar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 7.4.2011 s. 7. virðist blasa við að mat alþjóðlegs matsfyrirtækis eins og Moodys um lánshæfi Íslands sé rangt og byggt á vanþekkingu og þar með (e.t.v. óafvitandi) blekkingum og hins vegar, sem skiptir meira máli í reynd, að "alþjóðlegir eru galopnir fyrir íslenska ríkið", eins og segir í grein Jóns.
Kjósendur sem hafa trúað á rök meðmælenda laganna um að "lokað" verði á Ísland að því er fjármagnsflæði varðar verði lögunum hafnað, ættu því að huga að þessu atriði og leyfa sannleikanum að renna upp fyrir sér með því að lesa greinina og pæla í þessum hlutum með eigin hyggjuviti. Einnig ættu menn að velta fyrir sér hversvegna ólmustu meðmælendur laganna halda þessu fram, og hverjir gera það.
Í þessu ljósi er málflutningur Tryggva Þórs Herbertssonar alþm. í Fréttablaðinu í dag, s. 22, haldlítill þar sem hann byggir einna mest á þeirri forsendu að lánshæfismat matsfyrirtækja á Íslandi muni lækka við höfnun Icesave-laganna.
Það sem hann telur í máli sínu þar leiðréttingu á "níu staðlausum staðhæfingum um Icesave" um rök andstæðinga laganna virðist þannig byggja á röngum forsendum.
Segir álit Moody's engu skipta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2011 | 13:31
Tal í gátum utan taflborðs hins bandalagavædda heims
Hér talar Steingrímur fjármálaráðherra í gátum eins og véfréttarmiðill. Það er ekki í fyrsta sinn. Það er í samræmi við þær gerðir núverandi stjórnvalda og mikilvægra undirstofnana þeirra er þau slengja fram skoðunum sínum, ætlunarverkum og tilmælum án þess að færa fyrir þeim viðhlýtandi rök.
Helst grillir hér í þau rök fjármálaráðherra að litla og fallega íslenska krónan hafi gagnast vel til að vinna þjóðina út úr afleiðingum bankahrunsins 2008. Þar er til skamms tíma litið og bent á hefðbundnar gengisfellingar sem öflugt tæki til viðbragða þegar í óefni er komið. Ekki beint uppbyggileg stefna til lengri tíma litið!
Hann sleppir því hins vegar að ræða um hvaða þátt litla og fallega og ofurviðkvæma og tilfinningaríka íslenska krónan átti ásamt handónýtu og blekkingarkenndu "eftirlitskerfi" hins opinbera í þeirri atburðarás sem leiddi til hrunsins. Að óbreyttu mun sagan endurtaka sig. Hverjir vilja það?
Á sama hátt lætur hann sem fyrr hjá líða að tefla fram öðrum valkostum sem hann ef til vill álítur hentugri og farsælli en aðild að ESB. Hverjir eru þeir þá?
Telur hann ef til vill eins og svo margir áberandi og rakalitlir og úrræðalausir úrtölumenn um ESB-aðild að hag smáríkisins Íslands í heimi stórþjóða og ríkjabandalaga, sem í vaxandi mæli munu takast á um þverrandi auðlindir heimsins þar sem öllum brögðum er beitt, sé betur borgið utan allra mögulegra bandalaga? Telur Steingrímur ráðherra að stórbandalögin láti sig hag smáþjóðar utan þeirra einhverju skipta, ættbálkaþjóðar sem bíður örlaga sinna ein sér í gósenlandi sínu varnarlaus og vinalaus og utan mikilsmetandi efnahagsliðsheilda? Höfum við ekki þegar fengið þráan smörþefinn af viðhorfum erlendra ríkja til Íslands sem það er ekki í viðeigandi liði með?
Hvað heldur fjármálaráðherra að utangátta Ísland eitt og sér hafi þar helst að vopni í hinum harða heimi? "Tæra snilld" og blekkingarmátt ofurfólksins sem þar býr í fiskibeinsturni sínum?!
Þær spurningar sem hér eru viðraðar hefði hinn snjalli "fréttmaður" átt að knýja svör við hjá hinum tungulipra ráðherra, en hann hefði allt eins getað látið ráðherrann tala í símsvara til beinar endursagnar úr því að hann hafði ekki tilburði til að ganga á ráðherrann með skýringar og ábendingar um hver stefna hans væri nákvæmlega í þessu máli. Svona vinnubrögð eru ekki ný af nálinni hér.
Hvar vill Steingrímur skipa Íslandi á ofangreindu taflborði hins bandalagavæðandi heims?
Vill hann og ráðvilltir föðurlandsvinir taka Íslandspeðið af taflborðinu fyrirfram?
Þetta verða eftirgangssamir fréttamenn að fá á hreint hjá stjórnvöldum og málsmetandi aðilum á sviði þjóðmála.
Við þolum ekki meira bull og blekkingar, né moðreyk og ráðvillu í húsum ráðamanna.
Afstaða til ESB-aðildar óbreytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2011 | 11:40
Enga viðkvæmni né hálfkák við könnun á hagsmunum Íslands
Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að nýta þau fjárframlög eða styrki sem fáanlegir eru hjá ESB við könnunarviðræður og athugun á aðild.
Þá ber að nýta sem best og mest til að rannsaka á heiðarlegan og faglegan hátt kosti og galla fyrir Ísland við aðild. Allt tal um annað lýsir ótrúverðugleika viðkomandi.
Alþingismenn og ráðherrar sem gerast sekir um slíkar úrtölur og bregða jafnvel fæti fyrir faglega og hlutlausa tölulega rannsókn á afleiðingum aðildar Íslands að ESB eru með slíkri þröngsýni ekki að þjóna hagsmunum þjóðarheildarinnar og ættu í því ljósi ekki að gefa sig út fyrir að vera fulltrúar almennings.
Þeir ættu að hugsa sinn gang alvarlega út frá hagsmunum þjóðarheildar en ekki þröngsýnum sérhagsmunum tiltekinna hópa eða atvinnugreina.
Ef þeim er þetta um megn ættu þeir tafarlaust að fara úr embætti eða vera settir af ella; með kosningum ef viðkomandi stjórnmálaflokkar eru vanmegnugir eða þverskallast við að þjóna þjóðarheildinni í málinu.
Við athugun á afleiðingum aðildar Íslands að ESB ber fyrst og fremst að leggja tölulegt mat á alla þá þætti sem tækir eru til slíks (megindleg greining) og skilgreina einnig þá þætti sem síður eða ekki er hægt að setja magn- eða verðmiða á (eigindleg greining).
Þá fyrst að slíkir þættir hafa verið skilgreindir og kortlagðir á skiljanlegan hátt fyrir almenning er hægt að ræða um kosti og galla aðildar á hlutlægan hátt. Þá fyrst má hleypa tilfinningalegum og rómantískum rökum að málinu, eins og hverjum sýnist fyrir sitt leyti er fólk gerir upp hug sinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Annað er ómarkvisst kák og bull.
Þeir sem í þröngsýni sinni og sjálfsblekkingu eða vegna sérhagsmunagælu stinga höfðinu í sandinn eins og strútar og vilja ekki fá töluleg rök um staðreyndir upp á borðið og lýsa því yfir í yfirdrepsskap sínum að hafna beri öllum "mútum" frá ESB við athugun á aðild ættu að skammast sín.
Slíkt fólk er ekki hæft til að sitja á Alþingi allra landsmanna og enn síður að verma ráðherrastóla.
Slíkt fólk þverskallast með þeirri hegðun við að gæta hagsmuna almennings í landinu að því er varðar stefnumörkun og það að kanna hugsanlega valkosti er kynnu að gagnast þjóðarhag best í samfélagi þjóða.
Fólk sem fyrirfram gefur sér niðurstöðu í þessu máli sem öðrum sýnir með því óskynsamlega og ófaglega breytni og er ekki hæft til að vera fulltrúar þjóðarinnar.
Alþingismenn og ráðherrar og annað áhrifafólk sem þar að auki leggja í störfum sínum vísvitandi stein í götu hlutlægra rannsókna og athugana á kostum og göllum aðildar Íslands að ESB eru í hæsta máta ótrúverðugir og sem Þrándur í götu á vegferð þjóðarinnar í leit að hagstæðum úrræðum við stefnumörkun.
Styrkir vegna ESB-umsóknar er viðkvæmt mál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2010 | 22:41
Hunsa ber kúgun
Allir sem vilja ekki láta kúga sig hunsa hótanir kúgara með samstilltum viðbrögðum.
Ef einhver aðili reynir að kúga aðra eftir sínum vilja, t.d. með hótunum um óhagstæð viðskiptakjör eða um að hætta að kaupa af þeim vörur og þjónustu, geta allir þeir sem hótað er gert slíka kúgunartilraun að engu með því að taka sig saman um að gegna í engu slíkri hótun.
Þá gæti kúgarinn ekki látið verða af hótunum sínum nema með því að skaða sjálfan sig mest, við það að allir þessir aðilar hætta að versla við hann.
Með slíku samstilltu átaki, eða þegjandi samkomulagi um að hunsa slíkar hótanir kúgara, er hótunarvald hans gert að engu.
Ef hann vill þá ekki hafa verra af sjálfur mun hann því ekkert láta verða af hótunum sínum.
Ein afleiðing af kúguninni væri sú að hinir kúguðu myndu auka innbyrðis viðskipti sín á milli í staðinn með tilheyrandi vexti í eigin starfsemi, en kúgarinn sæti uppi með sinn varning eins og svartapétur eftir að hafa þannig málað sig út í horn.
Hann félli þar með á eigin bragði.
Enginn á að láta kúga sig með þessum hætti vegna þess að þá gengur kúgarinn á lagið og hinir kúguðu verða kúgaðir áfram í vaxandi mæli. Þar í felst mikið tap fyrir þá, óendanlega mikið meira en það sem þó fólst í upphaflegri kúgun.
Hér á kreiki eru margar hótanir og blikur um kúgun þessa dagana og víða í heiminum, nær og fjær.
Með samstilltu átaki, í hóp eða formlegum sem óformlegum samtökum, er hægt að bregðast við hótunum einfaldlega með því að "gera ekki neitt" annað en að benda á og viðhalda samtakamættinum um þá lýðræðislegu sýn að láta ekki kúgast.
1.11.2010 | 22:28
Endurskilgreining á sjálfstæði þjóðar í samhengi samtímans
Þátturinn Silfur Egils í gær, 31.10.2010, er allrar athygli verður. Ekki síst fyrir þá sem fyrirfram hafa tekið upp þá skoðun að vera á móti ESB og jafnvel á móti umræðum um kosti þess og galla, sem er enn verri afstaða og hættuleg hagsmunum þjóðarinnar. Slík afstaða manna virðist mótast af rómantískum tilfinningum einum saman en ekki raunsæi.
Eða, hvernig er hægt að taka vitræna afstöðu um þýðingarmikil mál án þess að skoða þau á sem hlutlausastan hátt áður en tilfinningum er hleypt að dómarasætinu?!
Heitustu þjóðernissinnarnir ganga ekki erinda föðurlandsvinarins Einars Þveræings um að halda "sjálfstæði" landsins, telji þeir svo, með því að hafna samstarfi við stórveldin umhverfis. Þvert á móti.
Við stöndum frammi fyrir því nú að endurskilgreina hvað felst í "sjálfstæði" þjóðar í heimsþorpinu Jörð, efnahagslega og stjórnmálalega séð, og hvernig því sjálfstæði í skilningi samtímans verður helst náð og varðveitt til lengri tíma litið í friði.
Ég er að sjálfsögðu fylgjandi sem mestri og bestri upplýstri umræðu um ESB-aðild. Viðmælendur Egils í þættinum í dag drógu upp afar þýðingarmikil atriði, sem ekki hafa verið áberandi í "umræðunni" (gagnstæðum upphrópunum) hérlendis hingað til:
Að hugsa til framtíðar í langtímasamhengi og láta af "stórveldið Ísland"-hugsunarhættinum.
Einnig held ég að almenningur geri sér ekki fulla grein fyrir því að núverandi stefnuleysi og óvissa um efnahagslegan ramma um atvinnulífið á Íslandi, séð frá bæjardyrum hugsanlegra erlendra fjárfesta og viðskiptaaðila, er þess valdandi að þeir halda að sér höndum. Stöðnunin og afturförin hérlendis undanfarin tvö ár sannar það.
Hér mun ekkert afgerandi gerast til að koma framleiðslu- og gjaldeyrisskapandi atvinnulífi landsins á gott og uppbyggilegt skrið fyrr en þessir þættir eru komnir í fastar og trúverðugar skorður. Tal um annað er blekking! Eða, hver vill stinga hendinni í bullandi suðupott, þar sem ekki sést einu sinni hvað er verið að sjóða?
Það er auðvitað hárrétt sem Michel Rocard, fyrrv. forsætisráðherra Frakklands, bendir á að Ísland er peð á vettvangi stjórnunar alþjóðlegra efnahagsmála og stjórnmála. Það mun lítið verða um meint sjálfstæði og fullveldi Íslands utan stórra sambanda í því kapphlaupi og keppni stórþjóða sem er í uppsiglingu hér á norðurslóðum nú þegar og í sívaxandi mæli í framtíðinni. Hrokafullur þjóðarrembingur frá Íslands hálfu mun mega sín lítils í þeim leik.
Halda menn til dæmis að þorskastríð Íslendinga við Breta á áttunda áratug 20. aldar hefði verið eins friðsælt ef bæði löndin hefðu ekki verið í sama hernaðarbandalaginu?
Þeir sem hafna raunverulegri umræðu um ESB-aðild og allri hjálp til að efla þá umræðu og fela sig á bak við lítt ígrundaða eða órökræna sleggjudóma ættu að hugsa sinn gang og íhuga hina miklu ábyrgð sína. Þar er um að ræða aðila bæði til sjávar og sveita. Þeir ættu einnig að íhuga það alvarlega hvort farsælla sé að finna bestu lausnina fyrir þjóðarheildina og almenning í landinu eða halda sérhagsmunum til streitu. Hvernig er vænlegast að varðveita sið og frið í landinu?
Ég held að það sé ekki fleipur sem hinn reyndi stjórnmálamaður Rocard hélt fram um að horft verði til reynslu og hæfni Íslendinga í hinum ýmsu málefnum sem varða veru og lífsbjargir á norðurslóðum, ekki síður en Norðmanna. Þetta áréttaði hann í fyrirlestri í dag í Háskóla Íslands og bætti við þeirri ráðleggingu til okkar Íslendinga, að hvað svo sem við ákvæðum að gera í utanríkismálum og á alþjóðlegum vettvangi að þá þyrftum við að fylkja okkur í liði einhverrar stórrar efnahagsheildar svo ekki yrði einfaldlega vaðið yfir okkur og hagsmuni okkar.
Í fyrirliggjandi viðhorfum stórvelda um mikilvægi norðurslóða liggja ýmis spennandi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf á flestum sviðum efnahagslífsins. Hvernig væri að fara að huga markvisst að þeim möguleikum og uppbyggingu þar að lútandi til lands og sjávar í samvinnu við viðeigandi þjóðir? Það er ekki seinna vænna.
Og, gera einnig eitthvað róttækt í því að fá hærra og sanngjarnara verð fyrir raforkuna, sem hingað til hefur farið fyrir slikk ofan í einhæfa arðránshít þar sem málmbræðslurnar eru. Þar verður að huga að öðrum kostum án tafar. Úrelt hreppapólitík skammsýnna stjórnmálamanna og annarra ráðamanna um álver heim í hérað, eins og ríkti um kaup skuttogara hér fyrir nokkrum áratugum án tillits til heildarhagkvæmni, verður að víkja.
Það er tímabær og grafalvarleg áminningin sem röksnjall Njörður P. Njarðvík benti á í lokin í umræðuþætti Egils um það hvers vegna "dýrin" á bænum urðu um síðir að taka völdin: Láta lífið ella!
Vilja stjórnmálamenn og ráðandi öfl í þjóðfélaginu framkalla slíkt ástand á Íslandi? (Það er að vísu þegar brostið á í formi atgervisflótta frá landinu eins og Andri Geir benti á!). Ég held ekki, en þau gera sér ef til vill ekki grein fyrir þeim möguleika; sjá ef til vill ekki út fyrir hina háu múrveggi sérhagsmunanna að tímar slíkra þröngsýnna sjónarmiða meðal lítillar þjóðar eru taldir.
Össur fundaði með Rocard | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 2.11.2010 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2010 | 00:30
Málefnastaða Íslands
.. í Icesavemálinu er sterkari en margir Íslendingar halda, ekki síst í ríkisstjórn Íslands. Þetta er órækt merki þess að Bretar vilja ekki standa fyrir slæmu máli sínu í réttarsal berskjaldaðir með kúgandi athæfi sitt gagnvart Íslandi í málinu frammi fyrir heiminum.
Athugasemd Sigmundar framsóknarmanns í fréttunum í gær hefur e.t.v. skotið þeim skelk í bringu til viðbótar við klúðrið á fundinum í gær þar sem íslenska sendinefndin ásamt öðrum "gengu af fundi" snubbóttum. Þar hafa Bretar e.t.v. gert sér grein fyrir því að Íslendingum væri nokkur alvara í því núna að minnka undirlægjuhátt sinn og þrælsótta, jafnvel láta varanlega af honum í þessu máli.
Betur ef svo væri, enda löngu tímabært.
Leynifundur um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)