Hver vill?

Sá sem vill láta taka persónulega kvikmynd með hljóði af sér, án þess að vita af því og láta sýna hana hverjum sem er, gefi sig fram!

Það hefði verið gott ef eftirlitsstofnanir ríkisins hefðu haft eins gott eftirlitskerfi og upptökusnillingurinn Helgi Felixson á gjörðum hinna föllnu einkabanka og fjárglæfrafyrirtækja sem léku lausum hala við að véla með lánsfé frá aðilum í góðri trú, ef marka má fréttir sem smám saman eru að berast af ævintýralegri hegðun ýmissa banka- og athafnamanna fyrir hrunið. Þá hefði verið hægt að grípa inn í vafasama gjörninga jafnóðum með sönnunargögn í höndunum og væntanlega koma í veg fyrir frekari skaða.

Þessu var náttúrulega ekki til að dreifa þar sem stjórnarháttum er a.m.k. ekki ennþá þannig farið hérlendis að komið sé fyrir upptökutækjum í öllum fyrirtækjum og heimilum þar sem fylgst er með öllum athöfnum og samtölum þegnanna við allar aðstæður. Það þekkist hins vegar í skáldsögum og framtíðarþrillerum.

Í umræddri kvikmynd Helga skilst mér að um sé að ræða persónuleg viðtöl Helga við ýmsa athafnamenn. Ef það er rétt að hann hafi tekið upp efni við persónulegar aðstæður þar sem viðmælendur voru í góðri trú um að upptökur væru ekki í gangi, og án þess að hann hafi verið t.d. á vegum lögregluyfirvalda eða annarra opinberra aðila með húsleitarheimild eða heimild til hlerunar vegna gruns um glæpsamlegt athæfi (meðan á viðtölunum stæði), né á opinberum almennum vettvangi, þá hlýtur slík upptaka að vera gerð á hæpnum forsendum.
Hverjum myndi geðjast að því að verða fyrir slíku á sínu heimili eða yfirleitt?

Athugið, að hér erum við að ræða um þessar upptökur fyrir kvikmynd Helga, en ekki rauntímaupptökur löggæslunnar með tilskildum leyfum á meintum glæpaathöfnum. - Eða hvað? Átti Helgi e.t.v. von á því að viðmælendur myndu grípa símann meðan hann vék sér frá viðtalsborðinu og gera einhverjar glæpsamlegar ráðstafanir sem hanka mætti þá á? Eða tala upphátt við sjálfa sig um einhver krassandi mál varðandi hrunið? Eða skrifta um meintar gjörðir fyrir framan upptökuvélina sem viðmælandinn hélt að væri ekki í gangi?

Æskilegt og nauðsynlegt er að leiða sannleikann í ljós um hrunið og hverjir og hvað olli því. Svo sannarlega! Ég held hins vegar að sá sannleikur komi ekki í ljós við að taka raunkvikmyndir af athafnamönnum eða öðrum sem einstaklingum í pásum í viðtölum er þeir grípa tækifærið til að klóra sér í höfðinu eða annað því um líkt. Það er efni í grínþætti með faldar myndavélar þar sem fórnarlömbin þurfa að samþykkja eftir á að efnið sé sýnt.


mbl.is Ósáttur við höfund Guð blessi Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband