Kemur ríkisstjórnarforystan af fjöllum?

Halda mætti að umvandandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands komi úr óbyggðum eftir áralanga útlegð þar, ef marka má fyrstu "óviðbúnu" viðbrögð þeirra við synjun forseta landsins á að staðfesta Icesavelögin.
Tvær skýringar geta verið á þessu viðbrögðum þeirra, en báðar eru dapurlegar og önnur þó sýnu verri en hin:

Annað hvort hafa þau verið sambandslaus á fjöllum undanfarið ár og þá einna helst í Bretlandi og Hollandi þar sem þó engin fjöll fyrirfinnast og því ekki í sambandi við þjóð sína, viðhorf hennar og vilja varðandi Icesavemálið,
eða þau hafi ekki áhuga á að láta sig sama þjóðarvilja varða, kjósendanna umbjóðenda sinna, hvorki varðandi efnislega þætti umræddra laga né það að láta þjóðina hafa síðasta orðið um hvort henni hugnist að skuldbinda sig til áratuga af vafasömum ástæðum til að greiða skuldir einkabanka; banka, sem þó fékk að starfa óáreittur við skuldsetningariðju sína um árabil án marktækra afskipta fjármálaeftirlitskerfis Íslands allt upp til ráðherra sem sumir hverjir verma enn stóla ráðherraembætta og Alþingis. Þau kveina um að "vegið sé að þingræði landsins", þar sem er hæstvirt Alþingi Íslands, en sleppa í sömu andrá að taka það fram að þing starfar í umboði kjósenda þjóðarinnar allrar, en ekki öfugt.

Þetta mál er það stórt og afdrifaríkt í sniðum sökum fjárupphæða og áhættu að ríkisstjórn og alþingismenn, sem aðeins eiga eftir að sitja í hæsta lagi hálft kjörtímabil á þingi, geta ekki leyft sér að taka einir um það ákvörðun; sem mun e.t.v. hafa landeyðandi afleiðingar marga áratugi, mörg kjörtímabil og a.m.k. heila starfsævi fram í tímann, ef ekki til frambúðar fyrir "lýðveldið Ísland".

Ákvörðunin verður því að vera í höndum þjóðarinnar sjálfrar.

Tímann fram að væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu verða aðilar málsins að nýta sómasamlega til að leggja fram hlutlæg rök með og móti samþykkt á skiljanlegu máli og án hræðsluáróðurs. Það á að sjálsögðu við á báða bóga.

Eins og kom fram í umræðum í Sjónvarpinu eftir tilkynningu forsetans þá er þess að vænta að afgerandi atriði skýrist að mun á næstu 1 - 2 mánuðum varðandi endurheimtur fjár í þrotabú gamla Landsbankans. Þau atriði geta skipt sköpum varðandi mat á bæði þeirri upphæð sem líklegt er að myndi falla á íslenskan almenning verði Icesavelögin samþykkt. Þetta skiptir væntanlega miklu máli fyrir ákvörðun almennings um málið.
Hins vegar stendur áhættan um hæpnar forsendur í málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar varðandi samþykkt laganna um gengisþróun og viðskiptajöfnuð landsins við útlönd áfram eins og óskrifað blað. Sagan undanfarna áratugi um brokkgenga gengisþróun krónunnar sem að mestu hefur legið niður á við til veikingar og halla á vöruskiptajöfnuði renna ekki styrkum stoðum undir þær forsendur.


mbl.is Undrast mjög ákvörðun forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband