Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.8.2009 | 20:42
Býður samt uppbyggilega framtíðarsýn
Þetta er afar athygliverður pistill hjá Steingrími og vel í sveit settur að mörgu leyti. Komið er víða við varðandi mál sem brenna og brunnið hafa á þjóðinni. Samnefnarinn í því yfirliti er þrátt fyrir allt uppbyggileg jákvæðni um menn og málefni séð frá sjónarhóli þjóðarinnar, almennings.
Hér vil ég einungis benda á kaflann í ræðu Steingríms þar sem hann greinir frá framtíðarsýn sinni um grundvöll þjóðlífsins á Íslandi, auðlindir lands og þjóðar í margbreytilegri mynd. Halda mætti að hann hafi að sumu leyti verið að vitna í "jómfrúarpistil" minn hér í blogginu um lífslindir og lífsstíl, enda er ég sammála honum um þau atriði. Hvað um það;
Þetta tel ég sömuleiðis kjarna málsins um grundvallarforsendur fyrir bjartar horfur í efnahagsmálum okkar og þjóðmálum almennt er til dálítið lengri tíma er litið og sem við Íslendingar ættum að vera rækilega meðvitaðir um - sérstaklega þegar aðrar þjóðir og fyrirtæki reyna að komast hér til áhrifa fyrir "gjafverð". Við eigum ekki að þurfa að örvænta sem þjóð í samfélagi annarra þjóða.
Munum ætíð eftir að meta auðlindir okkar, ekki síst þær sem Steingrímur tíundar hér, að verðleikum. Verðmæti þeirra fer sífellt vaxandi.
![]() |
Bíður eftir afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2009 | 18:20
Sáttasemjara í málið
Þarna blasir við að "hlutlaus" sáttasemjari, sem vinveittur er báðum aðilum eða a.m.k. ekki úr ranni annars þeirra, getur borið klæði á vopn til að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem báðir aðilar geta sætt sig við.
Þetta sýnir ennfremur að stórveldi eins og Bandaríkin gætu verið að taka við sér og skoða málið í stærra samhengi þótt þeir hafi "hlaupið" fyrir stuttu frá landinu. Þeir gera sér e.t.v. grein fyrir því að úr því sem komið er er ekki hægt að láta það enda í vitleysu vegna hugsanlegra örþrifaráða Íslands sem hefði ögrandi áhrif fyrir jafnvægið á norðurhveli.
Hvers vegna halda menn að Rússar hafi verið að vekja athygli á velvild sinni í garð Íslands í dag? Stjórnmálamaður í Noregi einnig! Þar að auki bárust fréttir af því fyrr á þessu ári að Kínverjar hefður verið að kanna hafnaraðstæður á Norð-Austurlandi með hugsanlegar siglingaleiðir um Norður-Íshaf í huga.
Fáum vinveitt land sem sáttasemjara í Icesave-málið til að gangast fyrir skynsamlegum efnistökum í því og samræðum milli aðila augliti til auglitis!
![]() |
Skynsamlegt að semja að nýju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2009 | 15:12
Er þetta satt?
Sæl Vigdís.
Hefur einhver, t.d. á Alþingi, mótmælt þessari túlkun þinni á þeim ummælum sem þú hefur eftir aðstoðarmanni fjármálaráðherra að um "allsherjarveð í eignum íslenska ríkisins" sé að ræða?
Ef ekki, þá má þvert á móti furðu sæta að forseti þingsins skuli láta óátalinn málflutning þingmanna sem neita þeirri túlkun og gera lítið úr málshefjendum eins og þér sem benda á ósómann.
Fáðu þetta endilega á hreint og fáðu stjórnarliða til að svara með öðru en útúrsnúningi eða rökleysu. Hið sanna verður að vera ljóst í málinu.
Þetta er ekkert smáatriði í sambandi við Icesave-nauðungarsamninginn sem stjórnin óskar eftir að þið samþykkið á þingi til að knésetja íslenskt efnahagslíf í núverandi mynd. Spyrja má með réttu hverra hagsmuna sá Íslendingur er að gæta sem samþykkir slíkt.
![]() |
Allsherjarveð í eigum Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2009 | 13:31
Andi Marshall-aðstoðar svífur yfir orkuríkum vötnunum
Einmitt. Hér er enn eitt dæmið um að skynsamir aðilar erlendis hjá viðskiptaþjóðum okkar séu að vakna af Þyrnirósarsvefni sínum og gera sér grein fyrir því að efnahagskerfi þjóðanna er gagnvirkt og hægt er að hafa af því betri hag að halda aðilum þess vel gangandi heldur en haltrandi eða lömuðum til lengdar.
Umræðan í breska viðskiptablaðinu Financial Times er inni á svipuðum nótum um sanngirni gagnvart Íslendingum, greinir mbl frá í dag.
Bæði þessi innlegt bera með sé þann anda sem lá að baki Marshall-aðstoðinni svokölluðu sem Bandaríkin veittu stríðshrjáðum Evrópuþjóðum eftir seinni heimsstyrjöldina (reyndar fékk Ísland líka sinn skerf af henni þá, þótt það geti varla hafa kallast "stríðshrjáð" eftir viðskipti sín við Breta hérlendis þá). Marshall-aðstoðin skipti sköpum fyrir viðkomandi lönd sem og Bandaríkin sjálf.
![]() |
Vill að Norðmenn láni Íslandi meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2009 | 12:26
"Marshall-aðstoð" vegna Icesave - Ábendingar Evu Joly að virka
Það er fagnaðarefni að sjá þessi viðbrögð hins virðulega breska viðskiptablaðs. Ekki er annað að sjá en að þarna komi fram ýmislegt af þeim rökstuðningi sem Eva Joly bar fram til varnar Íslandi og íslenskum almenningi. Þökk sé henni!
Þetta sýnir að samræður í ýmsu formi eru fremur fallnar til þess að ná árangri í svona málum heldur en þögn. Þögn virðist einmitt hafa verið helsta baráttutækið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur beitt til varnar landi og þjóð í þessu máli. Sú "herkænska" hefur ekki virkað. Með þeirri þögn átti að knýja Alþingi til að samþykkja óskiljanlega háan skuldabagga án þess að fyrir liggi lagalega hver greiðsluskylda Íslands er í þessu máli og í stað þess að gera Bretum og Hollendingum og öðrum hagsmunaaðilum málsins grein fyrir hvernig raunveruleg staða Íslands yrði undir þeim klyfjum; og þar með gagnvirk áhrif fyrir þá sjálfa.
Hvað raunverulega skýrir þessa þögn stjórnvalda verður fróðlegt að heyra um, en það er önnur saga.
Það er athyglivert að í umræddri grein FT örlar á rökstuðningi og skilningi sem lá að baki hinni svokölluðu Marshall-aðstoð sem Bandaríkjamenn veittu stríðshrjáðum Evrópuþjóðum eftir seinni heimsstyrjöldina til uppbyggingar á innviðum og efnahag landanna. Þeir gerðu sér grein fyrir því að viðskiptalega séð var það góð "fjárfesting" sem gagnaðist einnig þeim sjálfum betur til lengri tíma litið en að hafa Evrópulöndin rjúkandi rústir og óviðiunandi ósjálfbjarga um langan aldur.
Efnahagskerfi þjóðanna er samtvinnuð heild og brestur í mikilvægum hlekk eins og Íslandi hefur víðtæk áhrif að mörgu leyti, bæði efnahagsleg, stjórnmálaleg og fleiri áhrif. Í því sambandi minni ég á pistil minn þar sem mikilvægi auðlinda Íslands er sett í samhengi við umheiminn.
![]() |
FT segir að jafna eigi Icesave-byrðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2009 | 16:26
Fagra veröld með refsi-nýlendunni Íslandi!
Þetta þykja mér áhugaverðar fréttir. Það er kominn tími til að þessi áhrifamikla saga sé kvikmynduð á tilkomumikinn hátt. Forvitnilegt er hvernig Íslandi verður lýst þar.
Þegar ég las bókina, fyrir löngu síðan við upphaf áttunda áratugarins, þá man ég hvað mér þótti ýmislegt framandi og fjarstæðukennt í samfélaginu sem dregin er upp mynd af í sögunni. "Hinn villti", ein af aðal persónunum, vakti tilhlýðilega samúð við lesturinn. Hann er eins og lambagras sem vex blómstrandi upp úr berangrinum umhverfis á sínum forsendum þrátt fyrir harðneskjuleg skilyrði.
Einnig þótti mér athyglivert og spennandi að minnst er á Ísland í sögunni. Því miður var landinu lýst sem lítt eftirsóknarverðum stað sem fólk var sent til til að taka út refsingu við "brotum" eða andófi gegn hinu heilaþvegna og einræðisstýrða samfélagi; persónur sem tóku upp á því að gagnrýna og spyrja spurninga og breyta gegn ómanneskjulegum reglunum þóttu ekki æskilegar.
Þess vegna voru t.d. barnsfæðingar á náttúrulegan gamaldags hátt fordæmdar, vegna þess að þau börn voru ekki með forritaða hlýðni-eiginleika steypta í mót stjórnvalda. Þannig var "Hinn villti". Óstýrilátt fólk eins og móðir hans átti þess vegna á hættu að verða sent í refsingarskyni til vistar á Íslandi.
Í þessu framtíðarsamfélagi ríktu nefnilega reglur sem okkur nú á dögum, mörgum öldum áður en sagan gerist, finnst mannfjandsamlegar, nema þá e.t.v. séð frá sjónarhorni hinnar útvöldu og sjálfskipuðu elítu sem stjórnaði þegnaframleiðslunni og velferð sinni.
Ég man ekki hvort því er lýst í sögunni hvers vegna Ísland varð svona andstyggilegur staður að dvelja á, þannig að hann var notaður sem fanganýlenda.
Þeirri kaldhæðnislega spurningu skýtur upp í hugann hvort höfundurinn, hinn snjalli Aldous Huxley sem sá möguleika læknavísindanna fyrir varðandi "forritun" fólks með genabreytingum áratugum áður en erfðahlutverk DNA var uppgötvað, hafi einnig séð niðurdrepandi efnahagslegar afleiðingar hörmunga eins og Icesave-nauðungarsamnings fyrir!
Er það tilviljun að þessi saga er á dagskrá núna með refsinýlendunni Íslandi innanborðs, eftir að yfirstandandi hörmungar landsins með "villtum" íbúum þess "fremjandi hryðjuverk" gegn Bretlandi, London og fleirum hafa auglýst sögusviðið rækilega?
Ég vona að ekki verði framin skáldræn hryðjuverk gegn Íslandi í væntanlegri kvikmynd Scotts. Hann á jú hryllilegar sögur að baki!
PS. Var Ísland kannske í huga höfundar sögunnar tákn um þá paradís á jörðu sem þrátt fyrir allt gæti orðið til raunverulegrar frelsunar fyrir "eðlilegt" fólk frá óskapnaði gerviveraldarinnar og hinu gerilsneidda og firrta "mannlífi" þar.
![]() |
Veröld ný og góð kvikmynduð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.8.2009 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2009 | 14:07
Icesave-reiknirinn - Hvernig greiðum við?
Ég fagna framtaki mbl.is við gerð Icesave-reiknisins til að meta upphæð skuldbindingar Íslendinga. Þetta spannar þó auðvitað ekki allt dæmið og það sem hangir á spýtunni, heldur aðeins örfá atriði.
Nú auglýsi ég eftir framhaldinu og viðbótar Icesave-reikni: Greiningu afleiðinga þess hvernig farið yrði að því að greiða þær upphæðir sem mat á skuldbindingunum leiðir til. Þar værum við komin inn á kafla sem almenningur skilur og skynjar á eigin skinni.
Í Icesave-reikninum fyrir "Hvernig greiðum við?" (eða "Svona greiðum við!") væri til dæmis gott að gefa okkur notendum og almenningi möguleika á að greina afleiðingar mismunandi forsendna um t.d. þróun fólksfjölda (þ.á.m. vinnandi fólks), hagvöxt (sundurliðað eftir atvinnugreinum), landsframleiðslu (þ.á.m. fjölgun atvinnutækifæra), launakjör, viðskiptakjör (þróun á verðhlutfalli milli útflutnings- og innflutningsvara), vaxtastig, gengisþróun, niðurskurð/(eða aukningu!) á tilteknum sviðum í heilbrigðiskerfi og menntunarkerfi og tryggingakerfi og lífeyrissjóðsgreiðslum og skattlagningu (tiltekna skattstofna), svo nokkur atriði séu nefnd. (Hvað t.d. með greiðslubyrði heimilanna m.v. mismunandi forsendur um þróun á fasteignamarkaði? !!). Þetta þyrfti að setja fram á skiljanlegu máli fyrir almenning með hugtökum sem allir skilja í daglegri umræðu.
Á grunni þessara og annarra mikilvægra forsendna myndi síðan koma út á grunni reiknisins hverjar afleiðingarnar yrðu þá fyrir m.a. atvinnustig, skattabyrði, þróun ráðstöfunartekna og kaupmáttar heimila, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má útfæra og spinna við á ótal vegu.
Þannig mætti spyrja, á niðurstöðu fyrirliggjandi reiknis um að skuldbindingin yrði t.d. um 40 milljarðar á ári (fyrstu árin), hvort sú upphæð yrði greidd af þjóðinni með X mikilli aukningu á tilteknum skattaálögum, Y miklum niðurskurði í tilteknum útgjöldum hins opinbera (t.d. til heilbrigðiskerfis og menntakerfis - eða hvað?), tiltekinni framleiðsluaukningu í tilteknum atvinnugreinum og þar af leiddum skattagreiðslum til ríkisins, o.s.frv., sem hefði þá afleidd og tiltekin áhrif á greiðslubyrði og ráðstöfunartekjur fólks...
Reiknilíkan með greiningum á beinum forsendum og afleiðingum af ofangreindu tagi myndi segja fólki mikið við mat á valkostum sem fyrir liggja. Þetta yrði að sjálfögðu varla mjög fullkomið líkan fremur en fyrsti umræddi reiknirinn sem nú hefur verið boðið upp á fyrir mat á skuldbindingunum, en væntanlega gott innlegg fyrir almenning til að byggja pælingar sínar og umræðu á.
PS: Svona reiknilíkön eru nú þegar til staðar í einhverri mynd, skyldi ég ætla, í t.d. opinberum stofnunum eins og Seðlabanka Íslands, Fjármálaráðuneytinu og Hagfræðistofnun. Málið er að setja þau fram í búningi sem almenningur getur "handfjatlað" sjálfur að einhverju leyti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.7.2009 | 22:53
Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?
Marta B. Helgadóttir ritaði athygliverðan pistil í bloggi sínu þ. 21.7.2009, sem hún kallaði "Nýr ríkiskassi - lífeyrissjóðirnir". Fjallar hún þar m.a. um hvort iðgjöld til lífeyrissjóða séu í raun skattlagning hins opinbera fremur en sparnaður launþeganna sjálfra, þar eð iðgjöldin þeirra eru í reynd ekki þeirra séreign.
Þar sem ég hef líka velt þessum málum fyrir mér hripaði ég niður nokkrar athugasemdir við pistilinn og fara þær hér á eftir:
Það er margt sem rökstyður það að iðgjöld launafólks lífeyrissjóði sé í reynd "dulbúin" skattlagning. Helstu rökin sem tína má til um það eru m.a. eftirfarandi:
- Launþegarnir, þeir sem vinna hörðum höndum fyrir laununum, verðmætaskapendurnir, hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt á peningunum eftir að þeir eru inntir af hendi til lífeyrissjóðanna. Flestir sparendurnir deyja áður en þeir hafa fengið allt fé sitt til baka aftur.
- Launþegar geta ekki tekið út þennan sparnað sinn þegar þeim hentar sjálfum. Það er háð lögum sem gilda um lífeyrissjóði. Þeim er reyndar hægt að breyta eins og gerðist í vor varðandi séreignasparnaðinn.
- Launþegarnir hafa í reynd afar takmarkað vald yfir ráðstöfun sparnaðarins meðan hann er (stóran hluta ævi hvers launþega) í vörslu lífeyrissjóðanna. Þeir hafa ekki hver fyrir sig bein áhrif á hvernig sjóðirnir eru ávaxtaðir og hvernig þeir eru reknir. Hins vegar hafa atvinnurekendur og samtök þeirra (!) mikil ítök í stjórn lífeyrissjóðanna; Takið eftir: í sjóðum launþega!
- Dæmið sem upp kom varðandi fulltrúa lífeyrissjóðs VR í gamla Kaupþingi s.l. vetur sýnir að fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja (sem lífeyrsjóðirnir hafa fjárfest í) verja atkvæði umbjóðanda síns með hætti sem markast af fleiru en algjörum hagsmunum eigenda fjárins í sjóðunum. Hvernig stendur á því?
- Lífeyrissjóðirnir eru að miklu leyti nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkisins og atvinnulífsins, en að nafninu til í eigu launþega. Þeir eru líka á ábyrgð launþega, þótt þeir hafi takmörkuð óbein áhrif á stjórn þeirra, þar sem launþegar tapa ef sjóðirnir ávaxta fé þeirra illa. Slíkt tap birtist í skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga, eins og dæmin sanna.
Það er til lítils að kallast eigandi að einhverju sem maður ræður ekki yfir! Sá sem ræður yfir því og stjórnar á það í raun og veru til lengri tíma litið. Í þessu tilviki ríkið og atvinnurekendur.
Það er í raun og veru fráleitt að launþegar þurfi að una því að geta ekki lagt allan sinn sparnað í séreignasjóði sem þeir eigi að fullu sjálfir hver fyrir sig.
Þeir sem höfðu lagt til hliðar í viðbótarsparnað umfram skyldusparnað sinn áttu svo sannarlega varasjóð sem þeir gátu grípið til við áfall eins og dunið hefur yfir okkur frá því s.l. haust. Opinberi viðbótarsparnaðurinn er hins vegar fastur nema að hluta til. Eins og er getur fólk sem hefur safnað upp slíkum sjóði aðeins tekið út upp undir eina milljón kr. Slíkt þak ætti ekki að líðast. En, ástæðan er einfaldlega sú að féð er tiltölulega fast í langtímafjárfestingum sjóðanna og ekki handbært nema að takmörkuðu leyti. Það þarf einhvern tíma til að losa um það.
Það er fráleitt að þeir sem eiga slíkan viðbótarsparnað erlendis skuli ekki geta tekið hann allan út núna og yfirfært han heim til gjaldeyrissoltins Íslands einmitt nú!
Ég legg eindregið til að fólk fái heimild til að losa hann allan út núna!
Í raun og veru er hinn erlendi sparnaður ígildi útflutnings, en útflytjendurnir, þeir sem spöruðu í erlendum sjóðum, fá bara ekki að flytja útflutningstekjur sínar heim!
Útflutningsfyrirtæki geta hins vegar yfirfært útflutningstekjur sínar strax heim, eins og vera ber! (Á sama tíma eru opinberir aðilar, og fleiri, að hneykslast á því að útflutningsfyrirtæki flytji ekki allan gjaldeyri sinn strax heim, enda er sárt fyrir almenning að þola slíkt brask fyrirtækja).
Þetta er ekki jafnræði milli einstaklinga og fyrirtækja, þ.e. milli einstaklinga sem eru launþegar og einstaklinga sem eiga útflutningsfyrirtækin. Er það réttlátt?
Á ofangreindan rakalista hjá mér um að lífeyrissjóðsiðgjöld eru í reynd ekki að fullu eign launþeganna, heldur skattheimta ríkisins, má einnig bæta eftirfarandi atriðum:
Á meira en 20 undanförnum árum hefur svokallað mótframlag atvinnurekenda hækkað úr 6% í 8% af launum launþega, og munar um minna, þannig að að viðbættu iðgjaldi launþega, 4%, eru mánaðarleg lífeyrissjóðsiðgjöld nú alls 12% af launum.
Einnig er athyglivert að áður hét mótframlagið launaskattur!
Í kjarasamningum launþega og atvinnurekenda hefur hækkun mótframlags atvinnurekenda gjarnan verið liður í launahækkunum þannig að vegna hækkunar á mótframlaginu virðast launþegasamtök hafa fallist á að bein laun hækkuðu þá minna en ella.
Þetta er sýndar-launahækkun, sem skilar sér seint og illa, ef nokkurn tímann, til launþeganna sjálfra. Þegar þannig er í pottinn búið eru lífeyrisjóðsgjöld í formi mótframlags atvinnurekenda fyrst og fremst hækkun ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða, sem þar með hafa úr meiru að spila til fjárfestinga. Fyrir hverja? Að vísu að hluta til lána til sjóðsfélaga, en að öðrum hluta til fjárfestinga í atvinnulífinu (sem að vísu gagnast launþegum í formi meiri atvinnu og/eða hærri launa eða launaskriðs). Hvað verður síðan um lán sjóðanna til sjóðsfélaga? Þeir fjárfesta væntanlega að mestu í íbúðarhúsnæði, sem jú byggt er af atvinnurekundum og efnisaðföng til húsbygginga eru seld af atvinnurekendum. (Og allt í lagi með það út af fyrir sig).
Til viðbótar við mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð bætast við allt að um 2,18% af launum í formi ýmissa svokallaðra launatengdra gjalda eða atvinnurekendagjalda.
Heiti þeirra gjaldaliða bera með sér að eiga að vera í þágu launþega, þ.e. Sjúkrasjóður, Orlofsheimilasjóður, Starfsmenntasjóður, Endurhæfingarsjóður, Kjaramálagjald og Félagsheimilasjóður. Hver launþegi getur svo spurt sig að því að hve miklu leyti þessi gjöld, sem stofnað er til til að gagnast honum, skili sér í reynd til hans.
Alls geta því sparnaðar- og gjaldaliðir sem tengjast launum launþega, lífeyrisjóðsiðgjöld og launatengd gjöld, nú numið allt að a.m.k. 14,18% (það er reyndar mismunandi eftir eðli rekstrar og lífeyrissjóðum hvaða launatengdu gjöld eiga við og geta þau verið lægri en umrædd 2,18% alls í samræmi við það).
Þetta er ekki svo lítill stofn fyrir "fjárfestingasjóð ríkisins og atvinnulífsins", sem ég nefndi svo hér ofar; 14,18% af launum landsmanna!
Ég endurtek síðan tillögu mína til ríkisstjórnarinnar, sem ég hef sett fram hér i öðrum bloggfærslum:
Veitið því fólki sem lagði viðbótar-lífeyrissparnað inn á erlenda ávöxtunarsjóði heimild til að taka hann allan út og flytja til landsins hið fyrsta. Það styrkir íslensku krónuna jafnframt því að gefa fólkinu kost á því að njóta hins háa kaupgengis við sölu gjaldeyris. Það léttir einnig lóði af vogarskál verðbóta og gengistaps lántakenda.
Er hið síðast nefnda ekki einmitt eitt af yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar til hjálpar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.7.2009 kl. 01:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2009 | 02:03
Heima er von, ef ...
Undursamleg mynd um heimkynni mannkyns, Home, var sýnd hnípnum landsmönnum í kvöld, sem varla hafa verið búnir að jafna sig eftir fréttir dagsins og var það þó ærið álag.
Þar er dregin upp mynd af örlagaríkum inngripum manna í lífkeðju jarðar, sérstaklega undanfarinn mannsaldur. Eftir þá dökku sýn sem vakin er athygli á um miðbik myndarinnar er í síðasta hluta hennar blessunarlega bent á jákvæða hluti sem eru þó að gerast í sumum löndum víða um heim þrátt fyrir allt og þeir gefa vissulega VON. Á henni þarf fólk á þessari jörð að halda nú sem aldrei fyrr. En vissulega þarf að bregðast hraðar við aðsteðjandi vanda en hingað til, áður en náttúran hreinlega neyðir menn til breytinga; til að lifa næsta dag!
Einn vandinn í þessu sambandi er þó sá, að baráttan um breytingar fyrir lífvænlegri umgengni um viðkvæma náttúru og auðlindir hennar á sér stað á vettvangi stjórnmálamanna þróuðu ríkjanna og skoðanamyndun og siðferðisstyrk í heilabúi þeirra manna. Spurningin er hverju þeir greiði atkvæði með: þröngum hagsmunum, eða víðsýni sem tekur tillit til samverkandi lífkerfis náttúrunnar í hnattrænu samhengi í ljósi þess að áframhaldandi siðmenntað líf er háð sjálfbærum lifnaðarháttum.
Hér og nú er þörf á endurnýjun hugarfarsins að þessu leyti og að hugað verði að gjörbreyttum lifnaðarháttum í þessum anda. Annars eiga afkomendur okkar ekki von um lífvænlega framtíð.
Það gleðilega fyrir Íslendinga er að það er býsna margt sem hér er hægt að gera til að sporna við þessari ógnvænlegu þróun samhliða því að ráðin væri bót á öðrum aðkallandi vandamálum, svo sem að stemma stigu við atvinnuleysinu, auka framleiðslu innan lands sem kæmi í vaxandi mæli í stað innflutnings og yki útflutningstekjur, yki eftirspurn eftir húsnæði (fyllti jafnvel allt það tóma og ókláraða húsnæði sem er fyrirliggjandi núna) og væri fyrirmynd fyrir það hvernig takast má á við aðsteðjandi erfiðleika og tekjurýrnun í þjóðarbúskapnum.
Málið snýst um að beina vinnufúsum höndum og hugum í uppbyggilega farvegi, sem vissulega eru fyrir hendi ef vel er að gáð.
Þessi atriði er auðvelt að útfæra, sérstaklega ef hugsað er örlítið, jafnvel talsvert, út fyrir þröngsýnan "kassann" (og væri hægt að halda því áfram hér). En, hvar eru allir ráðgjafarnir og ráðþegarnir á vegum hins opinbera? Stjórnarandstaðan kvartar undan því undanfarna daga að lítið bitastætt heyrist úr þeim ranni til úrlausnar á bráðavanda þjóðarinnar!
Hið hryggilega er að lítið fer fyrir umræðu í slíka veru á opinberum vettvangi og virðast menn og aðilar félagssamtaka stjarfir við að horfa á hraðminnkandi atvinnuleysistryggingasjóði og sóa þar með dýrmætum tíma í vonlitla bið og aðgerðaleysi og karp í stað þess að nýta m.a. það fé og verkefnalausan mannafla til uppbyggilegri hluta.
Sem sagt: Við þurfum að bregðast viturlega við sem fyrst, bæði heima fyrir og hnattrænt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2009 | 02:44
Erlenda séreignarsparnaðar-gjaldeyrinn heim!
Ég legg til að það þak sem sett var á innlausn á séreignarsparnaði verði fjarlægt varðandi þann sparnað sem fólk á erlendis, svo að þeir sem hann eiga geti flutt sparnað sinn hingað heim.
Ég hygg að sé miklu meiri þörf fyrir hann hér en þar, ágæta ríkisstjórn, bæði fyrir fólk og ríki!
Ég segi: Séreignarsparnaðar-gjaldeyrinn heim!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)