Fagra veröld með refsi-nýlendunni Íslandi!

Þetta þykja mér áhugaverðar fréttir. Það er kominn tími til að þessi áhrifamikla saga sé kvikmynduð á tilkomumikinn hátt. Forvitnilegt er hvernig Íslandi verður lýst þar.

Þegar ég las bókina, fyrir löngu síðan við upphaf áttunda áratugarins, þá man ég hvað mér þótti ýmislegt framandi og fjarstæðukennt í samfélaginu sem dregin er upp mynd af í sögunni. "Hinn villti", ein af aðal persónunum, vakti tilhlýðilega samúð við lesturinn. Hann er eins og lambagras sem vex blómstrandi upp úr berangrinum umhverfis á sínum forsendum þrátt fyrir harðneskjuleg skilyrði.

Einnig þótti mér athyglivert og spennandi að minnst er á Ísland í sögunni. Því miður var landinu lýst sem lítt eftirsóknarverðum stað sem fólk var sent til til að taka út refsingu við "brotum" eða andófi gegn hinu heilaþvegna og einræðisstýrða samfélagi; persónur sem tóku upp á því að gagnrýna og spyrja spurninga og breyta gegn ómanneskjulegum reglunum þóttu ekki æskilegar.
Þess vegna voru t.d. barnsfæðingar á náttúrulegan gamaldags hátt fordæmdar, vegna þess að þau börn voru ekki með forritaða hlýðni-eiginleika steypta í mót stjórnvalda. Þannig var "Hinn villti". Óstýrilátt fólk eins og móðir hans átti þess vegna á hættu að verða sent í refsingarskyni til vistar á Íslandi.
Í þessu framtíðarsamfélagi ríktu nefnilega reglur sem okkur nú á dögum, mörgum öldum áður en sagan gerist, finnst mannfjandsamlegar, nema þá e.t.v. séð frá sjónarhorni hinnar útvöldu og sjálfskipuðu elítu sem stjórnaði þegnaframleiðslunni og velferð sinni.

Ég man ekki hvort því er lýst í sögunni hvers vegna Ísland varð svona andstyggilegur staður að dvelja á, þannig að hann var notaður sem fanganýlenda.
Þeirri kaldhæðnislega spurningu skýtur upp í hugann hvort höfundurinn, hinn snjalli Aldous Huxley sem sá möguleika læknavísindanna fyrir varðandi "forritun" fólks með genabreytingum áratugum áður en erfðahlutverk DNA var uppgötvað, hafi einnig séð niðurdrepandi efnahagslegar afleiðingar hörmunga eins og Icesave-nauðungarsamnings fyrir!
Er það tilviljun að þessi saga er á dagskrá núna með refsinýlendunni Íslandi innanborðs, eftir að yfirstandandi hörmungar landsins með "villtum" íbúum þess "fremjandi hryðjuverk" gegn Bretlandi, London og fleirum hafa auglýst sögusviðið rækilega?
Ég vona að ekki verði framin skáldræn hryðjuverk gegn Íslandi í væntanlegri kvikmynd Scotts. Hann á jú hryllilegar sögur að baki!

PS. Var Ísland kannske í huga höfundar sögunnar tákn um þá paradís á jörðu sem þrátt fyrir allt gæti orðið til raunverulegrar frelsunar fyrir "eðlilegt" fólk frá óskapnaði gerviveraldarinnar og hinu gerilsneidda og firrta "mannlífi" þar.


mbl.is Veröld ný og góð kvikmynduð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband