Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eiga (háir) stýrivextir við á Íslandi í dag?


Pistill þessi er tilkominn sem viðbrögð við góðu uppleggi um vaxtamál sem Már Wolfgang Mixa ritar á bloggi sínu 25.5.2009. Már spyr þar hvort stýrivextir séu úrelt fyrirbæri sem standi í vegi fyrir vaxtalækkunum.

Í stuttu máli gæti svarið falist í eftirfarandi einfaldaða dæmi: EF framboð af sparnaði og eftirspurn eftir lánsfé væru látin ráða vaxtastigi, innlendur lánsfjármarkaður væri lokaður (eins og nú er með gjaldeyrishöftum) og gengisáhætta vegna erlendra lána þar með ekki með í dæminu, þá reynir ekki mikið á stýrivexti Seðlabankans. Málið snýst um hvort opið sé fyrir lánsfé inn í hagkerfið til banka og almennings, eða ekki. Ef hagkerfið (og lánsfjármarkaðurinn) er lokað og magn útlána banka þá alfarið háð innlánum eða sparnaði sparifjáreigenda og fyrirtækja, og vaxtastig látið ráðast af framboði sparifjár og eftirspurn eftir lánsfé þá spila stýrivextir Seðlabankans ekki stórt hlutverk. Í eðlilegum rekstri undir þeim forsendum myndu bankarnir þá ekki þurfa að notfæra sér lán í Seðlabankanum nema til að hlaupa undir bagga tímabundið hverju sinni með lausafé. Vaxtakostnaður banka vegna slíkra skyndilána í Seðlabankanum myndu þá ekki vega þungt í kostnaði þeirra. Þar liggur hundurinn (lánabólu)grafinn.

Dæmi um svona aðstæður að nokkru leyti er sparisjóður úti á landi sem var í sjónvarpsfréttum rúv s.l. vetur, sem ekki varð fyrir barðinu á bankahruninu vegna þess að hann hagaði sér eins og ábyrgur og varfærinn sparisjóður á sínu svæði: tók á móti sparnaði viðskiptavina og ávaxtaði hann með varfærinni útlánastefnu á starfssvæði sínu sem tók mið af arðsemi fjárfestingarvalkosta og greiðsluhæfi lántakenda.

Í stuttu máli vil ég benda á að við "eðlilegar" aðstæður ættu framboð og eftirspurn að ráða vaxtastigi á innlendum markaði, eins og hér hefur komið fram. Annað eru í reynd falskir vextir, m.ö.o. rangt kaupverð á afnotarétti lánsfjár séð frá sjónarhorni lántakenda og rangt söluverð á afnotum á sparnaði séð frá sjónarhorni lánveitenda/sparenda. Þetta verð, vextirnir, ættu ennfremur, ef eðlilegt er, að fara eftir endurgreiðsluhæfni lántakandans og/eða því hvernig lánsfénu er varið. Er því t.d. varið í fjárfestingar á eignum eða atvinnutækifærum sem væntanlega hækka að verðgildi eða bera góðan arð og stendur því væntanlega undir sér sjálft? Eða er lánsfénu varið í neyslu sem skapar lántakandanum ekki beint eignir né verðmæti sem gefa af sér beinan arð? Þá reynir á greiðsluhæfi lántakandans, s.s. núverandi og væntar tekjur og fyrirliggjandi eignir, þ.e. lánshæfi lántakandans.

Við þessar aðstæður, og ef í bili er ekki með í dæminu að bankakerfi og lánastofnanir landsins hafi aðgang að erlendu lánsfé, þá gæti vaxtastigið í reynd verið hvað sem er, háð eftirspurn og framboði, en myndi þó í reynd ráðast af viðhorfum aðila á þessum markaði til annarra hagrænna valkosta. Maður myndi ekki taka lán fyrir "óendanlega" háa vexti og fjármagnseigandi myndi varla lána fé sitt fyrir ekki neitt. Fyrr er hugað að öðrum leiðum í lífinu og fólk endurmetur t.d. óþolinmæði gagnvart eignamyndun.

Bankar og aðrir lánveitendur gætu ekki lánað út nema það sem nemur sparnaði almennings og fyrirtækja á hverjum tíma í hagkerfinu. Þeir yrðu eðli málsins samkvæmt að hafa útlánavexti sína einhverjum prósentustigum hærri en á innlánsvöxtum til að geta staðið undir rekstri sínum. (Sá vaxtamunur er hins vegar umdeildur og af mörgum talinn óþarflega hár hérlendis).  Ef útlánahegðun banka og lánastofnana tæki alfarið mið af sparnaðinum með þessum hætti myndi ekki skipta máli þótt seðlabanki landsins (hér Seðlabanki Íslands) ákveði svokallaða stýrivexti sína með öðrum hætti og í ósamræmi við gildandi jafnvægisvexti samkvæmt ofangreindum aðstæðum á markaði í því augnamiði að hafa áhrif á vaxtastigið í umræddu hagkerfi. Þannig setur seðlabankinn ýmist háa stýrivexti (þ.e. hærri en ríkjandi jafnvægisvexti á markaðnum) í þeirri viðleitni að draga úr útlánum innan hagkerfisins eða lága stýrivexti til að örva atvinnulíf og fjárfestingar (og neyslu).

Slík inngrip myndu ekki hafa nein áhrif á lánsfjármarkaðinn í ofangreindu dæmi um lokað hagkerfi þar sem stýrivextirnir hafa ekki áhrif á magn lánsfjárins sem er í umferð. Að vísu þurfa bankar að geta aukið tímabundið lausafé sitt, svo sem í þeim tilvikum er sparifjáreigendur taka út fé sitt sem þá hefur verið bundið í útlánum á vegum bankans til ávöxtunar. Í þeim tilvikum þarf bankinn e.t.v. að leita til seðlabankans um tímabundið lán og það þarf hann að greiða fyrir með stýrivöxtum seðlabankans. Ef þeir eru hærri en ríkjandi útlánssvextir bankans til sinna viðskiptavina myndi bankinn tapa á því láni, en ekki ef stýrivextirnir eru lægri en útlánavextir bankans, til skamms tíma litið. Þetta er í lagi fyrir bankann ef ekki er mikið um að hann þurfi að grípa til þessa úrræðis og að meðaltali myndi vaxamunur bankans, munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum hans, væntanlega vera sniðinn að teknu tilliti til þessa.

Hins vegar skapast vandamál ef bankinn í dæminu hagar útlánum sínum þannig að ekki verður eðlilegt jafnvægi á milli innlána og útlána hjá honum, þ.e. ef hann lánar út of mikið eða bindur of mikið fé þannig að hann þurfi viðvarandi að taka lán hjá seðlabankanum til að verða ekki uppiskroppa með lausafé (gjaldþrota). Þá væri bankinn orðinn háður seðlabankanum og þeim vöxtum sem þar bjóðast, þ.e. ef stýrivextirnir væru hærri en útlánavextir bankans (tekjur hans). Við þær aðstæður þarf bankinn að fara að taka tillit til stýrivaxtanna og hækka útlánsvexti sína með hliðsjón af þeim.

Þetta á vel að merkja við um lokaðan lánsfjármarkað þar sem ekki er um annað viðvarandi utanaðkomandi lánsfé að ræða fyrir innlenda bankakerfið, fyrir utan hinn innlenda sparnað. Þegar möguleikar opnast fyrir að erlent lánsfé flæði inn í hið fyrrum lokaða hagkerfi, þannig að magn lánsfjár eykst (mikið) og með lægri vöxtum en fyrir voru, þá skipta stýrivextir seðlabankans litlu máli. Þegar lokast skyndilega fyrir flæði erlends lánsfjár inn í hagkerfið þá verða innlendu bankarnir jafn skyndilega algjörlega háðir innlenda seðlabankanum og stýrivöxtum hans og vaxtastefnu. Þá virka stýrivextirnir svo sannarlega, en þá er skaðinn skeður. Lántakendur sitja þá uppi með erlend lán sem borga þarf af. Það sem verra er, er að ef innlendi seðlabankinn hefur ekki fyrirliggjandi fjármagn (gjaldeyrisvarasjóð), til að lána innlendu bönkunum til að standa skil á afborgunum á erlendu lánunum sem eru í gangi, þá kemur upp staða hliðstæð þeirri og varð við svokallað bankahrun á Íslandi um mánaðarmótin september og október 2008. Bankarnir verða gjaldþrota.

Í dæminu um hinn íslenska lánsfjármarkað undanfarin ár, er fyrirtækjum og almenningi bauðst að taka erlend lán á ”lágum vöxtum” þá sáu þeir hinir sömu lántakendur ekki fyrir sér raunverulegan vaxtakostnað er þeir skrifuðu undir lántökuna. Þeir horfðu fyrst og fremst á hina girnilega lágu vaxtaprósentu á erlenda láninu en hugðu lítt eða ekki að því hvort gengið á íslensku krónuninni gæti veikst t.d. um meira en 100%! Ef þeir hefðu hugað að því sem líklegum möguleika og skoðað málið þannig að þeir væru að skrifa undir lán með yfir 100% vöxtum, jafnvel mörg hundruð prósent vöxtum, þá er ólíklegt að þeir hefðu tekið lánið.

Þar með beinast sjónir að genginu og spurningunni um það hvort það hafi í raun verið snarvitlaust á þessum tíma, eins og lítill kompás innan um stór segulstál. Það er ekki laust við það. Á þessum tíma voru einar mestu fjárfestingar Íslandssögunnar í gangi með tilheyrandi innflæði erlends fjármagns, þ.e. vegna virkjunarframkvæmda. Jafnhliða því var opnað fyrir lánveitingar íslensku bankanna til almennings vegna fasteignakaupa og tilheyrandi innflæði erlends fjármagns í tengslum við það. Eigendur hins erlenda fjármagns höfðu áhuga á því vegna þess að hér voru vextir miklu hærri en erlendis. Af einhverjum ástæðum fengu stjórnendur íslensku bankanna að skuldsetja sig upp á meira en tífalda upphæð landsframleiðslu Íslands óáreittir, en það er enn önnur saga.

Það er líka spurning út af fyrir sig hvers vegna hinir erlendu fjármagnseigendur, erlendu bankarnir, héldu áfram að lána hinum íslensku einkabönkum fé þrátt fyrir hina fáránlega háu skuldsetningu! Þeir með sína sérfræðinga gátu séð, eins og aðrir íslenskir embættismenn og sérfræðingar sem það skoðuðu og áttu að greina, í hvað stefndi. Erlendu aðilarnir tóku samt þá viðskiptalegu áhættu gagnvart einkabönkunum íslensku. Úr því að þau viðskipti þessara aðila gengu ekki getum við spurt á hvaða forsendum aðrir en þeir viðskiptaaðilar, erlendu bankarnir og þrotabú íslensku bankanna, ættu að koma að því uppgjöri. Gerendur í þeim viðskiptum voru íslensku bankarnir (bankaráðin) og hinir erlendu lánveitendur. Ekki íslenskir skattgreiðendur.

PS. Ef þær aðstæður skapast að enginn vill taka lán gæti fjármagnseigandinn jafnvel þurft að greiða einhverjum fyrir að geyma fjármagnið ef engir fýsilegir fjárfestingarvalkostir bjóðast honum. Það er önnur saga og tek ég það fyrir í öðrum sérstökum pistli.


Hver GRÆÐIR á Ranglátu VaxtaOKRI á Fjölskyldum og Fyrirtækjum?

Undanfarið hafa almenningur og fyrirtæki með yfirdráttarlán ásamt öðrum lánum verið að sligast undan vaxtaokrinu sem hér er við lýði, en það eru einmitt þeir aðilar sem létta þarf hvað mest á til að auka líkur á að þeir komist af!
Samtímis njóta innistæðueigendur og aðrir fjármagnseigendur hárra inneignarvaxta sem aldrei fyrr, þ.e. þeir einstaklingar og lögaðilar sem væntanlega þola hið slæma efnahagsástand skást!

Hér virðist því að verið sé að láta almenna skuldara, þar á meðal atvinnulausa og allt atvinnulíf landsins, blæða á óréttlátum forsendum.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, sem eru lítt öfundsverð milli steins og sleggju, benda á að verið sé að fara eftir ráðleggingum og tilmælum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Rök AGS á sínum tíma voru þau að hinir háu stýrivextir væru til þess að styðja við gengi krónunnar.
Núverandi gjaldeyrishöft sjá þó til þess með afgerandi hætti og þess vegna þarf ekki líka að halda vöxtunum háum til þess arna.
Hvað veldur því að það er samt gert undir núverandi kringumstæðum?

Jöklabréfunum svokölluðu er haldið föstum hérlendis með gjaldeyrishöftum. Þau fara því ekki úr landi þótt vextir væru lækkaðir hressilega og gengið veikist ekki þess vegna á meðan.
Vaxtabyrði landsins vegna þeirra myndi hins vegar augljóslega léttast tilsvarandi hressilega um leið, eins og bent hefur verið á í umræðunni.
Einnig myndi vaxtaklafi hart leikinna yfirdráttarlánaskuldara léttast með væntri tilsvarandi lækkun yfirdráttarvaxta, bæði almennings og fyrirtækja.
Þrýstingur á hækkanir vöruverðs vegna fjármagnskostnaðar myndi þar af leiðandi minnka.
- Þetta er augljóst!

Hvers vegna heldur vaxtaokrið samt áfram?

 


Íslenskar lífslindir og lífsstíll

Umheiminn skortir lífsnauðsynjar sem Ísland á ofgnótt af. Þurfum við samt að biðla til umheimsins um björgun? Hvernig viljum við lifa?

Heiminn skortir lífsnauðsynjar
Hvarvetna í heiminum í dag er vaxandi eftirspurn eftir eftirfarandi gæðum, sem eru megingrundvöllur mannlífs: Mat, ferskvatni, orku og ræktunarlandi. Á mörgum stöðum er nú þegar skortur á þessum lífsnauðsynjum. Lönd, þar sem þéttbýli er mikið og skortur er á þessum þáttum auk landrýmis, hafa m.a. tekið upp á því að leigja ræktanleg landsvæði í öðrum löndum til að framleiða matvörur fyrir eigin heimamarkað til að anna þörfinni þar. Dæmi um það er Suður-Kórea sem leigt hefur stór landsvæði á Madagaskar til langs tíma til ræktunar. 

 Ísland á ofgnótt lífsnauðsynja
Ísland er aftur á móti afar vel sett að þessu leyti og í mörgu öðru tilliti. Þar er til ofgnótt ferskvatns, raforku og ónýttra möguleika til raforkuöflunar. Þar er fyrirliggjandi þekking og afkastageta fyrir framleiðslu á miklu meira magni af matvörum en þjóðin getur torgað, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Ræktanlegt land og landrými er ríkulegt og pláss er fyrir miklu fleiri íbúa en núverandi fjölda. Þar að auki hefur stjórnarfarið almennt verið stöðugt, séð í alþjóðlegu samhengi, og öryggi þegnanna hefur sömuleiðis verið gott félagslega séð og með því besta í heimi. Þá eru ótalin ýmis önnur gæði landsins, eins og t.d. tiltölulega hreint loft, ýmsir einstæðir kostir fyrir ferðaþjónustu, lega landsins gagnvart nýjum siglingaleiðum í norðri og margt fleira. 

 Ísland þarf ekki að biðla til umheimsins
Þegar öll þessi grundvallaratriði eru skoðuð í heild og í samanburði við aðstæður annarra landa, bæði í Evrópu og Ameríku, að ekki sé talað um Afríku og Asíu, blasir eftirfarandi staða við: Ísland á yfir að ráða ofgnótt náttúruauðlinda á þeim sviðum sem lífsnauðsynleg eru íbúum jarðar til daglegs lífs, þ.e. drykkjarvatn, matvörur og orku, auk möguleika á að auka framleiðslu á þessum vörum margfalt frá því sem nú er til útflutnings.

 Umheimurinn mun biðla til Íslands
Til lengri tíma litið getur heimsmarkaðsverð á þessum afurðum aðeins farið hækkandi vegna vaxandi eftirspurnar erlendis, til bóta fyrir viðskiptakjör landsins og þar með hagsbóta fyrir þjóðina. Það er því ekki furða, eins og nú er ástatt, að lönd í t.d. Evrópu fýsi að fá Ísland í félag við sig til að komast í nánara samband við lífslindir þess. 

 Heimanmundur og undirlægjuháttur
Þegar staða landsins er að styrkjast stórkostlega hvað þessi atriði varðar má spyrja sig hvort einmitt þá sé viturlegast að kasta þessum auði eins og heimanmundi og í undirlægjuhætti upp í gráðugt ginið á soltnum og þyrstum og óprúttnum viðskiptablokkum sem á móti bjóða eitthvað allt annað en ómengaðar lífslindir; Allt vegna misskilnings Íslendinga á aðstæðum og samningsstöðu sinni! 
 
 Íslendingar þurfa ekki að óttast framtíðina
Íslendingar þurfa ekki, til lengri tíma litið, að óttast skort á innflutningsvörum, eins og olíu fyrir fiskiskip sín og landbúnaðartæki né aðra tengda hluti til að halda framleiðslukerfi sínu og samgönguneti gangandi. Útflutningsverðmæti landsins mun fyllilega standa undir slíkum grundvallarvörum og þjónustu erlendis frá. Útlönd verða háðari Íslandi en Ísland þeim og samningsstaða landsins því sterk og batnandi. Þá eru ótaldar hugsanlegar olíuauðlindir við landið og vinnsla þeirra í náinni framtíð, sem væru bara bónus við það sem framar er talið.

 Spurning um lifnaðarhætti og lífsstíl
Háð því hvernig mál þróast og hvaða stefna verður tekin af Íslendingum á þessum sviðum þá munu lifnaðarhættir og lífsstíll landsmanna í framtíðinni vissulega mótast af því. Ætlum við að láta það ráðast af umhverfinu og hagsmunum annarra þjóða, eða ætlum við að ráða vegferð okkar og framtíðarhag sjálf, t.d. með meiri áherslu á sjálfbærni við nýtingu landsins gæða en hingað til?
Áður en við hugsanlega óskum eftir inngöngu í viðskiptablokkir skulum við að minnsta kosti gera okkur grein fyrir raunverulegu verðmæti auðlinda og möguleika okkar í framtíðinni og vega og meta mismunandi valkosti varðandi lifnaðarhætti og lífsstíl og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna í því ljósi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband