Færsluflokkur: Bloggar

Raunverulega samræmd próf æskileg

Mér finnst að samræmd próf á landsvísu og yfirferð þeirra miðlægt skuli viðhöfð; Í öllum eða sem flestum fögum upp úr síðasta bekk grunnskóla, hliðstætt og átti sér stað á tímum „landsprófsins“ um og upp úr miðri síðustu öld. Annað er ekki nægilega gagnsætt mat og býður upp á alls kyns tortryggni milli allra aðila.
Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélagi nútímans með allri sinni tækni og sérhæfingu starfa í atvinnulífinu gæti þetta, mjög líklega og æskilega, kallað á aðgreiningu náms og nemenda í efri árgöngum grunnskóla eftir nokkrum mismunandi sviðum þekkingar og hæfni sem nemendur gætu þá valið á milli og þeim leiðbeint um. Nemendur væru þá prófaðir samræmt eftir slíkum námssviðum. Nemandinn og framhaldsskólinn vita þá á hvaða forsendum lokaeinkunn nemandans er fengin, og þar af leiðandi hvort viðkomandi hafi helst forsendur og eigi þar með erindi í tiltekið framhaldsnám fremur en annað.

Samræmd próf fela auk þess í sér mikilvægan hvata fyrir nemendur til að leggja á sig vinnu til að ná markmiðum sínum í námi með hliðsjón af því hvert þeir stefna hvað nám og störf varðar í framhaldi af því. Það er mikilvægt atriði svo að þeir nemendur sem í reynd hafa bóklega námshæfileika, en ella sýna það ekki vegna námsleti eða slugs og kæruleysis á unglingsárunum, fyrirgeri ekki raunverulegum námsmöguleikum sínum til framtíðar. Ekkert fæst án fyrirhafnar og alls ekki raunveruleg og bitastæð menntun. Engum er greiði gerður með því að koma honum í eitthvað sem hann ræður ekki við.

Niðurstöður slíkra samræmdra prófa gefa sterkar vísbendingar um í hvaða átt námslegir  og þar með starfslegir hæfileikar hvers nemanda liggja. Svo sem grundvallarlega séð hvort hæfileikar liggja til frekara náms að og upp á háskólastig eða fremur annað svo sem á starfstengdar iðnbrautir eða annað. Það er hvorki hagkvæmt né gott fyrir nemendur að vera leiddir inn á svið náms sem þeir líklega ráða svo ekki við þegar á reynir og lengra kemur. Þar myndi meðal annars dýrmætur tími og kostnaður geta farið forgörðum, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Í umræðunni um boðað samræmt „matsferli“ í grunnskólum vakna ýmsar spurningar. Svo sem um hvort meiningin sé sú með áformuðum matsferli og tilsvarandi miðlægri skráningu að lokaniðurstaða hans í hverju tilviki verði einhvers konar samantekt um getu og færni nemandans í nokkuð víðum skilningi, og ef til vill með tilheyrandi ályktunum um mögulegt framhald náms- og/eða starfslega séð, og jafnframt sem einkunnaskjal nemandans upp úr grunnskóla? Meðal annars þá sem grunnur fyrir hina mismunandi framhaldsskóla til að meta umsóknir nýnema um námsvist? - Vegna þess að einkunn í sjálfri sér er marklaus án tilsvarandi upplýsinga um forsendur hennar, grunn og mælikvarða.
Önnur spurning snýr síðan að því hverjir muni hafa og fá aðgang að skráðum upplýsingum í fyrirhuguðu miðlægu skólakerfi. Mun einstaklingurinn (núverandi og fyrrverandi nemendur sem skráðir verða í kerfið) geta gefið öðrum aðgang að upplýsingum um sig, t.d. skóla sem sótt er um nám í og fyrirtækjum þar sem sótt er um starf? Og, hvaða opinberu aðilar munu hafa aðgang að upplýsingunum auk skólakerfisins? Lögregla, dómskerfi, Alþingi, aðrar stofnanir?


mbl.is Óttast að loðin svör séu vísbending
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi tjáningarfrelsis og lýðræðis upp á Kant

 Helgi tjáningarfrelsis og lýðræðis upp á Kant

Ríkissaksóknari, Sigríður Friðjónsdóttir, hefur farið fram á það við dómsmálaráðherra að vararíkissaksóknarinn, Helgi Magnús Gunnarsson, verði „leystur frá störfum“. „Sakarefnið“ sé að hann hafi farið niðrandi orðum um dæmdan hælisleitanda sem hér fékk „alþjóðlega vernd“ þrátt fyrir að hafa verið áður dæmdur hérlendis fyrir alvarlega glæpi. 

Helgi bendir hins vegar á að hann hafi einungis verið að benda á sannleikann tengt persónulegum hatursárásum, hótunum og líflátshótunum af hendi hins dæmda manns gegn sér og fjölskyldu sinni undanfarin ár. Ástæða þeirra væri þáttur Helga sem saksóknara í því að koma íslenskum lögum yfir manninn og í fangelsi. Enga vörn né vernd hafi Helgi og fjölskylda hans fengið af hálfu réttarríkisins íslenska meðan á því stóð. Hans tilfelli sé þó ekki hið eina í samfélagi okkar þar sem hælisleitendur hafi veri upp á kant við íbúana.

Helgi bendir þarna réttilega á atriði sem blasa við öllum sem sjá, heyra og skilja það sem hefur verið að gerast í samfélagi okkar tengt ýmsum hælisleitendum sem hér hafa fengið „alþjóðlega vernd“ og dvalarleyfi hérlendis en aðlagast ekki íslenskum lögum eða gildum né samfélagi og hafa átt í útistöðum við íbúana og stundum komist upp með það.
Flestir embættimenn hér hafa þó þagað þunnu hljóði um þróunina, enda flestir stjórnmálamenn, stjórmálaflokkar og ríkisstjórnin þögul um þessi efni á opinberum vettvangi en klifa þess í stað á þörf fyrir „inngildingu“ hælisleitenda sem annarra innflytjenda í samfélag okkar. Hafa þá gjarnan sett hælisleitendur að jöfnu við innflytjendur sem koma hingað gagngert til vinnu á vegum fyritækja. Fjölmiðlarnir, ekki síst sá ríkisrekni, hafa flestir verið meðvirkir í slíkri orðræðu. Ráðherrar og fleiri innan ríkisstjórnarflokkanna tala sem sé ekki lengur um „aðlögun“ að íslensku samfélagi, enda hefur hún ekki gengið upp í mjög mörgum tilvikum og sérstaklega ekki hvað hælisleitendur varðar sem koma frá löndum þar sem allt önnur trúarbrögð, forneskjulegir siðir og venjur og gildi er ríkjandi. Enda eru gömlu trúarkreddurnar þar innrættar og inngrónar frá blautu barnsbeini.

Áður en dómsmálaráðherra tæki upp á því að reka Helga fyrir þessar „sakir“, vegna þess að hann hafi „ekki bætt ráð sitt“ eins og ríkissaksóknarinn orðaði það, þ.e. að benda á sannleikann í þessum efnum, þá væri gagnlegt að rifja upp hvað siðfræðingurinn Kant ritaði á sínum tíma, Upplýsingaöldinni á 18. öld, í frægri og viðurkenndri grein sinni um rétt embættismanna til að tjá sig opinberlega, ekki síst þar sem tjáningarfrelsið á undir högg að sækja sökum ríkjandi stjórnarfars.

Þar er um að ræða grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar; Það er ritið "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), samið í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinarinnar:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!".

Í okkar tilfelli sem hér um ræðir er „maðurinn“ almenningur allur, þegnarnir og kjósendurnir. Að þeim er þjarmað hvað tjáningu snertir af stjórnvöldum og fjölmiðlum og nú er jafnframt spurning hvað dómsvaldið gerir hvað það varðar.
Það heitir svo að við búum í lýðveldi með öllu því frelsi sem þar er sagt fylgja, en ef opinber embættismaður yrði dæmdur frá starfi sínu fyrir að tjá sig opinberlega sem einstaklingur, sem einstaklingur, um sannleikann varðandi m.a. áralangar líflátshótanir gagnvart sér og fleira gagnvart fjölskyldu hans af hendi dæmds hælisleitanda frá framandi menningarheimi þá má spyrja hvernig er komið lýðræði okkar og tjáningarfrelsi á Íslandi. Værum við þá komin aftur fyrir Upplýsingaröldina þar sem einveldi og trúarveldi ríktu í Evrópu og þegnarnir gátu ekki um frjálst höfu strokið?
Fleiri opinberir starfsmenn en Helgi mættu hafa hugrekki og þor til að nota hyggjuvit sitt og sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum almenningi til hagsbóta og varnar. Oft var þörf en nú er nauðsyn sem aldrei fyrr.


Umræddur léttist en dó ekki, skv. fréttinni

Í fyrirsögn mbl.is í viðtengdri frétt er bagaleg stafsetningarvilla og þar af leiðandi merkingarvilla. Villan felst í rangri stafsetningu/beygingu á sögninni að "léttast" í lýsingarhætti þátíðar. Eins og hún er rituð ranglega er merkingin að viðkomandi hafi látist, þ.e. eins og sögnin væri rituð í þátíð, sbr. "hann lést" (brottfall á t), en það er ekki um það að ræða í fréttinni - sem betur fer.

Í fyrirsögninni ætti að standa "Elton John hefur létst" en ekki "...lést". Stofn sagnarinnar er "að léttast". Í lh.þt verður einnig brottfall þannig að annað t-ið fellur út og við bætist endingin st. Fyrir lagasetningu um að hætta að nota z í íslensku ritmáli (var það ekki árið 1974 eða þar um bil?) hefði stafsetningin verið "létzt", sem sýnir glögglega hvar brottfallið á t er og að í stað þess og -st kemur z. Seinna t-ið og s-ið í st er þar einfaldað í stafnum z. - Og hana nú! - Eða, er formlega búið að breyta rithætti svona "..tt.."-sagna?

Fréttaritari mbl.is athugar þetta ef til vill og leiðréttir ef hann sér ástæðu til?

 

 


mbl.is Elton John hefur lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið var!

Mikið var að innstu koppar í búri ESB sjái og viðurkenni hið augljósa, að óheft ferðafrelsi innan Schengen-landa og slælegt eftirlit með einstaklingum inn á svæðið og innan þess hefur slæmar afleiðingar í för með sér eins og dæmin sanna varðandi auðvelt flakk hryðjuverkamanna og anarra glæpamanna inn á og um svæðið. - Það gagnast ekkert að berja höfðinu við stein. Áhugavert væri að fá úttekt á því hver ávinningur Íslendinga hafi verið af þátttöku í Schengen á heildina litið.


mbl.is Macron vill endurskoða Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið í sóknunum er kirkjan

Hárrétt athugað hjá Óskari Magnússyni bónda. Söfnðurinn er kirkjan, en gríska orðið fyrir "kirkju" merkir einmitt söfnuður, eða samsafn fólks.
Bóndinn hefur tekið eftir hinu augljósa, að mannskepnan er félagsvera, og að þannig söfnuður fyrirfinnst fyrst og fremst í nærsamfélaginu, í grasrótinni - enda bóndi kunnugur öllu er lýtur að grasi. 

Þetta er ennfremur sá grundvöllur sem guðfræðingurinn og heimspekingurinn Friedrich Schleiermacher (1768-1834), oft nefndur "faðir þjóðkirkjuhugtaksins", sá einna helst til að sporna við hinu hverfandi kirkjustarfi á sínum tíma í kjölfar Upplýsingastefnunnar. Hann benti m.a. á það að maðurinn er félagsvera og leiti eftir samfélagi við aðra til að deila með hugsunum og tilfinningum sínum. Hin sanna kirkja sé hvar sem trúaðir koma saman.

Meðal annarra hefur Dr. Gunnar Kristjánsson, fv. sóknarprestur, fjallað um hvernig rætur þjóðkirkjuhugtaksins liggi í kirkjuskilningi Schleiermacher. Við viðreisn kirkjunnar í Þýskalandi í byrjun 19. aldar hafi hann álitið að kirkjan þyrfti að verða kirkja fólksins að nýju. Einnig að kirkjan þurfi að ná fótfestu meðal fólksins fyrir boðskap sinn og hann verði því að eiga erindi við einstaklinginn og þar með þjóðina. Kirkjan, söfnuðurinn, þurfi að losna undan kirkjuvaldinu sjálfu (eins og það var þá þar í landi tengt ríkjandi konunglegu einveldi; innskot pistilhöfundar). Það gæti aðeins gerst með því að fólkið axlaði sjálft ábyrgð með nýju skipulagi, svo sem með sóknarnefndum og almennri virkni hins almenna safnaðarmeðlims. Þetta þýddi fráhvarf frá forræðishyggju þess tíma. - Þarna benti Schleiermacher á grunninn að hugmynd að þeirri þjóðkirkju sem síðar náði útbreiðslu, m.a. hérlendis. (Sbr. Gunnar Kristjánsson, 2002 : Rætur þjóðkirkjunnar- Um guðfræði Schleiermachers, Kirkjuritið 2002, 69 (2), s. 7-10.)

- Nú er spurning hvort hluti af því höggi sem íslenska þjóðkirkjan á nú undir að sækja felist í forræðishyggju er birtist í þeirri meintu miðstýringu gegnum Biskupsstofu sem grasrótarbóndinn gerir að umtalsefni.


mbl.is Sóknirnar eru kirkjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur landbúnaður hornreka, segir Guðni

Hér rekur Guðni Ágústsson, fyrrv. landbúnaðarráðherra, í opnu bréfi til formanna ríkisstjórnarflokkanna 17 rök fyrir því að íslenskur landbúnaður sé hornreka í stjórnsýslunni og aðeins "skúffuráðuneyti", skúffa í ráðuneyti atvinnumála.

Þetta er ömurlegt, ef rétt er, fyrir bændastéttina og neytendur sem unna gæðamiklum íslenskum landbúnaðar- og garðræktarafurðum.


mbl.is Landbúnaðurinn sé í skúffuráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt er að birta mynd af Blönduósi með fréttinni, ekki annan stað..

Birtið mynd af Blönduósi með fréttinni, ekki annan stað..


mbl.is Ákvörðunin ekki hjá Isavia heldur ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðurkenningar í lifanda lífi

Það eru ótal styttur af heimsþekktum og löngu liðnum tónskáldum og fleira afreksfólki í heimaborgum þeirra í Evrópu og víðar, enda "lifa" þau áfram í sígildum verkum sínum og afrekum.

Það er sómi af og skáldlegt réttlæti í því að tónskáld og aðrir listamenn njóti verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir viðurkennd afrek sín í lifanda lífi og þjóð þeirra og samborgarar þar með.

Hið góða sem í afrekunum felst er góð fyrirmynd fyrir aðra núlifandi, sem og kynslóðir framtíðar. 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt er að kjósa - Það skiptir vissulega máli

Já, ég ætla að kjósa og nýta atkvæðisrétt minn.

Ef fólk sem hefur hugleitt að sleppa því að kjósa að þessu sinni fer nú samt á kjörstað og kýs þá verður það hluti bylgju sem hefur sannarlega áhrif þegar talningarniðurstöður liggja fyrir.

Allir sem kjósa hafa áhrif. Það er óhjákvæmilegt í þessu lýðræðislega samfélagi okkar Íslendinga og takk fyrir það. Ég ætla að kjósa!


mbl.is Framsókn stærri en Miðflokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég ætla að kjósa"

Vitið þið hvað? Ég ætla að kjósa í alþingiskosningunum 28. október 2017 og nýta þar með lýðræðislegan rétt minn!
Nú, jæja, en hvers vegna? Með aðeins eitt atkvæði í öllu hafi mögulegra kjósenda!?!
Og hvaða gagn hef ég nú af því? Eða þú fyrir þitt leyti ef þú kýst?

Ja, það eru margir sem hugsa á svipuðum nótum og við, hver út af fyrir sig, og ef við drífum okkur á kjörstað þá erum við orðin að hóp sem um munar. Þar með hefur vilji okkar og viðhorf í þeim hópi öðlast tilsvarandi vægi.
Það hefur sín áhrif, og þeim mun meiri eftir því sem fleiri nýta kosningarétt sinn.
Við þurfum bara sem flest að taka þátt og kjósa í samræmi við hug okkar og hjarta, í einlægni. Það góða við það er að enginn sér hvað við kjósum í kjörklefanum. Og við þurfum ekki að segja öðrum frá því hvað við kusum.

Alveg er þetta magnað að búa í lýðræðisþjóðfélagi eins og okkar á Íslandi og geta þess vegna lagt lóð á vogarskálar um val á fólki og stefnu við stjórn landsins; í samræmi við okkar skoðun hvers um sig.
vera þá með í því að velja þingmenn og þjónustulið til þjónustu við okkur almenning í dreifbýli sem þéttbýli og til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir á heilsusamlegan hátt. Og svo getum við ávallt haft samband við þingmenn „okkar“ til að halda þeim við efnið að kosningum loknum. Frábært!


mbl.is Kafað ofan í kannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband