Færsluflokkur: Bloggar
15.10.2017 | 12:45
Loforð virkjunarfjárfesta og lifandi menning
Fari svo að verði virkjað þarna skulu heimamenn gera það að skilyrði að fyrst verði staðið við lofaða uppbyggingu á svæðinu áður en virkjunarframkvæmdir hefjast eða a.m.k. jafnhliða þeim. Dæmi eru um að stórfyrirtæki standa ekki við fögur loforð um uppbyggingu á starfsemi eða öðru úti á landi við uppkaup þeirra eða yfirtöku á rekstri á landsbyggðinni. Talandi um fyrirtæki í sjávarútvegi og vinnslu.
En, hins vegar: Í Árneshreppi og þar um slóðir er Lifandi menning á hverfanda hveli. Hvað vill þjóðin gera í þeim efnum?
Engin glóra í Hvalárvirkjun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2017 | 12:01
Lifandi menning á hverfanda hveli
Lifandi menning í Árnesi á Ströndum hefur átt undir högg að sækja sökum fækkunar ábúenda jarða og íbúa þar í sveit.
Vonandi taka t.d. ráðamenn ferðamála við sér um möguleika á uppbyggingu ferðaþjónustu í þessu héraði og styrki a.m.k. með þeim hætti byggð og byggðarþróun í þessari mögnuðu sveit. Möguleikarnir eru margir í því sambandi, bæði til lands og sjávar og annarrar náttúru, eins og 1200 ára byggð ætti að sanna.
Maður spyr sig hvort Byggðastofnun, meðal annarra aðila, sé ekkert að pæla í viðhaldi byggðar og menningar á þessu svæði. Eða þingmenn kjördæmisins, reyndar alls landsins, þar sem þetta mál snertir þjóðina alla.
Þetta snýst öðrum þræði um það sem ég kalla lifandi menningu, að halda henni lifandi áfram og samfelldri eins og undanfarnar tólf aldir. Eða, eiga erlendir aðilar, m.a. kanadískur auðjöfur gegnum HS Orku og einhver "ítalskur barón", að hafa í hendi sér að virkja með tilheyrandi jarð- og menningarraski þarna á svæðinu? Vegna einkahagsmuna þeirra?
Þetta er mál sem varðar rammíslenska menningu og menningararfleifð og þekkingu á margvíslegri lífsbjörg á svæðinu, menningu sem enn er lifandi, að hún leggist ekki af og glatist.
Ein nauðsynleg og augljós forsenda fyrir varðveislu byggðar og byggðaþróunar í héraðinu er lagfæring á samgöngukerfinu. Að sjálfsögðu verður að tryggja opnar samgöngur um allt árið. Það gefur augaleið, þó ekki sé nema vegna þess að enginn læknir er þar. Þannig er það fjárveitingavaldi landsins og ráðamönnum til skammar að ekki skuli hafa verið rutt undanfarin ár þegar ófærð hamlar för um landveg norður í Árnes. Kostnaður sem er agnarlítill í samhengi fjárlaga. Betur má ef duga skal og þó löngu fyrr hefði verið. Einnig verður að vera þar til staðar lágmarks verslunarþjónusta og grunnskóli, svo fátt eitt sé nefnt.
Þótt fjárveitingar til fornleifarannsókna, uppgraftar og fleira, hafi að dómi viðkomandi starfstétta ef til vill ekki verið nægilegar gegnum tíðina þá hafa þó verið talsverðar fjárveitingar í þann málaflokk. Maður spyr sig í því sambandi hvort horfin menning sé þá mikilvægari heldur en sú sem enn er lifandi hér á landi. Verður þá fyrst áhugi á menningarsvæði því sem hér um ræðir þegar sú lifandi menning væri horfin og langt um liðið?
Eins og óargadýr inn í samfélag í sárum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2016 | 10:28
Ókeypis náttúruparadís liggur undir skemmdum
Þessu verður að breyta þar sem svona háttar til, eins og lýst er í meðfylgjandi frétt um slæma umgengni og sóðaskap í einni af náttúruparadísum Íslands.
Tekjur verða að fylgja tilkostnaði. Sá sem ber kostnað af ferðamannastraumi ætti að njóta tilhlýðilegra tekna fyrir.
Ég spyr ágæta og greiðuga landeigendur Hreðavatnslands hvort þeir hafi íhugað að stofna t.d. "Sveitagarð" með einhverri ferðavænni aðstöðu sem þeir síðan gætu haft einhverjar tekjur af til að fjármagna aðstöðu og eftirlit, hliðstætt og eigendur Bláa lónsins hafa gert þar. Þar kemst enginn inn nema þeir sem kaupa sér aðgang að því sem þar er í boði - og fuglinn fljúgandi.
Það er t.d. skömm hópferðafyrirtækja að hagnýta sér þessa aðstöðu án þess að greiða fyrir.
Fyrir utan frábært og fallegt landslag og gróðursælt unaðslegt umhverfi þarna, sem indælt er að ganga um niður að fossinum Glanna og lautarferðastaðnum Paradísarlaut, þá hafa landeigendur látið reisa flottan útsýnispall ofan við fossinn Glanna á sinn kostnað. Fyrir utan annað er hægt að fylgjast þar með löxunum undir fossinum og stórlöxunum á árbakkanum neðar. Mér skilst að landeigendurnir hafi fengið einhverja hungurlús í styrk frá hinu opinbera upp í framkvæmdina á sínum tíma og er það allt og sumt.
Þarna kemur sægur hópferðabíla og ferðafólks á einkabílum daglega yfir allt sumarið og meira en það þannig að oft myndast örtröð á bílastæðinu sem er við golfskála Golfklúbbsins Glanna (GGB). Golfskálinn býður einnig upp á þrifalega salernisaðstöðu sem opin er allan sólarhringinn. Þar er notendum þó í sjálfs vald sett hvort þeir leggi fram einhverja aura fyrir aðstöðuna og fá skálaeigendur þannig lítið fyrir sinn snúð.
Langlundargeð forráðamanna svæðisins við Glanna í Hreðavatnslandi er aðdáunarvert. Vonandi verður dásamlegt umhverfið þarna ekki skemmt með óhóflegum átroðningi vegna hinna frjálsu ókeypis afnota og eftirlitsleysis.
Þetta á náttúrulega við um aðrar náttúruparadísir þar sem svona háttar til.
Slæm umgengni og sóðaskapur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2016 | 10:59
Hagvöxtur og mannfjölgunarvandi heimsins
Er óheftur hagvöxtur á heimsvísu lausn alls?
Í frétt á mbl.is 6. júní 2016 með yfirskriftinni Þrjú börn að minnsta kosti er greint frá því að Tyrklandsforseti hafi eindregið hvatt þegna sína og trúbræður til barneigna. Haft er eftir honum að engir múslimar ættu að íhuga að nota getnaðarvarnir og að hann hafi hvatt konur til þess að eignast að minnsta kosti þrjú börn. Við munum margfalda afkomendur okkar er haft eftir honum.
Þessi frétt ber með sér að þar fari saman hvatningar íslamsks þjóðhöfðingja, í anda íslam, og kaþólsku kirkjunnar um aukningu barneigna og gegn notkun getnaðarvarna. Fátt er sterkara en hvatningar og trúarleg "lög" og kennisetningar á grunni trúarbragða og hvers kyns innræting um breytni fólks á þeim grunni.
Með slíkum innrætingarhvatningum er skellt skollaeyrum við fólksfjölgunarvanda heimsins sem er ein af frumorsökum ágangs á auðlindir Jarðar og staðbundinnar og hnattrænnar mengunar. Hvað trúboð og áróður, ef ekki valdboð, umrædds forseta varðar í krafti síns embættis sem leiðtoga lands síns hefur það væntanlega einnig einhver áhrif á alla landa hans og trúbræður þeirra hvar sem þeir eru, líka í öðrum löndum Evrópu þar sem þeir eru fjölmennir.
Páfinn ásamt öðrum kaþólskum trúarleiðtogum hefur hliðstæð trúarleg hvetjandi áhrif innan kaþólsku kirkjunnar, hvar í heimi sem hún teygir anga sína.
Spurning er hvernig hægt er að bregðast við þessari hvatningastefnu um barneignir í nafni trúarbragða, ekki síst ofangreindra, áður en fólksfjölgunin og fólksfjöldinn í heiminum verður til slíkrar eyðingar á gæðum Jarðar að skaðinn verði óafturkallanlegur með tilheyrandi hörmungum fyrir allt líf í vistkerfi okkar, Flóru og Fánu.
Reyndar hafa þær skoðanir verið viðraðar fyrir áratugum síðan af fræðimönnum og fólki, sem lætur sig þessi vandamál varða, að í óefni stefni og jafnvel að þegar hafi verið farið yfir mörk hnattrænnar sjálfbærni til lengri tíma litið. Í tímamótaskýrslu á vegum Rómarklúbbsins, The Limits to Growth frá 1972 eftir Dennis L. Meadows o.fl. (í danskri þýðingin Grænser for vækst, Gyldendal 1974), voru dregnar upp dökkar horfur í þessum efnum ef fram færi eins og horfði þá. Sbr. einnig bókin Mankind at the Turning Point eftir Mesarovic & Pestel (í danskri þýðingu Hvilke grænser for vækst?, Gyldendal 1975). Mannfjöldinn í heiminum hefur vaxið með veldisvexti og heldur enn áfram á þeirri braut. Það gengur náttúrulega ekki til lengdar endalaust án hörmulegra afleiðinga.
Lítið raunhæft umfram umræður og ráðstefnur er samt aðhafst í alþjóðasamfélaginu til að stemma stigu við þessari óheillavænlegu þróun.
Fulltrúar þjóðríkja tala á alþjóðlegum ráðstefnum um hnattræn vandamál en ekki virðist þar komist nægilega beinskeytt að rótum þessa vanda, sem er offjölgunarvandamál mannkyns. Lýsandi dæmi um þetta er til dæmis alþjóðleg ráðstefna um sjálfbæra þróun á vegum einnar deildar Sameinuðu þjóðanna, The Third International Conference on Financing for Development, sem haldin var í Addis Ababa 13.-16. júlí 2015. Þar voru sett fram 17 stefnumið og þar undir 169 markmið, Sustainable Development Goals, sem meðlimalöndin myndu stefna að varðandi velferð Jarðarbúa og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum, sbr. The Addis Ababa Action Agenda (AAAA, A/RES/69/313). Þessi markmið voru einnig sundurliðuð í sér skjali þar sem tiltekin áform um tilsvarandi aðferðir og aðgerðir eru tengd við hvert markmið um sig. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fylgdi niðurstöðum ráðstefnunnar eftir með meðal annars ályktun 22. desember 2015.
Fljótt á litið er þó í þessum gögnum því miður hvergi minnst berum orðum á undirliggjandi offjölgunarvanda mannkyns eða sérstök viðbrögð við honum; eins og hann sé ekki til staðar.
Í viðtalsþætti Sjónvarpsins 14. júní 2016 við umhverfissérfræðinginn dr. Jane Godall kom fram hjá henni að ef allir íbúar Jarðar nytu sömu lífskjara og viðhefðu sama lífsstíl og við Evrópubúar nú þyrfti um fjórar til fimm plánetur á við Jörð til að standa undir og viðhalda þeirri neyslu og auðlindanýtingu. (birt 18.6.2016 á Sarpinum á RÚV).
Til samanburðar sýna útreikningar Global Footprint Network á vistspori (Ecological Footprint) mannkyns á Jörðu að núverandi notkun auðlinda og losun koltvísýrings krefst ígildis 1,6 Jarða til að viðhalda sjálfbærni. Þar sem við höfum vitanlega einungis eina Jörð sést að í mikið óefni er komið og virkra aðgerða er þörf.
Að hvetja stóran hluta mannkyns til enn hraðari fjölgunar, eins og leiðtogar og fylgjendur ofangreindra trúarbragða gera, þegar þörf er á hinu gagnstæða, er augljóslega óábyrg og veruleikafirrt stefna sem bætir á vanda mannkyns að öðru óbreyttu. Ábyrgð allra þeirra þjóða og alþjóðlegra stofnana sem aðhafast ekki með virkum aðferðum til að stemma stigu við fólksfjölgunarvanda mannkyns er mikil og meiri en orð fá lýst.
Í ofangreindu ljósi ber að huga að nýjum lausnum fyrir vegferð og velferð mannkyns heldur en áframhaldandi óheftum hagvexti á heimsvísu meðan stætt er, en sú feigðarstefna endar að óbreyttu með hörmungum fyrir alla.
Nú er spurning hvort m.a. afleiðingar af Brexit með tilkomandi endurskipulagningu efnahagskerfa landanna geti beint þjóðríkjum heims inn á farsælli brautir í þessum efnum.
Obama: Brexit ógnar hagvexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2016 | 13:10
Hugleiðingar á föstudaginn langa
Séra dr. Gunnar Kristjánsson flutti að mínu mati stórmerkilega og upplýsandi prédikun í messu í Brautarholtskirkju sem útvarpað var á Rás1 á föstudaginn langa 18. apríl 2014. Hér neðar er vitnað orðrétt í nokkra staði í prédikun hans, en að sjálfsögðu er best að heyra hana og lesa í heild sinni til að meðtaka allan boðskap hennar á öllum forsendum hennar.
Gunnar kemur m.a. inn á trúarhugtakið eins og hann túlkar það að einu leyti (mínar leturbreytingar):
... Lúther sagði að aðeins með því að horfa til reynslu mannsins yrði guðfræðingurinn góður guðfræðingur, það á einnig við um trúna, reynslan staðfestir trúna, hún opnar nýja vídd, þar sem maðurinn skynjar návist Guðs. Trúin snýst ekki um trúarkenningar eða trúarjátningar, heldur ekki um trúarlegt atferli. Hún snýst um reynslu mannsins, trúin er málefni mannsins, hún varðveitir þrá hans og löngun til Hans sem gefur honum hugrekki til að lifa og kjark til að vera manneskja. ...
Um hlutverk kirkjunnar í þessu samhengi segir séra Gunnar:
Sú kirkja sem kennir sig við hinn krossfesta hlýtur að tala mál líðandi stundar, hún hlýtur að fást við reynslu mannsins og tilfinningar hans, spurningar hans um eigin tilvist. Í orðræðu trúarinnar býr sannleikur hennar, inntak og merking. Og sannleikur trúarinnar birtist svo ég vitni í franska félagsheimspekinginn Bruno Latour í því að hún vekur okkur að nýju, hún kemur til móts við tilfinningu okkar fyrir merkingu þess að vera manneskja, merkingu þess að vera til. Með öðrum orðum: ekki eins og ég-laus múgurinn við krossinn, heldur eins og Hann sem gaf allt vegna þess sem er gott, fagurt og satt, vegna þeirrar heilögu þrenningar sem hvert mannsbarn þráir innst í hjarta sínu.
Í hinni trúarlegu orðræðu komum við orðum að því sem skiptir okkur mestu máli, já: öllu máli. Við notum trúarlega orðræðu um það dýrmætasta, um mannréttindi sem eru heilög, um virðingu mannsins sem er heilög, um ástina sem er heilög. Síðasta vígi mennskunnar er í hinu heilaga, þar sem maðurinn er óskráður, þar er hann án kennitölu, þar nær enginn til hans nema inn Heilagi, þar finnur hann sér borgið í faðmi hans, í trúnni er mennsku okkar borgið. ...
Séra Gunnar leggur áherslu á að greina merkingu krossins og þýðingu hans í samtímanum og segir hér m.a. í því sambandi:
Hvers vegna er mynd hins krossfesta svo ágeng? Er það ekki vegna þess að hann er maðurinn sem við viljum líkjast, sem við viljum að móti þennan heim. Í mynd hins krossfesta birtist ímynd mennskunnar og mannúðarinnar sem á erindi til allra tíma og allra manna.
Við getum deilt um trúarkenningar og trúfræði en gegnir ekki öðru máli um þá sem sýna með lífi sínu og dauða hvers eðlis trúarreynslan er, sú reynsla sem gefur lífi mannsins djúpa merkingu. Er það ekki spurning um hvað er satt sem skiptir máli, hvað er gott og hvað er fagurt?
Allt birtist okkur í honum sem lifði og dó eins og lífið hefði óendanlega dýrmætan tilgang. Sú vitund og sú reynsla afhjúpar ekki vonsku mannsins heldur þá von sem honum er gefin, og það er einmitt í voninni, ástinni og í trúnni sem hin góðu gildi verða að veruleika í lífi mannsins og setja í gang vellíðunarhvatana sem gefa honum löngun til að lifa skapandi og gefandi lífi. Það kostaði Jesúm lífið að koma þeim skilaboðum áleiðis.
Dr. Gunnar Kristjánsson var, þá er hann flutti ofangreinda prédikun, sóknarprestur í Reynivallaprestakalli í Kjós og prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, en lét af störfum á fyrri hluta árs 2015 fyrir aldurs sakir. Þykir mér þar mikið skarð fyrir skildi, vegna þess að Þjóðkirkja Íslands hefur að mínu mati mikla þörf fyrir kennimenn, uppfræðara og prédikara með túlkandi nálgun sem er hliðstæð þeirri sem séra Gunnar hefur viðhaft bæði í ræðum og ritum um þau efni, eigi hún að kallast þjóðkirkja með réttu eins og það hugtak var upphaflega skilgreint af föður þjóðkirkjunnar Friedrich Schleiermacher snemma á 19. öld og sporgöngumönnum hans. Annars er hætt við að íslenska Þjóðkirkjan verði ekki raunveruleg þjóðkirkja í þeim skilningi, heldur eins og hver annar sértrúarsöfnuður með einstrengingslegar trúarjátningar sínar og trúarkenningar úr fornu samhengi.
Þjóðkirkjufólki fækkar hraðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.3.2016 | 20:44
Forkastanlegar yfirhylmingar
Vonandi er það liðin tíð að yfirvöld innan kirkjunnar, hvar sem er, hylmi yfir með mönnum, sem hefur verið treyst fyrir þjónustu við söfnuði og skjólstæðinga kirkjunnar, en sem reynst hafa verið níðingar af verstu gerð. Kirkjuyfirvöld sem það hafa gert vitandi vits eru beinlínis samsek í glæpnum.
Níðingsverk í skjóli kirkjunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2016 | 12:09
Rökvillan í aðförinni gegn forsætisráðherra
Í raun og veru liggur allt fólkið sem var í samningsliði Íslands gagnvart erlendu kröfuhöfum föllnu bankanna undir ásökun þessa "upphlaupsfólks"; ásökun um samsæri.
Halda mætti að upphlaupsfólkið haldi að forsætisráðherra hafi verið einn um það að semja við hina erlendu hrægammasjóði svokölluðu fyrir sína hönd og fjölskyldunnar persónulega.
Auðvitað er það fjarri öllu sanni! Þar á bekk með honum voru að sjálfsögðu fjölmargir aðrir opinberir aðilar, svo sem í ráðuneytum og Seðlabanka Íslands með seðlabankastjóra í broddi fylkingar, auk ýmissa tilkvaddra sérfræðinga innlendra og erlendra sem veittu ráðgjöf.
Þar sem fjöldinn allur af fólki var saman í því að semja við slitabúin er þar af leiðandi út í hött að halda því fram að einn maður, forsætisráðherra, hefði getað komið einhverjum persónulegum sérhagsmunum þar að. Nema þá og því aðeins að hér hafi átt sér stað eitthvert stórkostlegt samsæri allra þessara aðila gegn hagsmunum Íslands. Það er ekki lýginni líkt!
En ekki er hægt að sjá annað en að ásökun um það felist samt í rökvillu upphlaupsfólksins gegn forsætisráðherra einum.
Furðu sætir að einhverjir af þessum opinberu aðilum skuli ekki hafa lagt orð í belg í þessu máli, þó ekki væri til annars en að þvo af sér áburðinn um þær sakir í þeirra garð um það samsæri sem í ásökunum upphlaupsfólksins felst.
Ekki nóg að vera bara reiður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.3.2016 | 10:33
Er þetta hringavitleysa hjá ESB?
Í samningi ESB við Tyrklandsstjórn kemur m.a. fram:
"Ef sýrlenskir flóttamenn eru sendir aftur til Tyrklands fær sýrlenskur flóttamaður sem er í Tyrklandi að fara í hans stað til Evrópu."
Ef Tyrklandsstjórn vill "losna við" flóttamenn og hælisleitendur úr landi sínu þá mun hún alls ekki standa í vegi fyrir fólkinu sem þangað er komið og sem vill fara frá landinu norður til annarra Evrópulanda "út í óvissuna". Ætli Tyrkjar muni þá ekki einmitt fremur hjálpa fólkinu áfram "út í óvissuna"?
Samkvæmt þessum samningi, og ef svona er í pottinn búið hjá glúrnum Tyrkjum, mun því stöðugt fækka í hópnum í Tyrklandi með þessum hætti. Þetta verður þá bókstafleg hringavitleysa þar sem sumt fólk þvælist fram og til baka og annað (Sýrlendingar) til ESB-landa í staðinn.
Eða, er einhver krókur á móti þessu hugsanlega bragði Tyrkja hjá hinu eitursnjalla ESB?
Eða, er þetta e.t.v. einmitt tilgangurinn hjá stjórn ESB, að "smygla" með þessum hætti fólkinu til andsnúinna ESB-landa?
Lögðu af stað út í óvissuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2016 | 11:30
Kárna nú rökin fyrir katakombuklastrinu við Hringbraut
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ritar tilfinningaþrungna grein í Fréttablaðinu í dag, 18.3.2016 bls. 18, þar sem hann hefur margt á hornum sér varðandi hæstvirtan forsætisráðherra Íslands.
Fyrir utan hnútukast sitt í forsætisráðherra á persónulegum nótum virðist sem aðaltilgangur Kára með þessari grein sinni sé þó að tala fyrir áframhaldandi klastri viðbygginga og endurbygginga við gamla landsspítalann við Hringbraut, ekki síst vegna nándar við kennara í Háskóla Íslands, en fyrirtæki hans sjálfs er eins og vitað er einnig í Vatnsmýrinni.
Hann víkur þó ekki að öðrum mikilvægum þáttum aðgengis að landsspítala þjóðarinnar, svo sem aðgengi starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda, og allra aðfanga og frákeyrslu við rekstur spítalans. Þau atriði í heild sinni vega þó miklu þyngra kostnaðarlega og tímalega séð fyrir alla aðila.
Gerir Kári lítið úr viðleitni forsætisráðherra til að leita vitrænna og hagkvæmra lausna varðandi staðarval fyrir landsspítala, í stað fyrirhugaðs klasturs við Hringbraut sem byggir á nú úreltum forsendum.
Furðuleg eru þau "rök" sem Kári tínir til, til varnar hinum úreltu forsendum um áframhaldandi klastur við gamla spítalann með tilheyrandi tengigöngum eins og í hinum fornu katakombum í Róm, enda halda þau ekki vatni.
Til dæmis sneiðir hann gjörsamlega hjá því að ræða samanburð á kostnaði við aðra valkosti og það að sýnt hefur verið fram á að nýr og betri spítali á betri stað yrði mun hagkvæmari en fyrirsjáanlegt katakombuklastrið við Hringbraut, svo tugum milljarða króna skiptir. Kostnaður við opinberar fjárfestingar og rekstur hefur þó hingað til þótt mikilvægt atriði við ákvarðanir þar að lútandi og það þótt um miklu lægri upphæðir væri að tefla heldur en fyrir nýjan landsspítala.
Þó bendir hann á að vegna þess að búið sé að eyða svo miklum fjármunum í allan undirbúning bútasaumsins við gamla spítalann við Hringbraut þá verði að halda áfam með þau áform.
Svona sjónarmið eru dæmigerð rekstrarhagfræðileg rökvilla sem tekin er fyrir í byrjendanámskeiðum í þeim fræðum um tegundir kostnaðar og ákvarðanatöku í því sambandi. Leitt er til þess að vita að forstjóri í einu af stórfyrirtækjum landsins skuli detta í þá rökvillugryfju.
Þá heldur Kári því fram að "flestir starfsmenn" spítalans hafi bundist staðnum "sterkum tilfinningaböndum" sem ekki sé réttlætanlegt að rjúfa! - Nú væri afar fróðlegt að gerð væri leynileg atkvæðagreiðsla meðal starfsmanna spítalans um þessa fullyrðingu til að kanna hvort hún standist, út af fyrir sig. Telja má ólíklegt að "flestir" starfsmenn vildu fremur starfa áfram í gamla kraðakinu ef í boði væri að flytja starfsemina í nýja heilsteypta sjúkrahúsbyggingu, hannaða frá grunni, og starfa þar framvegis í stað þess að týna sér í rangölum væntanlegra katakomba milli margra sjúkrahúsbygginga við Hringbraut. Og komast jafnvel fyrr í nýjan spítala á betri stað heldur en bútasaumnum lyki í þrengslunum við Hringbraut. Og komast þar með hjá því að leggja á sig sjálfa og sjúklingana og aðra sprengigný með tilheyrandi skjálftum og vélaskarki og útblástursmengun sem allir hafa þegar fengið smjörþefinn af.
Hvaða stjórnmálamenn aðrir en e.t.v. lið og bakland núverandi heilbrigðisráðherra myndu vilja fleygja þeim tugum milljarða króna af skattafé landsmanna í úrelt Hringbrautardæmið, sem hægt væri að spara með því að byggja nýtt sjúkrahús á betri stað, til þess meðal annars að þjóna meintum "sterkum tilfinningalegum" og sjálfpínandi tengslaböndum starfsfólks við gamla staðinn?
Í grein sinni ræðir Kári ekki vaxandi vandræðin tengt samgöngum kringum spítalann við Hringbraut samanborið við það að hafa hann staðsettan í þungamiðju íbúabyggðar, samgönguæða og samgangna á höfuðborgarsvæðinu, enda heldur hann því fram að eiginleiki spítala varðandi staðsetningu hans sé "ekki endilega sá sem mestu máli skiptir". Ýmsir aðrir skynsamir menn myndu hins vegar væntanlega telja að staðsetning spítala væri eitt af lykilatriðunum við starfsemi sjúkrahúss.
Kárna nú rökin fyrir katakombuklastrinu við Hringbraut á úreltum og röngum forsendum.
Segir Sigmund í stjórnarandstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2016 | 16:48
Vegið að öllu samningsliði Íslands
Ýmsir aðilar, "upphlaupsfólk", þar á meðal fólk í stjórnarandstöðu og sumir fjölmiðlar, hófu í gær upphlaup nokkurt gegn forsætisráðherra og fjölskyldu hans, og þar með óbeint einnig öðrum hlutaðeigandi aðilum opinberum, er varðar uppgjörið við slitabú föllnu bankanna og þar með hina svokölluðu erlendu hrægammasjóði.
Í því sambandi er vert að benda á eftirfarandi atriði:
Halda mætti að upphlaupsfólkið haldi að forsætisráðherra hafi einn á bekk verið að semja við hina erlendu hrægammasjóði svokölluðu fyrir sína hönd og fjölskyldunnar persónulega.
Fjarri fer því!
Þar á bekk voru að sjálfsögðu fjölmargir aðrir opinberir aðilar, svo sem í ráðuneytum og Seðlabanka Íslands með seðlabankastjóra í broddi fylkingar, auk ýmissa tilkvaddra sérfræðinga innlendra og erlendra sem veittu ráðgjöf.
Þar sem fjöldinn allur af fólki var saman í því að semja við slitabúin er þar af leiðandi út í hött að halda því fram að einn maður, forsætisráðherra, hefði getað komið einhverjum persónulegum sérhagsmunum þar að.
Með því að ásaka forsætisráðherra um linkind gagnvart hrægammasjóðunum, kröfuhöfum bankanna, þá er upphlaupsfólkið í reynd að ásaka allan þennan hóp í samningsliði Íslands um hið sama! Í reynd er vegið að öllu samningsliði Íslands sem tók þátt í undirbúningi samningsdraga og -gagna og samningum við slitabúin. Ætli upphlaupsfólkinu hafi sést yfir þá staðreynd?
Það hlýtur að mega búast við því að eitthvað heyrist frá öllum þessum aðilum í samningsliði Íslands í tengslum við afnám hafta og uppgjörið við slitabúin, sjálfum sér og þar með forsætisráðherra til varnar og til að hreinsa sig og ráðherra af áburðinum.
Fyrir utan ofangreint atriði hafa ýmsir bent á fjölmörg atriði í hnotskurn um ágallana í málatilbúnaði upphlupsfólksins gegn forsætisráðherra og fjölskyldu hans, sem ég læt vera að tíunda hér, en sem sjá má á ljósvakamiðlum ýmsum.
Vissi ekki um kröfur félagsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)