Það hefði hvinið í Dönum

Ég sé fyrir mér vandlætingarsama vinnufélagana í Danmörku taka bakföll af hneykslan og heilagri reiði ef þeir samfara fréttum um hækkun verðvísitölu hefðu þurft að kyngja því að skuldir þeirra hefðu hækkað samsvarandi af þeim sökum. Skiptir þá engu máli þótt ársverðbólgan mælist "aðeins" 2,3%, hvað þá heldur upp í tveggja stafa tölu.

Hérlendis var fólk orðið all-dofið gagnvart þeim íslenska veruleika og áþján að neytendalán eru tengd neysluverðsvísitölu þegar verðbólgan tók stökk upp á við snemma árs 2008 og með vaxandi hraða við bankahrunið um haustið og gerði leiftursnögga árás - eins og þungvopnuð herþota í stungu sinni að árásarmarkinu - beint á skuldum hlaðið fólkið og fyrirtæki, almenning, varnarlauan á jörðu niðri. 

SKEMMST er frá því að segja að verðbólguþotan hitti gjörsamlega eins og ávallt með beinskeyttum og sértækum og skuldarasæknum verðbólguskotum sínum beint í verðtryggð mörk sín, verðtryggð lán, og tókst að tvístra fórnarlömbunum í allar áttir og skilja mörg heimili og fyrirtæki eftir í rústum. Afleiðingarnar koma æ betur í ljós eftir því sem árásarreykurinn stígur upp frá rústunum. Eldar loga þó enn og, það sem verra er, fara vaxandi en ekki minnkandi.

Því miður reynist skaðinn mun víðtækari en bjartsýnustu ríkisstjórnarmenn óraði fyrir, enda virðast röng greiningargleraugu hafa villt þeim sýn.
Ekki var gripið til ráðstafana sem blöstu við í síðasta lagi á fyrsta bankahrunsdeginum, þ.e. að frysta verðtryggingarvísitölur sökum forsendubrestsins.
Þess í stað voru þær látnar óáreittar og leyft að leika lausum hala í höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við gengishrun og stýrivaxtahækkanir og aðrar kostnaðarhækkanir og álögur innanlands.

Með þessu glórulausa aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og plástursaðgerðum hennar, sem aðeins lengja í hengingaról illa staddra skuldara, hefur eyðingarbál verðtryggingar lána rústað fjárhag tugþúsunda skuldara, heimila og fyrirtækja. Og áfram er haldið á þeirri feigðarbraut meðan siðapostular verðtryggingar hrópa af fjárhaugum sínum að siðlaust væri að afnema verðtryggingu lána þar sem þá myndi sparifé brenna upp á verðbólgubálinu. Engu er líkara en að þeim sé sama þótt verðtryggingin sé á hinn bóginn að ræna viðkomandi lántakendur með hliðstæðum hætti öllum eignum þeirra, og meira en það, þar sem þeir sitja þess utan uppi með himinháar skuldir reiknaðra verðbóta þegar eiginfé þeirra er upp urið með engar eignir á móti nema von um framtíðarvinnutekjur.

Ljóst ætti að vera að hér þarf að fara bil beggja þannig að sæmileg sátt náist um þessi mál í landinu. Báðir aðilar, bæði lánveitendur og lántakar, verða að bera sameiginlega áhættuna af verðþróun á lánstíma lána. Það verður enginn friður annars.
Undanfarnir áratugir allt frá tíma óverðtryggðra lána og langvarandi verðbólgu upp á tugi prósenta á ári samhliða verðtryggðum lánum og óverðtryggðum launum hafa opinberað hina tvo eyðandi öfga tengt verðbólgu: Bruna sparifjár sparifjáreigenda fyrir tíma verðtryggingar lána annars vegar og eignabruna skuldara eftir tilkomu verðtryggðra lána hins vegar.

Löngu tímabært er að þessu stríði lánveitenda og lántakenda linni með sátt og nauðsynlegri leiðréttingu nú þegar nægilega langt aftur í tímann. Núverandi ríkisstjórn gerir sér ekki grein fyrir þessum vanda, eða aðhefst a.m.k. ekki með viðhlýtandi hætti.
Samstaða með báðum aðilum þarf að koma til.
Yfirvofandi endurnýjuð hrunstjórn S-S (Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) er ekki líkleg til að leysa málið farsællega með ásættanlegri lausn fyrir báða aðila. Hvorugur þessara flokka gerði það í þeim ríkisstjórnum sem starfað hafa í kjölfar bankahrunsins.
Eða, er ástæða til að ætla að þeir muni hafa breytt um grundvallaráherslur í þessum málum næsta vor og taki þá sniðgenginn hluta kjósenda, skuldum þjakaðan almenning, einnig í hóp skjólstæðinga sinna?


mbl.is Dregur úr verðbólgu í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundalógík stjórnmálanna

Þessi frétt af hneykslan og fordæmingu ungra kjósenda í Bandaríkjunum á því hversu núverandi forseta hafi orðið lítið ágengt við að efna kosningaloforð sín frá því fyrir fjórum árum vekur upp spurningu um hvort þeir hafi virkilega ekki velt því fyrir sér hvers vegna svo sé, ef rétt er.

Hafa þeir ekki fylgst með tillögum og viðleitni forsetans til að koma á umbótum í t.d. heilbrigðiskerfinu og sporna við eyðileggjandi áhrifum og afleiðingum hinnar tiltölulega óheftu frjálshyggjustefnu sem hefur ríkt á fjármálasviði fyrir tilstilli andstæðinga forsetans, repúblikana og repúblikanaflokksins?
Ef unga fólkið myndi nú hugleiða málið fordómalaust og sjálfstætt þá ætti það að komast að því hvor forsetaframbjóðandinn er að vinna fyrst og fremst fyrir almenning. Þá ætti að renna upp ljós fyrir ungu kjósendunum hvað hefur staðið í veginum fyrir fullum árangri núverandi forseta við að efna kosningaloforð sín.

Þessi frétt bendir til þess að kjósendur eins og umrædd Colleen Weston sleppi því að ómaka sig á slíkum hugleiðingum og ætli sér því í staðinn og einfaldlega að kjósa þá aðila sem hafa í reynd komið í veg fyrir að forsetinn gæti staðið við kosningaloforðin. Halda mætti að svona "hugsuðir" telji að andstæðingar forsetans muni fremur en hann koma gömlu kosningaloforðum hans í framkvæmd! - Hvílíkur hugsanagangur! En, þetta er ekki sér-bandarískt fyrirbæri.

Þetta er hliðstætt rökleiðslu þeirra íslensku kjósenda sem hyggjast kjósa gömlu hrunflokkana sína aftur í næstu kosningum í von um það að þeir hafi breytt eðli sínu!
Þessir kjósendur virðast halda að með því að gera það sama komi önnur útkoma en áður! Var það ekki slíkur hugsunarháttur sem Albert Einstein kallaði vitfirringu eða brjálæði?


mbl.is Obama hefur misst fylgi ungs fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannfæring á fölskum forsendum

Faðir og móðir myrða táningsdóttur sína með köldu blóði á hryllilegan og hægvirkan hátt fyrir þær "sakir" að hafa "gjóað augunum á unglingspilt". Þetta gera þau að því er virðist vegna trúarsannfæringar sinnar sem þeim hefur verið innrætt í krafti trúarbragða og á vegum viðkomandi fræðara og trúarleiðtoga. Firringin kórónast síðan með því að guði er kennt um glæpinn, með því að halda því fram að  hann hafi viljað að þau dræpu barn sitt! - Hvílík rökleysa!

Þetta er ógeðfellt dæmi um það er trúarbrögð "verða ill", eins og trúarbragðafræðingurinn Charles Kimball prófessor fjallar um á skilmerkilegan hátt í bók sinni When Religion Becomes Evil: Five Warning Signs (HarperSanFrancisco 2002), m.a. um blinda hlýðni eins og hér um ræðir. Trúarleiðtogar bera  hér þunga ábyrgð vegna þess að það eru þeir sem réttlæta og viðhalda þeirri túlkun sem meðal annars er iðkuð á þennan harðneskjulega hátt.

Þessi blinda trúariðkun fyrirfinnst þó ekki aðeins í löndum eins og því sem sagt er frá hér í viðtengdri frétt.
Hún er líka til staðar í ýmsum sértrúarsöfnuðum á Vesturlöndum og ekki síður í hópum sem berjast fyrir einhverjum málefnum á veraldlegu sviði í krafti sannfæringar sem þeir hafa viðtekið og gert að sínum. Sem betur fer er þó ekki algengt að slík iðkun leiði til morða.
Nærtækt dæmi af því tagi er svokölluð "Teboðshreyfing" í Bandaríkjunum. Frá henni, baráttumálum hennar, starfsaðferðum og bakhjörlum var greint í athyglisverðum og sjokkerandi heimildarþætti, "The Billionaires' Tea Party", sem sýndur var í Sjónvarpinu/RÚV 31.10.2012. Þetta er kallað grasrótarhreyfing þar sem "venjulegt" fólk úr hópi almennings lætur sannfærast af pólitískum markmiðum undir merkjum frelsis sem í reynd eru andstæð velferð sama almennings en gagnast stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem fjármagna m.a. öflugar auglýsingaherferðir hreyfingarinnar. Dæmi um það er barátta hreyfingarinnar gegn viðleitni núverandi forseta landsins um umbætur til handa almenningi á sviði sjúkratrygginga.

Þetta eru allt dæmi um það er einstaklingar láta af hendi sjálfstæði sitt og/eða undirgangast kúgun og þöggun við skoðanamyndun um mikilvæg málefni og gera sannfæringu og/eða boð annarra að sinni sannfæringu.
Þetta gerist þó oft og  iðulega "í góðri trú" og vegna þeirrar grunnhyggni og leti eða tímaskorts að hafa ekki fyrir því að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi málefni til að taka síðan afstöðu á gagnrýnan hátt og á eigin forsendum og í samræmi við leiðsögn eigin samvisku. Í versta falli verður persónuleg sannfæring þá mótuð á fölskum forsendum.


mbl.is Segir morð á dóttur „vilja guðs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar órökstuddar yfirlýsingar duga

Það þarf vart að taka það fram og ítreka hversu mikilvægt það er að Lilja Mósesdóttir fái skýr og greið svör við spurningum sínum í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um skuldamál ríkisins frá Seðlabanka Íslands, þ.e. staðfestar tölulegar upplýsingar um umfang snjóhengjuvandans samkvæmt mati Seðlabankans og forsendur í því sambandi.

Málflutningur seðlabankastjórans í Silfri Egils í dag þarf skýringa við í ljósi umræðu um þessi mál undanfarið um upphæð snjóhengjunnar.
Engin undanbrögð um það mega viðgangast, útúrsúningar, hálfsannleikur né lopalegt tal. Ekki dugir að fela sig bak við tal um bankaleynd né upplýsingaleynd vegna þjóðaröryggis.
Hér er um að tefla hluti sem varða beinlínis þjóðaröryggi og sem ræðst af því hvernig nú er brugðist við. Seðlabankasóló á því ekki við hér eins og um "einkamál" Seðlabankans eða tæknilegt úrlausnarefni á hans vegum væri að ræða.
Þetta er hápólitískt mál þar sem efnahagsleg framtíð þjóðarinnar er í húfi.


mbl.is Vill að Már útskýri ummæli sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarviðhorf eru ekki algjört einkamál

Undiraldan í ríkjandi viðhorfum ísamfélaginu er summan af viðhorfum þegnanna.
Hvorki trúmálaviðhorf né aðrar skoðanir þegnanna eru því algjört einkamál þeirra. Allar skoðair og viðhorf eru mótandi afl í samfélaginu og hafa þar af leiðandi áhrif á uppbyggingu þess.

Þjóðkirkja er lýðræðisleg grasrótarhreyfing og virkt afl sem styrkir nærsamfélagið á uppbyggilegan hátt með jákvæðum gildum. Það á einnig við um mörg önnur lífsskoðunarfélög.


mbl.is Kosning fer rólega af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan virkt afl í nærsamfélaginu

Dr. Hjalti Hugason prófessor ritar gagnmerka grein í Fréttablaðinu þ. 18.10.2012, s. 27, undir yfirskriftinni „Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?“.
Meðal annars bendir Hjalti á að þótt sumir haldi því fram að trúmál séu algjört einkamál fólks þá sé það ekki svo.
Undir það tek ég og ætti að nægja að benda á að undiraldan í ríkjandi viðhorfum í samfélaginu er summan af viðhorfum þegnanna. Þess vegna er mikilvægt að árétta í grundvallarsáttmála þjóðarinnar, stjórnarskránni, að í íslensku samfélagi skuli byggt á gildum gagnkvæms mannkærleika og samfélagsábyrgðar eins og þeim sem lýðræðisleg grasrótarhreyfing eins og þjóðkirkja og hlíðstæð lífsskoðunarfélög starfa eftir, enda stuðli þau að bæði andlegri og almennri velferð þegnanna, friði og samfélagssátt, án kreddukenndra öfga. Eðli sínu samkvæmt styrkir virk þjóðkirkja nærsamfélagið og leggur á sinn hátt grunn að jákvæðri uppbyggingu þess og þar með samfélagsins alls. 
 
Í lokaorðum sínum bendir Hjalti á mikilvæg atriði sem hann telur veigamestu rökin fyrir ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni, en þau lúta að vernd þjóðarinnar. Hann segir:
 
“Vissulega er mögulegt að kveða á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga þar á meðal þjóðkirkjunnar í almennum lögum án þess að þeirra sé getið í stjórnarskrá. Þjóðkirkjuákvæði eða ígildi þess sem nær til allra trú- og lífsskoðunarfélaga er á hinn bóginn mikilvæg yfirlýsing um að slík lög skuli sett og þannig reiknað með trúarbrögðum í hinu opinbera rými en aðkomu þeirra að því settar skýrar leikreglur. Hlutverk slíks ákvæðis og löggjafar sem reist væri á því er því ekki einvörðungu að vernda trú- og lífsskoðunarfélög almennt og þjóðkirkjuna sérstaklega heldur einnig að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt.” (Mín leturbreyting).

Í ljósi ofangreindra atriða er rökrétt og að mínu mati æskilegt að halda ákvæði um þjóðkirkju inni í stjórnarskránni „enn um sinn a.m.k.“ eins og Hjalti ræðir um. Það kann ekki góðru lukku að stýra að veikja uppbyggjandi og jákvætt afl í nærsamfélaginu sem ásamt öðru virkjar almenning til góðra verka. Þvert á móti ætti að efla það og styrkja með viðeigandi hætti.
 
(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag 20.10.2012, s. 31).


mbl.is Kosning hafin - talningin tímafrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningshetjan mætt

Eva Joly á heiður skilið. Bók hennar "Hversdags hetjur", sem kom út hér fyrir jólin 2009 er afar athyglisverð. Hún gefur innsýn í ótrúlegt fjármálaplott einstaklinga og fyrirtækja t.d. í hergagnaiðnaði i Bretlandi, mútugreiðslur og hlutdeild hins opinbera í að ná sölusamningum í arabalöndum, undanskot fjármagns í skattaskjólum og fleira. Það er reyndar lýginni líkast og eins og í skáldsögu. Ætli nýja skáldsagan hennar Evu Joly geti tekið þessum raunlýsingum fram? Eva er sannkölluð almenningshetja fyrir baráttu sína gegn féflettum.
mbl.is „Viðskiptahættir hafa lítið breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óviðunandi hjartalag

Maður gæti haldið að einstaklingar sem fara með fjárveitingavald og sérstaklega ráðherrar þyrftu að veikjast þannig að þeir þyrftu sjálfir að lenda í lífshættulegri bið eftir að tækjabúnaður komist í lag svo að þeir skilji um hvað málið snýst: Líf og dauða eða varanlega heilsuskerðingu með tilheyrandi örvæntingu. 

Hvers lags hjartalag hefur fólkið sem hér um vélar að það láti annað sem ekki er svo aðkallandi og alvarlegt hafa forgang?

Það er algjörlega óviðunandi ástand að fresta þurfi aðgerðum, sem reynst geta snúast um líf og dauða fólks, vegna blekkingartals um fjárskort; Ekki síst þegar málið snýst um endurnýjun tækjabúnaðar og/eða varahluti í gamlan búnað sem kostar marg-margfalt minna en að gera t.d. göng í gegnum lága heiði við hliðina á góðum vegi. Hér er forgangsröðun dýrmætra fjármuna á villigötum.
Spurningin er hverjir eru svona vegvilltir og hjartalausir.


mbl.is Kalla inn færri í hjartaþræðingu út af biluðu tæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmuni hverra vilja stjórnmálaflokkar verja?

Það ber að aðskilja starfsemi venjulegra viðskiptabanka og fjárfestingabanka, er niðurstaða forstjóra Straums fjárfestingabanka.

Í ljósi bankahrunsins hérlendis og afleiðinga þess ætti nauðsyn á slíkum aðskilnaði að vera augljós. Þar var þessum mismunandi tegundum starfsemi blandað saman í að því er virðist einn "pott" og fé innleggjenda í sumum tilvikum notað í vægast sagt áhættusamar fjárfestingar. Bankarnir urðu jú  gjaldþrota.

Venjulegum viðskiptabönkum eins og hér tíðkast ætti ekki að leyfast að stunda áhættusama fjárfestingastarfsemi sem jafnvel getur snúist upp í áhættusækna fjárglæfrastarfsemi þar sem nánast "spilað" er með sparifé innleggjenda, jafnvel undir formerkjum ríkisábyrgðar. Þeir sparifjáreigendur sem hins vegar vilja taka slíka áhættu með fé sitt myndu þá gera það í sérhæfðum fjárfestingabönkum eða ástunda slík ávöxtunarviðskipti sjálfir.

Sú grundvallarspurning blasir því við Alþingismönnum hverra hagsmuni  þeir vilja verja:
a) Innleggjenda smárra og stórra, eða
b) fjárvörsluaðilanna, bankanna, þeirra sem ráðstafa sparifénu til ávöxtunar- eða fjárfestingaverkefna, eða
c) hagsmuni beggja aðila.

Það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa tekið undir hugmyndir um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka (sé rétt haft eftir í fréttinni) vekur því upp spurninguna um hvort hann vilji fremur gæta hagsmuna fjárvörsluaðilanna heldur en hagsmuna innleggjenda.

Vilji stjórnmálamenn verja hagsmuni  beggja aðila, eða sérstaklega innleggjenda, hlýtur aðskilnaður á starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka að vera svarið.


mbl.is „Á ekki heima saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS mælir fyrir eignaupptöku á Íslandi fyrir braskara

Þessar hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt og rakalausri hækkun stýrivaxta eins og kom fram í viðtölum fulltrúa sjóðsins í sjónvarpsfréttum í gær bera allar að sama brunni:
Að koma sem mestu af upphæð svonefndrar "snjóhengju" yfir í erlendan gjaldeyri til að tilgreindir eigendur innstæðnanna sem hér um ræðir (vel yfir 1000 milljarðar kr) geti flutt þær úr landi í erlendri mynt. Eftir sæti íslenskt efnahagslíf á heljarþröm og íslenskur almenningur í skulda- og skattaklöfum til frambúðar. Þarna er ekki verið að hugsa um velferð íslensku þjóðarinnar heldur hagsmuni viðkomandi innstæðueigenda sem eru samkvæmt þessu ómótmælanlega undir styrkum verndarvæng AGS, eðli málsins samkvæmt.

Lilja Mósesdóttir, í Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar, hefur ítrekað bent á úrræði sem duga til lausnar á þessum yfirvofandi snjóhengjuvanda.
Sú lausn felst í því að "verðfella" þessar inneignir á sanngjarnan hátt með því að taka upp nýja íslenska mynt, Nýkrónu, þar sem þessar innistæður fengjust ekki yfirfærðar í hina nýju mynt (og í framhaldi af því e.t.v. í gjaldeyri) nema á ca. 90% lægra gengi en aðrar innstæður og fjármunir. Upptaka á Nýkrónu yrði nauðsynleg ef ekki reynist löglegt að setja tilsvarandi háan "útgönguskatt" á snjóhengju-innstæðurnar þannig að aðeins lítill og bærilegur hluti hennar færi úr landi í erlendri mynt. Tilgangurinn er að verja hagsmuni almennings á Íslandi og komast hjá hörmungum.

Þessi bráðnauðsynlega niðurskrift á snjóhengjuinnistæðunum ber að skoða í ljósi þess að þeir aðilar sem eiga hana munu hafa fengið þessa fjármuni fyrir "slikk" eða um 4% af nafnverði í kjölfarið á hruni bankanna! Þeir ætla sér hins vegar að græða margfalt (25-falt) á braski sínu á kostnað almennings á Íslandi og hafa hingað til notið dyggilegrar aðstoðar AGS og talsmanna sjóðsins erlendis og hérlendis við það. Þetta má þeim aldrei takast.
Þeir íslensku stjórnmálamenn sem vísvitandii eða af óvitahætti ætla sér að styðja þessa stefnu AGS og framfylgja henni í reynd eru ekki sannir fulltrúar íslensku þjóðarinnar. Þeir myndu þá opinbera sig sem hagsmunagæslumenn annarra nú í aðdraganda næstu kosninga.

Alþingismenn hafa ráð landsins í hendi sér. Þeir skulu hugleiða það vandlega og aldrei gleyma að þjóðin kýs þá hverju sinni til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í heild.


mbl.is AGS styður útgáfu skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband