Við orustulok

Guðni Ágústsson, hinn dyggi framsóknarmaður, lætur mörg sannleikskornin falla í nokkrum athugasemdum í grein sinni í Morgunblaðinu í dag (s. 25) í tilefni þess að erlendir aðilar segja nú Ísland hafa sparað sér um 335 milljarða ISK við að vinna dómsmálið um Icesave-deiluna. Þar fá óvæntir aðilar hrós og væntir minna hrós.

Það var góð von á því að Guðni skyldi minnast á þetta þar sem það munar um minni upphæð en þessa. Harla vel reyndist því að fylgja ráðum réttsýnna og þjóðhollra baráttumanna landsins í Icesave-deilunni sem sáu hvar hagsmunir Íslands lágu og liggja, þótt heillum horfnir ríkisstjórnarflokkarnir sem slíkir ásamt forystuliði þeirra virðast ekki hafa gert það lengi vel meðan bardaginn stóð við erlent vald sem þeir töldu ofurefli.
Berja sumir málsvarar þeirra jafnvel enn höfði við þann úrtölustein sér til réttlætingar og svo mikið hafa þeir rifið klæði sín af vandlætingu sinni út í mótþróalýðinn og forsetann allan tímann að þeir standa nú næsta klæðalitlir í kosningamonsúninum sem er að skella á.
Það verður þó að segjast, þeim til mikilla málsbóta og hugrekki þeirra til hróss, að í síðustu orustunni, undirbúningi landsins fyrir réttarhöldin fyrir EFTA-dómstólnum, stóðu þeir ekki í vegi fyrir vörn Íslands heldur tóku upp gifturíkt samstarf við baráttufólkið og -félögin gegn Icesave-samningunum og góð og höggþétt rök þeirra. Góðu heilli!

Í fremstu víglínu í stríðinu fyrir land og þjóð var baráttuviljugt ungt fólk í nýrri framvarðarsveit Framsóknarflokksins og grasrótarfélög á vegum hans og fleiri sjálfstæðishugsandi aðila í reynd, stutt af forseta Íslands og þegar kvatt var til lokaorustu um síðustu samningslögin um Icesave 60% þjóðarinnar. Þeim sé öllum virðuleg þökk. 

En, saman förum við, íslenska þjóðin 100%, sterkari á vit léttbærari framtíðar. Það er gott.


mbl.is 336 milljarðar eru miklir peningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn Tími til?

Jú, það er sko kominn tími til?

Að fá umsagnir um sannleikann frá fleiri sjónarhornum er hið besta mál, enda getur verið hið versta mál að finna út hver sannleikurinn er á hinu pólitíska sviði.

Þá er e.t.v. hægt að vænta fleiri gullkorna frá Guðna Ágústssyni framsóknarmanni á prenti.

Í því sambandi má benda á að Guðni lætur mörg sannleikskornin falla í nokkrum athugasemdum í grein sinni í Morgunblaðinu í dag (s. 25) í tilefni þess að erlendir aðilar segja nú Ísland hafa sparað sér um 335 milljarða ISK við að vinna dómsmálið um Icesave-deiluna. Sjálfsagt verður að vanda deilt um þau korn.


mbl.is Tíminn endurvakinn á netinu og kemur á pappír aðra hverja viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef svæði 101 væri rafmagnslaust?

Hver yrðu viðbrögð ráðamanna ef rafmagnslaust yrði eða slitrótt rafmagns- og símasamband væri í gamla miðbænum í Reykjavík og uppeftir Hverfisgötu þar sem megnið af stjórnarráðinu, þar með talið Alþingi, og lögreglustöðin eru? Og stutt í svæði miðstöðvar  almannavarna! Og í marga daga!

Þeir skyldu hugleiða það eins og þeir hafa getu til.

Fólk sem heldur landinu í byggð utan Reykjavíkur er jafn mikið fyrsta flokks eins og Reykvíkingar, ekki minna!

Landsbyggðarfólk, sem eru Íslendingar eins og Reykvíkingar og með sama stjórnarskrárvarða rétt eins og þeir,  eiga ekki skilið það öryggisleysi og óþægindi sem umrædd óáran í viðhangandi frétt felur í sér. 


mbl.is Bregðast verður við strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða fáni? Hvaða skel? Hvaða bjáni? Hvað ég vel?

Fáni blaktir við hún.
Tákn um eignarhald og aðild.
Yfirlýsing.
Enda aðalsmerki allra fána.
En, hvað sé ég? 

Fallegur er fáninn?
Fer hann þjóðum vel?
Bölvaður er bjáninn
sem búa vill í skel?

Spurningar kalla á svör, ekki satt?
Hvers konar fáni fer þjóðum vel?
Hvers konar skel er bjánaleg og hver ekki?
Hvað vel ég?
En, hvað er um að velja?
Skiptir það kannske ekki máli?
Bara tilfinningar?
Hvað ræður á endanum? 
Og hver? 


mbl.is 48,5% vilja ljúka viðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða með hinu góða gegn hinu illa

Kolbrún Bergþórsdóttir ritar góðan og síþarfan pistil í Morgunblaðið í dag, 20.12.2012 s. 24, sem ber yfirskriftina "Trúin og blóm við dómkirkju". Þar bendir hún m.a. á nauðsyn þess að standa með hinu góða og hafna því illa, sérstaklega þegar áföll dynja yfir, svo sem hryðjuverk af manna völdum eins og í Noregi í fyrra og í Bandaríkjunum nýverið. Fólk bregðist við á mismunandi hátt og hafi mismunandi aðferðir við það. Sumir sæki í trú sína og finni þar huggun í trúarskoðunum sínum. Annað vel innrætt fólk sýni einfaldlega jákvæð viðbrögð og samhygð af því að það er því eðlilegt. Það hafi jákvæða afstöðu til lífsins og trúi "á góð öfl í tilverunni og vilji standa með þeim"; Þrátt fyrir úrtöluraddir samtaka sem sé "í nöp við kristna trú og kirkju", en þau eigi ekki upp á pallborðið hjá fólki sem sé einfaldlega gott og leggi t.d. blóm við kirkju til að sýna samhug með þolendum voðaverka í verki og gegn illskunni.
- Þetta eru spekiorð sem Kolbrún fer hér með.

Menn geta endalaust deilt um trú og trúarbrögð og sannleika í því sambandi, enda fer sú umræða oft fram á röngum forsendum.
Hitt er annað að heiðarlega iðkuð trúarbrögð sem er einnig heiðarlega stjórnað eru eitt sterkasta og áhrifaríkasta "tækið" eða aðferðin til að móta siðferðislega, jákvæða og uppbyggilega afstöðu einstaklinga gagnvart hver öðrum í mannlegu samfélagi til að viðhalda sátt og friði. Á þetta hafa félagsfræðingar eins og Emile Durkheim (1858-1917) bent. Landslög um siðferðisleg málefni þurfa þó vissulega einnig að vera til staðar, þeim til leiðsagnar, eftirbreytni og ögunar sem siðblindir eru. Um það ritaði t.d. Lúter (1483-1546) á sínum tíma, en það ætti að vera augljóst öllum mönnum í dag.

Sem betur fer gerir þorri fólks sér grein fyrir muninum á góðu og illu og tekur afstöðu með hinu góða og gegn hinu illa eða illskuverkum. Það virðist því dálítið öfugsnúin afstaða hjá afmörkuðum trúarandstæðum hópum eða öðrum sem segjast hafa uppbyggilega og jákvæða siðmenningu að leiðarljósi að berjast gegn stórum hópum trúaðra í stað þess einfaldlega að leggjast á árarnar með þeim sem liðsmenn hins góða í altækri baráttunni gegn hinu illa; Hver eftir sinni leið að sama marki.


Samstaða er rökrétt framhald

Í ljósi forsögunnar á pólitískum vettvangi hlýtur rökrétt framhald hjá Bjarna vera Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar.

Bjarni er búinn að reyna Framsóknarflokkinn og Vinstri græna og e.t.v. eitthvað fleira. Varla er Samfylkingin með ESB-stefnu sína kostur fyrir Bjarna, né meintir taglhnýtingar þess flokks undir nýjum nöfnum og enn síður Sjálfstæðisflokkurinn og Hægri grænir; Eða hvað?.
Þess vegna ætti  Samstaða með lausnamiðaða stefnu sína með þjóðarhagsmuni og almenningshagsmuni að leiðarljósi, bæði fyrirtækja, heimila og einstaklinga, að vera fýsilegur og góður kostur. Þar er ekki talað um vinstri eða hægri, heldur viðeigandi lausnir með heildarhagsmuni fyrir augum og raunverulegt frelsi einstaklingsins til orða, athafna og mannsæmandi lífskjara.


mbl.is Bjarni farinn úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarleg innræting og alræðisvald

Frétt um óhugnanlegt morð á 14 ára unglingsstúlku, þar sem gerendur eru sagðir tveir bónleiðir karlmenn er biðluðu hennar við föður hennar, vekur upp spurningar um hvernig svona lagað getur átt sér stað. Við sem Vesturlandabúar, sem hérlendis byggjum á siðrænum lúterskum menningararfi, hneykslumst stórum og fórnum höndum í spurn yfir illskunni eða aðstæðunum sem þarna búa að baki.

Það virðist vera einhvers konar hömluleysi í samfélaginu þarna sem leiðir til þess að menn skirrast ekki við að myrða samborgara sína, jafnvel barnunga unglinga, með þessum hryllilega hætti og af svona tilefni eins og lýst er í viðtengdri frétt. 

Í þessu umrædda landi virðist þó íhaldssamt karlaveldið halda samfélaginu föstum tökum í krafti trúarlegrar túlkunar og hefða og sérstaklega konur eiga þar verulega undir högg að sækja, eðli málsins samkvæmt, einnig unglingsstúlkur eins og í þessu tilviki.

Sjálfsagt spilar menningarinnræting að stofni til lykilhlutverk almennt séð, en spurning er hvort þetta atvik snúist um hefndarmorð af trúarlegum toga eða hreina siðblindu. Hins vegar fara gerendurnir hér þvert gegn Gullnu reglunni sem þó er einn af hornsteinum íslam eins og kristni.
Beinast böndin þá ekki jafnframt að óprúttnum trúaleiðtogum sem innræta öfgafullar og jafnvel rangar túlkanir sínar með trúarsetningum sínum meðal þegna samfélagsins? Trúarsetningum sem eiga sér ekki stoð í helgiritum sem sögð eru liggja til grundvallar viðkomandi trúarbrögðum.

Hitt er annað að þar sem alræðisvald er annars vegar og raunverulegt lýðræði víðs fjarri eru almenn mannréttindi fótum troðin og mótmælum og mótmælendum rutt úr vegi. Birtingarmyndir alræðis eru margvíslegar en margar eru blóði drifnar; Engin furða t.d. að Picasso hafði ádeilumálverk sitt Guernica í svart-hvítu.

mbl.is 14 ára stúlka afhöfðuð í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingismenn bregðast við í orði - En á borði?

Svo er að sjá að alþingismenn, a.m.k. nokkrir hjartagóðir og vel hugsandi, bregðist hér í orði kveðnu við hjartnæmum og sláandi lýsingum af kjörum og úthaldi hjúkrunarfræðinga á íslenskum sjúkrahúsum sem myndir hafa verið dregnar upp af í fréttum.

Vonandi ná góð viðbrögð alþingismanna líka inn á jólaborð langþreyttra hjúkrunarfræðinga.


mbl.is Laun hjúkrunarfræðinga rædd á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða úrlausn fengju þeir?

Það fólk sem hefur sjálft þurft á að halda þjónustu og líknandi þjónustu starfsfólks á sjúkrahúsum landsins, og þeir sem heimsótt hafa sjúklinga þar, gerir sér grein fyrir hinu mikilvæga og fórnfúsa starfi starfsfólksins þar, ekki síst hjúkrunarfræðinga.
Þeim er rétt lifandi lýst í orðum Hörpu Þallar Gísladóttur í meðfylgjandi fréttapistli.

Verst er að ráðamenn og aðrir sem véla um kaup og kjör hjúkrunarfræðinga virðast ekki gera sér grein fyrir þessu og/eða hafa "syndgað upp á náð" starfsfólksins til þessa í þeirri von að það starfi þrátt fyrir það áfram á hugsjónarlegum forsendum að hálfu eða miklu leyti.
Svo virðist sem alþingismenn og ráðherra heilbrigðis- og velferðarmála þurfi að leggjast veikir inn á sjúkrahús í a.m.k. nokkra daga til að horfast í augu við raunveruleikann og gera sér grein fyrir málinu.

Hvað myndi gerast ef ráðherra sjúkrahússmála fengi sjúkur og ósjálfbjarga þau svör í sjúkrarúmi sínu með vökvaflösku tengda við handlegg sinn, í ys og þys á göngum spítalans, að hann þyrfti að bíða í daga eða vikur eftir æskilegri og réttri meðferð, eða verða fluttur veikur til útlanda, vegna þess að viðeigandi tæki eru biluð eða ekki til eða starfsfólk ekki til staðar til að framkvæma tiltekna aðgerð o.s.frv.?
Eða, ef loka þyrfti deildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum?

Hvað ef ráðherra sjúkrahússmála þyrfti að fara erlendis til læknismeðferðar vegna manneklu á LSH? Að ekki sé minnst á aðra sjúklinga! Hvaða úrlausn fengju þeir?


mbl.is „Ekki hægt að útskýra allt með kreppu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísir í Undralandi

Nú hafa stýrivextir enn einu sinni verið hækkaðir af Seðlabanka Íslands á óviðeigandi forsendum til þess m.a. að "sporna við verðbólgu og vegna minnkandi slaka í efnahagslífinu", eins og það í grófum dráttum er útskýrt af óslökum Seðlabankastjóra!
Hin liðaða Peningastefnunefnd skipuð að því sagt er vísu fólki, Hin vísa nefnd, virðist hrærast í einhverjum allt öðrum veruleika en þeim sem efnahagslíf Íslands býr við; Einhverju Undralandi þar sem allt aðrar forsendur og kenningar eiga við heldur en í íslenskum raunveruleika nú.
Hinum vísu í þessu Undralandi virðist fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni. Vaxtahækkunin er einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar, sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum o.s.frv.
Þannig hefur virkni þessara þátta verið hjá Íslendingum sem búa við neysluvöruverðstengda verðtryggingu
Þetta er hringavitlaus vítahringur sem samt er endurtekinn sí og æ með sömu hringlandi óviðeigandi rökunum.
Með þessu framferði sínu gera Hin vísu í Undralandi þungbæra skuldabyrði enn þyngri, enda kunna öll skuldug heimili og fyrirtæki landsins þeim litlar þakkir fyrir og er þá vægt til orða tekið.
Samtímis auka hins vegar vaxtahækkanir tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda. Þeir fagna væntanlega vaxtahækkunum dagsins kampakátir í kampavíni og tilheyrandi, þannig að til einhvers er barist af Hinum vísu.
Þessar öfugsnúnu hækkanir á stýrivöxtum nú þegar almennur slaki er enn viðvarandi í efnahagslífinu gefa því miður vísbendingar um að hin vísa Peningastefnunefnd og/eða stjórn Seðlabankans með seðlabankastjóra í broddi félegrar fylkingar hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar bankahrunsins 2008. 
Þessir aðilar skella þvert á móti skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur á Íslandi. Að minnsta kosti fara þeir hvorki eftir heilbrigðu innsæi né grundvallar- hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu (kostnaðardrifinni eins og hér um ræðir en síður eftirspurnardrifinni), eins og t.d. hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (sbr. frétt á mbl.is 12.7.2011). 
Það ætti að vera augljóst hverjum skynsömum manni, jafnvel fávísum, að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, gerir erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og leggur fleiri að velli. Ef það er stefna Peningastefnunefndar er þessi vaxtahækkun náttúrulega skiljanleg, en hún er ekki í þágu almennings sem nú mótmælir réttilega hástöfum.


mbl.is Stýrivextir hækka um 0,25 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband