Undarlegt andríki

Félagsskapur nokkur kallar sig Andríki og segist á vefsíðu sinni „kynna frjálslyndar stjórnmálahugmyndir“. Andríki þetta hefur auglýst í heilsíðuauglýsingum dagblaða undanfarið undir yfirskriftinni „Almenn „skuldaleiðrétting“ er óréttlát“ (sbr. Fréttablaðið 22.4.2013, s. 5).
Þar er illilega ruglað þar saman tveimur aðskildum málaflokkum á ótrúlega rangsnúinn og villandi hátt.

Þar er ruglað saman annars vegar leiðréttingu á stökkbreyttum verðtryggðum lánum einstaklinga og hins vegar almennri tekjudreifingu í samfélaginu gegnum skattkerfi ríkisins.

„Rök“ Andríkis gegn leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána virðast þau að óréttlátt sé að þeir sem hafi greitt af háum lánum fengju hærri upphæð endurgreidda en þeir sem greitt hafa af lægri lánum, væntanlega miðað við sömu forsendur um vísitölubreytingu vegna verðtryggingarinnar. Segir í auglýsingunni að „Auðmenn fengju í flestum tilvikum meiri „leiðréttingu“ en öreigar“.

Hið rétta er að leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra lána, sem kallað er „skuldaleiðrétting“ í auglýsingunum, snýst um að skila til greiðenda lánanna ofreiknuðum verðbótum og vöxtum vegna forsendubrests við hrunið 2008 sem næmi tiltekinni prósentutölu af verðbótunum á tilteknu tímabili (sbr. stefnumál t.d.  Framsóknarflokksins). Að sjálfsögðu yrði upphæð ofreiknaðra verðbóta samkvæmt því háð upphæð lánsins sem um ræðir í hverju tilviki. Upphæð ofgreiddra verðbóta í krónum talið af tiltekinni lánsupphæð yrði þannig hærri en af lægri lánsupphæð, eðli málsins samkvæmt.

Þetta er eins og háttar með leiðréttingu gengistryggðra lána, t.d. bílalána hjá Íslandsbanka. Þar er að miklu leyti búið að endurgreiða lántakendum bílalána ofreiknaðan gengismun í samræmi við upphæð og aðrar forsendur í hverju tilviki. Sá sem hafði greitt af slíku láni að tiltekinni upphæð fékk eðlilega meira endurgreitt en sá sem hafði greitt af lægra láni miðað við sömu forsendur. Þar fékk hver eins og honum bar. Sá sem fékk endurgreiðslu vegna láns upp á eina milljón króna hafði ekki ástæðu til að sjá ofsjónum yfir endurgreiðslu til þess sem hafði verið með lán upp á fimm milljónir króna, af eðlilegum og augljósum ástæðum.
Þetta hefði hins vegar væntanlega fallið undir skilgreiningu Andríkis á „óréttlæti“ í þessum efnum samkvæmt ofangreindum auglýsingum þess. – Undarlegt andríki það!

Varðandi hugmyndir og stefnumál nokkurra stjórnmálaflokka nú um leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána vegna hrunsins 2008 er um það að ræða að skila greiðendum ofreiknaðra verðbóta og vaxta því sem hver og einn um sig hefur ofgreitt, hliðstætt og á við um endurgreiðslur vegna ólöglegra gengistryggðra lána. Það er réttlætismál og út af fyrir sig.

Af allt öðrum toga er það pólitíska vandamál varðandi tekjujöfnun ríkisins milli einstaklinga og heimila gegnum skattkerfið í tengslum við það sem Andríki kallar í auglýsingu sinni „vanda þeirra sem verst standa“. Það er annar málaflokkur en leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra lána.
Vissulega þarf að taka á þeim vanda, en eðli málsins samkvæmt verður að gera það í gegnum hið almenna skatta- og tekjujöfnunarkerfi ríkisins.
Það væri hins vegar óréttlæti að skerða með beinum hætti endurgreiðslur ofreiknaðra verðbóta til greiðenda viðkomandi lána með einhverjum hætti. Hvaða „frjálslyndi“ felst í því?

Leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra lána er réttlát vegna þess að með henni er verið að skila til viðkomandi skuldara því sem oftekið hefur verið af þeim vegna forsendubrests í vísitölu verðryggingar.
Hins vegar er óréttlátt ef ekki er tekið á „vanda þeirra sem verst standa“, hvort sem um er að ræða „par í leiguhúsnæði“ eða „öreiga“, eins og Andríki skilgreinir hópana. Þeim þarf að hjálpa með viðeigandi hætti með ráðstöfunum í skatta- og tekjujöfnunarkerfi ríkisins.
Þar væri möguleiki á því að skattleggja á viðeigandi hátt t.d. hópa sem Andríki kallar „auðmenn“ og „fólk með háar tekjur og miklar eignir“ og „fólk sem skuldar ekki húsnæðislán“ og færa með viðeigandi hætti til hinna hópanna sem eru í vanda, í samræmi við vilja hins pólitíska meirihluta hverju sinni.


Fyrir heimilin og gegn verðtryggingarríkisstjórn

„Andstæðingar okkar, bæði til hægri og vinstri, virðast ekki sjá aðra leið en að ráðast á Framsókn og það er ekki gert á málefnalegum grundvelli. Flestir aðrir flokkar hafa síðustu vikur viðurkennt að aðferðir Framsóknar eru raunhæfar. En þrátt fyrir það hafa þeir ekki þor til að taka á verkefnunum. Rökþrota um málefnin ráðast þeir því á okkur á persónulegan hátt. Þann hátt sem ég vildi að væri horfinn úr íslenskum stjórnmálum. Framsóknarmenn munu ekki taka þátt í þannig kosningabaráttu. Við munum standa fyrir málefnalegri kosningabaráttu og berjast fyrir því að okkar baráttumál, afnám verðtryggingar og leiðrétting stökkbreyttra lána, nái fram að ganga. Eina leiðin til að tryggja að þessi mál nái fram að ganga er að Framsókn fái nægilega mikinn og góðan stuðning til að samningsstaða flokksins sé sem sterkust þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn“,
sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins meðal annars  í ræðu
sinni á fjölmennum fundi Framsóknarflokksins á Grand Hótel s.l. laugardag. Þar benti hann m.a. á það að kosningabaráttan hafi harðnað og mikið hafi verið sótt að Framsókn sem hefur mælst stærsti flokkur landsins upp á síðkastið. 

Í þessu sambandi taldi Sigmundur jafnframt að ef Framsóknarflokkurinn fengi ekki nægilegan þingstyrk væri augljós hætta á því hér myndi skapast „verðtryggingarríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks“ eftir kosningar, „ríkisstjórn sem mun standa vörð um verðtrygginguna og lítur sem svo á að íslensk heimili eigi ekki inni leiðréttingu eftir hrunið“.

Ávarp Sigmundar á kosningafundi Framsóknarflokksins á Grand Hótel s.l. laugardag, 20. apríl 2013: http://www.framsokn.is/videos/raeda-sigmundar-davids-a-grand-hotel-20-april/

 

 


mbl.is Sigmundur: Vinstristjórnaráróður sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gegn verðtryggingarríkisstjórn

„Miðað við málflutning annarra flokka er nú komin upp augljós hætta á því að hér muni skapast verðtryggingarríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
  Ríkisstjórn sem mun standa vörð um verðtrygginguna og
lítur sem svo á að íslensk heimili eigi ekki inni leiðréttingu eftir hrunið.
  Ríkisstjórn sem er tilbúin að beygja sig undir kröfur erlendra kröfuhafa en
er ekki tilbúin að standa með íslenskum heimilum.

Ég trúi því ekki að Íslendingar vilji þannig ríkisstjórn, ég trúi því að Íslendingar vilji ríkisstjórn sem þorir.“
sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson m.a. í ræðu sinni á fjölmennum fundi Framsóknar á Grand Hótel í gær.

Ávarp Sigmundar á kosningafundi Framsóknarflokksins á Grand Hótel 20. apríl 2013: http://www.framsokn.is/videos/raeda-sigmundar-davids-a-grand-hotel-20-april/


Rökfastur stuðningur við stefnu Framsóknarflokksins

Robert Wessman hefur ásamt hópi fólks úr atvinnulífinu og fræðimanna stofnað vefsíðu um svokallaðan snjóhengjuvanda Íslands tengt afléttingu gjaldeyrishaftanna hérlendis. Í frétt mbl.is um málið segir m.a.:

"Róbert segir að vegna gjaldeyrishaftanna geti íslenska ríkið þrýst á um hagstæða samninga með því að beita fyrir sig löggjafarvaldinu. Forystumenn þjóðarinnar þurfi í þessari stöðu að „sýna framsýni, djörfung og þor“, með hagsmuni Íslendinga í huga bæði í nútíð og framtíð."

Þeir sem fylgst hafa með kosningabaráttunni undanfarið ættu að sjá að hér er sterkur samhljómur með stefnu Framsóknarflokksins varðandi úrlausn á vanda heimilanna er tengist leiðréttingu stökkbreytingar á verðtryggðum lánum frá hrunárinu 2008. Þ.e. að nýta niðurskrift á nægilega stórum hluta þessarar snjóhengju (kröfum erlendra vogunarsjóða) til að koma til móts við heimili og skuldara sem sitja uppi með stökkbreytt verðtryggð lán.

Með staðfestu sinni gagnvart erlendum fjármálaöfl hefur Framsóknarflokkurinn sýnt að hann hefur "framsýni, djörfung og þor" til að takast á við þetta mikla verkefni. Þjóðarhagsmunir Íslands eru í veði.


mbl.is Róbert Wessman stofnar snjohengjan.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framganga RÚV skilar sér

Niðurstöður þessarar skoðanakönnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins virðast endurspegla árangurinn af framferði starfsmanna RÚV í "viðræðum" þeirra við formenn stjórnmálaflokkanna undanfarið.

Þannig réðust spyrlar RÚV af mikilli árásargirni á Sigmund Davíð formann Framsóknarflokksins og hömuðust allan þáttinn við að reyna að gera hann og stefnu Framsóknarflokksins til hjálpar heimilunum tortryggilega. Þrátt fyrir fráleita ókurteisi, ítrekuð framígrip og stagl endurspurninga og afhjúpun á stórkostlegri vanþekkingu sinni um efnið tókst hrellispyrlunum þó ekki að slá Sigmund Davíð út af laginu sem varðist árásum spyrlanna af mikilli rósemi og þekkingu og sannfæringu. Áhorfendur gátu þó haldið að þátturinn gengi út á að gera lítið úr stefnumálum Framsóknarflokksins og þar með miklum hagsmunamálum heimila landsins.

Hins vegar brá svo við að viðtal við klökkan formann Sjálfstæðisflokksins kvöldið eftir reyndist verða eins og móðurleg áfallahjálp kvenspyrils fyrir formanninn sem þá átti undir högg að sækja eftir hatrömm átök innan flokksins um hvort hann ætti að segja af sér formennsku þar. Vingjarnleg og nánast afsakandi staglaðist spyrillinn á spurningum um viðhorf formannsins til embættisins innan flokksins, um hvort hann ætlaði ekki að segja af sér, en aðeins örfáum mínútum í restina var varið til að ræða um stefnumál Sjálfstæðisflokksins sem átti þó að vera umræðuefni þáttarins.

Svo virðist sem annars vegar andstyggileg og forkastanleg framkoma þáttastjórnenda RÚV gagnvart Framsókanrflokknum og hins vegar tilfinningaleg samúð með formanni Sjálfstæðisflokksins gæti hafa skilað sér að einhverju leyti í umræddri skoðanakönnun Sjálfstæðisflokknum í hag. Það gæti þó reynst skammgóður vermir þegar kjósendur (skuldsett heimilin) átta sig betur á stefnumálum Sjálfstæðisflokksins og fyrir hvaða hagsmunahóp hann virðist fyrst og fremst vera að starfa samkvæmt stefnuskrá sinni.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn kemur til móts við heimilin meðan öðrum er ómótt

Ringlaður frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, talsmaður óbreytts verðtryggingarkerfis, spyr hvort við höfum efni á því að láta Framsóknarflokkinn vera í forystu í þessu landi á næsta kjörtímabili.
Svarið er í stuttu máli JÁ, vegna þess að skuldug heimili þessa lands hafa ekki efni á að greiða lengur þær uppblásnu verðbætur sem frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins talar fyrir.

Staðan er þessi í dag: Fjölskyldufólk í stórum hluta heimila landsins stendur upp í háls frammi fyrir erfiðleikum m.a. vegna stökkbreyttra verðtryggðra lána og kikna ef ekki er brugðist hressilega við eins fljótt og verða má.
Framsóknarflokkurinn hefur með styrk sínum sett sem forgangsmál á stefnuskrá sína að koma til móts við heimilin í þessum vandræðum og ætlar að taka á þessum svo um munar.
Sjáfstæðisflokkurinn fer undan í flæmingi varðandi slíka leiðréttingu og bendir í staðinn á kengbognar leiðir sem líta má á ekki síst sem óbeinan ríkisstyrk til lánveitenda. Frambjóðandi þeirra Vilhjálmur fjárfestir berst einna harðast fyrir óbreyttri verðtryggingu lána og hefur ekki verið leiðréttur með þá stefnu af Sjálfstæðisflokknum sem býður hann fram sem fulltrúa sinn og er honum því í reynd sammála. Hann er dyggur talsmaður lánveitenda sem vilja óbreytt kerfi verðtryggingar áfram sér til hagsbóta - og skuldurum til óbóta, þar á meðal mörgum heimilum landsins.

Fyrir umrædd heimili í vanda vegna forsendubrests varðandi verðtryggð lán ætti valið að vera auðvelt að sjá hvor kosturinn býður raunhæfari stefnu og úrlausnir fyrir þau hér og nú og þar með efnahagslífið í landinu.

 


mbl.is „Syndir framsóknarmanna eru stórar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefndarmaður leiðréttir þingmann

Í viðtengdri frétt kemur fram staðfesting á mislestri og oftúlkun þingmanns VG um hvað sagði í bréfi þverpólitískrar nefndar um afnám gjaldeyrishafta. Á það benti ég í pistli fyrr í dag: "Furðulegur mislestur og oftúlkun".

Einn nefndarmanna, Bolli Héðinsson fulltrúi Samfylkingar, staðfestir hér að að stefna Framsóknarflokksins hafi ekki verið til umræðu innan nefndarinnar í þessu sambandi, gagnstætt því sem þingmaður VG hélt fram við mbl.is. Enda hefði það verið í hæsta máta furðulegt.

Vonandi sest moldrykið sem þyrlað var upp í tengslum við bréf nefndarinnar í augljósri tilraun til að kasta rýrð á stefnu Framsóknarflokksins fyrir heimilin í landinu.


mbl.is Ræddu aldrei stefnu Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur mislestur og oftúlkun

Það er erfitt að sjá réttsýna glóru í þeirri röksemdafærslu sem hér kemur fram hjá háttvirtum þingmanni, þ.e. hvernig hann reynir að tengja umrætt bréf frá "þverpólitískri nefnd um afnám gjaldeyrishafta" til fjármálaráðherra við hugmyndir Framsóknarflokksins um lausnir til að koma til móts við heimili í grafalvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna stökkbreyttra verðtryggðra lána frá hruninu 2008.

Orðrétt segir í bréfi nefndarinnar:

„Lausnir á afmörkuðum vanda innan hafta getur seinkað afnámi þeirra í heild og jafnvel ógnað fjármála- og gengisstöðugleika. Nefndin telur rétt að koma þessau sjónarmiði á framfæri á þessum tímapunkti þar sem að fréttaflutningur hefur verið af áhuga fjárfesta, m.a. lífeyrissjóða, á kaupum á hlutum í Arion banka eða Íslandsbanka. Slíkar vangaveltur eru þó með öllu ótímabærar enda getur svo eigamikil breyting innan fjármagnshafta ekki átt sér stað nema fyrir ligi með hvaða hætti þau verða afnumin í heild.“

Hér, né annars staðar í bréfinu, er hvergi minnst á hugmyndir Framsóknarflokksins né annarra um hvernig glíma eigi við kröfuhafa þrotabúa bankanna /vogunarsjóði í samningum við þá um lausn þessara mála sem felur í sér ásættanlega lausn fyrir Ísland. Það er eitthvað sem þingmaðurinn hefur oflesið í bréfinu eða oftúlkað.

Greindir og hugmyndaríkir talsmenn vogunarsjóðanna gera sér hins vegar áreiðanlega grein fyrir því að Íslendingar vilji losna sem fyrst við "snjóhengjuna" og með sem hagfelldustum hætti fyrir Íslands hönd, þannig að umræða í kosningabaráttunni um þessi mál eru því ekki neinar fréttir eða afhjúpanir fyrir þá.

Hugmyndir Framsóknarflokksins samkvæmt stefnuskrá hans um raunhæfar lausnir fyrir skuldsett heimilin í landinu eru ekki skaðlegar heimilunum nema síður sé. Svona afbakanir eins og koma fram í yfirskrift viðhangandi fréttar og orðum þingmannsins eru hins vegar skaðlegar vitrænni umræðu og til þess eins fallnar að róta upp moldviðri.

 


mbl.is Segir loforð Framsóknar skaðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn með styrka von

Framsóknarflokkurinn hefur með hnitmiðaðri stefnuskrá sinni og áformaðar leiðir til úrlausnar á þeim gefið fólki og heimilum í landinu nýja von. Eftir því sem fleiri ljá Framsóknarflokknum atkvæði sitt í komandi kosningum, af þeim mun meiri krafti og hraða getur hann gengið í þessi verk að kosningum loknum. Þetta er upplagt mál!
 Sbr. eftirfarandi pistil: http://www.krisjons.blog.is/blog/krisjons/entry/1292397/

mbl.is Framsókn eykur forskotið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn veitir styrka von

Með raunhæf og réttvísandi stefnumál sín um úrlausnir fyrir heimilin í landinu og sívaxandi styrk sinn til grundvallar hefur Framsóknarflokkurinn megnað að gefa heimilunum, fjölskyldunum, fólkinu í landinu nýja von um raunhæfar úrlausnir. Fleiri og fleiri eru að koma auga á það með degi hverjum sem betur fer.

Þrátt fyrir ótrúlegar úrtöluraddir, rangfærslur og afbakanir keppinauta hefur Framsóknarflokkurinn og sérstaklega formaður hans staðið fast við rök sín um raunhæfar leiðir til að koma til móts við skuldug heimili sem sitja uppi með stökkbreytt verðtryggð lán frá hruninu 2008.

Einnig er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að afnema verðtryggingu á neytendalánum, en meðan verið er að útfæra leiðir til þess sem eru lagalega færar verður sett þak á hana þannig að ábyrgð og áhætta af verðþróun verði ekki alfarið á öxlum lántakenda eins og verið hefur hingað til.

Nokkrir nýir flokkar hafa tekið upp sömu eða hliðstæð markmið og Framsóknarflokkurinn er með á sinni stefnuskrá, en tryggasta leiðin til að ná þessum markmiðum fyrir heimilin er að fylkja sér að baki stærsta og sterkasta aflinu með þessi baráttumál og kjósa Framsóknarflokkinn, eins og svo mörg hafa þegar gert. Hann kemst ekki hjá því að standa við þessi loforð eins og afl hans leyfir.
Þar að auki er hann þess afar vel meðvitaður að heimilin eru grunneining samfélagsins og á þeim byggir hann styrk sinn og fyrir þau vill hann vinna og það er það sem hann ætlar sér.

Gömul slagorð Framsóknarflokksins hafa gengið í endurnýjun lífdaga: Bú er bústólpi og bústólpi er landstólpi.


mbl.is Framsókn með 30,2% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband