Hvernig vindum við ofan þessu?

Jón Steinsson hagfræðilektor í Bandaríkjunum skrifar grein í Morgunblaðið í dag sem ber yfirskriftina "Hvað á að gera fyrir skuldsett heimili?", á s. 19. Hann vill ekki afskrifa verðbótakúfinn á lánum vegna hrunsins, heldur "vúdú"-hagfræðina sem hann telur að liggi að baki málflutningi þeirra sem það leggja til. 
Fer hann stuttlega yfir ýmis ráð sem komið hafa fram í umræðunni undanfarið til að leysa úr greiðsluvandamálum heimilanna á Íslandi. Ekki er hann hrifinn af þeim ráðum sem lúta að niðurskrift höfuðstóls lána og virðist hann sem sé flokka þau ráð sem dæmi um "vúdú-hagfræði". 
Hann fjallar einnig um hvernig hann telur best að bregðast við, en gerir það í almennum orðum og ýmsum fullyrðingum án þess að rekja rök í smærri atriðum, enda greinin stutt. Minnir hún jafnvel á pólitískan pistil þess vegna, þar sem viðraðar eru ákveðnar skoðanir.

Jón bendir m.a. á að með t.d. bakfærslu verðtryggingar, þ.e. með "afturvirku afnámi verðtryggingar" eins og hann kallar það, væri verið að framkvæma tekjutilfærslu frá þeim sem lítið skulda til þeirra sem skulda mikið. Það finnst Jóni óréttlátt, enda lái ég honum það ekki út af fyrir sig. Hann er ekki hlynntur ráðum sem hafa þetta í för með sér og leggur til önnur og strammari ráð.

Jón minnist hins vegar ekki á forsöguna fyrir þessu ástandi og hvað er búið að gerast varðandi eignatilfærslur hingað til. Eftir að verðbólgan fór á flug snemma árs 2008 og sérstaklega við verðbólgustökkið við bankahrunið s.l. haust áttu gífurlegar eignatilfærslur sér stað frá lántakendum til lánveitenda, reyndar á pappírnum og í tölum í tölvum  Það var hvorki réttlátt né sanngjarnt og án þess að lántakendur gætu hönd við reist. Það var forsendubrestur á lánakjörum. Það er þessi eignatilfærsla og tilsvarandi lánahækkun sem veldur heimilum og lántakendum almennt erfiðleikum nú.
Það er þetta óréttlæti sem þessi ráð, sem Jón S. virðist kalla "vúdú"-hagfræði, eru hugsuð til að leiðrétta. Með afturvirku afnámi verðtryggingar væru lánveitendur að skila ofteknu bókfærðu fé vegna áfallinna verðtrygginga sökum hrunsins aftur til baka til lántakenda, en þetta verðbótafé fengu lánveitendur fært sér til eignar "ókeypis" í formi hækkana á höfuðstóli lána án þess að þeir væru að veita viðkomandi lántakendum meiri lán í formi peninga né annarra raunverulegra eigna.

Lánveitendur eru ekki endilega sömu persónur og hópurinn sem Jón flokkar sem "þeir sem skulda lítið" og sem hann vill af sanngirni verja og bara gott um það að segja, en hann virðist ekki gera greinarmun þar á. Það er mikilvægt að halda þessum hópum aðgreindum þegar rætt er um réttlæti í þessu sambandi. Ofangreind bakfærsla snertir fyrst og fremst lánveitendur (og lántakendur) með beinum hætti, en aðra með óbeinum hætti.

Hitt er rétt sem kemur óbeint fram í greininni að allir íbúar Íslands borga brúsa fjárglæframannanna að baki bankahruninu óbeint í formi hækkandi verðlags, lækkandi launa og hærri skatta og vaxandi atvinnuleysi, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er andleg vanlíðan fólks af þessari óáran ótalin.


mbl.is Þetta er bara allt farið í steik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband