17.3.2010 | 14:48
Haldlaus hávaxtarök
Ein meginskýringin sem virðuleg peningastefnunefnd Seðlabankans gefur fyrir ákvörðun sinni um sýndarlækkun stýrivaxta nú er óvissan um aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, auk styrkingar krónunnar undanfarið.
Meginástæðan fyrir ákvörðuninni að mati nefndarinnar skín þó í gegn, sem er sú að ekki er búið að samþykkja Icesave-kröfur Breta og Hollendinga vegna "tafa á lausn deilunnar". Þarna er viðhafður sami söngurinn og af hálfu fjármála- og forsætisráðherra undanfarið ár.
Þarna er raulaður sami textinn og almennar hagfræðiformúlur kveða á um sem gilda einvörðungu að gefnum ákveðnum forsendum og undir tilteknum kringumstæðum.
Þær forsendur eru ekki til staðar í efnahagslífi Íslands nú. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og þar að auki er gengið á íslensku krónunni ekki ákvarðað með gegnsæum hætti á "fullkomnum" markaði framboðs og eftirspurnar.
Margir hafa á það bent, einnig sá er hér ritar í fyrri pistlum, (einnig t.d. hér og hér) að rökin fyrir háum vöxtum til að halda erlendu fjármagni í landinu eiga ekki við undir gjaldeyrishöftum, eðli málsins samkvæmt.
Háir vextir gagnast fyrst og fremst innistæðueigendum, innlendum sem erlendum, og bönkunum sjálfum. Þeir sem borga fyrir eru allir skuldarar landsins, heimili og fyrirtæki. Einmitt núna þurfa þeir síst á því að halda að borga okurvexti. Nær væri að þeir sem eru aflögufærir, innistæðueigendur, legðu þar meira fram í stað þess að sópa til sín enn meiru en fyrir bankahrunið í formi vaxta og verðbóta.
Það er því með öllu ótækt að háum vöxtum skuli vera viðhaldið undir þessum kringumstæðum.
Það er athyglivert að Samtök atvinnulífsins og jafnvel ASÍ skuli ekki hafa látið meira til sín taka í málinu og hrópað hærra en reyndin sýnir. Aðeins hafa heyrst hjáróma raddir forystumanna þeirra samtaka og nánast helst á vaxtaákvörðunardögum þegar Seðlabankinn hefur tilkynnt um óbreytta háa stýrivexti eða aðeins örlitla lækkun. Síðan líður og bíður og lítið gerist í þessum málum.
Eru þessir aðilar málsvarar fyrirtækja og launafólks almennt eða innistæðueigenda, lífeyrissjóða og banka fyrst og fremst?
Ofangreindu óviðeigandi rök peningastefnunefndarinnar fyrir tregðu í vaxtalækkun hafa verið notuð fyrir háum stýrivöxtum af hálfu stjórnvalda í meira en ár, en Íslendingar eru þó enn lifandi þótt búsettum hérlendis hafi fækkað nokkuð. Hræðsluáróður um köld kol og viðskiptabann útlendinga á Ísland hefur ekki reynst á rökum reistur.
Eftirlifandi fyrirtækjum og flestum heimilum hérlendis blæðir stöðugt vegna alltof hárra vaxta. Það er röng fullyrðing talsmanna hávaxtastefnunnar að vextir þurfi að vera svona háir núna. Hækkun þeirra úr 12% í 18% fyrir rúmu ári síðan var vitfirring þar sem hlaupið var til í paník sökum ógnandi raka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og þeirra sem tóku undir þau rök. Þetta var þvert á hagsmuni íslensks efnahagslífs. Í staðinn átti að halda áfram að lækka vextina svo um munaði til að styðja þar með við grundvöll efnahagslífsins hérlendis, fyrirtækin og heimilin, framleiðslukerfið, launafólk og neytendur. Ef eitthvað óhlutdrægt vit er í mati erlendra matsfyrirtækja á stöðu efnahags og efnahagshorfum á Íslandi hefði það væntanlega hækkað vegna þess er frá leið í stað þess að lækka eins og reyndin varð á.
Í viðtali við svokallaða Skuggabankastjórn í Fréttablaðinu 16.3.2010, s. 12, kemur fram samdóma álit meðlima hennar að vextir eru og hafa verið allt of háir hérlendis. Í þeim hópi eiga nú sæti Ásta Dís Óladóttir forseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar og Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Arionbanka, allt fagfólk á sínu sviði geri ég ráð fyrir. Ásgeir fullyrðir þar að stýrivextina hefði átt að lækka í stað þess að hækka þá í 18% á sínum tíma 2008, sem gert var í samræmi við tilmæli AGS. Þórður Kauphallarstjóri er nokkuð hógværari í yfirlýsingum sínum, en telur þó að vextir verði að vera komnir í 6-7% fyrir mitt ár 2010. Ásta Dís viðskiptadeilarforseti talar í kennisetningum, sjáandi þó að vextir séu of háir, og ber við óvissu um að ekki sé hægt að gera það sem gera þarf.
Ég tel að ein helsta ástæðan fyrir þeirri óvissu sem hér ræður ríkjum og ummæli Skuggabankastjórnarinnar vitna um er einfaldlega þessi misvísandi hávaxtastefna Seðlabankans og sá heilaþvottur sem talsmenn hans og þeirrar stefnu hafa ástundað því til stuðnings.
Enginn nógu málsmetandi aðili hefur þorað að andmæla þessari röngu stefnu af hræðslu við hótanir kennisetninga, AGS og "alþjóðasamfélagsins". Það er eins og menn haldi að erlent lánsfé og erlendar fjárfestingar sæki til Íslands einvörðungu ef vextir eru nógu háir og margfalt hærri en í viðskiptalöndum okkar. Það er blekking í stöðunni í dag, þótt það eigi við almennt séð í kennisetningum og viðeigandi forsendum í fræðaheimi.
Erlendir innleggjendur og innistæðueigendur hafa brennt sig nóg á Íslensku fjárvörslukerfi við bankahrunið og fýsir lítt að geyma fé sitt hér þrátt fyrir háa vexti.
Hins vegar eru erlendir fjárfestar þeim mun líklegri til að fjárfesta í fyrirliggjandi og nýjum fyrirtækjum hérlendis ef rekstrargrundvöllur þeirra er ekki fyrirfram óásetjanlegur með okurvöxtum eins og nú er.
Lágir vextir eru því ein af forsendum fyrir því að stuðla að erlendum fjárfestingum hérlendis, en ekki háir vextir.
Við Íslendingar (a.m.k. margir) viljum fá hingað inn í landið erlendar fjárfestingar í föstum fjármunum sem skapa atvinnu og verðmæti og skattatekjur en ekki bara erlendar innistæður á banka sem sveifla gengi krónunnar fram og til baka eftir geðþótta hinna erlendu innleggjenda.
Öflugt framleiðslu- og efnahagskerfi er forsendan fyrir batnandi hag landsmanna.
Á meðan Seðlabankinn lemur fræðahausum starfsmanna sinna við sama hávaxtasteininn hamast ríkisstjórnin við að deila við Breta og Hollendinga um ósanngjarnan og óréttmætan málatilbúnað þeirra í stað þess að einbeita sér fyrst og fremst að viðreisn efnahagskerfisins innanlands á fyrirliggjandi forsendum. Einnig skortir mikið á að leitað sé nýrra leiða til úrlausnar á vandanum og nýrra viðskiptasambanda fyrir Ísland til lengri tíma litið.
Heimili og fyrirtæki, forráðamenn fyrirtækja og fólkið í landinu geta ekki horft upp á þetta ráðaleysi lengur. Það er ávísun á sömu deyfðina og framtaksleysið sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf og niðurdrepandi orðræðu hérlendis undanfarið ár.
Hér þarf kjark og dug til að lækka vextina niður á svipað stig og er í viðskiptalöndunum umsvifalaust. Það er helsta ráðið til að koma digrum innistæðum í bönkunum í vinnu og ávöxtunar í arðsömum rekstri fyrirtækja og lífvænlegrar atvinnusköpunar. Þar með fengju a.m.k. innlendir fjármagnseigendur vissu fyrir því að framkvæmdir og rekstur væru fýsilegri til ávöxtunar fjárins en að geyma það hreyfingalaust á, sem þá yrði, "lágum" vöxtum í bönkum.
Lækka vegna gengishækkunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:14 | Facebook
Athugasemdir
Kærar þakkir, þetta er skýrt og greinargott. Hverja telurðu vera skýringuna á vaxtastefnu Seðlabankans? Trúir hann eigin skýringum?
Birnuson, 18.3.2010 kl. 09:40
Það er erfitt að segja hvað raunverulega veldur hávaxtastefnu Seðlabankans.
Það blasir að vísu við hvaða rök þeir tilgreina fyrir tregðu sinni til vaxtalækkunar, þ.e. verðbólgustig og verðbólguvæntingar og ekki síst hótanir "alþjóðasamfélagsins" í garð Íslandsum um útilokun frá aðgengi að erlendu fjármagni vegna þess að ekki er búið að "ganga frá" Icesave-málinu. (Þar skín í gegn að þau ummæli megi túlka sem samþykki á málatilbúnaði Breta og Hollendinga með því að veita ríkisábyrgð á reikningi þeirra þótt hann hafi verið gerður af þeim einhliða og síðan sendur til rukkunar hjá hræddri íslenskri ríkisstjórn sem nánast umsvifalaust skrifaði undir).
Ég ætla hámenntuðum sérfræðingum og stjórnendum Seðlabankans ekki þá heimsku að gera sér ekki grein fyrir haldleysi hinna almennu fræðilegu raka sem þeir tíunda fyrir því að halda vöxtunum háum á Íslandi núna, þ.e. í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja í efnahagslífi Íslands, gjaldeyrishafta og ófullkominnar aðferðar við gengisákvörðun krónunnar og hruns innlendrar eftirspurnar í kjölfar kaupmáttarhruns og neikvæðra væntinga almennings í þeim efnum í skugga skulda- og vaxtaklafa. Verðbólgu-þrýstingur vegna eftirspurnar almennings er því ekki til staðar, nema síður sé, og verðbólguvæntingar og þar með ótti um verðbólgu geta því ekki talist rétt forsenda fyrir tregðu til vaxtalækkunar af þeim sökum. Þar hlýtur annað að koma til.
Ég tel að óvissan sjálf um hvenær hið háa vaxtastig hérlendis lækki sé ein af meginástæðunum fyrir því hversu "verðbólguvæntingar" eru á reiki og hvers vegna þær hafi ekki hjaðnað hraðar.
Ég tel að vaxtaákvörðun, og núna hugrökk ákvörðun um lækkun vaxta, muni fremur móta verðbólguvæntingar hérlendis heldur en öfugt. Þarna tel ég að Seðlabankamönnum skjátlist er þeir þvert á móti virðast halda því fram að vaxtaákvarðanir beri að taka út frá mati á undangenginni verðbólgu og verðbólguvæntingum. Þá aðferðafræði kalla ég "hundalógík", sbr. pistil minn um það.
Það ætti að vera nokkuð augljóst að ef vextir hefðu verið lækkaðir í gær t.d. í 6% hefði þar með verið komin fullvissa aðila í efnahagslífinu um það að vextir væru orðnir miklu lægri og fyrirtækin og fjárfestingarkostir þar með ásetjanlegri. Þessir aðilar efnahagslífsins þyrftu þá ekki lengur að spá í og velkjast í vafa um hvort og hvenær eða hversu hratt vextir myndu lækka á næstunni. Þeim vafa væri þar með eytt og fjármagnseigendur gætu farið að hugsa sér til hreyfings með fé sitt og koma því til ávöxtunar í atvinnulífinu og til langþráðrar uppbyggingar á íslensku efnahagslífi á ný. Jafnframt og samhliða því myndi traust erlendra fjárfesta á íslensku efnahagskerfi og -lífi aukast og þar með líkur á erlendum fjárfestingum í fastafjármunum hérlendis.
Það, hvers vegna Seðlabankinn er enn svona tregur til vaxtalækkunar, verður í ljósi ofangreinds ekki skýrt með fræðilegum rökum, nema þá og því aðeins að menn þar séu gjörsamlega einangraðir í hugarheimi sínum þar sem múrað væri fyrir alla glugga og sýn út til raunveruleikans með fræðilegum kennisetningum úr hefðbundnum skólalærdómi hagfræða. Eins og ég nefndi ofar, þá vil ég ekki ætla öllum Seðlabankamönnum þá blindu.
Hér hlýtur annað að koma til, til dæmis hræðsla við "alþjóðasamfélagið" og hefðir þess. Þar kann einhverju að ráða skólun Seðlabankastjórans, Más Guðmundssonar, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og þekking hans á innviðum þar og vinnuaðferðum landanna sem þar ráða gagnvart þeim löndum sem sjóðurinn er sagður aðstoða hverju sinni.
Hins vegar finnst mér skína í raunverulegar og réttmætar efasemdir Seðlabankastjóra í ummælum hans á fréttamannafundinum í gær þar sem hann er farinn að viðra möguleikann á mótun á nýrri efnahagsáætlun fyrir Ísland sem felur í sér annað en núverandi áætlun IMF með íslenskum stjórnvöldum í ljósi þess að Icesave-málið "leysist" ekki í bráð (sbr. Fréttablaðið 18.3.2010, s. 8). Þetta finnst mér sýna að hræðsla við ógnanir "alþjóðasamfélagsins" ráði meiru um efnahagsstefnu stjórnvalda hérlendis, þar undir hávaxtastefnu Seðlabankans, heldur en almenn skynsemi studd fræðilegri þekkingu þar á bæ. Það er hins vegar spurning hvers vegna Seðlabankinn tali þá ekki hreint út um þá hluti; e.t.v. myndi það vera túlkað út á við sem uppsögn Íslands á aðstoð IMF.
Þeim mun meiri ástæða fyrir ríkisstjórnina að hefja umsvifalaust leit að nýjum viðskiptasamböndum til lengri tíma utan evrópska "alþjóðasamfélagsins" og sýna raunverulega og eftirtektarverða viðleitni til þess á alþjóðlegum vettvangi; Bjóða þjóðum og viðskiptasamböndum til samstarfs við eflingu á íslensku efnahagslífi sem væri báðum aðilum til hagsbóta og á forsendum Íslands. Þar kemur t.d. Kína sterklega inn í myndina, eins og ég hef rætt í öðrum pistli um stefnumarkandi valkosti Íslands í utanríkisverslun.
Kristinn Snævar Jónsson, 18.3.2010 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.