Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Alþingismenn bregðast við í orði - En á borði?

Svo er að sjá að alþingismenn, a.m.k. nokkrir hjartagóðir og vel hugsandi, bregðist hér í orði kveðnu við hjartnæmum og sláandi lýsingum af kjörum og úthaldi hjúkrunarfræðinga á íslenskum sjúkrahúsum sem myndir hafa verið dregnar upp af í fréttum.

Vonandi ná góð viðbrögð alþingismanna líka inn á jólaborð langþreyttra hjúkrunarfræðinga.


mbl.is Laun hjúkrunarfræðinga rædd á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða úrlausn fengju þeir?

Það fólk sem hefur sjálft þurft á að halda þjónustu og líknandi þjónustu starfsfólks á sjúkrahúsum landsins, og þeir sem heimsótt hafa sjúklinga þar, gerir sér grein fyrir hinu mikilvæga og fórnfúsa starfi starfsfólksins þar, ekki síst hjúkrunarfræðinga.
Þeim er rétt lifandi lýst í orðum Hörpu Þallar Gísladóttur í meðfylgjandi fréttapistli.

Verst er að ráðamenn og aðrir sem véla um kaup og kjör hjúkrunarfræðinga virðast ekki gera sér grein fyrir þessu og/eða hafa "syndgað upp á náð" starfsfólksins til þessa í þeirri von að það starfi þrátt fyrir það áfram á hugsjónarlegum forsendum að hálfu eða miklu leyti.
Svo virðist sem alþingismenn og ráðherra heilbrigðis- og velferðarmála þurfi að leggjast veikir inn á sjúkrahús í a.m.k. nokkra daga til að horfast í augu við raunveruleikann og gera sér grein fyrir málinu.

Hvað myndi gerast ef ráðherra sjúkrahússmála fengi sjúkur og ósjálfbjarga þau svör í sjúkrarúmi sínu með vökvaflösku tengda við handlegg sinn, í ys og þys á göngum spítalans, að hann þyrfti að bíða í daga eða vikur eftir æskilegri og réttri meðferð, eða verða fluttur veikur til útlanda, vegna þess að viðeigandi tæki eru biluð eða ekki til eða starfsfólk ekki til staðar til að framkvæma tiltekna aðgerð o.s.frv.?
Eða, ef loka þyrfti deildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum?

Hvað ef ráðherra sjúkrahússmála þyrfti að fara erlendis til læknismeðferðar vegna manneklu á LSH? Að ekki sé minnst á aðra sjúklinga! Hvaða úrlausn fengju þeir?


mbl.is „Ekki hægt að útskýra allt með kreppu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísir í Undralandi

Nú hafa stýrivextir enn einu sinni verið hækkaðir af Seðlabanka Íslands á óviðeigandi forsendum til þess m.a. að "sporna við verðbólgu og vegna minnkandi slaka í efnahagslífinu", eins og það í grófum dráttum er útskýrt af óslökum Seðlabankastjóra!
Hin liðaða Peningastefnunefnd skipuð að því sagt er vísu fólki, Hin vísa nefnd, virðist hrærast í einhverjum allt öðrum veruleika en þeim sem efnahagslíf Íslands býr við; Einhverju Undralandi þar sem allt aðrar forsendur og kenningar eiga við heldur en í íslenskum raunveruleika nú.
Hinum vísu í þessu Undralandi virðist fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni. Vaxtahækkunin er einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar, sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum o.s.frv.
Þannig hefur virkni þessara þátta verið hjá Íslendingum sem búa við neysluvöruverðstengda verðtryggingu
Þetta er hringavitlaus vítahringur sem samt er endurtekinn sí og æ með sömu hringlandi óviðeigandi rökunum.
Með þessu framferði sínu gera Hin vísu í Undralandi þungbæra skuldabyrði enn þyngri, enda kunna öll skuldug heimili og fyrirtæki landsins þeim litlar þakkir fyrir og er þá vægt til orða tekið.
Samtímis auka hins vegar vaxtahækkanir tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda. Þeir fagna væntanlega vaxtahækkunum dagsins kampakátir í kampavíni og tilheyrandi, þannig að til einhvers er barist af Hinum vísu.
Þessar öfugsnúnu hækkanir á stýrivöxtum nú þegar almennur slaki er enn viðvarandi í efnahagslífinu gefa því miður vísbendingar um að hin vísa Peningastefnunefnd og/eða stjórn Seðlabankans með seðlabankastjóra í broddi félegrar fylkingar hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar bankahrunsins 2008. 
Þessir aðilar skella þvert á móti skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur á Íslandi. Að minnsta kosti fara þeir hvorki eftir heilbrigðu innsæi né grundvallar- hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu (kostnaðardrifinni eins og hér um ræðir en síður eftirspurnardrifinni), eins og t.d. hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (sbr. frétt á mbl.is 12.7.2011). 
Það ætti að vera augljóst hverjum skynsömum manni, jafnvel fávísum, að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, gerir erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og leggur fleiri að velli. Ef það er stefna Peningastefnunefndar er þessi vaxtahækkun náttúrulega skiljanleg, en hún er ekki í þágu almennings sem nú mótmælir réttilega hástöfum.


mbl.is Stýrivextir hækka um 0,25 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundalógík stjórnmálanna

Þessi frétt af hneykslan og fordæmingu ungra kjósenda í Bandaríkjunum á því hversu núverandi forseta hafi orðið lítið ágengt við að efna kosningaloforð sín frá því fyrir fjórum árum vekur upp spurningu um hvort þeir hafi virkilega ekki velt því fyrir sér hvers vegna svo sé, ef rétt er.

Hafa þeir ekki fylgst með tillögum og viðleitni forsetans til að koma á umbótum í t.d. heilbrigðiskerfinu og sporna við eyðileggjandi áhrifum og afleiðingum hinnar tiltölulega óheftu frjálshyggjustefnu sem hefur ríkt á fjármálasviði fyrir tilstilli andstæðinga forsetans, repúblikana og repúblikanaflokksins?
Ef unga fólkið myndi nú hugleiða málið fordómalaust og sjálfstætt þá ætti það að komast að því hvor forsetaframbjóðandinn er að vinna fyrst og fremst fyrir almenning. Þá ætti að renna upp ljós fyrir ungu kjósendunum hvað hefur staðið í veginum fyrir fullum árangri núverandi forseta við að efna kosningaloforð sín.

Þessi frétt bendir til þess að kjósendur eins og umrædd Colleen Weston sleppi því að ómaka sig á slíkum hugleiðingum og ætli sér því í staðinn og einfaldlega að kjósa þá aðila sem hafa í reynd komið í veg fyrir að forsetinn gæti staðið við kosningaloforðin. Halda mætti að svona "hugsuðir" telji að andstæðingar forsetans muni fremur en hann koma gömlu kosningaloforðum hans í framkvæmd! - Hvílíkur hugsanagangur! En, þetta er ekki sér-bandarískt fyrirbæri.

Þetta er hliðstætt rökleiðslu þeirra íslensku kjósenda sem hyggjast kjósa gömlu hrunflokkana sína aftur í næstu kosningum í von um það að þeir hafi breytt eðli sínu!
Þessir kjósendur virðast halda að með því að gera það sama komi önnur útkoma en áður! Var það ekki slíkur hugsunarháttur sem Albert Einstein kallaði vitfirringu eða brjálæði?


mbl.is Obama hefur misst fylgi ungs fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar órökstuddar yfirlýsingar duga

Það þarf vart að taka það fram og ítreka hversu mikilvægt það er að Lilja Mósesdóttir fái skýr og greið svör við spurningum sínum í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um skuldamál ríkisins frá Seðlabanka Íslands, þ.e. staðfestar tölulegar upplýsingar um umfang snjóhengjuvandans samkvæmt mati Seðlabankans og forsendur í því sambandi.

Málflutningur seðlabankastjórans í Silfri Egils í dag þarf skýringa við í ljósi umræðu um þessi mál undanfarið um upphæð snjóhengjunnar.
Engin undanbrögð um það mega viðgangast, útúrsúningar, hálfsannleikur né lopalegt tal. Ekki dugir að fela sig bak við tal um bankaleynd né upplýsingaleynd vegna þjóðaröryggis.
Hér er um að tefla hluti sem varða beinlínis þjóðaröryggi og sem ræðst af því hvernig nú er brugðist við. Seðlabankasóló á því ekki við hér eins og um "einkamál" Seðlabankans eða tæknilegt úrlausnarefni á hans vegum væri að ræða.
Þetta er hápólitískt mál þar sem efnahagsleg framtíð þjóðarinnar er í húfi.


mbl.is Vill að Már útskýri ummæli sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan virkt afl í nærsamfélaginu

Dr. Hjalti Hugason prófessor ritar gagnmerka grein í Fréttablaðinu þ. 18.10.2012, s. 27, undir yfirskriftinni „Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?“.
Meðal annars bendir Hjalti á að þótt sumir haldi því fram að trúmál séu algjört einkamál fólks þá sé það ekki svo.
Undir það tek ég og ætti að nægja að benda á að undiraldan í ríkjandi viðhorfum í samfélaginu er summan af viðhorfum þegnanna. Þess vegna er mikilvægt að árétta í grundvallarsáttmála þjóðarinnar, stjórnarskránni, að í íslensku samfélagi skuli byggt á gildum gagnkvæms mannkærleika og samfélagsábyrgðar eins og þeim sem lýðræðisleg grasrótarhreyfing eins og þjóðkirkja og hlíðstæð lífsskoðunarfélög starfa eftir, enda stuðli þau að bæði andlegri og almennri velferð þegnanna, friði og samfélagssátt, án kreddukenndra öfga. Eðli sínu samkvæmt styrkir virk þjóðkirkja nærsamfélagið og leggur á sinn hátt grunn að jákvæðri uppbyggingu þess og þar með samfélagsins alls. 
 
Í lokaorðum sínum bendir Hjalti á mikilvæg atriði sem hann telur veigamestu rökin fyrir ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni, en þau lúta að vernd þjóðarinnar. Hann segir:
 
“Vissulega er mögulegt að kveða á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga þar á meðal þjóðkirkjunnar í almennum lögum án þess að þeirra sé getið í stjórnarskrá. Þjóðkirkjuákvæði eða ígildi þess sem nær til allra trú- og lífsskoðunarfélaga er á hinn bóginn mikilvæg yfirlýsing um að slík lög skuli sett og þannig reiknað með trúarbrögðum í hinu opinbera rými en aðkomu þeirra að því settar skýrar leikreglur. Hlutverk slíks ákvæðis og löggjafar sem reist væri á því er því ekki einvörðungu að vernda trú- og lífsskoðunarfélög almennt og þjóðkirkjuna sérstaklega heldur einnig að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt.” (Mín leturbreyting).

Í ljósi ofangreindra atriða er rökrétt og að mínu mati æskilegt að halda ákvæði um þjóðkirkju inni í stjórnarskránni „enn um sinn a.m.k.“ eins og Hjalti ræðir um. Það kann ekki góðru lukku að stýra að veikja uppbyggjandi og jákvætt afl í nærsamfélaginu sem ásamt öðru virkjar almenning til góðra verka. Þvert á móti ætti að efla það og styrkja með viðeigandi hætti.
 
(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag 20.10.2012, s. 31).


mbl.is Kosning hafin - talningin tímafrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningshetjan mætt

Eva Joly á heiður skilið. Bók hennar "Hversdags hetjur", sem kom út hér fyrir jólin 2009 er afar athyglisverð. Hún gefur innsýn í ótrúlegt fjármálaplott einstaklinga og fyrirtækja t.d. í hergagnaiðnaði i Bretlandi, mútugreiðslur og hlutdeild hins opinbera í að ná sölusamningum í arabalöndum, undanskot fjármagns í skattaskjólum og fleira. Það er reyndar lýginni líkast og eins og í skáldsögu. Ætli nýja skáldsagan hennar Evu Joly geti tekið þessum raunlýsingum fram? Eva er sannkölluð almenningshetja fyrir baráttu sína gegn féflettum.
mbl.is „Viðskiptahættir hafa lítið breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óviðunandi hjartalag

Maður gæti haldið að einstaklingar sem fara með fjárveitingavald og sérstaklega ráðherrar þyrftu að veikjast þannig að þeir þyrftu sjálfir að lenda í lífshættulegri bið eftir að tækjabúnaður komist í lag svo að þeir skilji um hvað málið snýst: Líf og dauða eða varanlega heilsuskerðingu með tilheyrandi örvæntingu. 

Hvers lags hjartalag hefur fólkið sem hér um vélar að það láti annað sem ekki er svo aðkallandi og alvarlegt hafa forgang?

Það er algjörlega óviðunandi ástand að fresta þurfi aðgerðum, sem reynst geta snúast um líf og dauða fólks, vegna blekkingartals um fjárskort; Ekki síst þegar málið snýst um endurnýjun tækjabúnaðar og/eða varahluti í gamlan búnað sem kostar marg-margfalt minna en að gera t.d. göng í gegnum lága heiði við hliðina á góðum vegi. Hér er forgangsröðun dýrmætra fjármuna á villigötum.
Spurningin er hverjir eru svona vegvilltir og hjartalausir.


mbl.is Kalla inn færri í hjartaþræðingu út af biluðu tæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmuni hverra vilja stjórnmálaflokkar verja?

Það ber að aðskilja starfsemi venjulegra viðskiptabanka og fjárfestingabanka, er niðurstaða forstjóra Straums fjárfestingabanka.

Í ljósi bankahrunsins hérlendis og afleiðinga þess ætti nauðsyn á slíkum aðskilnaði að vera augljós. Þar var þessum mismunandi tegundum starfsemi blandað saman í að því er virðist einn "pott" og fé innleggjenda í sumum tilvikum notað í vægast sagt áhættusamar fjárfestingar. Bankarnir urðu jú  gjaldþrota.

Venjulegum viðskiptabönkum eins og hér tíðkast ætti ekki að leyfast að stunda áhættusama fjárfestingastarfsemi sem jafnvel getur snúist upp í áhættusækna fjárglæfrastarfsemi þar sem nánast "spilað" er með sparifé innleggjenda, jafnvel undir formerkjum ríkisábyrgðar. Þeir sparifjáreigendur sem hins vegar vilja taka slíka áhættu með fé sitt myndu þá gera það í sérhæfðum fjárfestingabönkum eða ástunda slík ávöxtunarviðskipti sjálfir.

Sú grundvallarspurning blasir því við Alþingismönnum hverra hagsmuni  þeir vilja verja:
a) Innleggjenda smárra og stórra, eða
b) fjárvörsluaðilanna, bankanna, þeirra sem ráðstafa sparifénu til ávöxtunar- eða fjárfestingaverkefna, eða
c) hagsmuni beggja aðila.

Það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa tekið undir hugmyndir um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka (sé rétt haft eftir í fréttinni) vekur því upp spurninguna um hvort hann vilji fremur gæta hagsmuna fjárvörsluaðilanna heldur en hagsmuna innleggjenda.

Vilji stjórnmálamenn verja hagsmuni  beggja aðila, eða sérstaklega innleggjenda, hlýtur aðskilnaður á starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka að vera svarið.


mbl.is „Á ekki heima saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS mælir fyrir eignaupptöku á Íslandi fyrir braskara

Þessar hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt og rakalausri hækkun stýrivaxta eins og kom fram í viðtölum fulltrúa sjóðsins í sjónvarpsfréttum í gær bera allar að sama brunni:
Að koma sem mestu af upphæð svonefndrar "snjóhengju" yfir í erlendan gjaldeyri til að tilgreindir eigendur innstæðnanna sem hér um ræðir (vel yfir 1000 milljarðar kr) geti flutt þær úr landi í erlendri mynt. Eftir sæti íslenskt efnahagslíf á heljarþröm og íslenskur almenningur í skulda- og skattaklöfum til frambúðar. Þarna er ekki verið að hugsa um velferð íslensku þjóðarinnar heldur hagsmuni viðkomandi innstæðueigenda sem eru samkvæmt þessu ómótmælanlega undir styrkum verndarvæng AGS, eðli málsins samkvæmt.

Lilja Mósesdóttir, í Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar, hefur ítrekað bent á úrræði sem duga til lausnar á þessum yfirvofandi snjóhengjuvanda.
Sú lausn felst í því að "verðfella" þessar inneignir á sanngjarnan hátt með því að taka upp nýja íslenska mynt, Nýkrónu, þar sem þessar innistæður fengjust ekki yfirfærðar í hina nýju mynt (og í framhaldi af því e.t.v. í gjaldeyri) nema á ca. 90% lægra gengi en aðrar innstæður og fjármunir. Upptaka á Nýkrónu yrði nauðsynleg ef ekki reynist löglegt að setja tilsvarandi háan "útgönguskatt" á snjóhengju-innstæðurnar þannig að aðeins lítill og bærilegur hluti hennar færi úr landi í erlendri mynt. Tilgangurinn er að verja hagsmuni almennings á Íslandi og komast hjá hörmungum.

Þessi bráðnauðsynlega niðurskrift á snjóhengjuinnistæðunum ber að skoða í ljósi þess að þeir aðilar sem eiga hana munu hafa fengið þessa fjármuni fyrir "slikk" eða um 4% af nafnverði í kjölfarið á hruni bankanna! Þeir ætla sér hins vegar að græða margfalt (25-falt) á braski sínu á kostnað almennings á Íslandi og hafa hingað til notið dyggilegrar aðstoðar AGS og talsmanna sjóðsins erlendis og hérlendis við það. Þetta má þeim aldrei takast.
Þeir íslensku stjórnmálamenn sem vísvitandii eða af óvitahætti ætla sér að styðja þessa stefnu AGS og framfylgja henni í reynd eru ekki sannir fulltrúar íslensku þjóðarinnar. Þeir myndu þá opinbera sig sem hagsmunagæslumenn annarra nú í aðdraganda næstu kosninga.

Alþingismenn hafa ráð landsins í hendi sér. Þeir skulu hugleiða það vandlega og aldrei gleyma að þjóðin kýs þá hverju sinni til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í heild.


mbl.is AGS styður útgáfu skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband