Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samstaða um auðlindarentu til heimabyggðar

Samstaða í heimabyggð eflir nærsamfélagið. Eðlilegt er að hinar dreifðu byggðir landsins njóti afraksturs sameiginlegra auðlinda landsmanna á hverju svæði að hluta til með beinum hætti til uppbyggingar og eflingar atvinnulífs og mannlífs þar.
Hér er ekki aðeins um að ræða veiðigjald af sjávarútvegi, heldur og rentu af öðrum auðlindum sömuleiðis, svo sem orku.

Með því að tiltekinn hluti auðlindarentunnar væri eyrnamerktur viðkomandi byggðarlögum eða landshlutum væri rennt styrkari stoðum undir ríkari þátttöku sveitastjórnastigsins í úrlausnum sameiginlegra verkefna á vegum hins opinbera. Arður af sameiginlegum auðlindum færi þá ekki alfarið í "hít" ríkissjóðs þar sem skipting arðsins væri að fullu háð úthlutunarvaldi "að sunnan", sem hingað til hefur oft verið vænt um að hygla höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðar í stóru og smáu.


mbl.is Stofna ný hagsmunasamtök í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksformaðurinn leggur spilin á borðið

Í síðasta lagi í væntanlegri kosningabaráttu hlýtur Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður annars stjórnarflokkanna að leggja spilin á borðið og útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna vextir voru hækkaðir hér í hástert, 18%, fljótlega eftir hrunið 2008 og eftir að þeir höfðu þó fyrst verið lækkaðir. Augljóslega var engin ástæða til þess, eins og margoft hefur verið ítrekað og rökstutt á þessu bloggi; Ekki þurfti að leitast við að hækka vexti til að halda erlendu fjármagni í landinu þar sem gjaldeyrishöft höfðu verið sett til að koma í veg fyrir útstreymi gjaldeyris (því sem eftir var þá). Hækkun vaxta gagnaðist því fyrst og fremst þeim sem sátu fastir með fé sitt í landinu, eins og góðar "sárabætur". Innlendir fjármagnseigendur nutu einnig góðs af, meðan þeir sem síst skyldi, allir skuldarar, heimili og fyrirtæki, borguðu brúsann tilneyddir, síst aflögufærir í ástandinu.

Engar viðurkenningar á þessari staðreynd um hávaxtastefnuna bárust úr þöglu húsi Seðlabankans en þar var aftur á móti sífellt klifað á hættu á eftirspurnar-verðbólgu á ósannfærandi hátt, sem stemma þyrfti stigu við með hressilegri hækkun vaxta.
Hver hugsandi maður gat séð og ætti að sjá að ekki þurfti að hækka vexti til þess að sporna við því sem ekki var fyrir hendi, þar sem mikill slaki myndaðist strax í efnahagslífinu í kjölfar hrunsins; Eða hafa ekki allir heyrt talað um t.d. mikið atvinnuleysi og minnkandi kaupmátt almennings sem þá blasti við?
Einnig er ljóst að sérfræðingar Seðlabankans og ráðamenn þar með óbrenglaða almenna skynsemi hafa vitað betur en álíta að nauðsynlegt væri að halda vöxtum háum til að forða ofhitnun í efnahagslífinu; þar var allt hraðkólnandi og bæði heimili og eftirlifandi fyrirtæki að sligast undan vaxtaokri. Hávaxtastefnan hefur því líklega verið ákveðin og keyrð áfram af aðilum á hærri stöðum efnahagsstjórnar landsins.

Fróðlegt verður því að heyra loksins um hina raunverulegu ástæðu og gangráða hávaxta-helstefnunnar þegar fjármálaráðherrann fyrrverandi mun útskýra þá helstefnu gegn almenningi á síðustu dögum stjórnar sinnar sem brátt fara í hönd. Hann mun óhjákvæmilega koma með útskýringar á því í viðleitni sinni til að komast hjá vanþóknun og höfnun kjósenda. Spurningin er hverjir muni sitja uppi með þann Svarta-Pétur og hvort þeir muni kallast sökudólgar eða fórnarlömb.


mbl.is Gjaldið betur lagt á fyrr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerfi til atkvæðaráns

Núverandi kosningakerfi með 5%-þröskuld útilokar að framboð sem fá minna en 5% fylgi kjósenda fái menn á þing í samræmi við atkvæðamagn þeirra. Til að kóróna óréttlætið er "dauðum" atkvæðum þeirra endurúthlutað á bróðurlegan hátt í formi uppbótarþingmanna til þeirra framboða/flokka sem komast yfir þröskuldinn eftir ákveðnum reglum.
Þetta minnir óhugnanlega mikið á kvikmyndir úr Villta Vestrinu þar sem ræningjar skipta ránsfeng sínum á milli sín að ráni afloknu. 

# Þetta eru fáránlegar reglur og ekkert annað en rán á atkvæðum.
# Þetta er ígildi þess að kjörseðlum sé breytt þegar þeir hafa verið afhentir í kjörkassa.
# Þetta er afbökun á lýðræði og, að því er þessi "dauðu" atkvæði undir 5%-mörkunum varðar, í ætt við valdarán; Rán á lýðræðislegum rétti þeirra sem kusu framboðin sem náðu ekki 5%-mörkunum til að hafa áhrif á Alþingi.
# Þetta er mismunun milli þegna lýðveldisins sem ekki fær staðist.
# Þetta er ekkert annað en ein tegund harðstjórnar undir yfirskini lýðræðis.

Brennandi spurning: Kom þjóðin þessari 5%-reglu á?
Svar: Nei. Það voru ríkjandi stjórnmálaflokkar í krafti þingræðis.
Viðbótarspurning: Er það fullkomið lýðræði? Svar: Nei, augljóslega ekki. Það er flokksræði og samkvæmt vilja og markmiðum þeirra hagsmunaafla sem þar eru að baki. Er augljóst að hagsmunir almennings séu þar í fyrirrúmi?

Hvað er til ráða?
Svar: Eðlileg viðmiðunarregla væri að jafnt kjörfylgi allra frambjóðenda þyrfti til að koma manni á þing.
Viðbótarspurning: Hvað er "jafnt kjörfylgi"?
Svar: Miðað við að fjöldi þingmanna á Alþingi er 63 væri jafnt kjörfylgi bókstaflega 1/63, eða um 1,6%. Það er öllu lægra en núverandi 5%-viðmið.

Brennandi spurning: Hvernig stendur á þessari hrópandi mismunun? 
Svar: Mismununin er til komin vegna ofríkis gamalla og ríkjandi stjórnmálaflokka í krafti þingræðis.
Viðbótarspurning: Hvernig hafa gömlu flokkarnir farið að því? 
Svar: Með falsrökum þeirrar mýtu/goðsagnar að "of litlir" flokkar yllu "sundrungu" á Alþingi!
Það eru augljóslega "rök" sem halda ekki vatni vegna þess að þingræði á grunni fulltrúalýðræðis byggir einmitt á því að sjónarmið allra kjósenda eigi sér raddir á þingi. Slíkar raddir eru öll lögformleg framboð meðal kjósenda lýðveldisins og ekki er hægt að segja að lýðræði ríki ef þau hafa ekki jafnan rétt í reynd til að koma frambjóðendum á þing. Reglur sem kveða á um þröskuld hærri en 1/63 (1,6%), eins og núverandi 5%-regla, eru brot á þeirri jafnræðisreglu.

Stóra spurningin: Vill íslenskur almenningur, kjósendur, að ójafnræði 5%-reglunnar verði við haldið áfram?

Ja, maður spyr sig! 

PS: Ein tegund misréttis og ójafnræðis milli kjósenda felst einnig í mismunandi vægi atkvæða eftir kjördæmum þar sem fyrirfram er ákveðið hver þingmannafjöldi kjördæmis er sem ekki er í hlutfalli við íbúafjölda. 


mbl.is Stjórnarflokkarnir bæta örlítið við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttuandi gegn þöggun og yfirgangi

Vel mælt hjá Herdísi Þorgeirsdóttur og myndi það út af fyrir sig sæma hverjum sönnum baráttumanni alþýðunnar að taka og sýna þá afstöðu sem Herdís gerir hér - alveg burtséð frá yfirstandandi forsetakosningum.
mbl.is Herdís búin að greiða atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðislegt varðmennskuhlutverk forsetans gegn alþingræði

Þrátt fyrir að sumir forsetaframbjóðendur hafi gert lítið úr tilvist 26. greinar stjórnarskráarinnar um málskotsrétt (eða -skyldu) og þar með tilgangi hennar og hlutverki (hvort sem það er af misskilningi þeirra eða túlkunarbresti) virðist fjöldi kjósenda ekki láta það rugla sig í ríminu, ef marka má viðhangandi frétt um niðurstöður nýrrar skoðunarkönnunar um fylgi frambjóðendanna. Áður hefur verið rætt um þetta atriði í pistli á þessari bloggsíðu.
Hunsun á þessu einmitt þessu atriði var einkar áberandi hjá einum greinarhöfundi í Morgunblaðinu í dag, 22.6.2012.
Í grein þar á s. 24-25 ræðir Vilhjálmur Bjarnason, oft kallaður fjárfestir, um “öryggisventil lýðveldisins Íslands, þingræði eða forsetaræði”. Hann fer vel af stað þar sem hann bendir á að mönnum sé tíðrætt um mikilvægi öryggishlutverks forsetans fyrir forsetakosningar. Jafnskjótt kemur þó í ljós að hann leggur ofuráherslu á þingræðið og vill að því er virðist setja það ofar öðru þannig að það hafi alræðisvald á hverju kjörtímabili, milli þess sem þjóðin beitir því valdi sínu að velja fulltrúa sína á þing. Vilhjálmur segir: “Með synjun á staðfestingu laga eftir þingræðislega meðferð er í raun verið að afnema þingræði og koma á forsetaræði ...”. Hér og í framhaldinu sleppir hann alveg að geta þess hvað í raun og veru felst á bak við það sem hann ranglega kallar “forsetaræði”. Hann sleppir að taka fram að hér er um að ræða varðmennskuhlutverk forsetaembættisins fyrir lýðræðið, þjóðarviljann, gagnvart sitjandi þingmönnum og stjórnmálaflokkunum og öðrum öflum þar að baki. 
Eins og Vilhjálmur sjálfsagt veit fara lög, sem forsetinn synjar staðfestingar, að óbreyttu beinustu leið til afgreiðslu hjá þjóðinni allri í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsetinn er með synjun sinni um staðfestingu á lögum sem meirihluti þingmanna hefur samþykkt ekki að hafna lögunum upp á sitt einsdæmi eins og væri hann með “vald 64 þingmanna” samkvæmt orðun Vilhjálms, heldur að sjá til þess að þjóðin sjálf fái kost á því að útkljá málið í krafti lýðræðis. Þessar lýðræðislegu athafnir forsetans kallar Vilhjálmur hins vegar að “efla ófrið með landsmönnum”.
Þetta ber forsetanum þó sannarlega að gera ef og þegar hann skynjar að þingmeirihlutinn að baki samþykkt laga á Alþingi sé ekki samstiga stórum hluta þjóðarinnar. Þetta hlýtur að vera megintilgangurinn með 26. greininni í stjórnarskránni; Að varna því að þingmenn í krafti þingræðis geti sett lög sem kunna að vera gegn vilja meirihluta þjóðarinnar.
Vilhjálmur ræðir stuttlega beitingu núverandi forseta á 26. grein stjórnarskráarinnar og segir forsetann hafa “hegðað sér í stjórnarathöfnum eins og bilaður lekaliði og slegið út eins og vindar blása hverju sinni”. Í ljósi ofanritaðs hefur forsetinn einmitt ekki virkað eins og “bilaður lekaliði” heldur gegnt hlutverki sínu sem varðmaður lýðræðisins þegar hann skynjaði “gjá milli þings og þjóðar”, eins og hann kallaði það, að gefnu tilefni hverju sinni. 
Vilhjálmur ræðir nokkuð beitingu núverandi forseta á 26. greininni hið fyrsta sinni er hann synjaði svokölluðum fjölmiðlalögum staðfestingar.
Ég tek undir það með Vilhjálmi að vissulega hefði betur farið ef við hefðum lög sem skylduðu eigendur fjölmiðla að gefa sig til kynna ásamt því að koma í veg fyrir ofríki þeirra.
Það var þó ekki forsetanum að kenna að fjölmiðlalögin gufuðu upp heldur sitjandi ríkisstjórn Sjálfsstæðisflokks og Framsóknarflokks sem dró lögin til baka í stað þess að leyfa þjóðinni að tjá sig um þau í þjóðaratkvæðagreiðslu og laga þau þá að þjóðarviljanum í kjölfarið hefði þjóðin hafnað fyrirliggjandi lögum.
Forsetinn kom vissulega ekki í veg fyrir lagasetningu um fjölmiðla og það er vægast sagt langt gengið af Vilhjálmi að fullyrða um “jafn einfaldan hlut” að svo hafi verið. 
Vilhjálmur ræðir hins vegar ekkert um tilefnið og aðdragandann að synjun forsetans á svokölluðum Icesave-lögum, en með þeim hefðu rúmlega þrjátíu þingmenn, þingmeirihlutinn, umsvifalaust skuldsett alla þjóðina út yfir allan þjófabálk til heljar á hæpnum forsendum og gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. (Athyglisvert er út af fyrir sig að ýmsir úr fjármálageiranum og hópi opinberra starfsmanna virtust harla vonsviknir með höfnun þjóðarinnar á þessum lögum, en það er annað mál).
Loks virðist Vilhjálmur rasandi hissa og hneykslaður á því að samkvæmt einhverri skoðanakönnuninni á dögunum hugðust um 40% úr kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins ætla sér að kjósa núverandi forseta. Finnst honum það “óskiljanlegt” og gerir hann því skóna að það sé vegna andstöðu við núverandi ríkisstjórn. Í því sambandi hamrar hann enn á veru og vilja æðstu fulltrúa þjóðarinnar er hann segir “forseti, Alþingi og ríkisstjórn verða að virða hvert annað”, sem er náttúrulega sjálfsagt að þessar stofnanir geri, en lætur hjá líða að minnast á að eðlilegt sé að einmitt þessar stofnanir lýðveldisins fari að vilja kjósenda sinna, þjóðarviljanum, fyrst og fremst og virða þannig lýðræðið.
Það blasir við að túlka megi niðurstöður umræddrar könnunar sem svo að þessi 40% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins, sem samkvæmt viðhangandi frétt um niðurstöður könnunar er birt var í dag eru komin í um 64%, séu meðvituð um varðmennskuhlutverk forsetaembættisins og geri sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að hafa það við lýði, en telji jafnframt að núverandi forseta sé best treystandi til að gegna því hlutverki í ljósi reynslunnar. Það ætti að vera íhugunarefni fyrir þá sem spá í hæfni forsetaframbjóðendanna.

mbl.is Ólafur með 44,5% en Þóra 36,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókið eða gegnsætt veiðigjald?

Sú útfærsla ríkisstjórnarinnar á veiðigjaldinu sem nú hefur verið samþykkt sem lög er meingölluð. Ástæðan er sú að hún byggir að hluta til á kolröngum og ógegnsæjum stofni, þ.e. eftirá reiknaðri og bjagaðri "framlegð".

Gegnsætt og auðskiljanlegt veiðigjald og í anda svokallaðrar fiskihagfræði væri einfaldlega flatt krónutölugjald á t.d. þorskígildiskíló. Þannig hefði slíkt veiðileyfagjald til dæmis um 54 krónur á hvert þorskígildiskíló skilað um 15 milljörðum króna í heildartekjur til ríkisins miðað við heildarkvóta yfirstandandi fiskveiðiárs, svo tekið sé mið af væntri heildarupphæð veiðigjalds samkvæmt nýju lögunum.
Það er þó ekki þar með sagt að slíkt flatt gjald gengi undantekningalaust meðan verið er að aðlagast því.

Svona útfærsla á veiðileyfagjaldi með krónugjaldi pr. kíló felur í sér að allir aðilar vita að hverju þeir ganga fyrirfram þegar heildarkvótar hafa verið ákveðnir hverju sinni og útgerðaraðilar geta ekki bjagað álagningarstofninn með ýmsum ráðum.

Svona útfærsla væri afgerandi gegnsærri en sú sem hið flókna ný-samþykkta veiðigjald byggir á.


mbl.is Frumvarp um veiðigjöld að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérhagsmunaflokkur fellir grímuna

Hinir almennu kjósendur skulu leggja það vandlega á minnið sem Einar Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins lofaði, samkvæmt sjónvarpsfréttum á RÚV í dag 19.6.2012, að flokkur hans myndi afnema ný-samþykkta tempraða hækkun á veiðigjaldi fyrir aflaheimildir um leið og hann kæmist til valda og færa þann hluta auðlindarentunnar skilyrðislaust aftur til skjólstæðinga sinna, kvótahafandi útgerðarfélaga.

Það lá í orðum þingmannsins að hann teldi það víst að það yrði í kjölfar næstu þingkosninga.

Nú reynir á almenning, kjósendur, hvort þeir telji það sjálfsagt að afsala sér auðlindarentunni áfram til núverandi kvótahafa með því að kjósa flokk þingmannsins. Sá flokkur hefur ávallt leitast við að telja sama almenningi og kjósendum trú um að hann sé flokkur þeirra! Er nú ekki orðið glertært hvaða sannleikur felst í slíkum fullyrðingum?

Eðli málsins samkvæmt munu þeir sem telja sig sérhagsmuna eiga að gæta kjósa "sína" flokka, en er almenningur ekki búinn að átta sig á því að hann er þar ekki í fyrstu forgangsröð þegar kemur að skiptingu efnahagslegra gæða á þeim vettvangi?


mbl.is Þór Saari: Kominn tími á kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðmaður lýðræðisins, íslenska fjallkonan eða annað?

Mér sýnist af áherslum í málflutningi Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda að hún leggi enga áherslu, nema síður sé, á það sem skiptir einna mestu máli við forsetaembættið, en það er að vera neyðarvörn lýðræðis almennings gagnvart einstefnu flokksræðis og þingræðisins á hverjum tíma ef sú stefna fer gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í tilteknum málum.
Réttsýnn og dómbær forseti leysir úr læðingi hið lýðræðislega afl þjóðarinnar, kjósendanna, gagnvart umboðsmönnum hennar, þingmönnunum, ef þeir vilja fara freklega gegn vilja meirihluta kjósenda með tiltekinni lagasetningu með afdrifaríkum afleiðingum. Forsetinn er þannig í þeim krafti sannarlega varðmaður lýðræðisins er svo ber undir.

Það eru grillur einar að ein persóna, forsetinn, geti verið "sameiningartákn allrar þjóðarinnar" í þeim skilningi að allir séu sammála um veru hans að öllu leyti vegna þess að ávallt eru misjafnar skoðanir um persónu hans eins og allra manna, eðli málsins samkvæmt, hver svo sem gegnir embættinu.
Slík persóna er einungis til í goðsagnarkenndum persónugervingum eins og íslensku fjallkonunni.
Hver og hvers konar maður eða kona ætlar sér þá dul að geta tekið hennar sess í íslenskum raunveruleika?

Hið raunverulega sameiningarafl íslensku þjóðarinnar eru þau gildi sem hún vegsamar mest og heldur í heiðri er á reynir í hinu mannlega samfélagi; Það að vera Íslendingur og/eða íslenskur þegn með öllu því sem því tilheyrir, svo sem  tungumáli, sögulegum arfi og rótgrónu eðli og viðhorfum.

Þeir forsetaframbjóðendur og aðrir sem álíta og halda því fram að forsetinn eigi einungis að vera einhver óskilgreind skrautfígúra "fyrir alla" og "valdalaus" hafa því misskilið gjörsamlega þetta lykilatriði í hlutverki forsetaembættisins samkvæmt núverandi stjórnarskrá sem tengist 26. greininni. Þeir virðast því, vísvitandi eða óafvitandi, setja vilja fulltrúa kjósenda á þingi og stjórnmálaflokkanna þar að baki ofar vilja almennings og ofar raunverulegu lýðræði.

Íslensk þjóð hefur enga þörf á forsetaembætti og forseta sem einungis er slík óskilgreind "valdalaus toppfígúra" og rænulaus "lagastimpill" fyrir ríkjandi stjórnarmeirihluta. Það væri aðeins þarflaus kostnaðarauki. Af slíkum er nóg í hinni opinberu stjórnsýslu.


mbl.is Ætlar sér að brúa bilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagsmálavæðing kvótahafa

Í tengslum við viðhangandi sparlega yfirlit mbl.is um grein Gústafs Aolfs Skúlasonar, fv. ritara Smáfyrirtækjabandalags Evrópu, um það sem hann kallar "árásir ríkisstjórnarinnar á best rekna sjávarútveg í heimi" vakna nokkrar spurningar:

1) Hvað á Gústaf Adolf við með "best rekna sjávarútvegi í heimi"? Er viðmið hans frá sjónarhóli kvótahafandi útgerðarmanna eða þjóðarhags og almennings? 

2) Er Gústaf Adolf virkilega að halda því fram að fiskveiðar verði stórminnkaðar við Ísland þannig að "sjómenn missi vinnuna" við það eitt að veiðigjald verði hækað og hluti auðlindarentunnar svokölluðu færður frá kvótahöfum til almennings? Hver á að trúa svona málatilbúnaði? Fiskveiðar verða ávallt stundaðar við Ísland meðan fiskur fyrirfinnst.

3) Hvernig í ósköpunum tengist það útfærslu fiskveiðistjórnunarkerfis og upphæð veiðileyfagjalds að "ríkisstjórnin sé svo blinduð af ESB" að mati Gústafs Adolfs? Hann virðist hér gagnrýna ESB-áráttu ríkisstjórnarinnar, en það er nú allt annað mál og mætti hann furða sig sem mest á því og reifa það út af fyrir sig í annan stað.

4) Gústaf Adolf telur að í yfirstandandi aðgerðum LÍÚ felist "ný von fyrir Íslendinga að vernda atvinnu sína". Hvaða Íslendingar aðrir en kvótahafar og sérstaklega gjafakvótahafar, núverandi hirðar auðlindarentunnar, gætu talið það "von" fyrir sig?

5) Það væri í dúr við þá furðulegu áráttu margra íslenskra kjósenda að láta blekkjast til að kjósa gegn eigin hagsmunum ef þeir færu "að taka höndum saman og standa þétt að baki ... útgerðarmönnum ..." við skiptingu arðsins af fiskveiðunum milli kvótahafa og almennings/ríkissjóðs! Er það það sem Gústaf Adolf finnst sjálfsagt að þeir geri?

Af málflutningi Gústafs Adolfs mætti ráða að hann mæli fyrir áframhaldi á því sem kalla mætti "félagsmálavæðingu kvótahafa", svo notað sé hans eigið orð, og að þeir einir fái áfram auðlindarentu þjóðarinnar eins og hún leggur sig fyrir þá smáaura sem þeir hafa verið að greiða í nokkur ár í veiðigjald við mikla kveinstafi; Samhliða því að hluthafar útgerðarfyrirtækja hafa fengið greiddar út fúlgur í arð.
Auðlindarenta sú er drjúgur "félagsmálastyrkur" frá þjóðinni til kvótahafa. Svo virðist sem Gústaf Adolf telji það "skemmdarverk" ef loksins ætti að hrófla við því fyrirkomulagi.


mbl.is Gústaf Adolf Skúlason: Félagsmálavæðing ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarstefna eða helferðarstefna

Sífellt fleiri taka undir þessar leiðir sem Lilja ásamt Samstöðu hefur bent á til að losna við þann yfirvofandi skaðvald sem 1000 milljarða "snjóhengja" af innlyksa fé hérlendis er, ef viðkomandi fjármagnseigendur sjá ekki sóma sinni í því að fjárfesta þá hér viljugir til langs tíma.

Þennan púka þarf að losna við sem fyrst vegna þess að meðan ekkert er aðhafst heldur hann áfram að mala sér gull í formi inneignarvaxta með hávaxtamaskínu peningastefnunefndar Seðlabankans. 

Til að halda þessari gífurlegu fjárupphæð "sjálfviljugri" hérlendis þarf reyndar markvisst að bjóða upp á fjárfestingarkosti á móti. 
Þar duga ekki sýndaráform eins og nýlega voru kynnt af ríkisstjórninni sem á að hrinda í framkvæmd einhvern tímann eftir fyrirsjáanlega lífdaga hennar, enda gerast "bjargráðin" varla hallærislegri.

Ekkert annað en ömurleg helferð fyrir íslenskan almenning fylgir þeirri hugmynd og áformum Samfylkingar að einhvers konar (ennþá óljós) fyrirgreiðsla ESB muni leysa vandann, v.þ.a. þar er reiknað með að greiða niður alla þessa fjárhæð á einhverjum ótilteknum tíma með vöxtum.
Hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um snögga afléttingu gjaldeyrishafta þar sem fjárhæðin yrði leyst út með lánsfé gjaldeyrisforða Seðlabankans er heldur ekkert annað en snögg kollsteypuhelferð. Gjaldeyrisforði landsins yrði þá upp urinn og hátt í jafnháar vaxtaberandi skuldir sætu eftir hliðstætt og á við um afleiðingar hörmungarstefnu Samfylkinngar.

Það sem blasir við að þurfi að gera ef komast á hjá efnahagslegri helferð Íslendinga er einmitt þetta sem Lilja með Samstöðu að bakhjarli bendir á.
Fari snjóhenguféð ekki með góðu í langtíma raunfjárfestingar hérlendis getur það heldur aldrei farið óskert úr landi.

 


mbl.is Vill hóta eigendum snjóhengjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband