Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eiga mannskæðar farsóttir greiða leið til Íslands?

Í viðtengdri frétt á mbl.is um hælisleitanda, sýktan af alvarlegum sjúkdómi, er haft eftir sóttvarnalækni Íslands:
"„Það eru ekki nein­ar ná­kvæm­ar dag­setn­ing­ar á því hvenær menn eiga að vera komn­ir í skoðun og þess hátt­ar,“ seg­ir Har­ald­ur enda hafa heil­brigðis­yf­ir­völd ekki tök á því að taka fólk í lækn­is­skoðun þegar í stað."

Léleg eru nú rök sóttvarnarlæknis Íslands, þótt hann beri ekki formlega pólitíska ábyrgð á regluverkinu. Öllu alvarlegri eru þó þessi tíðindi hans vegna þess að þau afhjúpa greiða leið mannskæðra farsjúkdóma til Íslands.
Hér er augljóslega alvarleg brotalöm á regluverki og/eða vinnugangi viðkomandi opinberra aðila. Við þessu verður að bregðast tafarlaust og ekki gengur að allir vísi á einhvern annan, hvorki heilbrigðisyfirvöld né innflytjendamálayfirvöld.

Eða, eiga einstaklingar sem e.t.v. eru sýktir af alvarlegum farsóttarsjúkdómi að hafa möguleika á því að umgangast landsmenn að eigin vild, og það í langan tíma eins og í umræddu tilviki, án sóttvarnaraðgerða og einangrunar og í versta falli að verða til þess að leggja marga landsmenn að velli? - Eins og gerðist á miðöldum þegar Svarti dauði barst til landsins og á síðustu öld þegar spænska veikin barst til landsins.
Þessi innflytjendamál eru greinilega í alvarlegum ólestri sem er gjörsamlega óviðunandi.


mbl.is Hafði ekki skilað læknisvottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir borgi sem njóta

Ég hef áður ritað pistil um gjaldtöku á (vinsælum) ferðamannastöðum á Íslandi þannig að aðgangseyrir þar af renni til uppbyggingar og viðhalds á viðkomandi stöðum. Þetta verði framkvæmt samkvæmt reglum sem settar verði af hinu opinbera þar um og háð eftirliti. Þannig er þetta víða erlendis.

Það er glórulaust að fyrirtæki í ferðamannabransanum geti gert út á þessa staði án þess þeir eða viðskiptavinir þeirra kosti nokkru til sjálfir. Hingað til og enn þá eru þeir að gera út á náttúru Íslans og opinber framlög skattgreiðenda hérlendis.
Það er ennfremur í anda óhefts og stjórnlauss aðgangs allra að sömu auðlindinni sem leiðir að lokum til mettunar á vinsælum stöðum og óhagræðis fyrir alla þegar staðirnir missa aðdráttarafl sitt vegna ásóknar, átroðnings, mannmergðar og niðurníðslu.


mbl.is Milljónirnar 50 ekki nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntunarstefna og atvinnulíf

Mikið ósamræmi er milli menntunarstefnu og/eða áherslna í annars vegar framboði á menntunarleiðum og tilsvarandi eftirspurn og hins vegar þróun á atvinnumöguleikum eftir starfstegundum.
Aragrúa af fólki er hleypt inn á alls konar námsbrautir á háskólastigi þar sem aðeins brot af fjölda útskrifaðra nemenda mun fá störf við hæfi, þ.e. þeirra sem ekki munu detta út úr námi sökum vangetu, áhugaleysis eða annars; Með tilheyrandi sóun kostnaðar bæði í skólakerfinu sökum brottfalls nemenda og hjá viðkomandi einstaklingum eftir námskostnað sem nýtist síðan ekki til viðkomandi starfa.

Yfirvöld menntamála hafa staðið sig illa í því að kortleggja vænta þörf atvinnulífsins, m.a. með hliðsjón af stefnu hins opinbera í atvinnuuppbyggingu, fyrir hinar ýmsu tegundir starfa og aðlaga framboð á menntun, námstegundir og fjölda einstaklinga, með hliðsjón af því.
Hér er þörf á raunsærri og hagkvæmri menntunarstefnu þar sem einstaklingar eru leiddir eins og mögulegt er eftir hæfni þeirra og áhuga inn á rétta braut í náms- og starfsvali eins snemma í skólakerfinu og unnt er.

Til hvers er verið að mennta ótölulegan fjölda einstaklinga á einhverju sviði þar sem vitað er að aðeins brot af þeim fær störf á því sviði að námi loknu? Væri þeim fjármunum ekki betur varið í t.d. uppbyggingu heilbrigðiskerfisins með samkeppnishæfum launum fyrir heilbrigðisstarfsfólk, hvert á sínu sviði?


mbl.is Háskólamenntun líkist stúdentsprófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammasjóðir og handbendi þeirra gegn hagsmunum Íslendinga

Í viðtali DV 25.6.2015 við forsætisráðherra Íslands er eftirfarandi óhugnanlega afhjúpun höfð eftir honum:

"Ég veit að ákveðnir aðilar sem vildu hafa áhrif á umræðuna út af haftamálunum fóru skipulega að dreifa ýmsum sögum um mig og þá með það að markmiði að reyna að draga úr trúverðugleika mínum og skaða möguleika mína á því að hafa áhrif á gang mála. Og talandi um fjárkúgun og hótanir þá hef ég meira að segja fengið hótanir úr þeim ranni."

Þetta er yfirgengilegt og við öll sem þjóð ættum að fylkja okkur að baki þeim sem há baráttuna fyrir okkar hönd við kröfuhafa í bankakerfinu til að forða þjóðinni frá efnahagslegum ógöngum; Gegn hrægammasjóðum kröfuhafa og handbendum þeirra, útsendurum og kvislingum.


mbl.is Sigmundi hótað vegna haftamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðernishyggja eða heimavarnarhyggja

Halda mætti að Eiríkur Bergmann prófessor álíti sig hafa hið eina sanna sjónarhorn um innflytjendamál og fjölmenningu og heimamenningu í málatilbúnaði sínum, eða þá að fréttaveita mbl.is haldi að svo sé. 
Í viðtengdri frétt virðist prófessorinn fyrst og fremst fordæma eða hneykslast á því hversu ríkan þátt umræða og stefnumörkun um innflytjendamál spiluðu í nýafstöðnum kosningum í Danmörku til danska þjóðþingsins og sérsaklega úrslitum þeirra og að það endurspegli hættu á öfgakenndri eða varasamri "þjóðernishyggju". Ekki er rætt um að úrslit kosninganna kunni að hafa endurspeglað viðhorf Dana til þess sem þeir gætu haldið vera aðsteðjandi ógn í samfélagi sínu í ljósi reynslu sinnar.

Ætla mætti að prófessorinn vilji láta að því liggja að Danir og fleiri Norðurlandaþjóðir séu að verða Hitlers-nasisma og ógnandi útþenslustefnu að bráð þar sem haft er eftir honum í fréttinni að "uppgangur þjóðernishyggju" sé "áhyggjuefni" sökum "forsögunnar". - Er eitthvað vit í slíkum málflutningi? Er hér verið að kenna það sem kalla mætti heimavarnarhyggju eða ást á eigin menningu og samfélagi við stríðsógnandi nasisma Hitlers?
Er það ekki enn meiri "barnaskapur" að loka augunum fyrir aðsteðjandi ógn heldur en að ræða ekki um innflytjendavandamál og stefnu?

En, hvað segja fleiri en Eiríkur Bergmann um hylli Danska þjóðarflokksins hjá dönskum kjósendum í nýafstöðnum þingkosningum þar í landi? Einhverjir sem ekki eru heillaðir af óreiðukenndri innrás fjölda innflytjenda eða (efnahagslegra) flóttamanna með framandi menningarhefðir sem gætu ógnað rótgróinni heimamenningu og heimabrag og velferðarkerfi.

Hvers vegna fær mbl.is ekki fram fjölbreyttari rökstuddar skoðanir fleiri málsmetandi manna um þessi mál?


mbl.is Uppgangur þjóðernishyggju áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheildstæð hagstjórn?

Í þeim tilgangi að sporna við þenslu í hagkerfinu væri nær að beita fjármálastjórn ríkisins í gegnum skatta- og bótakerfið og útgjaldastefnu í stað vaxtahækkana, ef raunverulegur tilgangur vaxtahækkana er að verjast væntri þenslu í hagkerfinu eða tilraun til að koma í veg fyrir of mikla þenslu.
Ef eitthvað ýtir undir verðbólguvæntingar og verðbólgu þá eru það stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, en með þeim segist hann aftur á móti leitast við að slá á verðbólgu!

Með slagkröftugum tækjum fjármálastjórnar ríkisins er hægt að minnka umsvifin í hagkerfinu með því að auka tekjur ríkisins og/eða draga úr útgjöldum þess, sem kæmi ríkissjóði beint til góða og þar með öllum almenningi óbeint til góða til örlítið lengri tíma litið þar sem ríkið gæti varið auknum fjármunum sem það hefði þá yfir að ráða t.d. til lækkunar á skuldum ríkisins.
Vaxtahækkanir koma hins vegar fyrst og fremst bankakerfinu og fjármagnseigendum beint til góða jafnframt því að draga úr ráðstöfunartekjum einstaklinga/heimila, sérstaklega skuldsettra einstaklinga, og auka kostnað skuldsettra fyrirtækja og dregur þar með úr hvata til atvinnusköpunar og eykur hættu á atvinnumissi einhverra.

Á sama degi og Seðlabankinn tilkynnir umtalsverða vaxtahækkun með þeim rökum að hún sé ætluð sem mótaðgerð við vænta þenslu í hagkerfinu birtist frétt af fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann viðrar hugmyndir sínar um skattalækkanir!
Með þessu móti væru stefnur Seðlabankans og fjármálaráðherra gagnverkandi. Segja mætti, með einfölduðum hætti, að sá kokteill feli í raun í sér tilfærslur á fé frá ríkinu og einstaklingum og fyrirtækjum, gegnum einkageirann, til bankakerfisins og fjármagnseigenda.
Þetta er þverstæðukennt og leiðir til spurninga um hvort slík víxlverkun sé skynsöm og réttlát hagstjórn á heildina litið fyrir þegna þessa lands.


mbl.is Hækka stýrivexti bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnustaðasamninga í stað hryðjuverkandi verkfalla

Óviðunandi ástand hefur skapast vegna stéttaverkfalla í tengslum við veruleikafirrta miðstýrða kröfugerð heildarsamtaka launþega. Er það eins og við var að búast. Afleiðingar verkfalla eru hliðstæðar afleiðingum hryðjuverka þar sem þriðji aðili er fórnarlamb deilna.
Hér liggja hráefni og afurðir innlendra framleiðslufyrirtækja undir skemmdum og sölusamningar til útlanda eru í hættu. Innan heilbrigðiskerfisins er velferð og jafnvel líf fólks í hættu.

Vinnustaðasamningar kæmu í veg fyrir svona vitfirringu. Þá gætu atvinnurekendur samið við starfsfólk sitt eftir efnum og ástæðum á hverjum stað og með hliðsjón af framboði og eftirspurn á öllum framleiðsluþáttum, bæði á hráefni, afurðum og starfsfólki.

Þetta á einnig við um opinbera starfsmenn.

Laun opinberra starfsmanna ættu að taka mið af launum og kjörum í einkageiranum, líkt og fyrirkomulag kjarasamninga er í Noregi og Danmörku, en ekki fara eftir möguleikum opinberra starfsmanna til gíslatöku. 

Einkageirinn og almenningur borgar laun opinberra starfsmanna. Launahækkanir hjá hinu opinbera kalla á hækkun skatta í einhverju formi sem launþegar og fyrirtæki í einkageiranum borga á endanum.
Fyrirtæki velta auknum kostnaði sínum að einhverju eða öllu leyti út í verðlagið, en allir íbúar landsins borga fyrir það. Þar að auki borga þeir sem skulda verðtryggð lán drjúgt þar til viðbótar vegna afleiddrar aukinnar verðbólgu.

Bregða verður böndum á vitfirringu víxlverkandi hækkun launa og verðlags eins og nú stefnir í. Íslendingar hafa fengið miklu meira en nóg af slíkum trakteiringum í marga áratugi - eða hvað?


mbl.is 500 tonn af kjúklingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðigjöld mismunandi eftir fiskiskipategundum

Litlir bátar hafa verið þjóðhagslega hagkvæmir með hæfilegum afla, samanborið við stór fiskiskip.

Þetta á bæði við um smábáta á strandveiðum og stærri báta, jafnvel upp að 110 Brl og í sumum tilvikum upp í 200 Brl háð landshluta og veiðisvæði. Þetta sýndu umfangsmiklir útreikningar mínir á hagkvæmustu samsetningu íslenska fiskiskiptaflotans með gögnum fyrir tilkomu aflakvótakerfisins. Þar var tekið tillit til mismunandi stærðarflokka báta/togara, aflasamsetningar mismunandi veiðarfæra, fisktegunda, veiðisvæða, löndunarsvæða og vertíða. Sömuleiðis mismunandi kostnaðaraðstæðna háð þessum breytum, bæði breytilegs rekstrarkostnaðar og fasts kostnaðar, sem og aflaverðs eftir löndunarsvæðum. Fiskvinnslan var alveg þar fyrir utan að öðru leyti.
Til þess arna þróaði ég viðeigandi reiknilíkan (bestunarlíkan) sem varð verulega stórt að umfangi með tilliti til ofangreinds breytileika og hliðarskilyrða. Enda tók það nokkrar klukkustundir í keyrslu á stórri móðurtölvu (mainframe) á þeim tíma.

Auðvelt er fyrir ríkisvaldið að haga upphæð veiðigjalda eftir samsetningu fiskiskipaflotans og útgerðartegund. Þannig er hægt að láta upphæð þeirra pr. aflakíló fara eftir stærðarflokki fiskiskipategunda, útgerðartegund og fisktegund.

Með þessum hætti er hægt að taka tillit til mismunandi aðstæðna í útgerð, þar undir jafnvel þjóðhagslegrar hagkvæmni, sem og  byggðasjónarmiða.


mbl.is Hætta á fækkun smærri fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrupassinn fær reisupassann

Það er ekki nema von að iðnaðarráðherrann skuli gefa náttúrupassa ómöguleikans reisupassann; og er það vonum seinna.

Hvað er þá til ráða? Jú, hin eðlilega lausn: Þeir borgi sem njóta, þ.e. seljendur og/eða kaupendur þjónustu við náttúruskoðun.

Hverjir eru seljendur? Eigendur og/eða handhafar landgæðaréttinda. Þeir ættu að kosta sómasamlega þjónustuaðstöðu og viðhald hver á sínum stað, sem háð yrði opinberu eftirliti og leyfisveitingum, og hafa leyfi til að taka "hæfilegt" og "hóflegt" gjald fyrir.

Að öðrum kosti, eins og verið hefur hingað til og enn stefnir í, eru skattgreiðendur á Íslandi að niðurgreiða og/eða styrkja með óbeinum hætti starfsemi hópferðafyrirtækja og bílaleigufyrirtækja sem gera út á þessa auðlind sem íslensk náttúra er.

Hópferðafyrirtæki og aðilar sem selja (ekki síst erlendum) ferðamönnum útsýnisferðir á tiltekna staði gætu að sjálfsögðu selt kúnnum sínum aðgöngumiða á viðkomandi staði samkvæmt samkomulagi við hvern aðila eins og verkast vill.

Nú, sem áður, er bara hægt að harma að stjórnmálamenn og embættismenn skuli hafa eytt dýrmætum tíma í athafnaleysi í skipulags- og gjaldtökumálum út af vangaveltum og hugmyndum um náttúrupassa sem ekki getur virkað sem skyldi, í stað þess að drífa í að koma á nothæfu og eðlilegu fyrirkomulagi t.d. á ofangreindum nótum eins og tíðkast víða erlendis og þykir eðlilegt.

Þetta fyrirkomulag leysir þó ekki allan vandann tengt kostnaði við vinsæla og verðandi ferðamannastaði til náttúruskoðunar. Þar verður hið opinbera að kosta til og styrkja lágmarksframkvæmdir til að byrja með á hverjum stað. Það má fjármagna með gistináttagjaldi og öðru því um líku sem til þess er ætlað.


mbl.is Gefur náttúrupassa upp á bátinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosti um mál í frosti

... eða er þetta of augljóst til að verða hrint í framkvæmd?

Gott er að Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is, skuli enn einu sinni vekja máls á þessu og leitast við að halda málinu heitu.

Er nú mál að þingheimur vakni til meðvitundar um þetta mál og haldi því ekki lengur í frosti. Þessi Þyrnirósarsven þingheims kostar okkur um 800 milljónir króna mánaðarlega.


mbl.is Tugir milljarða í vexti til bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband