Færsluflokkur: Bloggar
22.6.2012 | 16:03
Lýðræðislegt varðmennskuhlutverk forsetans gegn alþingræði
Ég tek undir það með Vilhjálmi að vissulega hefði betur farið ef við hefðum lög sem skylduðu eigendur fjölmiðla að gefa sig til kynna ásamt því að koma í veg fyrir ofríki þeirra.
Það var þó ekki forsetanum að kenna að fjölmiðlalögin gufuðu upp heldur sitjandi ríkisstjórn Sjálfsstæðisflokks og Framsóknarflokks sem dró lögin til baka í stað þess að leyfa þjóðinni að tjá sig um þau í þjóðaratkvæðagreiðslu og laga þau þá að þjóðarviljanum í kjölfarið hefði þjóðin hafnað fyrirliggjandi lögum.
Forsetinn kom vissulega ekki í veg fyrir lagasetningu um fjölmiðla og það er vægast sagt langt gengið af Vilhjálmi að fullyrða um jafn einfaldan hlut að svo hafi verið.
![]() |
Ólafur með 44,5% en Þóra 36,9% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.6.2012 kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2012 | 15:32
"Paradís á Jörðu"
Ekki er að undra ásókn í námsdvöl að Bifröst. Þar er auðvelt að stilla saman þá þrjá þætti sem ég tel stuðla hvað mest að góðum námsárangri:
1) Námsaga með tilhlýðilegri örvun og hvatningu
2) líkamlega hreyfingu (ekki síst utanhúss) og
3) mannleg samskipti svo sem í félagslífi og samstarfi í nærsamfélaginu.
Þegar þetta þrennt fer saman í þeirri gleði, ánægju og sjálfseflingu sem kemur til við þetta að Bifröst kemur undursamlegur árangur í ljós þannig að nemandinn verður sem ný manneskja.
Komist hann á þetta stig mun hann minnast námsdvalar sinnar að Bifröst sem upplifunar á nokkurs konar "paradís á Jörð". Ef ekki vegna þessa og annars, þá vegna umhverfisins.
Svo mælist hollvini.
![]() |
Mikil gróska í starfi Bifrastar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2012 | 14:29
Þjóðarhagsmunir og "óafturkræf afsamningsáhrif"
Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, 21.6.2012 s. 25, bendir Ragnar Önundarson á afar mikilvæg atriði sem ber að íhuga vandlega í sambandi við viðleitni Kínverja til að komast yfir stórt landsvæði hérlendis, nánar tiltekið Grímsstaði á Fjöllum. Margt af þeim hefur verið rætt um á þessari bloggsíðu á forsendum þjóðarhagsmuna og landvarnar í anda Einars Þveræings.
Augljóslega er þó erfitt fyrir skammsýna og þröngsýna stjórnmálamenn og -flokka að koma auga á og skilja þau atriði sem varða hagsmuni þjóðarinnar allrar til langs tíma, jafnleg varanlega. Þess vegna er ábendinga og brýningar þörf eins og þeirrar sem hér um ræðir, ekki síst vegna þess að svo virðist sem margir telji að málið snúist einungis um lóð undir hótel og golfvöll með tilheyrandi fyrir gesti og gangandi.
Eins og Ragnar bendir á getur orðið erfitt eða ógerlegt að segja "leigjendunum" upp ef/þegar í ljós kæmi að þar færi fram eða stefndi í starfsemi sem ekki færi saman við íslenska hagsmuni og þjóðarvilja. Dæmin um nútímalega "nýlendustefnu" Kínverja ættu að kveikja viðvörunarljós í því sambandi. Hér gæti verið um að ræða "óafturkræf afsamningsáhrif".
Hér er ekki verið að tala um að "slá á hendur" Kínverja, heldur viðleitni til að hafa öll spil uppi á borðinu svo íslensk yfirvöld viti um hvað verið er að ræða í bráð og lengd og taki ákvarðanir um þessi mál og útfærslur á þeim með viðeigandi varnöglum í því ljósi.
Íslendingar eiga að geta gert hagfellda viðskiptasamninga við Kínverja til lengri tíma ekki síður en aðrar viðskiptablokkir í heiminum, bæði austan og vestan Atlantshafsins. Slík samningagerð á að vera fyrst og fremst á meðvituðum forsendum um íslenska þjóðarhagsmuni.
![]() |
Ragnar Önundarson: Um Grímsey, Grímsstaði og Grænland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2012 | 12:52
Líkamlegar tilvistarspurningar og upplýsingaleynd
Til hvers er fyrirbæri eins og lífsýnasafn ef ekki til að gagnast lifandi fólki?
Það er harla öfugsnúið ef það er til að gæta hagsmuna hinna dauðu.
Svo gæti virst að tillit til hinna dauðu og þöggun á hugsanlegum blekkingum í liðinni tíð sé gert hærra undir höfði en möguleikanum á að leiða sannleikann í ljós um ætterni bráðlifandi fólks.
Þannig virðist í pottinn búið í ætternismáli Jakobs Frímanns Magnússonar tónlistarmanns, en erindi hans um lífsýni látins fólks til að leiða í ljós staðreyndir um meintan forföður hans var hafnað á forsendum um þagnarskyldu af hálfu Lífsýnasafnsins og persónuverndar af hálfu Persónuverndar.
Er jafnréttis gætt með því að einungis angistarfullt fólk tengt meintum líkamlegum sjúkdómum hafi gagn af lífsýnum látins fólks en aðrir ekki? Hvað með andlega heilsu fólks? Skipta líkamlegar tilvistarlegar spurningar lifandi fólks af andlegum og jafnvel öðrum hagsmunalegum ástæðum þá engu máli?
![]() |
Jakob vill lífsýni Davíðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2012 | 00:01
Flókið eða gegnsætt veiðigjald?
Sú útfærsla ríkisstjórnarinnar á veiðigjaldinu sem nú hefur verið samþykkt sem lög er meingölluð. Ástæðan er sú að hún byggir að hluta til á kolröngum og ógegnsæjum stofni, þ.e. eftirá reiknaðri og bjagaðri "framlegð".
Gegnsætt og auðskiljanlegt veiðigjald og í anda svokallaðrar fiskihagfræði væri einfaldlega flatt krónutölugjald á t.d. þorskígildiskíló. Þannig hefði slíkt veiðileyfagjald til dæmis um 54 krónur á hvert þorskígildiskíló skilað um 15 milljörðum króna í heildartekjur til ríkisins miðað við heildarkvóta yfirstandandi fiskveiðiárs, svo tekið sé mið af væntri heildarupphæð veiðigjalds samkvæmt nýju lögunum.
Það er þó ekki þar með sagt að slíkt flatt gjald gengi undantekningalaust meðan verið er að aðlagast því.
Svona útfærsla á veiðileyfagjaldi með krónugjaldi pr. kíló felur í sér að allir aðilar vita að hverju þeir ganga fyrirfram þegar heildarkvótar hafa verið ákveðnir hverju sinni og útgerðaraðilar geta ekki bjagað álagningarstofninn með ýmsum ráðum.
Svona útfærsla væri afgerandi gegnsærri en sú sem hið flókna ný-samþykkta veiðigjald byggir á.
![]() |
Frumvarp um veiðigjöld að lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2012 | 22:26
Sérhagsmunaflokkur fellir grímuna
Hinir almennu kjósendur skulu leggja það vandlega á minnið sem Einar Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins lofaði, samkvæmt sjónvarpsfréttum á RÚV í dag 19.6.2012, að flokkur hans myndi afnema ný-samþykkta tempraða hækkun á veiðigjaldi fyrir aflaheimildir um leið og hann kæmist til valda og færa þann hluta auðlindarentunnar skilyrðislaust aftur til skjólstæðinga sinna, kvótahafandi útgerðarfélaga.
Það lá í orðum þingmannsins að hann teldi það víst að það yrði í kjölfar næstu þingkosninga.
Nú reynir á almenning, kjósendur, hvort þeir telji það sjálfsagt að afsala sér auðlindarentunni áfram til núverandi kvótahafa með því að kjósa flokk þingmannsins. Sá flokkur hefur ávallt leitast við að telja sama almenningi og kjósendum trú um að hann sé flokkur þeirra! Er nú ekki orðið glertært hvaða sannleikur felst í slíkum fullyrðingum?
Eðli málsins samkvæmt munu þeir sem telja sig sérhagsmuna eiga að gæta kjósa "sína" flokka, en er almenningur ekki búinn að átta sig á því að hann er þar ekki í fyrstu forgangsröð þegar kemur að skiptingu efnahagslegra gæða á þeim vettvangi?
![]() |
Þór Saari: Kominn tími á kosningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.5.2016 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2012 | 12:59
Varðmaður lýðræðisins, íslenska fjallkonan eða annað?
Mér sýnist af áherslum í málflutningi Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda að hún leggi enga áherslu, nema síður sé, á það sem skiptir einna mestu máli við forsetaembættið, en það er að vera neyðarvörn lýðræðis almennings gagnvart einstefnu flokksræðis og þingræðisins á hverjum tíma ef sú stefna fer gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í tilteknum málum.
Réttsýnn og dómbær forseti leysir úr læðingi hið lýðræðislega afl þjóðarinnar, kjósendanna, gagnvart umboðsmönnum hennar, þingmönnunum, ef þeir vilja fara freklega gegn vilja meirihluta kjósenda með tiltekinni lagasetningu með afdrifaríkum afleiðingum. Forsetinn er þannig í þeim krafti sannarlega varðmaður lýðræðisins er svo ber undir.
Það eru grillur einar að ein persóna, forsetinn, geti verið "sameiningartákn allrar þjóðarinnar" í þeim skilningi að allir séu sammála um veru hans að öllu leyti vegna þess að ávallt eru misjafnar skoðanir um persónu hans eins og allra manna, eðli málsins samkvæmt, hver svo sem gegnir embættinu.
Slík persóna er einungis til í goðsagnarkenndum persónugervingum eins og íslensku fjallkonunni.
Hver og hvers konar maður eða kona ætlar sér þá dul að geta tekið hennar sess í íslenskum raunveruleika?
Hið raunverulega sameiningarafl íslensku þjóðarinnar eru þau gildi sem hún vegsamar mest og heldur í heiðri er á reynir í hinu mannlega samfélagi; Það að vera Íslendingur og/eða íslenskur þegn með öllu því sem því tilheyrir, svo sem tungumáli, sögulegum arfi og rótgrónu eðli og viðhorfum.
Þeir forsetaframbjóðendur og aðrir sem álíta og halda því fram að forsetinn eigi einungis að vera einhver óskilgreind skrautfígúra "fyrir alla" og "valdalaus" hafa því misskilið gjörsamlega þetta lykilatriði í hlutverki forsetaembættisins samkvæmt núverandi stjórnarskrá sem tengist 26. greininni. Þeir virðast því, vísvitandi eða óafvitandi, setja vilja fulltrúa kjósenda á þingi og stjórnmálaflokkanna þar að baki ofar vilja almennings og ofar raunverulegu lýðræði.
Íslensk þjóð hefur enga þörf á forsetaembætti og forseta sem einungis er slík óskilgreind "valdalaus toppfígúra" og rænulaus "lagastimpill" fyrir ríkjandi stjórnarmeirihluta. Það væri aðeins þarflaus kostnaðarauki. Af slíkum er nóg í hinni opinberu stjórnsýslu.
![]() |
Ætlar sér að brúa bilið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.6.2012 | 12:24
Félagsmálavæðing kvótahafa
Í tengslum við viðhangandi sparlega yfirlit mbl.is um grein Gústafs Aolfs Skúlasonar, fv. ritara Smáfyrirtækjabandalags Evrópu, um það sem hann kallar "árásir ríkisstjórnarinnar á best rekna sjávarútveg í heimi" vakna nokkrar spurningar:
1) Hvað á Gústaf Adolf við með "best rekna sjávarútvegi í heimi"? Er viðmið hans frá sjónarhóli kvótahafandi útgerðarmanna eða þjóðarhags og almennings?
2) Er Gústaf Adolf virkilega að halda því fram að fiskveiðar verði stórminnkaðar við Ísland þannig að "sjómenn missi vinnuna" við það eitt að veiðigjald verði hækað og hluti auðlindarentunnar svokölluðu færður frá kvótahöfum til almennings? Hver á að trúa svona málatilbúnaði? Fiskveiðar verða ávallt stundaðar við Ísland meðan fiskur fyrirfinnst.
3) Hvernig í ósköpunum tengist það útfærslu fiskveiðistjórnunarkerfis og upphæð veiðileyfagjalds að "ríkisstjórnin sé svo blinduð af ESB" að mati Gústafs Adolfs? Hann virðist hér gagnrýna ESB-áráttu ríkisstjórnarinnar, en það er nú allt annað mál og mætti hann furða sig sem mest á því og reifa það út af fyrir sig í annan stað.
4) Gústaf Adolf telur að í yfirstandandi aðgerðum LÍÚ felist "ný von fyrir Íslendinga að vernda atvinnu sína". Hvaða Íslendingar aðrir en kvótahafar og sérstaklega gjafakvótahafar, núverandi hirðar auðlindarentunnar, gætu talið það "von" fyrir sig?
5) Það væri í dúr við þá furðulegu áráttu margra íslenskra kjósenda að láta blekkjast til að kjósa gegn eigin hagsmunum ef þeir færu "að taka höndum saman og standa þétt að baki ... útgerðarmönnum ..." við skiptingu arðsins af fiskveiðunum milli kvótahafa og almennings/ríkissjóðs! Er það það sem Gústaf Adolf finnst sjálfsagt að þeir geri?
Af málflutningi Gústafs Adolfs mætti ráða að hann mæli fyrir áframhaldi á því sem kalla mætti "félagsmálavæðingu kvótahafa", svo notað sé hans eigið orð, og að þeir einir fái áfram auðlindarentu þjóðarinnar eins og hún leggur sig fyrir þá smáaura sem þeir hafa verið að greiða í nokkur ár í veiðigjald við mikla kveinstafi; Samhliða því að hluthafar útgerðarfyrirtækja hafa fengið greiddar út fúlgur í arð.
Auðlindarenta sú er drjúgur "félagsmálastyrkur" frá þjóðinni til kvótahafa. Svo virðist sem Gústaf Adolf telji það "skemmdarverk" ef loksins ætti að hrófla við því fyrirkomulagi.
![]() |
Gústaf Adolf Skúlason: Félagsmálavæðing ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2012 | 21:30
Velferðarstefna eða helferðarstefna
Sífellt fleiri taka undir þessar leiðir sem Lilja ásamt Samstöðu hefur bent á til að losna við þann yfirvofandi skaðvald sem 1000 milljarða "snjóhengja" af innlyksa fé hérlendis er, ef viðkomandi fjármagnseigendur sjá ekki sóma sinni í því að fjárfesta þá hér viljugir til langs tíma.
Þennan púka þarf að losna við sem fyrst vegna þess að meðan ekkert er aðhafst heldur hann áfram að mala sér gull í formi inneignarvaxta með hávaxtamaskínu peningastefnunefndar Seðlabankans.
Til að halda þessari gífurlegu fjárupphæð "sjálfviljugri" hérlendis þarf reyndar markvisst að bjóða upp á fjárfestingarkosti á móti.
Þar duga ekki sýndaráform eins og nýlega voru kynnt af ríkisstjórninni sem á að hrinda í framkvæmd einhvern tímann eftir fyrirsjáanlega lífdaga hennar, enda gerast "bjargráðin" varla hallærislegri.
Ekkert annað en ömurleg helferð fyrir íslenskan almenning fylgir þeirri hugmynd og áformum Samfylkingar að einhvers konar (ennþá óljós) fyrirgreiðsla ESB muni leysa vandann, v.þ.a. þar er reiknað með að greiða niður alla þessa fjárhæð á einhverjum ótilteknum tíma með vöxtum.
Hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um snögga afléttingu gjaldeyrishafta þar sem fjárhæðin yrði leyst út með lánsfé gjaldeyrisforða Seðlabankans er heldur ekkert annað en snögg kollsteypuhelferð. Gjaldeyrisforði landsins yrði þá upp urinn og hátt í jafnháar vaxtaberandi skuldir sætu eftir hliðstætt og á við um afleiðingar hörmungarstefnu Samfylkinngar.
Það sem blasir við að þurfi að gera ef komast á hjá efnahagslegri helferð Íslendinga er einmitt þetta sem Lilja með Samstöðu að bakhjarli bendir á.
Fari snjóhenguféð ekki með góðu í langtíma raunfjárfestingar hérlendis getur það heldur aldrei farið óskert úr landi.
![]() |
Vill hóta eigendum snjóhengjunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2012 | 15:59
Siðlaus HÁvaxtastefna gegn sumum
Á þessu bloggi hefur margoft verið andæft gegn þeirri hávaxtastefnu sem rekin hefur verið hérlendis undanfarin ár. Nú eru enn einu sinni uppi hugmyndir um það hjá Seðlabanka Íslands að hækka vexti á nýjan leik "til þess að sporna við verðbólgu"!
Er fólkinu sem fyrir þessu stendur fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni og gera þungbæra skuldabyrði enn þyngri.
Samtímis eykur það tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda.
Ég vitna hér í fyrri pistil um þessi mál frá 12.7.2011, sem greinilega á enn við:
Furðulegar hugmyndir um að hækka stýrivexti, sem seðlabankastjóri viðrar nú í fréttum, gefa því miður vísbendingar um að hann og/eða stjórn Seðlabankans hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í kjölfar bankahrunsins 2008.
Ennfremur að fræðingar þar á bæ skelli skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur.
Að minnsta kosti fara þeir ekki eftir hvorki grundvallar hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu, eins og hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (í viðtengdri frétt mbl.is 12.7.2011), né heldur heilbrigðu innsæi.
Það ætti að vera augljóst hverjum manni að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, myndi gera erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og gera út af við enn fleiri.
Ef það er stefna Seðlabankans er þessi vaxtahækkunarógn af hans hálfu náttúrulega skiljanleg.
Hækkun stýrivaxta við þessar aðstæður hefði hins vegar í sjálfu sér engin áhrif til að minnka verðbólguna, en kyndir þvert á móti undir meiri verðbólgu sem einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar; Sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum.
Hækkun stýrivaxta eflir hag fjármagnseigenda hinna meiri. Hækkun stýrivaxta nú eflir fyrst og fremst þeirra hag, en er öllum skuldurum í óhag, bæði fyrirtækjum og heimilum landsins og þar með efnahagslífi landsins.
Þar sem gjaldeyrishöft eru í gildi eru það ekki gild rök að halda því fram að hækka þurfi vexti til að halda inneignum erlendra aðila kyrrum í íslenska bankakerfinu. Seðlabankinn hækkaði samt stýrivexti í ofurhæðir (eftir að hafa áður hafið lækkunarferli í kjölfar hrunsins) samkvæmt tilmælum AGS þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Það gaf innistæðueigendunum vaxtatekjur sem sliguðum skuldurum var gert að borga í ofanálag við snögghækkaðar verðbætur lána sinna og stökkbreyttar skuldir. Þessari viti firrtu hávaxtastefnu seðlabankamanna, að því er ætla mætti lénsherra erlendra fjármálaafla, þessari aðför að skuldsettu efnahagslífi landsins, þarf að andæfa af krafti og hörku. Hvar eru talsmenn Íslendinga?
![]() |
Spá stýrivaxtahækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)