20.6.2013 | 13:21
Einfalt og skilvirkt veiðigjald
Ég hef bent á það sjónarmið að ein einfaldasta aðferð við skattlagningu á nýtingu sjávarauðlindar landsmanna sé að leggja á tiltekið krónugjald á hvert aflakíló. Þessi aðferð er gagnsæ og skilvirk og auðveld í framkvæmd og eftirliti.
Auk þess er slík aðferð í anda fiskihagfræði varðandi það að stuðla að hagkvæmni í útgerð (sbr. t.d. tengdar ábendingar og greiningar H. Scott Gordon, Anthony Scott og Nóbelsverðlaunahafans Vernon L. Smith, nokkurra frumkvöðla innan fiskihagfræði upp úr miðri 20. öld). Kílógjaldið gæti einnig verið mismunandi hátt eftir fisktegundum og/eða flokkum og stærðum fiskiskipa og báta, en í því fælist viðleitni til stjórnunar á samsetningu fiskiskipaflotans m.t.t. þjóðhagslegrar hagkvæmni og fleiri þátta.
Sú stefna að tengja veiðigjald við afkomu útvegsfyrirtækjanna eins og núverandi lög gera ráð fyrir er óhagkvæm, ógegnsæ, seinvirk og ónákvæm, matskennd og kostnaðarsöm aðferð og býður upp á undanbrögð af hálfu útgerðaraðila. Hún stuðlar vegna þess arna heldur ekki að hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Hún gerir stjórnvöldum jafnframt erfitt um vik að áætla árlegar tekjur ríkisins af veiðigjaldinu.
Þess utan er að mörgu að hyggja varðandi fiskveiðistjórnun, kerfislegar útfærslur og lög í því sambandi.
Vel hægt að leysa málin með vilja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2013 | 12:00
Losun mannafls
Það sem felst í þessum hugmyndum um styttingu skólatímans um allt að tvö ár er m.a. losun tveggja heilla árganga af færu vinnuafli út á vinnumarkaðinn, e.t.v. um átta þúsund manns. Þessi fjöldi kæmi um síðir aukalega inn á vinnumarkaðinn tilsvarandi fyrr innan styttra námstímakerfis en nú er.
Þar til viðbótar kemur svo umtalsverður hluti þess kennarafjölda sem nú er í fullri kennslu en myndi losna um við styttri námstíma á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.
Spurningin er hvað gera á við allan þennan mannafla þegar þar að kæmi ef ekki hefur þá tekist að skapa (viðeigandi) störf fyrir fólkið.
Einnig hefur skólafólk á framhaldsskólaaldri og jafnvel yngri en það notað sumartímann til að afla sér tekna til að fjármagna nám sitt að hluta. Verði árlegur námstími lengdur þannig að sumarfrí nemenda (og kennara) verði ekki lengra en nokkrar vikur, hvernig á þá að bregðast við tekjumissi nemenda?
Verða þeir efnaminni þar með útilokaðir frá námi?
Eða, verður tekið upp hnitmiðaðra áfangakerfi á framhaldsskólastigi þar sem nemendur geta tekið sér hlé frá námi eftir atvikum þótt virkur námstími hvers og eins verði styttri en nú er?
Hvað yrði um þá sem ekki fengju vinnu eftir að námstíminn hefur verið styttur, sökum offramboðs á vinnuafli? Ef sú staða kemur upp væri berlega komið í ljós að núverandi "langa" námstímakerfi felur í sér dulið atvinnuleysi. Þá má velta vöngum yfir því hvort betra sé að hafa unga fólkið í skóla með öllum þeim beina kostnaði sem skólakerfið felur í sér eða hafa það á atvinnuleysisbótum ella.
Þessa og fjölmarga aðra þætti, ekki síst félagslega, þarf að skoða og kortleggja vandlega áður en hlaupið er í að stytta námstíma nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi.
Þá þarf ekki síður að endurskipuleggja námsframboðið og innihald námsins á hverri námsbraut með tilliti til starfsvals hvers og eins eftir getu hans og áhuga sem og eðlilegri þörf atvinnulífs og samfélags fyrir mismunandi þekkingu og færni. Ef til vill væri nærtækast og réttast að byrja á að skoða þessa þætti fyrst.
Vill útskrifa stúdenta 18 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2013 | 18:12
Verðteygni og virðisaukaskattur í ferðaþjónustunni
Það mætti halda að fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé ekki meðvitaður um það hagfræðilega fyrirbæri sem kallast teygni eftirspurnar og verðteygni ef dæma má af ummælum hans í viðhangandi fréttaviðtali um áhrifin af lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónusu á Íslandi; Enda er það e.t.v. ekki til umfjöllunar í námi jarðfræðinga. - Eða þá að hann og þeir sem eru sama sinnis telji að eftirspurnin eftir ferðaþjónustu á Íslandi sé almennt "óteygin" (lægri en 1, sbr. neðar).
Varðandi umræðu um áform um lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu á Íslandi er vert að benda stuttlega á eftirfarandi almennu atriði um teygni eftirspurnar:
Hugmyndin að baki verðlækkunar snýst um það að með því náist hærri velta vegna meiri magnsölu en ella.
Sé verðteygni vöru meiri en 1 myndi sölumagn vöru aukast hlutfallslega meira en sem nemur tiltekinni verðlækkun og veltan myndi þá aukast. Það á t.d. við um samkeppnisvörur og þar sem ríkir "fullkomin samkeppni".
Sé verðteygni vöru minni en 1 myndi sölumagn aukast hlutfallslega minna en tiltekin verðlækkun á vörunni og veltan því minnka, en aftur á móti myndi sölumagn þá ekki minnka hlutfallslega jafn mikið og tiltekin verðhækkun. Þetta á t.d. við um vörur sem fólk vill ógjarnan vera án á tilteknu verðbili og tímabili, svo sem tóbak og áfengi. Verðhækkun ríkisins á tóbaki og áfengi byggir m.a. á þeirri forsendu að velta muni þrátt fyrir það aukast, þ.e. að magnsalan minnki hlutfallslega minna en verðhækkuninni nemur (eftirspurnin óteygin).
Ferðaþjónustan á Íslandi býður almennt séð upp á þjónustu sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni við hliðstæða þjónustu í öðrum löndum sem bjóða upp á valkosti fyrir ferðafólk.
Skynsemin í og rök að baki almennrar verðlækkunar á ferðaþjónustu, eins og tilfellið er með lækkun virðisaukaskatts innan þeirrar greinar, byggir því á þeirri forsendu að eftirspurnin eftir henni sé teygin, þ.e. verðteygnin hærri en 1, og að veltan og afraksturinn innan hennar (þar með talið tekjur hins opinbera í formi vsk) muni því ekki minnka við vsk-lækkunina heldur þvert á móti aukast.
PS. Formúlan fyrir útreikning á teygni eftirspurnar (e) er:
e = Hlutfallsleg breyting í magni eftirspurnar
Hlutfallsleg breyting á verði
Skuldarar fá leiðréttingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2013 | 16:55
Veiðigjald og fiskveiðistjórnun
Það væri kolröng stefna að tengja veiðigjald við afkomu útvegsfyrirtækjanna. Það er ógegnsæ, seinvirk og kostnaðarsöm aðferð og býður upp á undanbrögð af hálfu útgerðaraðila. Hún gerir stjórnvöldum jafnframt erfitt um vik að áætla tekjur ríkisins af veiðigjaldinu næsta árið hverju sinni.
Sú aðferð sem síðasta ríkisstjórn ætlaði að fara við ákvörðun á sérstöku veiðigjaldi er meingölluð varðandi það að ætla að meta eða áætla stóran kostnaðarlið útgerða eins og fjármagnskostnað og afskriftir í sambandi við reiknaðan gjaldstofn veiðigjalds - eins og menn standa frammi fyrir núna að er ógerlegt með vitrænum hætti.
Hentug leið, sem jafnframt er gegnsæ og skýr og skilvirk, er að leggja krónutölugjald á hvert veitt og landað kíló fisks.
Hitt er annað, að aflatengt veiðigjald (kr/kg) gæti e.t.v. verið mismunandi hátt eftir fisktegundum og/eða flokkum og stærðum fiskiskipa, en í því fælist viðleitni til stjórnunar á samsetningu fiskiskipaflotans m.t.t. þjóðhagslegrar hagkvæmni og fleiri þátta. Fleiri útfærslur koma vissulega til greina í þá veru í þessu sambandi.
Útgerðarmenn vonsviknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2013 | 15:03
Frábær árangur
Rík ástæða er til að óska starfsmönnum og eigendum hugbúnaðarfyrirtækisins Annata til hamingju með frábæran árangur við þróun og markaðssetningu viðskiptahugbúnaðar.
Stofnendur og starfsmenn Annata í upphafi voru þá þegar afar færir við allt sem lýtur að árangursríkri hönnun, forritun og gangsetningu hugbúnaðarkerfa og verkefnastjórn þar að lútandi og hafa síðan á þeim sterka grunni markað sér farsæla stefnu við þróun lausna og landvinninga, eins og sjá má.
Til hamingju! Hugvitið verður í askana (og gjaldeyrissjóð) látið!
Annata fær verðlaun frá Microsoft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2013 | 13:11
Öll verðtryggð lán heimila leiðrétt?
Í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í skuldamálum heimilanna eru all-skýr ákvæði sem og í meðfylgjandi greinargerð og tekið er fram með skýrum hætti hver á að sjá um vinnu í sambandi við hvern hinna tíu liða og hvaða ráðherra ber þar ábyrgð, sem er mikilvægt.
Ein spurning vaknar þó varðandi lið 1 um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána:
Í sjálfri þingsályktunar-tillögunni kemur m.a. fram að um sé að ræða aðgerðir varðandi "höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána"; Sem sé "húsnæðislána".
Í greinargerðinni kemur hins vegar m.a. fram varðandi lið 1 að þetta verði "Almennar aðgerðir sem gagnast öllum heimilum sem urðu fyrir forsendubresti" og að "Um sé að ræða leiðréttingu á forsendubresti".
Spurningin er hvort leiðréttingin nái til allra verðtryggðra veðlána heimila/einstaklinga, sem fyrirliggjandi voru á tímabilinu 2007-2010, þar sem viðkomandi hús- eða íbúðareign hefur verið lögð að veði óháð því hvort lánið var tekið við kaup á húsnæðinu eða síðar og óháð "tilgangi" einstaklinga með lántökunni.
Til dæmis hafa margir brugðið á það ráð við atvinnumissi að taka lán til að framfleyta fjölskyldunni.
Aðgerðir með áherslu á jafnræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2013 | 23:21
Upplýsandi stefnuræða forsætisráðherra
Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra nú við upphaf sumarþings 2013 var góð.
Hún var efnismikil og auðskiljanleg (nema sumum sem á eftir töluðu), vel jarðbundin og upplýsandi og vísaði til beinna aðgerða og ráðstafana sem hægt hefur verið að skilgreina á svo skömmum tíma frá stjórnarmyndun.
Hún var uppbyggileg og skapandi og ætti að gefa almenningi í landinu grundvallaða von um betri kjör, von bráðar.
Ísland verði í fararbroddi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2013 | 19:48
Eygló slær í staða klárana
Enn er fordæmisgildi gengislánadóms Hæstaréttar áréttað almenningi í hag. Nema hvað!
Drífa ber í því að klára þessa útreikninga umyrðalaust og skila lántakendum ofteknu fé tafarlaust. Ekkert múður meir af hálfu fjármálafyrirtækja sem dregið hafa lappirnar í að bregðast við fyrri dómum Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána!
Engin furða að nýr félags- og húsnæðismálaráðherra úr Framsóknarflokknum, Eygló Harðardóttir, skuli slá í staða klárana, enda er það aðgerð í þágu almennings.
Skýrt fordæmi gengislánadóms | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2013 | 17:35
Lausnarmiðaðir Íslendingar
Þessi dæmi sem hinn að eiginn mati ofurskipulagði Norðmaður tíundar hér (óskipulega) og af handahófi sýna í aðra röndina einkar vel hversu lausnarmiðaðir Íslendingar geta verið, a.m.k. sumir. Þegar vandamál blasir við er gengið í að leysa það fljótt og vel af einbeitni og krafti.
Á þessu eru að vísu undantekningar, eins og t.d. lausn snjóhengjuvandans sem skeikaði að sköpuðu heilt íslenskt kjörtímabil og á enn eftir að leysa. Ný ríkisstjórn mun samkvæmt kosningaloforðum sínum og stefnuskrá væntanlega sanna hið lausnarmiðaða eðli Íslendinga sem Norðmaðurinn, konan Gry Ek Gunnarsson, vísar til og rennir greinilega hýru auga til í hina röndina.
Maður gæti haldið að Gry Ek sé að gera gys að þeim sem hún kallar "óskipulega Íslendinga" þar sem hún vísar til leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjof í Reykjavík 1986 með þeirri kenningu sinni að líklega hefðu Íslendingarnir ekki getað haldið fundinn klúðurslaust ef þeir hefðu haft til þess langan fyrirvara eins og t.d. Norðmenn hefðu þurft að hafa fyrir slíkan stór-viðburð í heimssögunni.
Á móti má spyrja hvaða þjóð hefði getað gert þetta á sínum tíma með jafn góðum árangri og einmitt Íslendingar. Að vísu voru hér erlendir ráðgjafar og öryggissveitir með við hinn skamma undirbúning þannig að ekki voru Íslendingar einir á báti, en þeir komu þessu heim og saman við sínar aðstæður.
Hitt er annað að þar að auki skiptu einmitt aðstæður hér verulegu máli varðandi öryggisatriði. Landið er eyja og þá var landamæranna gætt með öflugu vegabréfaeftirliti; Þá var engin Schengen-gátt með opin hlið fyrir öll aðildarlönd þess, einungis heiðarlega Norðurlandabúa eins og Norðmenn meðal annarra.
Þetta er Íslendingum í blóð borið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2013 | 14:36
Nei!
Allt líf er samofið á einn eða annan hátt, jurtaríki og dýraríki ásamt mönnum.
Er eitur gott fyrir líf? Nei. Það er vægast sagt óhollt og slæmt fyrir heilsu lífvera.
Vil ég eta eitraða fæðu? Nei. Hver vill það?
Vil ég að framleiðendur úði eitri á grænmeti og ávexti og annað við ræktun og framleiðslu matvæla sem berst um síðir á diskinn minn? Nei, að sjálfsögðu ekki. Hver myndi gera slíkt? Hver myndi vilja það? Væri það ekki slæmt fyrir heilsuna?
En, er þá nokkuð vit í því að eitra garðagróðurinn við heimahús okkar?!
Þarf ég að láta eitra hjá mér? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)