Gjaldmiðill eða vaxtaokur

Hver er hinn raunverulegi skaðvaldur í íslensku efnahagslífi: Gjaldmiðillinn eða hreint og klárt vaxtaokur? Þarf ekki að huga að samfélagslegum stöðugleika í heild fremur en "fjármálalegum stöðugleika" fyrir fjármálafyrrtæki og lánveitendur?

Samtök atvinnulífsins segja að raunvaxtamunurinn á Íslandi samanborið við viðskiptalönd okkar upp á þrjú prósentustig (3%) sé vegna gjaldmiðilsins. Það svari til um 150 milljarða króna á ársgrundvelli. Það sé sú byrði sem íslensk fyrirtæki og heimili verði að “bera af íslensku krónunni”.

Hvernig væri að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sem þessu nemur og bankakerfið lækkaði vaxtamun sinn tilsvarandi til að ná fram hliðstæðum áhrifum?! Í kjölfarið myndi fylgja að fjárfestingar innanlands tækju þá kröftuglega við sér, en hátt vaxtastig hér hefur vegið þungt við að halda fjárfestingum niðri undanfarin ár.
Hvers vegna er ekki búið að drífa í þessu fyrir áralöngu síðan?
Þarf virkilega nýjan seðlabankastjóra og nýja peningastefnunefnd (eins og haft er í flimtingum í fréttum) til að bregðast við þessu vaxtaokri með viðeigandi hætti?

Málið er, að líkt og menn tala um að gæta þurfi að "fjármálalegum stöðugleika" í efnahagslífi landsins þá er ekki síður mikilvægt að huga að efnahagslegum stöðugleika heimila og almennra fyrirtækja jafnt og fjármálafyrirtækja og lánveitenda, til að stuðla með því að samfélagslegum stöðugleika í heild.
mbl.is Bera 150 milljarða aukakostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðigjald og sóknarstýring

Í yfirskrift viðtengdrar fréttar er fullyrt að veiðigjald dragi úr veiðum, en fréttin sjálf fjallar síðan um aðra hluti og því miður ekkert um rök fyrir þessari fullyrðingu. Hefði verið fróðlegt að fá þau rök fram hér.

Í þessu sambandi er vert að benda á að hérlendis var mikið fjallað í ræðum og ritum um leiðir til að takmarka sókn í ofnýtta fiskistofna fyrir um 30 áru síðan í ljósi minnkandi fiskistofna hér við land þá, þ.e. áður en núverandi kvótakerfi var tekið upp. Sú umræða fór m.a. fram í ljósi fræðilegs rökstuðnings ýmissa fræðimanna á sviði  fiskihagfræði, m.a. samkvæmt ritum  Nóbelsverðlaunahafans Vernon L. Smith frá 1968-'69 um þjóðhagslega hagkvæmni miðlægrar sóknarstýringar af hálfu hins opinbera samanborið við óhefta sókn sem felur í sér óþarflega mikinn tilkostnað við veiðarnar í heild.

Sem tæki til að draga úr of mikilli sókn var m.a. bent á kvótasetningu á heildarafla fisktegunda, e.t.v. með sölu veiðileyfa eða beinni skattlagningu á veiðar útgerða; Vel að merkja til draga úr sókn og leiða þar með til minnkunar á alltof stórum fiskveiðiflota landsmanna.
Hugmyndin að baki er sú að með því að tilkostnaður við veiðar verði nægilega mikið hærri en ella með tilkomu veiðileyfagjalds eða “skatts“ á veiðar í einhverju formi þá myndu einungis þær tegundir útgerða sem hagkvæmastar eru (fiskiskipaflokkar og veiðarfærategundir) halda áfram veiðum er til lengdar léti og þá hver upp að sínum hagkvæmnismörkum. Niðurstaðan yrði hagkvæmari fiskveiðar þjóðhagslega séð.
Eins og alkunna er varð kvótakerfið ofan á og aflaheimildum úthlutað í upphafi á níunda áratugnum án þess að gjald væri tekið fyrir.

Í fullyrðingu umræddrar fréttaryfirskriftar birtist nú sem sé vísbending um að gjaldtökuleiðin virki til þess að draga úr sókn, og það vel. Ekki bara það, heldur virkar hún líka í þá átt að óhagkvæmar rekstrareiningar eru lagðar af. Það er afar athyglisvert innlegg til íhugunar við mótun stefnu um fiskveiðistjórnun. 
(Sbr. sala stórra frystitogara úr landi undanfarið, en þar verður reyndar að hafa í huga að margir samverkandi þættir spila þar inn í auk veiðigjalds, svo sem launakostnaður, olíukostnaður og afurðaverð og eftirspurn á mörkuðum).

mbl.is Veiðigjaldið dregur úr veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um fréttir af veiðigjöldum

Hálfsannleikur í villandi samhengi er settur fram í meðfylgjandi fréttatilkynningu um þróun veiðigjalda á fréttasíðu sem heitir T24.
Þar er upphæð veiðigjalda deilt niður á hvern íbúa á viðkomandi útgerðarstöðum. Samkvæmt fréttinni mætti ætla að veiðigjöld séu heldur betur viðbótarálögur beint á íbúana. Fjarri fer því! Það er auðvitað fjarri lagi að stilla þessu upp svona.
Það eru auðvitað útgerðirnar sem greiða veiðigjöldin en ekki íbúarnir á staðnum.
Sömuleiðis eru það útgerðirnar sem fá tekjurnar af veiðunum en ekki íbúarnir.

Það hefði mátt sýna í greinargerðinni hverjar tekjurnar voru á umræddu tímabili, en þær deilast ekki niður á hvern íbúa á staðnum þeim til úthlutunar við aflasölu frekar en veiðigjöldin.
Sömuleiðis hefði mátt birta upphæðir annarra helstu kostnaðarliða, svo sem fyrir launakostnað og olíukostnað.
Enn hefði mátt sýna hvernig fiskverð hefur þróast á sama tímabili. Þá hefði e.t.v. sést að það er ekki einungis vegna hækkunar veiðigjalda sem sumar tegundir fiskiskipa eru ekki lengur eins hagkvæmar og áður (sbr. skipasölur úr landi undanfarið), heldur er það einnig vegna olíukostnaðar og tekjulækkunar vegna lækkandi fiskverðs á erlendum mörkuðum.

Líta ber á veiðileyfagjald sem einn af útgangspunktum rekstrarkostnðar við útgerð sem gengið er út frá sem vísum fyrirfram við reksturinn en ekki sem afgangsstærð sem dregst síðast frá hagnaði eftir á.

Alveg þar fyrir utan má svo endalaust deila um hve hátt veiðileyfagjaldið á að vera, en það ætti að vera einfalt krónutölugjald pr. aflakíló, sem gæti verið mishátt eftir fisktegundum og fiskiskipategundum og jafnvel háð fleiri atriðum.
Alls ekki ætti að reikna veiðileyfagjaldið eftir á og tengja það reiknaðri rekstrarafkomu síðasta árs hverju sinni eins og fyrrverandi ríkisstjórn ætlaði að haga málum, en það er afar óskynsöm, ónákvæm og óskilvirk aðferð (og óframkvæmanleg með þeim ónákvæma hætti eins og hugmyndin var samkvæmt þeim lögum sem felld voru úr gildi).


mbl.is Veiðigjöldin nífölduðust á fjórum árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningurinn 100.000 blaðsíður

Það hefur alltaf legið fyrir í umræðunni um umsókn Samfylkingar og Vinstri grænna að Evrópusambandinu (án umboðs þjóðarinnar) að um væri að ræða aðlögunarferli en ekki samningsferli. Á það hafa ESB-Já-sinnar ekki viljað hlusta, þó það standi skýrum orðum í lítilli klausu í umsóknargögnum ESB og margsinnis hefur verið á það bent. 

Samningurinn sem umsóknarsinnar hafa kallað eftir hefur þannig alltaf legið fyrir. Þeir sem hafa viljað "skoða í pakkann" hafa alltaf getað það einfaldlega með því að lesa þær rúmlega 100.000 (hundrað þúsund) blaðsíður sem lög og reglur ESB spanna. Það er allt fyrirliggjandi, eðli málsins samkvæmt.


mbl.is Engar varanlegar undanþágur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höggvið í sama knérunn

Viðtal Gísla Marteins Baldurssonar spyrils við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í þættinum Sunnudagsmorgni á RÚV þ. 16.2.2014 var með endemum.
Í stað þess að hlusta meðan viðmælandinn svarar þá óð spyrillinn flaumósa áfram með uppglennt augu og sperrtar brýr og talaði hvað eftir annað ofan í og yfir viðmælandann með aðdróttunum og eigin túlkunum sem hann tíðum ranghermdi upp á viðmælandann þannig að viðmælandinn komst varla almennilega að með skýr svör sín ótruflað fyrir en að hluta til undir lok þáttarins.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tekið er á móti Sigmundi Davíð á RÚV með þessum hætti. Gekk yfirgangurinn jafnvel svo langt að þveröfugt við það sem við átti þá kvartaði spyrillinn í miðju kafi yfir því við Sigmund að hann hefði iðulega kvartað undan óviðurkvæmilegum viðræðuaðferðum spyrla gagnvart sér í viðtölum!
Maður spyr sig hvort spyrillinn í þessu viðtali hafi ekki gerst sekur um einmitt það.

Gísli Marteinn (GM) vakti máls á hugmyndum sem fram hafa komið um að fjölga seðlabankastjórum í þrjá og dróttar því að forsætisráðherra (SDG) að hann hafi talið eitthvað rangt við val fyrrverandi ríkisstjórnar á núverandi seðlabankastjóra. Síðar segir GM að viðtalið snúist ekki um sig, eftir að vera nýbúinn að gera forsætisráðherra upp skoðanir í því sem hann var að orða sjálfur sem skoðanir ráðherrans. GM fullyrðir að tveir viðbótar seðlabankastjórar komi þar inn til að fylgja stefnu SDG! - Þetta er nátttúrulega hreinn spuni og vangaveltur GM sjálfs. -
Síðan fullyrðir GM að forsætisráðherra ætli sér að setja inn tvo seðlabankastjóra, „líka“, af því að fyrri ríkisstjórn gerði það er núverandi seðlabankastjóri var ráðinn! Í kjölfarið talar GM sem endranær ofan í viðmælandann þegar SDG reynir að leiðrétta rangtúlkanir og aðdróttanir spyrilsins. GM fullyrðir jafnframt að forsætisráðherra „komi“ þannig sínum mönnum inn, „ykkar mönnum“. - GM ætti þó að vita að ekki er búið að ákveða að fjölga seðlabankastjórum og þaðan af síður að þar séu „menn“ SDG komnir í þær stöður.
Þegar SDG reynir að leiðrétta GM með því að benda honum á að GM sé að leggja honum orð í munn og gera honum upp skoðanir og segja að SDG hafi sagt eitthvað sem hann hefur ekki sagt, þá veður GM yfir hann með dólgslegum og ókurteisum hætti og framígripum og ber SDG það á brýn að hann „komi“ og „skammist yfir fólk sem hefur sagt eitthvað“.
 Svör SDG við spurningum GM um hvað hann meinti með tilteknm orðum sínum í ræðu á nýafstöðnu viðskipaþingi túlkar GM síðan umsvifalaust sjálfur og botnar svör SDG með ályktun sinni um að SDG hafi þá verið að halda því fram að þingið hafi „viljað heyra að atvinnulífið væri að standa sig rosalega vel“. SDG benti þá GM vinsamlegast á að þetta hafi hann alls ekki sagt þannig og benti spyrlinum jafnframt á að lesa þurfi ræðuna í samhengi en ekki slá fram einstökum setningum eða setningarbútum úr samhengi sínu.
GM þráast áfram við nokkru síðar er hann segir að hann sé ekki að túlka sjálfur svör SDG, þegar SDG bendir honum aftur á að það sé hann einmitt að gera, eftir fullyrðingar og framígrip GM! GM þrjóskaðist samt við áfram með „rökunum“ sem smákrakkar grípa gjarnan til í þrætubókarlist sinni, þ.e. „Jú, víst!“

GM spyr síðan hvað SDG hafi átt við með ummælum sínum um að „sumir á viðskiptaþingi skipuðu sér með krossförum háskólasamfélagsins“. Þegar SDG bendir t.d. á að prófessorar hafi ítrekað komið fram á vettvangi blaða og RÚV til að gagnrýna íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu jafnvel með röngum fullyrðingum, þá segir GM að hann eigi væntanlega við tiltekinn prófessor sem hann nafngreinir. SDG bendir spyrlinum þá á að hann hafi þar með sjálfur nefnt dæmi um slíkan „krossfara“ og viti þá hvað hann hafi átt við. Þá bregst GM við með skætingi og ásakar viðmælandann um að vera með útúrsnúninga!

Það er leitun að annarri eins ókuteisi og yfirgangshætti hjá spyrli gagnvart viðmælanda í sjónvarpi, í þessu tilfelli sjálfum forsætisráðherra Íslands, nema ef væri það í mikilvægum viðræðuþætti á RÚV fyrir alþingiskosningarnar s.l. vor þar sem rætt var við Sigmund Davíð sem formann Framsóknarflokksins um stefnumál flokksins. Gagnstætt vinsamlegri viðtalsaðferð, jafnvel áfallahjálp, sem flestir aðrir flokksformenn urðu þar aðnjótandi í sömu þáttaröð í aðdraganda kosninga þá reyndi þáttastjórnandinn í viðtalinu við Sigmund Davíð ítrekað og af öllum mætti að hakka svör og útskýringar Sigmundar í spað með framígripum og eigin rangtúlkunum og hneykslunarkennda viðmóti og dómum um stefnumál flokksins. Sigmundur stóð þó það fárviðri af sér með sóma og festu og mælti þar af yfirvegun og rökfestu fyrir mikilvægum þjóðþrifamálum, þegar friður gafst inn á milli fyrir hamagangi spyrilsins.
Hið sama gerðist í þessu sunnudagsmorgunviðtali á RÚV við Sigmund Davíð, en nú sem forsætisráðherra. Þar var af hálfu RÚV höggvið í sama knérunn.
Þegar spyrillinn svokallaði fór loksins, undir lok viðtalsins, að þegja nokkurn veginn meðan viðmælandinn svaraði með eigin orðum þá fengu rökföst svör forsætisráðherra loks að njóta sín ómenguð eins og vera ber. Við því átti kjaftstopp spyrill með signar brýr og stirðnað bros ekki nein „mótrök“ nema þögn og „takk“, enda af honum dregið.

Yfir nýliðna helgi hafa margir hér á rafmiðlunum lýst yfir vanþóknun sinni og fordæmingu, svo vægt sé tekið til orða, á réttmætum og eðlilegum viðbrögðum forsætisráðherra við því sem kalla mætti atlögum spyrilsins Gísla Marteins að honum í viðtalinu og vænt hann m.a. um hroka og yfirgang. Hvernig getur fólk haft þvílík endaskipti á staðreyndum þegar það var þvert á móti spyrillinn sem reyndi ítrekað að valta yfir viðmælandann? – Sem spyrlinum í þessu tilfelli mistókst reyndar herfilega þegar upp var staðið!


mbl.is „Vá. Þetta var furðulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óverðtryggð lán, vextir og virkur húsaleigumarkaður

Þetta er "ódýr" umræða sem fram kemur í viðhangandi frétt á mbl.is um samanburð á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Þar er sagt að verðtryggð lán séu "dýrari" en óverðtryggð lán þegar átt er við að greiðslubyrðin sé þyngri af óverðtryggðum lánum á fyrri hluta lánstímans að gefnum forsendum um nægilega háa nafnvexti á hinum síðar nefndu.

Þegar búið er að bæta öllum verðbótum við höfuðstólinn á verðtryggðu láni og öllum vöxtum til viðbótar og bera það saman við vaxtabyrði af óverðtryggðu láni á öllum greiðslutímanum kemur annað í ljós. Þetta sést betur í frétt í Morgunblaðinu í dag, 14.2.2014 bls. 12, þar sem borin eru nokkur dæmi um verðtryggð og óverðtryggð lán. Þar kemur fram að heildargreiðsla ("Samtals greitt") fyrir verðtryggð lán á lánstímanum er umtalsvert hærri en fyrir óverðtryggð lán.

Hérlendis þurfa stjórnvöld að vinda sér í það, og þó mörgum árum fyrr hefði verið, að stuðla að virkum leigumarkaði fyrir húsnæði. Hagstæður húsnæðisleigumarkaður er gott svar sem uppbyggilegur valkostur í stað kaupa á "eigin" húsnæði vegna vaxtabyrði og kostnaðar af lánum. – Jafnframt þarf að leggja af verðbólguhvetjandi hávaxtastefnu Seðlabankans sem enn er við haldið þrátt fyrir kirfilegt skipbrot hennar við hrunið og afleiðingar hennar hingað til. Þar á bæ er nú hótað vaxtahækkunum á nýjan leik; Og hvað gerist? Verðbólguvæntingar aukast samstundis og vaxtakostnaður í kjölfarið og útkoman verður meiri verðbólga! Samfara aflagningu verðtryggingu neytendalána þyrfti að breyta um stefnu í Seðlabankanum þannig að meginmarkmið hans verði að viðhalda efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika með viðunandi atvinnustigi í stað „verðbólgumarkmiða“.

Þeir sem hallmæla óverðtryggðum lánum og mæra verðtryggð lán gefa sér gjarnan þá forsendu að vextir á óverðtryggðum lánum myndu rjúka upp í hæstu hæðir til frambúðar og vaxtakostnaður óverðtryggra lána því verða miklum mun hærri en samanlögð áhrif af verðbólgu og vöxtum á verðtryggðu lánum.
Þetta er ekki raunsæ forsenda ef allt er með felldu. Eins og fylgjendur verðtryggðra lána (bankar og lánveitendur og taglhnýtingar þeirra) hampa nú í fréttum horfist fólk í leit að húsnæði í augu við tiltölulega þunga greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum með háum nafnvöxtum og sér því strax hvort það geti staðið undir henni eða ekki og tekur þar af leiðandi (og vonandi) rétta ákvörðun í samræmi við það, hver í sínum aðstæðum. Verði verðtryggðir fjármögnunarkostir af lagðir við kaup á húsnæði og sala á húsnæði drægist saman vegna óviðráðanlegra vaxta, þá yrði eðlilegt svar lánveitenda lækkun vaxta (sem stuðlar jafnframt að lækkandi verðbólgu); Fái lögmál framboðs og eftirspurnar að njóta sín óbjagað. Virkur og hagstæður húsaleigumarkaður flýtir fyrir því ferli.


mbl.is Greiðslubyrðin er of þung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðakerfi og fjárfestingar

Í pistli sínum í dag, 8.2.2014, heldur Páll Vilhjálmsson því fram að lífeyrissjóðir séu í gíslingu forstjóra stórfyrirtækja og færir fyrir því sterk rök með nærtækum dæmum. Vitnar Páll í því sambandi í merkilega og umhugsunarverða grein Einars Sveinbjörnssonar stjórnarmanns í Söfnunarsjóði lífeyristrygginga í Morgunblaðinu í dag (Lífeyrissjóðirnir og N1, bls. 34) sem varar þar við myndun „elítulífeyriskerfis“ fyrir hálaunaða stjórnendur eins og dæmi er um hjá olíufélaginu N1 (sem áður seldi vörur sínar undir merkjum Esso).
Jafnframt ábendingum um hættu á þvílíkri og annars háttar spillingu innan núverandi lífeyrissjóðakerfis bendir Páll á að breytinga á því sé knýjandi þörf með tilheyrandi lagabreytingum. Ég er sammála ábendinum Páls í þessa veru.

Núverandi lífeyrissjóðakerfi með söfnunarsjóðum er komið út í algjörar ógöngur eftir áföll við hrunið 2008 og nú orðið innan gjaldeyrishaftanna þar sem fjárfestingarmöguleikar sjóðanna takmarkast við atvinnulíf og valkosti á Íslandi. Gífurlegt tap varð hjá lífeyrissjóðum við hrunið upp á mörg hunduð milljarða króna og í kjölfarið kom núverandi ástand með stórlega skertum ávöxtunarmöguleikum og óásættalegri fjárfestingaráhættu undir gjaldeyrishöftunum með fyrirsjáanlega hörmulegum afleiðingum fyrir lífeyrissjóðina/spariféð og efnahagslífið í heild. Og, áfram er stórfé (12% eða meira af öllum launum) dælt mánaðarlega í stútfulla lífeyrissjóðina! Þetta ætti að vekja hugsandi fólk til umhugsunar. Spurningin er hvort nægilega margir  þingmenn átti sig á þessu.

Augljósasta leiðin til skoðunar út úr þessum ógöngum er að taka upp gegnumstreymiskerfi eins fljótt og verða má, eins og tíðkast í flestum löndum Evrópu/erlendis. Þar með ætti jafnframt að sparast óhemju rekstrarkostnaður sem nú fer í rekstur lífeyrissjóðanna og ævintýralega há laun stjórnenda þeirra í stað þess að gagnast launafólki beint; Að ekki sé talað um að fjarlægja þar með möguleika á spillingu eins og þeirri sem Páll og Einar benda á. 
Að öðrum kosti til bráðabirgða hreinlega að stöðva iðgjaldagreiðslur launafólks í lífeyrissjóðakerfið að umtalsverðu leyti meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði, með lögum. Það yrði jafnframt gott innlegg á launareikning og séreignarsparnaðarreikninga fólks núna.

Í pistli frá 2009 á þessari blogsíðu varpa ég fram spurningum um hvort lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks ásamt mótframlagi launagreiðenda séu skattlagning í reynd og færi rök fyrir því að svo sé, ekki síst þar sem launþegar hafa sjálfir afar lítið um það að segja hvernig fénu er varið og fá það ekki allt til baka aftur á ævi sinni. Síðar bæti ég svo við athugasemdum um að lífeyrissjóðirnir séu í reynd nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs (Fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs kemur í ljós).

Þetta vekur spurninguna um að hve miklu leyti sparnaður launþega í formi iðgjalda til lífeyrissjóða ásamt mótframlagi atvinnurekenda, alls 12% eða meira, sé í reynd „eign“ launþega eftir greiðslu þeirra gjalda sem frádráttar frá launaútborgun hverju sinni.
Þetta atriði er einn sterkur liður raka fyrir upptöku gegnumstreymiskerfis í stað núverandi uppsöfnunarkerfis í umsjá sérstakra lífeyrissjóða. Sbr pistillinn 
Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?


mbl.is Kaupa Höfðatorg af Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging neytendalána hamlar launahækkunum

Ein helstu rökin nú, eins og áður, fyrir "hóflegum" launahækkunum er yfirvofandi ógnin um hækkun verðtryggðra lána vegna afleiddrar aukningar á verðbólgu í kjölfarið. - Að sjálfsögðu hefur verðbólga af öðrum almennum ástæðum eins og verðhækkun vöru og þjónustu þar sitt að segja til viðbótar.

Meðal annars í auglýsingum undanfarið hefur verið hamrað á því að launahækkanir muni meðal annarra verðbólguvalda leiða til hækkunar á verðtryggðum skuldum launþega og þess vegna verði launþegar að stilla kröfum sínum um launahækkanir í hóf, sjálfum sér til hagsbóta.
Þessi rök hafa ávallt verið uppi á samningaborðinu við gerð almennra kjarasamninga undanfarna áratugi. 

Þetta sýnir enn og aftur að launþegar (og almenningur) þurfa að komast út úr vítahring verðtryggðra lána svo að lánamál og skuldastaða þeirra standi ekki í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa í formi launahækkana.

Framsóknarflokkurinn hafði þetta sem eitt af stefnumálum sínum fyrir síðustu kosningar, að stemma stigu við verðtryggingu neytendalána, enda er það réttlætismál að lántakendur beri ekki einir sér 100% áhættu af verðþróun eins og verið hefur og greiði fullar verðbætur samkvæmt henni auk vaxta.
Nú er starfandi nefnd sérfræðinga á vegum forsætisráðherra um hvernig hægt verði að koma því við. Á nefndin að skila niðurstöðum sínum og tillögum á næstunni. Allir hlutaðeigandi bíða spenntir; Lántakendur fullir eftirvæntingar, en lánveitendur ef til vill ekki eins hressir.


mbl.is Rjúfa verður vítahring verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsþjónusta innan seilingar

Sjúkrahjálp og samfélagsstoðir innan seilingar - Hver vill það ekki?
Er einhver sem vill neita sumum íbúum þessa lands um jafnan aðgang að samfélagsþjónustu, verandi sjálfur í skjóli?

Þegar hugað er að kostnaði við rekstur samfélagsþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu sem allir landsmenn eiga að njóta ber að skoða heildardæmið, en ekki aðeins afmarkaða þætti einangrað.
Síðan ber að ræða og taka ákvarðanir um útfærslu og skipulag þjónustunnar í því ljósi og með heildarhagkvæmni að leiðarljósi. Ætla mætti að það væri afar skynsamleg nálgun - ekki satt?

Þegar verið er að tala um kostnað hins opinbera við að veita nauðsynlega grunnþjónustu þarf að taka tillit til allra mikilvægra þátta sem varða þjóðhagslega hagkvæmni, en ekki einvörðungu beinan kostnað við stjórnsýslu og afhendingu þjónustunnar af hálfu hins opinbera.
Þar skiptir ekki síður máli aðgengi almennings eða notenda að þjónustunni og kostnaður þeirra og fyrirhöfn við að nálgast þjónustuna. Ekki gengur að horfa fram hjá því. Allar hliðar kostnaðar þjóðarinnar skulu upp á borðið og með í umræðuna.

Ekki er nema von að landsbyggðarþingmenn snúist til varnar ef ráðast á í einhliða sparnað á þessum sviðum af hálfu ríkisins.


mbl.is Styður heimamenn gegn ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við ætlum að vinna!

Já, ekki dugir að segjast og hugsa sér að "gera sitt besta" vegna þess að í því felst fyrirfram afsökun á að ná ekki markmiðinu.

Réttara viðhorf er að ætla sér að vinna, að ásetja sér það að ná markmiðinu og einblína á það. Í því er ekki gefinn neinn afsláttur. Á þessari vegferð er maður þó yfirleitt ekki einn, sem betur fer, til dæmis ekki fótboltalið.

Um þetta fjallar textinn við samnefnt lag mitt "Við ætlum að vinna", sem hægt er að hlusta á hér í spilaranum mínum (næst-neðsta lagið í röðinni); Helst með góðum hátölurum.

Gangi ykkur vel við að ná góðum og jákvæðum markmiðum ykkar!

Texti lagsins er eftirfarandi:

Við ætlum að vinna
ISRC: IS-V44-08-06714, á plötunni Lífsins gangur á gogoyoko.com
Höf. (c) Kristinn Snævar Jónsson
 
Við erum hér á óralangri leið, 
sem ekki verður talin bein og greið.
Á henni hljóta óteljandi ör
allir þeir sem þangað beina för.

En hugurinn og viljinn veita styrk
á veginum þótt glætan sé oft myrk.
Og fókusinn er festur markið á,
að fullkomna sitt verk og sigri ná.

Við ætlum að vinna og engu að sinna,
öðru en því, en að vinna á ný.
Það er svo gaman að sigra allt saman
og svo koma heim í fagnandi geim.
 
Í lífsins mörgu þrautum enginn er
alveg hjálparlaus sem betur fer.
Því fjölskyldan og fornvinirnir sjá
fyrir því sem orð og hvatning tjá.

::Við ætlum að vinna og engu að sinna,
öðru en því, en að vinna á ný.
Það er svo gaman að sigra allt saman
:: og svo koma heim í fagnandi geim.:: ::
:: Og koma svo heim í fagnandi geim.::


mbl.is Eiður og Birkir byrja í Zagreb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband