Opinberir starfsmenn tjá sig sem sérfræðingar

Hinn 30.8.2009 skrifaði ég bloggfærslu um m.a. um tjáningarfrelsi og tjáningarleiðir í tengslum við stefnu Seðlabanka Íslands í vaxtamálum og efnahagsmálin á Íslandi. Meðal annars auglýsti ég þar eftir því að fleiri opinberir starfsmenn og embættismenn tjáðu sig opinberlega sem sérfræðingar um þau málefni sem brenna á þjóðinni. Því miður hefur verið harla lítið eða nánast ekkert um það.

Á þessu var aðdáunarverð undantekning er Magnús Ingi Erlingsson héraðsdómslögmaður og starfsmaður hjá Seðlabankanum  ritaði grein í Morgunblaðið þ. 29.12.2009 undir yfirskriftinni "Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum". Fjallar hann þar um óréttmæti þess að íslenska ríkið veiti ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Færir hann rök fyrir því að ekki liggi fyrir því skýr lagaheimild, hvorki hérlendis né í Evrópulöggjöfinni. Lesið endilega greinina, sem er gott innlegg í umræðuna um þessi örlagaríku mál.

Í ofangreindum pistli mínum, Grímulaus skerðing tjáingarfrelsis og tjáningarleiða. Hvað segja Forman og Kant?, kemur m.a. eftirfarandi hvatning fram:

.. Ég bendi þessu ágæta og menntaða fólki og öðrum á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar; Það er ritið "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), samið í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinarinnar:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!"

Nú hefur a.m.k. Magnús Ingi brugðist við þessu. Megi það vera gott fordæmi og öðrum til hvatningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband