Bara tveir valkostir?

Haft er eftir blaðamanninum að bara séu tveir kostir fyrir Íslendinga í stöðunni: Leiðin til "skjóls" í Evrópusambandinu eða að hafna henni og einangrast þar með á frostbitinni ísauðninni í Atlantshafi til fjalla með Bjarti í Sumarhúsum, áður Veturhúsum.

Annað hvort er þessi fréttamaður fremur hlutdrægur í fréttaumfjöllun sinni eða að hann gerir sér ekki grein fyrir því að heimurinn er stærri en stóra bretland á Englandseyju og Ermasundsgöngin yfir í "skjólið í Evrópu". Hann gleymir að nefna nokkrar fleiri heimsálfur til sögunnar sem ásamt þeim sjálfum renna hýru auga til aðstöðunnar hér á Íslandi, sem verður sífellt mikilvægari.

Það er bæði dapurlegt og ergilegt að allt of margir stjórnmálamenn, ekki síst alþingismenn, skuli ekki hafa hugmyndir, hug eða nennu til að rannsaka aðrar leiðir ofan í kjölinn og kynna þær til umræðunnar á þessum viðsjárverðu tímum sem nú eru.
Þó eru á því undantekningar, eins og blaðagreinin "Metum kostina - reiknum dæmið" eftir Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing og fyrrv. alþingismann í Morgunblaðinu þ. 1. október s.l., s. 23. Þar er hann inni á hliðstæðum pælingum og hér eru viðraðar, þ.e. að greina afleiðingar af mismunandi valkostum aðgerða.
Greiningin sem forsætisráðherra fékk hjá Seðlabankanum í dag gekk ekki út á að greina slíka valkosti heldur að því er virðist fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, að meta afleiðingar þess að fara ekki ESB- og AGS-leið sem er í deiglunni og aðhafast ekkert að ella. Það er of mikil einföldun svo vægt sé til orða tekið. Það er slæmt að við skulum vera komin í þá tímapressu sem raunin er á núna, en dýrmætur tími búinn að fara forgörðum í sumar sem hægt hefði verið að nýta til að greina aðra valkosti.

Ef verstu spár andstæðinga þess að fylgja stefnu AGS ganga eftir, í ljósi fyrri reynslu landa af sjóðnum þar sem hann hefur verið kallaður til inngripa og þar sem þjóðir hafa fyrir rest tapað auðlindum sínum fyrir undirverð til erlendra aðila, þá hlýtur nánast hvaða vitræna leið önnur en sú stefna að vera betri þegar til lengdar lætur og upp er staðið.
Slíkar leiðir hafa því miður ekki verið kortlagðar með sanngjörnum hætti í umræðunni hér undanfarið eftir hrunið 2008. Þarf maður sjálfur, kjósandinn úti í bæ, að taka sig til við það á eiginn kostnað? Það er spurning hvort ekki sé einmitt komið að því og þó fyrr hefði verið, úr því að ekkert bólar á svona greiningu í umræðunni.

Það væri slæmt ef stjórnmálamenn láta hræða sig til einhverrar niðurstöðu í ákvörðunartöku sinni ef það kemur svo í ljós síðar að önnur lausn hefði verið ákjósanlegri eða skárri - og raunhæfur valkostur ef hann hefði bara verið skoðaður áður en stefnumarkandi ákvörðun var tekin.


mbl.is Telja íslensk stjórnvöld draga lappirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband