Svo virðist vera að álagspróf Fjármálaeftirlitsins (FME) á bönkunum hafi verið meingölluð ef marka má afhjúpandi frásögn Fréttablaðsins um viðtal við fyrrverandi forstjóra FME, Jónas Fr. Jónsson.
Skýrt er frá því sem haft er eftir honum í grein blaðsins í gær, þ. 19.9.2009 bls. 8, AGS taldi álagspróf eftirlitsins strangt, að bankar og fjármálastofnanir hafi staðist vel álagspróf FME gagnvart áhrifum tiltekinna áfalla á eignfjárstöðu bankanna sem könnuð voru í prófunum. Hið síðasta hafi verið framkvæmt stuttu fyrir hrun bankanna og hafi verið samkvæmt opinberum reglum þar um.
Hins vegar hafi lausafjárstaðan ekki verið athuguð þar á meðal!!! Það var einmitt skortur á lausafé, eða frost á lausafjármörkuðunum, sem setti bankana í þrot í október 2008! Haft er eftir forstjóranum fyrrverandi að álagsprófin hafi ekki verið heilbrigðisvottorð fyrir bankana og að í ljósi reynslunnar séu nú fjármálayfirvöld og bankar um allan heim að endurskoða regluverk sitt, meðal annars með tilliti til þessa.
Svo mikið er víst að ekki voru umrædd álagspróf til marks um "heilbrigði" íslensku einkabankanna. Það er með ólíkindum að það atriði sem einna mestu máli skiptir við daglegan rekstur banka, lausafjárstaðan og frágengin fjármögnun fram í tímann, skuli ekki vera með í svona prófi og hreinlega afgerandi. Það ætti að vera augljóst og sjálfsagt! Hafi það ekki verið í almennum reglum í svona álagsprófum hefði skynsemin átt að segja mönnum að kanna og ganga úr skugga um þau atriði, jafnvel fyrst og fremst! Brást hún? Jafnvel hjá virðulegum fjármálastofnunum erlendis?! Eiga lesendur Fréttablaðsins að trúa því?
Treystu menn í blindri trú og von á lánsloforð erlendra banka, án tillits til þess að þeir gætu lokað fyrir lánalínur nánast fyrirvaralaust? Hvaða úrræði voru íslensku einkabankarnir taldir hafa til að hlaupa upp á ef erlendar lánalínur lokuðust fyrirvaralítið? Hvers vegna brást FME ekki við þegar útlán íslensku einkabankanna voru komin upp fyrir upphæð t.d. eins til tveggja ára landsframleiðsu Íslands? Hvaða öryggisnet áttu íslensku bankarnir og íslenskt efnahagslíf þá?
Léku stjórnir íslensku einkabankanna og eftirlitsstofnanir raunverulega fjárhættuspil með fé almennings og skattborgara á Íslandi og þar með efnahagslíf og velferð þjóðarinnar?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.