Ígildi niðurskriftar skulda og viðbrögð við þeim sem taka stöðu gegn krónunni

Hér koma fram margir athyglisverðir punktar í viðtalinu við Baldur. Þar virðist fara maður sem þorir að beita skynsemi sinni í stað þess að einblína um of á kenningar og kreddur og sérhagsmuni. Mættu fleiri hafa gert það í aðdraganda hrunsins hérlendis og í stöðunni núna. Stekasta aflið við rök hans er reynslan sem hann býr að frá hliðstæðum aðstæðum.
Hann bendir á það mat sitt að gengið á krónunni sé um 30% of veikt miðað við langtíma jafnvægisraungengi hennar og staða erlendra skulda þar með tilsvarandi of há. Vinna þurfi markvisst að því að leiðrétta þetta misgengi.
Menn skiptast eflaust í hópa um skoðun hans á nauðsynlegum þætti ESB og tengdra stofnana við endurreisn á efnahag Íslands í þessu sambandi og fjölyrði ég ekki um það hér.

Tvennu hjó ég hins vegar sérstaklega eftir í ráðgjöf hans:

Í fyrsta lagi nauðsyn þess að endurstilla greiðslubyrði lántakenda aftur til vors 2008. Þar erum við komin að mikilvægu máli sem mikið hefur verið í umræðunni um skuldabyrði lántakenda, en ég hef í öðrum pistlum rætt um sjónarmið réttlætis gagnvart lántakendum og lánveitendum í því sambandi og hvernig vinda má ofan af óréttlætinu.
Baldur nefndi að vísu ekki niðurskrift höfuðstóls aftur til þess tíma, heldur viðmið afborgana, þar sem eftir honum er haft að "Skammtímavanda lántakenda mætti minnka með því að miða afborganir við gengi og vísitölu vorið 2008 (teygjulán)".
Með því móti yrði þó komist hjá því að fólk og fyrirtæki séu, meðan á gengisstyrkingarferlinu stendur, að greiða af lánum í samræmi við hina glæpsamlegu og háu hrun-neysluvísitölu sem notuð var hikstalaust til að hækka höfuðstól lána að ósekju við brostnar forsendur fyrir og eftir bankahrunið 2008. Má segja að ef tækist að leiðrétta gengi krónunnar um t.d. umrædd 30% þá jafngildir það jú niðurskrift a.m.k. erlendra lána sem því nemur. Það munar um minna.
Hitt er annað, að það er hins vegar einmitt gengisfall krónunnar sem er einn mikilvægast þátturinn í því að vinda ofan af viðskiptahalla Íslands gagnvart útlöndum sem nauðsynlegt er út af fyrir sig að fari fram, þ.e. að minnka hvata til innflutnings með því að gera hann dýrari og efla hvata til útflutnings með því að hækka verð hans í íslenskum krónum.

Í öðru lagi bendir Baldur á að styrkja þurfi gjaldeyrishöftin svo um munar í bili, "m.a. með skiptiskyldu á erlendum gjaldeyri vegna útflutnings yfir í íslenskar krónur á innlendum gjaldeyrismarkaði, til að styrkja krónuna sem allra fyrst".
Ekki er furða að Baldur skuli hnjóta um þetta atriði og má það heita með ólíkindum að útflytjendum skuli líðast enn í núverandi ástandi að liggja með erlendan gjaldeyri án þess að skipta honum umsvifalaust yfir í krónur. Ástæðan er væntanlega einfaldlega sú að þeir óttast og reikna með að gengi krónunnar muni veikjast enn meir á næstunni og því sé betra að bíða með að skipta gjaldeyrinum í krónur. Með þessu eru þeir hins vegar að taka stöðu gegn krónunni og öllum lántakendum og íslensku efnahagslífi, sérstaklega þeim sem skulda verðtryggð lán og lán í erlendri mynt.
Þetta sama voru og eru hinir fífldjörfu útrásarvíkingar ásakaðir um og gagnrýndir fyrir að hafa gert vegna sérhagsmuna sinna í aðdraganda hrunsins.
Lítum okkur nær! Hér þarf að endurreisa heila þjóð efnahagslega og það má ekki stranda á sérhagsmunum tiltekinna hópa.


mbl.is Erlendar skuldir 30% of háar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Föllum ekki í þá gryfju að telja eðlilega varkárni útflytjenda að geyma fé sitt í gjaldeyri hér heima vera svik við þjóðina. Aðgerðir stjórnvalda geta hvenær sem er þurrkað út hugsanlegan ábata útflytjenda af framleiðslu og sölu til útlanda með tilviljanakenndri handstýringu sinni á gegni krónunnar. Nóg er um gjaldeyrishöftin og skilaskylduna, en skiptiskylda er eignaupptaka, rán um hábjartan dag. Útflytjendur ega líka skuldir í erlendum gjaldeyri og kaupa inn aðföng í gjaldeyri fyrir allt að 80% af afurðaverðinu (t.d. í rækjuvinnslu). Ríkið á að sjá til þess að lögum sé við haldið, en Alþingi getur varla haldið áfram að framleiða ólög eins og neyðarlögin og gjaldeyrishaftalögin, sem hafa kostað okkur handlegg og fótlegg.

Ívar Pálsson, 21.9.2009 kl. 14:19

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Takk fyrir innleggið, Ívar.
Ég vona að þú hafi tekið eftir því að ég er ekki að fordæma útflytjendur fyrir að sitja á gjaldeyri sem þeir fá fyrir útflutningsvarning sinn. Þeir hegða sér að sjálfsögðu í samræmi við sína hagsmuni og regluverk, eðli málsins samkvæmt; og ekkert tortryggilegt við það sé það í samræmi við gildandi leikreglur hverju sinni.
Ég er öðrum þræði að benda á það ósamræmi sem viðgengst í aðgerðum og aðgerðadeyfð hins opinbera gagnvart mismunandi þjóðfélagshópum, sérstaklega því óréttlæti sem lántakendur, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hafa orðið fyrir við það að lán þeirra snarhækkuðu við hrunið 2008 sökum algjörs forsendubrests. Fyrst og fremst náttúrulega þeir sem skulda lán í erlendri mynt, sökum gengishrapsins, en líka þeir sem skulda innlend verðtryggð lán. Án þess að lánveitendur hafi afhent lántakendum nein viðbótarverðmæti voru skuldir lántakenda snarhækkaðar sem vísitölubreytingunni nam með tölum í tölvum. Það mætti að sönnu kalla “rán um hábjartan dag”. Það heldur áfram og greiðslubyrðin er að sliga þessa lántakendur. Þessu ástandi er enn haldið til streitu og lántakendum er gert að greiða af hinum hækkuðu höfuðstólum lána sinna og það með snarhækkuðum vöxtum í þokkabót. Annars hafi þeir verra af. Þetta er alkunna. Allt þjóðfélagið mun hafa verra af ef þessari stefnu verður haldið óbreyttri.

Talað er um að þjóðin verði að vinna sig út úr vandanum sem við er að etja sökum ofurskuldsetningar þjóðarbúsins og eru það orð að sönnu. Það gerir hún m.a. með því að framleiða vörur til útflutnings og til að keppa við innflutning. Þær tekjur verða að skila sér inn í hagkerfið og stuðla jafnframt þar með að styrkingu krónunnar eða hamla gegn veikingu hennar, eftir því hvernig á það er litið. Ef um er að ræða sjávarútvegsfyrirtæki hafa þau fengið auðlindina til afnota þjóðinni til hagsbóta en ekki til þess eins að gera hana að eigin féþúfu. Það er ekki beint tap fyrir útflutningsfyrirtækin að skipta sölutekjunum í erlendu myntinni yfir í krónur um leið og greiðslur berast til landsins hverju sinni; En það gæti vissulega verið vænt tap, ef þeir sem ráðstafa gjaldeyriinum telja líkur á því eða vænta þess að krónan veikist og áður en hinum nýfengnu krónum (gjaldeyri) hefði verið varið í kaup aðfanga fyrir viðkomandi fyrirtæki.
Ofangreindir lántakendur, sem eru ofurseldir ofreiknuðum ofur-verðbótum á skuldir sínar, hafa ekki fengið slíkt val til spákaupmennsku. Eins og dæmið snýr við þeim er skaðinn skeður og þeim er gert að borga án leiðréttingar, enn a.m.k. Meðan krónan styrkist ekki, og hvað þá heldur ef hún veikist enn meira, versnar staða lántakenda sífellt.

Hitt er annað að vangaveltur Baldurs í umræddri grein um að erlendar skuldir séu 30% of háar eru einungis getgátur og virðast byggja á þeirri forsendu að gengi íslensku krónunnar hafi fundið sér eitthvað ”rangt” jafnvægi í bili. Sé það álit hans er það afar hæpin forsenda svo vægt sé til orða tekið, eins og þú imprar á í annari athugasemd þinni við þessa sömu frétt. Inngrip Seðlabankans vitna jú um það að genginu er haldið uppi með handafli. Þess vegna eru fremur líkur til þess að gengið sé of hátt enn þá og eigi eftir að falla enn meir að óbreyttu yrði því ”leyft” það.
Það beinir aftur á móti kastljósinu að því hvernig gengið er ákvarðað. Eru þær aðferðir, sem beitt hefur verið við það hingað til, hinar einu sönnu og réttu? Endurspeglar nokkuð ”rétt” gengi nema frjáls uppboðsmarkaður á gjaldeyri þar sem allir hafa aðgang til að kaupa og selja gjaldeyri á virkum opnum markaði? Líka hugsanlegir erlendir lánveitendur og fjárfestar. Það vekur aftur spurninguna um hvort íslenskt hagkerfi sé nógu stórt til að virka á sanngjarnan hátt við slíkar aðstæður. Meðan framleiðslukerfi landsins gengur í hægagangi, vannýtt og enn að hægja á sér, er fyrirsjáanleg (óvenjulega mikil) umframeftirspurn eftir gjaldeyri, þ.e. þrýstingur til enn lægra gengis en nú er sem kyndir þar af leiðandi undir verðbólgu; Alveg burtséð frá þeim púka sem bíður þess í formi jöklabréfa úttútnaður af vöxtum að sleppa úr prísundinni og úr landi með tilsvarandi niðurþrýstingi á gengi krónunnar.
Þessu þurfa stjórnvöld að keppast við að breyta eins hratt og auðið er og m.a. laða að erlenda fjárfesta, bæði fyrirtæki og einstaklinga, og búa svo um hnútana að atvinnulausir komist til arðbærra starfa sem fyrst.

Sá hængur er þó þar á, og er það annað mál, að það verður að gerast án þess að missa stjórn á auðlindum landsins. Íslenska þjóðin má ekki missa eðlilegan arð af auðlindunum úr höndum sér til annarra aðila. Verðmæti íslenskra auðlinda er gífurlegt og stöðugt vaxandi og það er grundvöllurinn fyrir tilveru íslensku þjóðarinnar. Því fjöreggi má má ekki glutra niður í stundarörvæntingu eða gefa öðrum hlutdeild í því fyrir slikk undir hótunum erlendra þjóða sem ásælast leynt og ljóst hinar dýrmætu auðlindir.

Ég óska þér góðs gengis, Ívar, við að efla útflutning fyrirtækis þíns okkur öllum til hagsbóta.

Kristinn Snævar Jónsson, 21.9.2009 kl. 19:25

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég þakka þér góðar óskir, Kristinn Snævar. Eins og flestir aðrir sem hafa komið verulega að gjaldeyriskaupum og -sölu, þá tel ég ekkert annað gilda en frjálsan markað á gjaldmiðli. Meira að segja Soros æðstigamblari en sósalisti viðurkennir það amk. í einni bók sem ég las eftir hann að hálfgerðar gjaldeyristakmarkanir virka ekki. Jafnan þá önnur hliðin greidd niður og fé sóað til einskis.Markaðurinn er þá til fyrir utan (eins og í Evrópu með krónur) og er nær raungenginu.

En hér þurfti að taka þetta í einum hörðum pakka, sem enginn þorði eða þorir í, best á fyrsta degi hruns en síðan verra: Gjaldþrot bankanna, gengisfelling, afnám verðtryggingar, ábyrgð ríkisins á bönkunum aflýst osfrv. Í staðinn var búinn til stærsti skuldaábyrgðarpakki veraldar á hvern Íslending. Nú er þá orðið ljóst að ekki verður neitt gert fyrr en um greiðsluþrot ríkisins er að ræða. Það verður full seint í rassinn gripið.

Ívar Pálsson, 21.9.2009 kl. 21:24

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég tel að það ætti færa höfuðstól allra í búðalána þar sem skuldaaðilinn hefur lögheimili niður um 40% sem er alhliða leiðrétting. Síðan ef menn vilja ekki fylgja fasteignaverðsþróun hér hvað varðar heildarvextakröfun á 30 árum þá er hægt að setja  í lög að breytilegir vextir á slíkum lánum  [áhættulausum til langfram] megi ekki vera hærri en gerist að meðaltali hjá þeim þremmur ríkjum sem eru evru hæfust.

Það mætti kalla evrufasteignaveðsvertryggingu.

Ókostir þess að nota neysluveðsverðtryggingarvísitölu  þarf ekki að ræða og skýrir vel hversvegna enginn þjóð utan Íslands beitir henni á örugg langtíma íbúðaveðlán á heimamarkaði.

Milli færslur fyrir notkun hennar mun hafa farið frá sparisjóðeigendum til einkavinalánafyrirgreiðslna.

Vextir af fasteigna lánum sem gufuðu upp voru svo mikilir í byrjun lánstímans að munu hafa dekkað fyllilega það sem sagt var hafa gufað upp.

Neysluvístalan tryggir skammtíma ávöxtunar áhættu sveifluálags vaxtarkröfu á heimilisfasteignalánum og ofur gróðinn sem myndaðist fór svo í að hygla sömu einkavinum eða afkomendum þeirra.

Eignahækkun íbúðafasteignalánakerfisins mun hafa hækkað um 1.000.000.000.000 á síðustu mánuðum og svo á almenningur eignlaus í kjölfarið líka að borgar Icesaveskuldir efnahagshryðjuverkamannanna samkvæmt dómi Bresku Krúnunnar. 

Júlíus Björnsson, 22.9.2009 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband