Grímulaus skerðing tjáningarfrelsis og tjáningarleiða. Hvað segja Forman og Kant? Íslenska AGS-dæmið.

(ATH: þetta er sami pistillinn og hér næst að ofan; Hann vistaðist óvart hér fyrst um sinn án þess að tengjast við fréttina "Forsetinn geti lokað Netinu" á mbl.is 30.8.2009 undir liðnum "Tækni og vísindi", eins og ætlunin var).

Þetta er einum of grímulaus aðför að varnarlausum almenningi. Þetta hljómar eins og veislubrandari en býr í haginn fyrir það að útiloka blogg og önnur tölvuskeyti milli manna eftir geðþótta yfirvalda (Rockefellers og slíkra). Sjálfsagt heitir þetta á yfirborðinu að koma vörnum við gegn meintum hryðjuverkamönnum sem liggja undir grun, en þaggar um leið niður í almenningi sem tjáir sig um þjóðfélagsmál og stjórnmál og heldur uppi gagnrýni á stjórnvöld.

Í þessu sambandi má benda á afar athygliverða blaðagrein um viðtal við Milos Forman kvikmyndaleikstjóra í Morgunblaðinu sunnudaginn 23. ágúst 2009, s. 18-19. Þar greinir hann m.a. frá reynslu sinni af að lifa í þjóðfélögum bæði nasisma og kommúnisma. Greindi hann frá þeirri skoðun sinni að lykilatriði eftir valdatöku Hitlers og nasista í Þýskalandi á fjórða áratug 20. aldar var að ná fjölmiðlum heima fyrir strax á sitt vald, "múlbinda þá", og stjórna alfarið hvað í þeim birtist. Þá er greið leið til að miðla fréttum og upplýsingum sem þóknast yfirvöldum og sleppa því sem gæti afhjúpað myrkraverk þeirra og tafli þeirra með óupplýstan almenning. "Sannleikurinn" er þar með búinn til og þegnarnir verða eins og strengjabrúður sem haga sér í samræmi við hann, en hafa verra af ella. Forman segir að "frjálsir fjölmiðlar og tjáningarfrelsi er mikilvægasta uppfinning lýðræðisins".

Hvernig er ástandið í þessum málum hér á Íslandi í dag? Góð spurning!

Tökum aðeins eitt dæmi sem snertir eitt lykilatriði í umræðunni um efnahagsmálin hérlendis núna: Hvers vegna kemur ekki fram haldbær skýring á hávaxtastefnunni sem rekin er gegnum Seðlabankann? Seðlabankastjórar hafa komið fram á nokkurar vikna fresti og farið með sömu rulluna í véfréttastíl um að halda þurfi upp háum vöxtum til að ná niður verðbólgu og til að laða að erlent fjármagn til landsins og halda því sem hér er þegar og þar með til að rétta efnahagslíf landsins af, gera fjármálastefnu landsins trúverðuga í augum umheimsins o.s.frv. -
Á meðan er verið að rústa efnahagslífi landsins sem halda átti á lífi með þessari stefnu! Hávaxtastefnan er að gera fyrirtæki og heimili og skuldaþjáð fólkið sem þar hefur dvalið gjaldþrota. Almenningi hefur verið gert að trúa þessu og fræðimenn sem ættu að vita betur tjá sig ekki um málið eða ekki að öllu leyti.

Hvar eru allir aðrir starfsmenn Seðlabankans, allir prófessorar og kennarar í t.d. hagfræðum og þjóðfélagsfræðum og heimspeki í háskólum landsins, allt opinberir starfsmenn? Af hverju tjá þeir sig ekki um málið og önnur mál sem brenna á þjóðinni núna svo eftir verði tekið í ræðu og riti? Til dæmis hér á blogginu, sem væri auðveldasta leiðin og sú fljótvirkasta og gæti náð til sem flestra landsmanna! Eru þeir allir sammála þessum rökum og meinvillum? Eða hefur þeim verið bannað að tjá sig á opinberum vettvangi? Þora þeir það ekki? Er þeim gerð ber grein fyrir því að áskrift þeirra á mánaðarlaunum frá ríkinu gæti verið í hættu ef þeir tjá sig?
Á þessu eru þó einstaka undantekningar og spurning er hvort það sé þá vegna þess að þeir flytja mál sem falla stjórnvöldum vel eða þeir telji sjálfir að svo sé og því engin persónuleg áhætta.

Ég bendi þessu ágæta og menntaða fólki og öðrum á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar; Það er ritið "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804). Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinarinnar:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!"

Áfram með hávaxtadæmið: Þegar við blasir að hávaxtastefnunni er haldið til streitu þrátt fyrir landeyðinguna sem af henni hlýst núna þá berast böndin að annarri ástæðu en þeirri, að óskynsemi ráði ríkjum í Seðlabankanum, þ.e.: Íhlutun og fyrirmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), International Monetary Fund (IMF)!

Þá kemur stóra málið sem þjóðin á rétt á að vera upplýst um og fá að tjá sig um og velja hvaða leiðir hún vill fara:
Er sú stefna sem mörkuð er af AGS og ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru skikkuð til að framfylgja út í ystu æsar yfirhöfuð besta leiðin fyir íslensku þjóðina? Það hefur mér vitanlega enginn lagt fram opinberlega heildstætt atburðayfirlit (scenario) yfir hvað yrði líklega upp á teningnum ef leið AGS yrði hafnað; hvort líklegt er að sama landeyðingin og þrælafjötrar yrðu útkoman til lengri tíma litið eins og líklegt er að verði afleiðingin af stefnu AGS. Ég hygg að svo verði ekki. Sú leið yrði á forsendum íslensku þjóðarinnar en ekki erlendra ríkja og efnahagskerfa þeirra.

Í þessu sambandi er vert að benda á afar athygliverða grein í Morgunblaðinu í dag, 30.8.2009, s. 36, eftir Gunnar Skúla Ármannsson lækni: "Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn klikkar ekki". Í greininni dregur Gunnar upp skýra mynd í grófum dráttum af venjubundinni atburðarás í þeim löndum sem AGS "veitir aðstoð" til: AGS kemur til skjalanna þegar efnahagskerfi lands er strandað og bankar gjaldþrota, fyrirskipar háa stýrivexti, sem leiðir til gjaldþrots fyrirtækja og heimila í stórum stíl, fyrirskipar mikinn niðurskurð í ríkisútgjöldum s.s. heilbrigðiskerfi og tryggingakerfi samhliða einkavæðingu sem leiðir til verðhækkana á þeirri þjónustu og til atvinnuleysis og enn verra ástands og meiri skuldsetningar almennings. Að lokum verður farið í að selja það sem til er verðmætt í landinu, þ.e. auðlindir þess. Þar með eru þjóðinni allar bjargir bannaðar og hún getur aldrei greitt lán sín, bara rétt skrimt.

Í stuttu máli hafa inngrip AGS gjarnan orðið til þess að sjálfbærni landa hefur glatast við það að auðlindir þeirra sem eru lykill að sjálfbærni þeirra komast í hendur annarra landa og/eða innlendar framleiðsluafurðir þeirra eru fluttar út til að greiða fyrir skuldir. Fátækt og eymd ríkir þar eftir í landinu meðan arðránsþjóðirnar lifa í vellystingum. (Ég tek það fram að þessum orðum er ekki ætlað að vera einhver "kommúnistaáróður", fjarri fer því, heldur að benda á grundvallarvalkosti sem þjóðin stendur frammi fyrir núna, sumpart í framhaldi af pistli mínum um íslenskar lífslindir og lífsstíl). 

Góð innlegg í þessi mál eru margar greinar í bókinni "Christianity and Ecology: Seeking the well-being of earth and humans", 2000. (Frábær bók um greinum eftir ýmsa höfunda um umhverfissiðfræði, afleiðingar hagvaxtar á umhverfið o.fl. Fékkst í Bóksölu stúdenta, Rvík).
Þar má benda á greinar í þessu sambandi sem koma inn á hrikalegar afleiðingar "björgunarstarfs" IMF í ýmsum löndum, t.d. "Population, Consumption, Ecology: The triple problematic" eftir Daniel C. Maguire sem bendir á t.d. hvernig landrýmissnauð lönd eins og Holland haga sér gagnvart fátækum löndum til að komast yfir afurðir þeirra (á s. 408-409). Einnig greinin "Christianity, Economics and Ecology" eftir John B. Cobb jr., sem kemur inn á völd alþjóðastofnana eins og IMF og World Bank og fjölþjóðlegra fyrirtækja (á s. 509-510) í þessu sambandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Takk fyrir. Gott að þetta gagnaðist þér.
Þessar pælingar þurfa að viðrast sem víðast til að vekja fólk til umhugsunar.

Kristinn Snævar Jónsson, 31.8.2009 kl. 00:52

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ég setti inn nokkrar viðbætur í pistilinn næst ofan við þennan. Þessi fór óvart á kreik framhjá fréttinni sem ég var að blogga við.

Kristinn Snævar Jónsson, 31.8.2009 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband