6.6.2009 | 02:03
Heima er von, ef ...
Undursamleg mynd um heimkynni mannkyns, Home, var sýnd hnípnum landsmönnum í kvöld, sem varla hafa verið búnir að jafna sig eftir fréttir dagsins og var það þó ærið álag.
Þar er dregin upp mynd af örlagaríkum inngripum manna í lífkeðju jarðar, sérstaklega undanfarinn mannsaldur. Eftir þá dökku sýn sem vakin er athygli á um miðbik myndarinnar er í síðasta hluta hennar blessunarlega bent á jákvæða hluti sem eru þó að gerast í sumum löndum víða um heim þrátt fyrir allt og þeir gefa vissulega VON. Á henni þarf fólk á þessari jörð að halda nú sem aldrei fyrr. En vissulega þarf að bregðast hraðar við aðsteðjandi vanda en hingað til, áður en náttúran hreinlega neyðir menn til breytinga; til að lifa næsta dag!
Einn vandinn í þessu sambandi er þó sá, að baráttan um breytingar fyrir lífvænlegri umgengni um viðkvæma náttúru og auðlindir hennar á sér stað á vettvangi stjórnmálamanna þróuðu ríkjanna og skoðanamyndun og siðferðisstyrk í heilabúi þeirra manna. Spurningin er hverju þeir greiði atkvæði með: þröngum hagsmunum, eða víðsýni sem tekur tillit til samverkandi lífkerfis náttúrunnar í hnattrænu samhengi í ljósi þess að áframhaldandi siðmenntað líf er háð sjálfbærum lifnaðarháttum.
Hér og nú er þörf á endurnýjun hugarfarsins að þessu leyti og að hugað verði að gjörbreyttum lifnaðarháttum í þessum anda. Annars eiga afkomendur okkar ekki von um lífvænlega framtíð.
Það gleðilega fyrir Íslendinga er að það er býsna margt sem hér er hægt að gera til að sporna við þessari ógnvænlegu þróun samhliða því að ráðin væri bót á öðrum aðkallandi vandamálum, svo sem að stemma stigu við atvinnuleysinu, auka framleiðslu innan lands sem kæmi í vaxandi mæli í stað innflutnings og yki útflutningstekjur, yki eftirspurn eftir húsnæði (fyllti jafnvel allt það tóma og ókláraða húsnæði sem er fyrirliggjandi núna) og væri fyrirmynd fyrir það hvernig takast má á við aðsteðjandi erfiðleika og tekjurýrnun í þjóðarbúskapnum.
Málið snýst um að beina vinnufúsum höndum og hugum í uppbyggilega farvegi, sem vissulega eru fyrir hendi ef vel er að gáð.
Þessi atriði er auðvelt að útfæra, sérstaklega ef hugsað er örlítið, jafnvel talsvert, út fyrir þröngsýnan "kassann" (og væri hægt að halda því áfram hér). En, hvar eru allir ráðgjafarnir og ráðþegarnir á vegum hins opinbera? Stjórnarandstaðan kvartar undan því undanfarna daga að lítið bitastætt heyrist úr þeim ranni til úrlausnar á bráðavanda þjóðarinnar!
Hið hryggilega er að lítið fer fyrir umræðu í slíka veru á opinberum vettvangi og virðast menn og aðilar félagssamtaka stjarfir við að horfa á hraðminnkandi atvinnuleysistryggingasjóði og sóa þar með dýrmætum tíma í vonlitla bið og aðgerðaleysi og karp í stað þess að nýta m.a. það fé og verkefnalausan mannafla til uppbyggilegri hluta.
Sem sagt: Við þurfum að bregðast viturlega við sem fyrst, bæði heima fyrir og hnattrænt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 23:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.