15.10.2017 | 12:01
Lifandi menning á hverfanda hveli
Lifandi menning í Árnesi á Ströndum hefur átt undir högg að sækja sökum fækkunar ábúenda jarða og íbúa þar í sveit.
Vonandi taka t.d. ráðamenn ferðamála við sér um möguleika á uppbyggingu ferðaþjónustu í þessu héraði og styrki a.m.k. með þeim hætti byggð og byggðarþróun í þessari mögnuðu sveit. Möguleikarnir eru margir í því sambandi, bæði til lands og sjávar og annarrar náttúru, eins og 1200 ára byggð ætti að sanna.
Maður spyr sig hvort Byggðastofnun, meðal annarra aðila, sé ekkert að pæla í viðhaldi byggðar og menningar á þessu svæði. Eða þingmenn kjördæmisins, reyndar alls landsins, þar sem þetta mál snertir þjóðina alla.
Þetta snýst öðrum þræði um það sem ég kalla lifandi menningu, að halda henni lifandi áfram og samfelldri eins og undanfarnar tólf aldir. Eða, eiga erlendir aðilar, m.a. kanadískur auðjöfur gegnum HS Orku og einhver "ítalskur barón", að hafa í hendi sér að virkja með tilheyrandi jarð- og menningarraski þarna á svæðinu? Vegna einkahagsmuna þeirra?
Þetta er mál sem varðar rammíslenska menningu og menningararfleifð og þekkingu á margvíslegri lífsbjörg á svæðinu, menningu sem enn er lifandi, að hún leggist ekki af og glatist.
Ein nauðsynleg og augljós forsenda fyrir varðveislu byggðar og byggðaþróunar í héraðinu er lagfæring á samgöngukerfinu. Að sjálfsögðu verður að tryggja opnar samgöngur um allt árið. Það gefur augaleið, þó ekki sé nema vegna þess að enginn læknir er þar. Þannig er það fjárveitingavaldi landsins og ráðamönnum til skammar að ekki skuli hafa verið rutt undanfarin ár þegar ófærð hamlar för um landveg norður í Árnes. Kostnaður sem er agnarlítill í samhengi fjárlaga. Betur má ef duga skal og þó löngu fyrr hefði verið. Einnig verður að vera þar til staðar lágmarks verslunarþjónusta og grunnskóli, svo fátt eitt sé nefnt.
Þótt fjárveitingar til fornleifarannsókna, uppgraftar og fleira, hafi að dómi viðkomandi starfstétta ef til vill ekki verið nægilegar gegnum tíðina þá hafa þó verið talsverðar fjárveitingar í þann málaflokk. Maður spyr sig í því sambandi hvort horfin menning sé þá mikilvægari heldur en sú sem enn er lifandi hér á landi. Verður þá fyrst áhugi á menningarsvæði því sem hér um ræðir þegar sú lifandi menning væri horfin og langt um liðið?
Eins og óargadýr inn í samfélag í sárum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Samgöngur, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.