Okurvextir á tilhæfulausum forsendum

Undanfarin ár hafa vextir verið mjög háir á Íslandi og miklu hærri en í viðskiptalöndum okkar. Rótin að hinu háa vaxtastigi í landinu er stýrivextir Seðlabanka Íslands, en ákvarðanir um þá eru teknar á vegum peningastefnunefndar Seðlabankans. Þrátt fyrir mjög lága verðbólgu hérlendis undanfarin þrjú ár, sem hefur verið langt og vel undir 2,5%-verðbólguviðmiði Seðlabankans, þá hefur peningastefnunefnd  samt haldið stýrivöxtum bankans viðvarandi háum og ekki farið með þá neðar en nú er, 5%. Helstu rök hennar fyrir hinum háu vöxtum hafa einkum verið yfirlýstur ótti hennar við ofþenslu í efnahagslífi landsins með tilheyrandi aukningu verðbólgu sem leitast er sem sé við að sporna gegn með þetta háu vaxtastigi.

Þessi rökstuðningur hefur ítrekað verið endurtekinn undanfarin ár og mætti segja að sá aðili sem með málatilbúnaði sínum hefur helst alið á verðbólguvæntingum sé einmitt peningastefnu­nefndin sjálf með seðlabankastjóra í broddi fylkingar.

Á hinn bóginn virðist nefndin samt ekki hafa áhyggjur af þeim bagga sem vaxtakostnaður er í kostnaði skuldsettra fyrirtækja landsins sem velta vaxandi kostnaði sínum út í verðlagið og eru að því leyti verðbólguaukandi í sjálfur sér.

En standast þessi rök peningastefnunefndar um hættu á ofþenslu og þar af leiddri verðbólgu í efnahagskerfi landsins? Leiða má að því líkur að svo sé ekki, a.m.k. hvað eftirfarandi atriði varðar.

Í lokuðu hagkerfi þar sem framboð á vörum og þjónustu takmarkast af þeim framleiðsluþáttum, og þar með talið vinnuafli, sem eru til staðar innanlands ættu þessi rök nefndarinnar að sjálfsögðu vel við. Ef bankar veittu lán umfram verðmætasköpun í hagkerfinu við þær kringumstæður myndi framboð og eftirspurn leita jafnvægis með vaxandi verðbólgu að öðru óbreyttu. Erlend lán sem notuð væru til fjárfestinga og neyslu innanlands myndu leiða til hins sama.

Svona aðstæður eru hins vegar ekki til staðar hér í dag, né undanfarin ár. Ísland er ekki lokað hagkerfi. Það er þvert á móti mjög opið. Ísland er í EES sem felur í sér að hingað til landsins hefur verið frjálst flæði á vörum, þjónustu og vinnuafli, og fjármagni að miklu leyti líka. Vexti í hagkerfinu með tilheyrandi aukningu framkvæmda hefur að miklu leyti verið mætt með innflutningi á erlendu vinnuafli, í og með og sérstaklega eftir að “fullu” atvinnustigi meðal landsmanna sjálfra var náð. Sú þróun á sér ýmsar birtingarmyndir hvað áhrif á eftirspurn í efnahagskerfi landsins varðar:

  • Aukinni eftirspurn eftir vörum hefur verið mætt með óhindruðum innflutningi og verslun neytenda í ferðalögum þeirra erlendis, auk þess sem vefverslun neytenda er í örum vexti og leysir þar með hefðbundnar verslanir innanlands að nokkru leyti af hólmi. Umtalsverður hluti neyslu landsmanna á vörum og þjónustu fer því fram utan landsins.
  • Stórframkvæmdir eru boðnar út og að miklu leyti unnar af erlendum verktökum með innfluttu vinnuafli. Mikill hluti greiðslu tilkostnaðar við framkvæmdirnar fer því beint til útlanda en ekki í neyslu innanlands, auk þess sem þær eru fjármagnaðar með erlendum lánum.
  • Aukin notkun fyrirtækja hérlendis á erlendu og (í íslensku samhengi) ódýru vinnuafli hefur út af fyrir sig haldið launakostnaði í skefjum og þar með tekjum og kaupmætti viðkomandi launþega miðað við það sem ella væri. Auk þess hefur þetta ástand veikt stöðu íslensks vinnuafls á vinnumarkaðnum og haldið aftur af launahækkunum sem ella mætti búast við að hefðu orðið reyndin.
    Erlent fólk sem vinnur hérlendis í skamman tíma, eða hefur takmarkað dvalarleyfi, flytur einnig mikið af vinnulaunum sínum til heimahaga sinna erlendis sem þar af leiðandi skila sér ekki í neyslu hérlendis.

 Öll ofangreind atriði leiða til minni þrýstings á framleiðslukerfi landsins, bæði vegna óhefts innflutnings á vörum og vinnuafli, sem og neyslu þegnanna erlendis og innkaupum þeirra framhjá staðbundnum verslunum innanlands. Þetta felur jafnframt í sér tilsvarandi minni verðbólguþrýsting innanlands en ella væri.

 Niðurstaðan af ofangreindu er því sú að rök peningastefnu-nefndar um hættu á ofþenslu með tilheyrandi verðbólgu í efnahagskerfi landsmanna, ef stýrivextir yrðu lækkaðir meira en orðið er, halda ekki vatni hvað það varðar. Eftir stendur þá sú ályktun að hér hhafi verið haldið uppi of háu vaxastigi, raunverulegum okurvöxtum, að tilhæfulausu í því samhengi.


mbl.is „Vextir ógnun við íslenskt atvinnulíf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband