18.3.2016 | 11:30
Kárna nú rökin fyrir katakombuklastrinu við Hringbraut
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ritar tilfinningaþrungna grein í Fréttablaðinu í dag, 18.3.2016 bls. 18, þar sem hann hefur margt á hornum sér varðandi hæstvirtan forsætisráðherra Íslands.
Fyrir utan hnútukast sitt í forsætisráðherra á persónulegum nótum virðist sem aðaltilgangur Kára með þessari grein sinni sé þó að tala fyrir áframhaldandi klastri viðbygginga og endurbygginga við gamla landsspítalann við Hringbraut, ekki síst vegna nándar við kennara í Háskóla Íslands, en fyrirtæki hans sjálfs er eins og vitað er einnig í Vatnsmýrinni.
Hann víkur þó ekki að öðrum mikilvægum þáttum aðgengis að landsspítala þjóðarinnar, svo sem aðgengi starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda, og allra aðfanga og frákeyrslu við rekstur spítalans. Þau atriði í heild sinni vega þó miklu þyngra kostnaðarlega og tímalega séð fyrir alla aðila.
Gerir Kári lítið úr viðleitni forsætisráðherra til að leita vitrænna og hagkvæmra lausna varðandi staðarval fyrir landsspítala, í stað fyrirhugaðs klasturs við Hringbraut sem byggir á nú úreltum forsendum.
Furðuleg eru þau "rök" sem Kári tínir til, til varnar hinum úreltu forsendum um áframhaldandi klastur við gamla spítalann með tilheyrandi tengigöngum eins og í hinum fornu katakombum í Róm, enda halda þau ekki vatni.
Til dæmis sneiðir hann gjörsamlega hjá því að ræða samanburð á kostnaði við aðra valkosti og það að sýnt hefur verið fram á að nýr og betri spítali á betri stað yrði mun hagkvæmari en fyrirsjáanlegt katakombuklastrið við Hringbraut, svo tugum milljarða króna skiptir. Kostnaður við opinberar fjárfestingar og rekstur hefur þó hingað til þótt mikilvægt atriði við ákvarðanir þar að lútandi og það þótt um miklu lægri upphæðir væri að tefla heldur en fyrir nýjan landsspítala.
Þó bendir hann á að vegna þess að búið sé að eyða svo miklum fjármunum í allan undirbúning bútasaumsins við gamla spítalann við Hringbraut þá verði að halda áfam með þau áform.
Svona sjónarmið eru dæmigerð rekstrarhagfræðileg rökvilla sem tekin er fyrir í byrjendanámskeiðum í þeim fræðum um tegundir kostnaðar og ákvarðanatöku í því sambandi. Leitt er til þess að vita að forstjóri í einu af stórfyrirtækjum landsins skuli detta í þá rökvillugryfju.
Þá heldur Kári því fram að "flestir starfsmenn" spítalans hafi bundist staðnum "sterkum tilfinningaböndum" sem ekki sé réttlætanlegt að rjúfa! - Nú væri afar fróðlegt að gerð væri leynileg atkvæðagreiðsla meðal starfsmanna spítalans um þessa fullyrðingu til að kanna hvort hún standist, út af fyrir sig. Telja má ólíklegt að "flestir" starfsmenn vildu fremur starfa áfram í gamla kraðakinu ef í boði væri að flytja starfsemina í nýja heilsteypta sjúkrahúsbyggingu, hannaða frá grunni, og starfa þar framvegis í stað þess að týna sér í rangölum væntanlegra katakomba milli margra sjúkrahúsbygginga við Hringbraut. Og komast jafnvel fyrr í nýjan spítala á betri stað heldur en bútasaumnum lyki í þrengslunum við Hringbraut. Og komast þar með hjá því að leggja á sig sjálfa og sjúklingana og aðra sprengigný með tilheyrandi skjálftum og vélaskarki og útblástursmengun sem allir hafa þegar fengið smjörþefinn af.
Hvaða stjórnmálamenn aðrir en e.t.v. lið og bakland núverandi heilbrigðisráðherra myndu vilja fleygja þeim tugum milljarða króna af skattafé landsmanna í úrelt Hringbrautardæmið, sem hægt væri að spara með því að byggja nýtt sjúkrahús á betri stað, til þess meðal annars að þjóna meintum "sterkum tilfinningalegum" og sjálfpínandi tengslaböndum starfsfólks við gamla staðinn?
Í grein sinni ræðir Kári ekki vaxandi vandræðin tengt samgöngum kringum spítalann við Hringbraut samanborið við það að hafa hann staðsettan í þungamiðju íbúabyggðar, samgönguæða og samgangna á höfuðborgarsvæðinu, enda heldur hann því fram að eiginleiki spítala varðandi staðsetningu hans sé "ekki endilega sá sem mestu máli skiptir". Ýmsir aðrir skynsamir menn myndu hins vegar væntanlega telja að staðsetning spítala væri eitt af lykilatriðunum við starfsemi sjúkrahúss.
Kárna nú rökin fyrir katakombuklastrinu við Hringbraut á úreltum og röngum forsendum.
Segir Sigmund í stjórnarandstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Facebook
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir þetta Kristinn.
Þú hittir þennan ryðgaða Erfðahreppsnagla á höfuðið. En ekki er við öðru að búast en svona skrifum frá nagladeild sem heldur að hún sé hreppshamar. Öllum má nú nokkuð ljóst vera að geðheilbrigðiskerfið að þrotum er komið, ef ég mætti vera svo djarfur að impra á því. Annars væri ekki verið að reyna flytja þetta mál á þennan hátt - eins og að um venjulegt hreppsmál væri að ræða. Katakombuklastur er einmitt réttnefni á því sem þegar er orðið og getur aðeins enn verra orðið.
Nýtt ríkissjúkrahús þarf um rúmlega einn ferkílómetra af frjálsu óbyggðu landrými til að vaxa í. Það yrði í byggingu í að minnsta kosti heilan áratug og tekið í friðsæla notkun í áföngum. Það yrði stærsti byggingarstaður landsins í langan tíma með 500-1000 manns vinnandi við það. Ef ekki, þá er einungis um viðbyggingu að ræða, en ekki nýtt sjúkrahús.
Byrjunarþörf á bílastæðum væri ca 3000 stæði og fullbyggt yrði þörfin ca 6000 bílastæði og 30-40 þúsund bílferðir á dag. Það er sprenghlægilegt að menn skuli yfir höfuð láta sig dreyma um að hægt sé að troða og klaska svona verkefni innan núverandi byggðar höfuðborgarsvæðisins.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 18.3.2016 kl. 15:00
Takk sömuleiðis Gunnar R. Þarfar eru einnig ábendingarnar sem þú ritar hér.
Kristinn Snævar Jónsson, 19.3.2016 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.