17.7.2013 | 14:55
Eftirspurn mætt með framboði á Þingvöllum
Í frétt af viðvarandi og vaxandi bílastæðaskorti á Þingvöllum og nágrenni ætti að vera augljóst mál að úr því þarf að bæta hið snarasta og þó fyrr hefði verið.
Gera má afgirt bílastæði eins og við flugstöð Leifs Eiríkssonar með hæfilegri gjaldtöku, jafnvel háð tíma dagsins, dögum innan vikunnar og mánuðum ársins. Allt einfalt og skilvirkt í framkvæmd.
Sérstök bílastæði yrðu fyrir hópferðabíla, bæði við Hakið og niðri á Þingvöllum, og hærra gjald fyrir stærri bíla þannig að einhvers konar meðalgjald pr. mann verði í æskulegu samræmi bæði fyrir fólk í litlum og stórum bílum.
Miðað við upplýsingar um fjölda ferðamanna yrði fjárfesting í bílastæðum fljót að greiða sig upp og verða að varanlegri tekjulind til hagsbóta fyrir svæðið og ferðafólk. Ef til vill þyrfti ekki að viðhafa frekari gjaldtöku á Þingvöllum en fyrir bílastæðin.
Einhver kann að benda á að sumir myndu reyna að komast hjá því að leggja í gjaldskyld bílastæði. Yfirvofandi rassíur umferðarlögreglu á svæðinu með viðeigandi sektum ættu að slá á þær freistingar ferðafólks.
Einnig mætti hreinlega gera ráð fyrir slíkum "ofur-sparendum" með því að breikka vegkantinn á síðustu kílómetrunum að fólkvanginum sem hægt væri að leggja á og gera gangstíga frá þeim inn á svæðið. Þar með væri þeirri bílaánauð að nokkru létt af fólkvanginum án þess að gera sérstök áberandi og jafnvel illa þokkuð malbikuð bílastæði í náttúruperlunni til að anna öllum umferðarþunganum þar.
Bílastæðaskortur á Þingvöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 14:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.