Tutu fordæmir fordóma

Þessa myndrænu yfirlýsingu Tutu mætti kalla að taka afstöðu með sjálfsögðum mannréttindum og gegn fordómum sem grundvallaðir eru á túlkun á ritum trúarbragða.

Að því er kristni varðar eru venjulegar Biblíutilvísanir fordæmandi fólks sem elur á samkynhneigðarfælni byggðar á misskilningi og vanþekkingu og/eða, það sem verra er, vísvitandi rangtúlkun. Stök vers í Biblíunni sem yfirleitt er vísað í sem fordæmandi fyrir samkynhneigð segja alls ekki alla söguna þar að lútandi og ekki allan sannleikann nema síður sé. Um það er almenningur því miður ekki meðvitaður, frekar en von er til, og er þess vegna varnarlaus gagnvart slíkum fullyrðingum í anda bókstafstrúar.


mbl.is Kysi frekar helvíti en hommafælna himna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tutu öflugur.

Sandkassinn (IP-tala skráð) 27.7.2013 kl. 11:24

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Kristinn: Í Gamla testamentinu eru lög sem segja að það eigi að taka af lífi karlmenn sem stunda kynlíf saman. Það er eflaust hægt að segja að aðrar bækur í biblíunni ógildi þau lög eða gefa aðrar ástæður fyrir því hvers vegna við ættum ekki að fara eftir þeim lögum. En það breytir því ekki að textinn sjálfur (þeas 3. Mósebók) fordæmir samkynhneigð jafn mikið og landslög Írans.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 27.7.2013 kl. 13:42

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Til þess að fá réttari skilning á fornum trúartexta en með því að taka hann hráan eins og hann kemur fyrir bókstaflega þarf að túlka hann út frá því samhengi sem hann er ritaður inn í. Þá getur önnur merking komið í ljós en samkvæmt bókstafslegri túlkun. Þannig háttar með umrædda texta sem samkvæmt orðana hljóðan virðast fordæma samkynhneigð.

Í fyrsta lagi var hugtakið “samkynhneigð” í nútímalegum skilningi ekki til sem slíkt fyrr en á 19. öld.
Annað er að ritskýringar fræðimanna á umræddum textum í Þriðju Mósebók (18.22 og 20.13) hafa m.a. leitt í ljós að þeir snúast að grunni til um, í stuttu máli sagt, að halda ísraelsku þjóðinni saman sem afmarkaðri þjóð meðal annarra þjóða og þjóðarbrota og tengjast jafnframt og sérstaklega í því sambandi hreinleikalögum Ísraela/Gyðinga. Beittu Ísraelar meðal annars þeim ráðum að banna ýmislegt í lagaefni sínu, Tórunni, sem tíðkaðist meðal nágrannaþjóða, fyrst og fremst til að afmarka sig með þeim hætti frá þeim. Þar á meðal voru þau bönn ásamt tilheyrandi viðurlögum sem koma fram í ofangreindum versum.
Það sem þar er nefnt “viðurstyggð” (e. abomination) er fyrst og frest það að ástunda siði annarra þjóða og draga úr viðkomu og vexti eigin þjóðar og kalla þar með hættu yfir Ísraelsþjóð (að hún hverfi í mannhafið umhverfis), en ekki þær kynlífsathafnir út af fyrir sig sem þar eru nefndar.

Kristinn Snævar Jónsson, 28.7.2013 kl. 01:15

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Kristinn, vissulega ber að túlka texta í sögulegu samhengi og allt það.

Varðandi hugtakið "samkynhneigð" þá var það vissulega ekki til, en ég leyfi mér að halda því fram að textar sem segja að það eigi að taka menn af lífi fyrir að stunda samkynhneigð fordæmi samkynhneigð.

Ef við lesum textann í samhengi, þá finnst mér ljóst að ástæðan fyrir þessum hörðu viðurlögum geti klárlega ekki bara verið sú að þetta sé eitthvað sem nágrannaþjóðirnar geri og að Ísraelsmenn hafi bannað þetta bara til að vera örðuvísi.

Í þessum köflum er t.d. bann við sifjaspelli, kynlífi með dýrum og að sofa hjá konu annars manns. Var þetta bannað af því að þeir vildu vera örðuvísi en nágrannaþjóðirnar (fannst nágrönnum Ísraelsmanna þá í lagi að sofa hjá konum annarra manna?) eða af því að þetta var talið ósiðlegt? Ég held að það sé nokkuð ljóst að svona bönn er ekki hægt að útskýra á þann veg að þarna vilji þeir bara vera örðuvísi.

Í textanum sjálfum (3Mós 20.23) stendur svo að Jahve þótti þjóðirnar sem hann rak burt fyrir Ísraelsmenn vera viðbjóðslegar af því að þær framkvæmdu það sem hann er að banna þarna. Það passar engan veginn við þá hugmynd að þetta sé rangt af því að svona er hægt að afmarka Ísraelsmenn frá öðrum þjóðum, þar sem Jahve er óánægður með að önnur þjóð geri þetta.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 28.7.2013 kl. 14:17

5 Smámynd: Snorri Óskarsson

Kristinn Snævar

Nú hefur þú fallið á guðfræðiprófinu! Þú burtskýrir þessi mál eins og óviti. Frá Mósebókunum til Páls og að síðustu bók Biblínnar er kynvillan fordæmd (sbr. Sódómu þar sem dómurinn er þegar fallinn, fordæmið komið!) . Allir menn eiga að hafa þann rétt að vita leið iðrunarinnar. Jesús sagði:"Gjörið iðrun.." Tútú og þú með guðfræðimenntun eruð að fjarlægja björgunaráætlun Guðs til okkar manna. Við verðum að snúa við frá synd og ganga sjálfviljuglega Jesú Kristi á hönd, deyða hið jarðneska í fari okkar og tileinka okkur kristilegt hugarfar og líferni. AMEN!

Snorri Óskarsson, 29.7.2013 kl. 11:19

6 Smámynd: Odie

En Móse 20: Byrjar á

Drottinn talaði við Móse og sagði: ... 

Þriðja bók Móse 20:13 

Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.

Það er ótrúlega langsótt að þurfa túlka þetta eitthvað.  Það er ljóst að Guðinn þinn er ekki alls kostar ánægður með þessa einstaklinga og hefur alls ekki kærleik eða góðmennsku hér í huga.

Ég skil þig hins vegar vel Kristinn Snævar að reyna fordæma þetta eins og þú getur, enda er þetta ekkert annað en algert ógeð og hatur og það er alveg sama á hvaða tíma það er eða hverjum það er ætlað.

P.s. en það er þitt að velja og hafna því sem þú vilt trúa úr þessari bók líkt og Snorri trúbróðir þinn gerir og allrir aðrir kristnir gera á sinn máta.

Odie, 29.7.2013 kl. 22:30

7 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Í mestu vinsemd við alla sem hér hafa lagt orð í belg vil ég taka fram eftirfarandi:

Eins og ætti að vera ljóst af inngangspistlinum ver ég ekki umrædda fornu texta í Þriðju Mósebók sem virðast samkvæmt orðanna hljóðan fordæma samkynhneigt fólk, enda held ég að Hjalti hafi ekki verið að ætla mér það. Ég bendi á að þessir textar eru ritaðir inn í samfélag ættbálka fyrir um hálfu þriðja árþúsundi síðan (upp úr enn eldri munnlegum geymdum að hluta), hvernig svo sem það var þá þar sem það barðist fyrir tilvist sinni.
Í dag er öldin önnur og í nútímasamfélagi a.m.k. lýðræðislegra Vesturlanda eru lög um mannréttindi þar sem allir skulu jafnir að lögum óháð litarhætti, trú og kynhneigð svo eitthvað sé nefnt. Þar á ekki að lýðast að einstaklingum sé misþyrmt líkamlega, félagslega eða andlega. Þótt einhver telji sig til einhverrar tiltekinnar trúar hefur hann ekkert lagalegt vald til að fordæma, misvirða eða útskúfa þeim sem hann telur vera að einhverju leyti á skjön við kennisetningar eigin trúarbragða, svo framarlega sem það varðar ekki landslög, hvorki frammi fyrir viðkomandi einstaklingum né á opinberum vettvangi. Hann getur hins vegar að sjálfsögðu viðrað sínar eigin trúarlegu og aðrar skoðanir almennt þar sem tjáningarfrelsi ríkir. Sem betur fer búum við hér ekki við guðveldi (e. theocracy) eða svokallað prestaveldi né alræðisvald eins og títt var til forna í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs, heldur lýðveldi.

Mér þykir Snorri fara heldur betur fordæmandi orðum um guðfræðinámið í Háskóla Íslands. Allan námstíma minn þar var ég aldrei var við hann þar og þess vegna getur hann vart talist dómbær á það sem þar var þá kennt og hverju var prófað í. Ekki virðist vanþörf á því að uppfræða hann og aðra sem kunna að vera jafn villir vega í þeim efnum að þar er ekki stundað trúboð og tilgangurinn er ekki sá að innprenta nemendum einhverja ákveðna trú á þeim akademíska vettvangi. Meðal fræðigreina þar má hins vegar t.d. benda á aðferðafræði ýmiss konar til skilnings á fornum trúartextum og ýmislegt um tilurð kristni og rætur hennar og samtíð, sem er vægt sagt einkar fróðlegt. Það kann hins vegar að vera algjör óþarfi frá sjónarhóli bókstafstrúarmanns og ekki falla að hans mælistikum.

Það sem Snorri fullyrðir fullum fetum af ýmsu tagi virðist lýsandi dæmi um blinda bókstafstrú af öllu hjarta þar sem hinn ritaði texti er tekinn hrár og á þeim grundvelli því haldið fram að þar sé hinn eini sanni Guði þóknanlegi sannleikur fundinn um viðkomandi málefni (sbr. einnig nýlegan pistil hans “Mbl er áminnt um sannsögli” og tilheyrandi athugasemdahala á heimasíðu hans). Samkvæmt slíkri bókstafshyggju eru svo t.d. menn flokkaðir í “syndara” og sáluhólpna eins og fé til slátrunar eða ásetningar og viðkomandi “syndarar” látnir finna til tevatnsins.
Þeir sem hættir til að fordæma aðra með því að vísa í einhver vers t.d. í Nýja testamentinu mættu þá fyrst íhuga þau orð sem lögð eru í munn Jesú um að það sem hann fór fram á að lærisveinar hans og aðrir gerðu samkvæmt "nýju boðorði", en það væri að elska hver annan (sbr. Jh 13.34-35). Er þetta ekki vel umlykjandi boðorð sem spannar annað?

Ég ætla mér ekki þá dul hér að reyna að sannfæra bókstafstrúarfólk um eitthvað annað trúarlegs eðlis en það sem það trúir á fyrir. Þar sem trúfrelsi ríkir ætti hver og einn að hafa sína trú í friði svo framarlega sem hún skaðar ekki aðra og hefur ekki mannréttindabrot í för með sér.
Hitt vil ég benda á að kenningar innan trúarbragða eru túlkun. TÚLKUN! Túlkun manna á andlegum fyrirbærum og textum sem ritaðir eru af mönnum. Það væri upplýsandi fyrir fólk að hugleiða það vel og vandlega, hver fyrir sig. Trúfræði, sem er ein af greinum guðfræði trúarbragða eins og kristni, er túlkun. Þetta virðast margir bókstafstrúarmenn ekki skilja, eða ekki vilja skilja eðli málsins samkvæmt. Eitt er það að trúa á Guð eða æðri mátt, en annað er að trúa á kennisetningar í guðfræði trúarbragðanna. - Hér skal þó jafnframt undirstrikað, til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, að trúarbrögð gegna afar mikilvægu félagslegu hlutverki í siðuðu samfélagi og eru eitt öflugasta tækið til að viðhalda einingu.

Þeir sem að óreyndu trúa í blindni því sem aðrir boða þeim í trúarefnum gera sannleika eða trú og túlkun annarra þar með að sínum eigin. Margir eða flestir fara þá leið og er það mál hvers og eins. Sumir hugsandi menn eru hins vegar sannarlega leitandi og taka ekki við “sannleika” annarra “af afspurn” heldur verða “að líta með eigin augum” til að sannfærast um einhver tiltekin atriði, eins og segir í lok sögunnar af Job gamla í Jobsbók. Þegar þeir um síðir finna það sem þeir hafa leitað að og upp er lokið því sem á er knúið byggja þeir á öðrum og stöðugri grunni en ella. Stöðugir sem á bjargi.

Lifið heil á guðlegum vegum.

Kristinn Snævar Jónsson, 30.7.2013 kl. 00:35

8 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

[Leiðr. á stafsetningarvillu í 2. mgr.: "Þar á ekki að líðast ...", sbr. þó t.d. <ekki á að vera við lýði>]

Kristinn Snævar Jónsson, 30.7.2013 kl. 12:26

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Kristinn, í síðustu athugasemd þinni ertu eiginlega farinn að tala um að við þurfum ekki (og ættum eflaust ekki) að fara eftir því sem þessir gömlu textar boða. Ég er alveg sammála því, en það breytir því ekki að textinn fordæmir þetta.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 31.7.2013 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband