19.6.2013 | 18:12
Verðteygni og virðisaukaskattur í ferðaþjónustunni
Það mætti halda að fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé ekki meðvitaður um það hagfræðilega fyrirbæri sem kallast teygni eftirspurnar og verðteygni ef dæma má af ummælum hans í viðhangandi fréttaviðtali um áhrifin af lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónusu á Íslandi; Enda er það e.t.v. ekki til umfjöllunar í námi jarðfræðinga. - Eða þá að hann og þeir sem eru sama sinnis telji að eftirspurnin eftir ferðaþjónustu á Íslandi sé almennt "óteygin" (lægri en 1, sbr. neðar).
Varðandi umræðu um áform um lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu á Íslandi er vert að benda stuttlega á eftirfarandi almennu atriði um teygni eftirspurnar:
Hugmyndin að baki verðlækkunar snýst um það að með því náist hærri velta vegna meiri magnsölu en ella.
Sé verðteygni vöru meiri en 1 myndi sölumagn vöru aukast hlutfallslega meira en sem nemur tiltekinni verðlækkun og veltan myndi þá aukast. Það á t.d. við um samkeppnisvörur og þar sem ríkir "fullkomin samkeppni".
Sé verðteygni vöru minni en 1 myndi sölumagn aukast hlutfallslega minna en tiltekin verðlækkun á vörunni og veltan því minnka, en aftur á móti myndi sölumagn þá ekki minnka hlutfallslega jafn mikið og tiltekin verðhækkun. Þetta á t.d. við um vörur sem fólk vill ógjarnan vera án á tilteknu verðbili og tímabili, svo sem tóbak og áfengi. Verðhækkun ríkisins á tóbaki og áfengi byggir m.a. á þeirri forsendu að velta muni þrátt fyrir það aukast, þ.e. að magnsalan minnki hlutfallslega minna en verðhækkuninni nemur (eftirspurnin óteygin).
Ferðaþjónustan á Íslandi býður almennt séð upp á þjónustu sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni við hliðstæða þjónustu í öðrum löndum sem bjóða upp á valkosti fyrir ferðafólk.
Skynsemin í og rök að baki almennrar verðlækkunar á ferðaþjónustu, eins og tilfellið er með lækkun virðisaukaskatts innan þeirrar greinar, byggir því á þeirri forsendu að eftirspurnin eftir henni sé teygin, þ.e. verðteygnin hærri en 1, og að veltan og afraksturinn innan hennar (þar með talið tekjur hins opinbera í formi vsk) muni því ekki minnka við vsk-lækkunina heldur þvert á móti aukast.
PS. Formúlan fyrir útreikning á teygni eftirspurnar (e) er:
e = Hlutfallsleg breyting í magni eftirspurnar
Hlutfallsleg breyting á verði
Skuldarar fá leiðréttingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:15 | Facebook
Athugasemdir
Formúlan:
e = Hlutfallsleg breyting í magni eftirspurnar
Hlutfallsleg breyting á verði
Er klárlega línuleg.
En er verðteygni línuleg? Ég tel líklegra að henni væri betur lýst með ólínulegri jöfnu. Dæmi: Þó að einn maður hafi keypt sér sturtuhaus á hálfa milljón (gullhúðaðan), þá tel ég ekki þar með sjálfsagt að gera ráð fyrir að þó sami sturtuhaus kostaði hundrað þúsund að þá myndu fimm Íslendingar vera nógu firrtir til að festa kaup á slíkum búnaði. Reyndar held ég að það myndu fáir kaupa hann þó hann kostaði enn minna en það, því gullhúðaður sturtuhaus passar illla ef restin af stellinu er svo bara úr stáli. Ef hann færi hinsvegar undir kostnaðarverð er ljóst að eftirspurn myndi þjóta upp úr öllu valdi þar sem markaðurinn fyrir gull er líflegur um þessar mundir, og þá myndi koma horn í línuna á grafinu.
Með þessari einföldu röksemdafærslu tel ég mig hafa afsannað þá kenningu, að línulega jafna geti verið fullnægjandi lýsing á hugtakinu verðteygni. Það er kannski hægt að nota hana til að svara nokkrum kennslubókardæmum í hagfræði, en þá eru það bara stærðfræðidæmi sem hafa lítið með raunveruleikann að gera.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.6.2013 kl. 20:05
Í pistlinum er því hvergi haldið fram að verðteygni eftirspurnar sé línuleg. Það er þó líklega auðvelt að misskilja eða oftúlka það sem þar er sagt. Beðist er velvirðingar á þeirri ónákvæmni sem getur þannig falist í þessum stutta pistli.
Hér er mikilvægt að blanda ekki saman eftirspurnarkúrfu (sem sýnir samhengi verðs og eftirspurnarmagns og er yfirleitt fallandi kúrfa í verð/magn línuriti þar sem verð er mælt með lóðrétta ásnum og eftirspurt magn á lárétta ásnum, þ.e. eftirspurt magn er meira eftir því sem verðið er lægra) og verðteygni (sem sýnir næmni eftirspurnarmagns gagnvart verðbreytingum, þ.e. hversu mikið eftirspurnarmagn breytist prósentvís við tiltekna verðbreytingu prósentvís; neikvætt formerki við fallandi eftirspurn).
Verðteygnin (sbr. ofangreind almenna formúla) er mismunandi mikil eftir því hvaða punkt er um að ræða á eftirspurnarkúrfunni fyrir tiltekna vöru.
Eftirspurnarkúrfa (fallandi í verð/magn línuriti) er yfirleitt ekki bein lína í raunveruleikanum heldur bogin (d. konveks) þannig að endar hennar nálgast smám saman sitt hvorn ásinn. Á slíkri boginni eftirspurnarkúrfu er verðteygnin meiri neðra megin á kúrfunni (við “lágt” verð) en í hærri enda hennar (við “hátt” verð), þ.e. vaxandi við lægra verð. Að verðteygnin er hærri en 1 í neðri hluta slíkrar eftirspurnarkúrfu sést á því að tiltekin prósentvís breyting á verði þar leiðir til prósentvís meiri magnaukningar.
Hitt er annað að í kennslubókum er gjarnan tekið skýringardæmi þar sem eftirspurnarkúrfan er bein lína milli verð/magn ásanna í línuritinu. Þá er verðteygnin einnig háð hallarstuðli hennar.
Í pistlinum er verið að benda á að forsenda fyrir réttmæti þess, að lækkun verðs almennt á ferðaþjónustu á Íslandi (við lækkun vsk) skili meiri veltu og ríkinu þar með hærri vsk-tekjum en ella, sé sú að verðteygnin í greininni almennt sem heild nú sé hærri en 1. Um það er hægt að deila. Ég hef ekki greint það sérstaklega, enda erfitt með "nákvæm" gögn til þess. Það er þó ekki með öllu ógerlegt að leggja rökstutt tölulegt mat á það, síður en svo. Það væri sannarlega verðugt viðfangsefni fyrir þá aðila sem hér um ræðir að kosta til slíkri greiningu, ekki síst skattlagningaryfirvöld.Eigum við bara ekki að lýsa eftir slíkri greiningu?
Kristinn Snævar Jónsson, 20.6.2013 kl. 02:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.