Undarlegt andríki

Félagsskapur nokkur kallar sig Andríki og segist á vefsíðu sinni „kynna frjálslyndar stjórnmálahugmyndir“. Andríki þetta hefur auglýst í heilsíðuauglýsingum dagblaða undanfarið undir yfirskriftinni „Almenn „skuldaleiðrétting“ er óréttlát“ (sbr. Fréttablaðið 22.4.2013, s. 5).
Þar er illilega ruglað þar saman tveimur aðskildum málaflokkum á ótrúlega rangsnúinn og villandi hátt.

Þar er ruglað saman annars vegar leiðréttingu á stökkbreyttum verðtryggðum lánum einstaklinga og hins vegar almennri tekjudreifingu í samfélaginu gegnum skattkerfi ríkisins.

„Rök“ Andríkis gegn leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána virðast þau að óréttlátt sé að þeir sem hafi greitt af háum lánum fengju hærri upphæð endurgreidda en þeir sem greitt hafa af lægri lánum, væntanlega miðað við sömu forsendur um vísitölubreytingu vegna verðtryggingarinnar. Segir í auglýsingunni að „Auðmenn fengju í flestum tilvikum meiri „leiðréttingu“ en öreigar“.

Hið rétta er að leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra lána, sem kallað er „skuldaleiðrétting“ í auglýsingunum, snýst um að skila til greiðenda lánanna ofreiknuðum verðbótum og vöxtum vegna forsendubrests við hrunið 2008 sem næmi tiltekinni prósentutölu af verðbótunum á tilteknu tímabili (sbr. stefnumál t.d.  Framsóknarflokksins). Að sjálfsögðu yrði upphæð ofreiknaðra verðbóta samkvæmt því háð upphæð lánsins sem um ræðir í hverju tilviki. Upphæð ofgreiddra verðbóta í krónum talið af tiltekinni lánsupphæð yrði þannig hærri en af lægri lánsupphæð, eðli málsins samkvæmt.

Þetta er eins og háttar með leiðréttingu gengistryggðra lána, t.d. bílalána hjá Íslandsbanka. Þar er að miklu leyti búið að endurgreiða lántakendum bílalána ofreiknaðan gengismun í samræmi við upphæð og aðrar forsendur í hverju tilviki. Sá sem hafði greitt af slíku láni að tiltekinni upphæð fékk eðlilega meira endurgreitt en sá sem hafði greitt af lægra láni miðað við sömu forsendur. Þar fékk hver eins og honum bar. Sá sem fékk endurgreiðslu vegna láns upp á eina milljón króna hafði ekki ástæðu til að sjá ofsjónum yfir endurgreiðslu til þess sem hafði verið með lán upp á fimm milljónir króna, af eðlilegum og augljósum ástæðum.
Þetta hefði hins vegar væntanlega fallið undir skilgreiningu Andríkis á „óréttlæti“ í þessum efnum samkvæmt ofangreindum auglýsingum þess. – Undarlegt andríki það!

Varðandi hugmyndir og stefnumál nokkurra stjórnmálaflokka nú um leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána vegna hrunsins 2008 er um það að ræða að skila greiðendum ofreiknaðra verðbóta og vaxta því sem hver og einn um sig hefur ofgreitt, hliðstætt og á við um endurgreiðslur vegna ólöglegra gengistryggðra lána. Það er réttlætismál og út af fyrir sig.

Af allt öðrum toga er það pólitíska vandamál varðandi tekjujöfnun ríkisins milli einstaklinga og heimila gegnum skattkerfið í tengslum við það sem Andríki kallar í auglýsingu sinni „vanda þeirra sem verst standa“. Það er annar málaflokkur en leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra lána.
Vissulega þarf að taka á þeim vanda, en eðli málsins samkvæmt verður að gera það í gegnum hið almenna skatta- og tekjujöfnunarkerfi ríkisins.
Það væri hins vegar óréttlæti að skerða með beinum hætti endurgreiðslur ofreiknaðra verðbóta til greiðenda viðkomandi lána með einhverjum hætti. Hvaða „frjálslyndi“ felst í því?

Leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra lána er réttlát vegna þess að með henni er verið að skila til viðkomandi skuldara því sem oftekið hefur verið af þeim vegna forsendubrests í vísitölu verðryggingar.
Hins vegar er óréttlátt ef ekki er tekið á „vanda þeirra sem verst standa“, hvort sem um er að ræða „par í leiguhúsnæði“ eða „öreiga“, eins og Andríki skilgreinir hópana. Þeim þarf að hjálpa með viðeigandi hætti með ráðstöfunum í skatta- og tekjujöfnunarkerfi ríkisins.
Þar væri möguleiki á því að skattleggja á viðeigandi hátt t.d. hópa sem Andríki kallar „auðmenn“ og „fólk með háar tekjur og miklar eignir“ og „fólk sem skuldar ekki húsnæðislán“ og færa með viðeigandi hætti til hinna hópanna sem eru í vanda, í samræmi við vilja hins pólitíska meirihluta hverju sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband